Morgunblaðið - 28.10.2022, Page 4

Morgunblaðið - 28.10.2022, Page 4
4 FRÉTTIR Innlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. OKTÓBER 2022 Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Danirnir eru mjög forvitnir um ís- lenskan mat og spyrja oft hvort við borðum ekki kindahausa og sitthvað fleira. Við ákváðum því að slá til og halda allsherjar veislu fyrir þá,“ segir Tinna Óðinsdóttir, einn eigenda veit- ingastaðarins Tre tjenere á Borgund- arhólmi í Danmörku. Þar verður haldin íslensk sviðaveisla í kvöld sem vakið hefur mikla athygli á eyjunni og reyndar víðar. Tinna og maður hennar, Loftur Loftsson, opnuðu veitingastaðinn fyr- ir um þremur og hálfu ári síðan ásamt móður Tinnu, Ásrúnu Gísla- dóttur. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á íslenskan mat og óhætt er að segja að staðurinn hafi notið mik- illa vinsælda. Tre tjenere er með næsthæstu einkunnina á Tripadvisor af veitingastöðum á eyjunni. Nafnið er dregið af starfi þremenninganna en öll störfuðu þau sem þjónar áður en þau fluttust utan. Tre tjenere er lítill veitingastaður en það verður þétt setinn bekkurinn í kvöld. „Við leggjum alla jafna áherslu á að bjóða upp á íslenskt eldhús, klassíska íslenska rétti. Við flytjum inn íslenskt lamb frá Kaupfélagi Skagfirðinga svo það lá beint við að flytja sviðin inn frá Íslandi. Það koma bæði Danir og Íslendingar til okkar í kvöld sem og forvitnir matgæðingar af eyjunni. Ég held að þetta verði ansi góður hópur,“ segir Tinna. Og gestum verður ekki í kot vísað. Á boðstólum er fjögurra rétta mat- seðill. Til að hita bragðlaukana upp fá þeir kæstan hákarl og harðfisk með smjöri. Í forrétt eru svo folaldabjúgu með uppstúf og baunum. Aðalréttur- inn eru svið að íslenskum sið með hefðbundnu meðlæti. „Það var reynd- ar ekkert auðvelt að redda gulrófum til að hafa með sviðunum. Þær fást bara ekki í Danmörku enda er fussað yfir þeim í allri Evrópu og þær not- aðar sem svínafóður. Ég veit nú ekki hvað dönsku gestirnir okkar segja þegar við förum að bjóða þeim svína- fóður til hliðar við allt hitt,“ segir Tinna og skellir upp úr. Að endingu er gestum boðið upp á rabarbara- köku í eftirrétt. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því Tinna hefur sett saman sérlega glæsilegan vínseðil sem passar með réttunum. Ekki er ólíklegt að þetta sé í fyrsta sinn sem ráðist er í vínpörun með íslenskri sviðaveislu. „Ég er lærður náttúruvínssommelier og mun bjóða upp á sérstaka vínpörun með náttúruvínum frá Georgíu. Ég held ég geti fullyrt að það sé einsdæmi á heimsvísu að boðið sé upp á nátt- úruvín frá Georgíu með þjóðlegum ís- lenskum mat. Það er eiginlega vand- ræðalegt hvað vínið sem ég valdi með hákarlinum parast vel við hann,“ seg- ir hún. Tinna segir að sviðaveislan hafi vakið talsverða athygli á Borgundar- hólmi og reyndar víðar í Danmörku. „Við finnum fyrir mikilli athygli í gegnum Facebook-síðuna okkar. Fólk er að merkja hvert annað þar inni og grínast með þetta. Við höfum fengið alls konar athugasemdir og ælukalla. Svo eru allir að tala um þetta í bænum, þetta hefur skapað mikið umtal á eyjunni,“ segir hún en strax daginn eftir er önnur veisla hjá íslensku veitingamönnunum. „Þá er það hrekkjavökupartí. Það besta er að ég get notað sviðahausana til að skreyta í staðinn fyrir venjulegar hauskúpur!“ Eftir það verður skellt í lás á veit- ingastaðnum fyrir veturinn. „Þetta er svakaleg túristaeyja og það hefur verið lenskan að loka stöðum yfir vet- urinn. Við höfum haft opið til þessa, bæði til að vera til staðar fyrir heima- menn en líka til að kynnast stemning- unni hérna. Við höfum verið heppin að geta komist í gegnum kórónu- veirufaraldurinn en nú er komin raf- magnskreppa. Við ætlum því að loka og meta stöðuna í vetur en koma svo fersk inn í ferðamannatímabilið á næsta ári.“ Veisla Þessa mynd birti Tinna á Facebook-síðu Tre tjenere og hefur hún vakið óskipta athygli. Gestir fá að gæða sér á herlegheitunum í kvöld. Vertar Tinna Óðinsdóttir og Loftur Loftsson hafa rekið Tre tjenere síðustu þrjú ár á Borgundarhólmi. Veitinga- staðurinn nýtur mikilla vinsælda en óvíst er hvað dönskum gestum á eftir að finnast um matseðilinn í kvöld. Bjóða Dönum upp á svið og hákarl - Íslensk sviðaveisla á Borgundarhólmi vekur athygli - Skagfirskt kjöt og náttúruvín frá Georgíu Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Kjaraviðræður við SGS (Starfs- greinasambandið), LÍV (Landssam- band íslenskra verzlunarmanna) og VR eru komnar á fleygiferð. Sama á við um samflot iðnaðarmanna. Það er hafin alvöruatlaga að gerð kjara- samnings,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Innan vébanda þessara viðsemjenda SA eru yfir 100.000 launþegar. „Þetta eru alvörufundir og hvorir um sig eru að leggja fram tillögur og útfærslur. Þetta eru samningafundir eins og þeir eiga að vera.“ Kjarasamningar renna margir út um næstu mánaðamót. Halldór Benjamín segir að áformuð séu stíf fundahöld alla næstu viku. SA fundaði í gærmorgun með SGS, LÍV og VR og með samfloti iðnaðarmanna í fyrradag. „Markmið okkar er skýrt. Það er að reyna að ná þessu saman hratt og örugglega,“ segir Halldór Benjamín. Engum af þessum við- ræðum hefur verið vísað til ríkis- sáttasemjara. Aðspurður kveðst Halldór Benjamín ekki ætla að úti- loka það að niðurstaða náist í nóv- ember. SA hefur ekki fundað með Eflingu sem ekki hefur skilað kröfugerð. Greiningar næst á dagskrá „Við áttum fund með SA í morgun þar sem við fórum yfir stöðuna og settum niður nokkuð þétt fundaplan fyrir næstu vikur,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verka- lýðsfélags Akraness, í gær. „Það fór bara vel á með mönnum og við erum að fara yfir stöðuna. Það er svo sem ekkert byrjað að fara í launaliði. Á næsta fundi verður farið yfir grein- ingar á stöðunni. Það á að gera harða atlögu að þessu, svo kemur bara í ljós hvort menn ná saman.“ SGS fer með samningsumboð fyrir 17 félög. Efling og Stéttarfélag Vest- urlands, sem eru í SGS, fara sjálf með sitt samningsumboð. „Það er sjálf- stæður samningsréttur hjá hverju stéttarfélagi. Það er ekkert óalgengt að félög sem standa fyrir utan komi svo inn í þetta á seinni stigum. Tíminn leiðir það í ljós,“ segir Vilhjálmur. Spurður um hvernig honum lítist á framhaldið sagði Vilhjálmur: „Þetta verður bara að taka sinn tíma og við gefum okkur þann tíma sem við þurf- um.“ Hann segir markmiðið vera að semja í nóvember. Ekki í samfloti með SGS og LÍV „Umboð okkar er hjá Samiðn fyrir iðnsveinadeildina en umboð okkar vegna verslunarmannadeildarinnar og þeirra sem tilheyra Starfsgreina- sambandshópnum er hjá félaginu,“ segir Signý Jóhannesdóttir, formað- ur Stéttarfélags Vesturlands í Borg- arnesi. Það á aðild að þremur lands- samböndum, SGS, LÍV og Samiðn. En hvers vegna eiga þau ekki samleið með SGS eða LÍV? „Við tókum um það ákvörðun í apr- íl í vor að fela þessum landssambönd- um ekki samningsumboð okkar vegna þess að fólkið sem þar er í for- svari stóð ekki með starfsmönnum Eflingar og fordæmdi ekki uppsagnir þeirra. Okkar félag er ákveðið í sínum prinsippum. Það vinnur ekki með fólki sem getur ekki staðið með fé- lögum sínum,“ segir Signý. Stéttarfélag Vesturlands birti SA kröfur sínar 6. október og viðræðu- áætlun. Signý segir að þau séu að endurnýja kjarasamning sem var gerður með SGS og LÍV. Stéttarfélag Vesturlands sendi samninganefnd ASÍ samningsumboð snemma í vor varðandi kröfur á hend- ur ríkinu. „Það er spurning hversu vel Alþýðusambandið er fært um að halda utan um þær kröfur,“ segir Signý. Alvöruatlaga að gerð samnings - Þétt fundarhöld viðsemjenda áformuð - Efling hefur ekki skilað kröfugerð og ekki fundað með SA - Markmiðið að semja í nóvember - Stéttarfélag Vesturlands ekki með SGS og LÍV í viðræðunum Morgunblaðið/Hari Lífskjarasamningurinn Undirritaður í apríl 2019 og rennur út um mánaðamótin. Viðræður eru hafnar vegna nýs samnings á almennum markaði. Komið hefur fram að verðbólgan sé sameiginlegur óvinur samningsaðila.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.