Morgunblaðið - 18.10.2022, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. OKTÓBER 2022
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þ
að er óhætt að segja að
fyrirtækið sé rótgróið en
verksmiðjan var byggð
1987 og Laxá fiskafóður
varð svo til árið 1991. „Við
erum að selja um 12 þúsund tonn af
fiskafóðri og veltan er um 2,5 millj-
arður. Hér eru níu starfsmenn, allir
með mjög mikla starfsreynslu, ég er
með stysta starfsaldurinn og er bú-
inn að vera hér einhver 15 ár,“ segir
Gunnar Örn og hlær.
Hann segir áherslu fyrirtækisins
vera að framleiða fóður fyrir fiskeldi
innanlands. „Laxá er með 80% hlut-
deild í sölu fiskafóðurs á landeldis-
markaðinn, þannig að við erum með
seiðastöðvarnar almennt, landeld-
isstöðvar fyrir lax og bleikju og svo
sjóeldi á regnbogasilungi fyrir vest-
an. Hvað sjóeldi á laxi varðar erum
við í dag ekki tæknilega útbúnir til
að framleiða þetta fituríka fóður
sem notað er og voru því flutt inn 60
þúsund tonn á síðasta ári af fiska-
fóðri frá Noregi og Skotlandi.“
Spurður hvað þurfi til að gera
fiskafóður svarar Gunnar Örn að í
grunninn þurfi aðeins fiskimjöl, lýsi
og hveiti. Þær uppskriftir hafi þó
tekið breytingum af ýmsum ástæð-
um en um helmingur rekstrarkostn-
aðar fiskeldisfyrirtækja er fóður og
því eðlilega þrýstingur á að fá það
fyrir eins lítinn pening og kostur er
á og oft á tíðum á kostnað gæða.
„Lýsi er dýr fitugjafi og erum við
því að nota repjuolíu til að lækka
kostnaðinn og sömuleiðis er fiski-
mjöl dýr próteingjafi og því notum
við jurtamjöl til lækkunar, meðal
annars soja-, maís-, repju- og guar-
mjöl. Sérstaða okkar uppskrifta er
að við notum hátt hlutfall af fiski-
mjöli og lýsi miðað við aðrar þjóðir.
Við erum kannski smá gamaldags
hvað það varðar, en fiskimjöl og lýsi
er náttúruleg fæða fisksins og það
er því besta fáanlega hráefni í fiska-
fóður hvað næringu varðar.“
Þá bendir hann jafnframt á að
fiskimjöl og lýsi sé unnið úr tak-
markaðri auðlind. „Ef Norðmenn
væru að nota sömu hlutföll og við
væri ekki nægt fiskimjöl og lýsi til í
heiminum. Það er líka af illri nauð-
syn að menn séu að lækka þetta
hlutfall. Einnig snýst þetta um að
nota ekki meira en 1 kg af fiski úr
sjó sem enginn vill borða til að búa
til 1 kíló af eldisfiski sem er eðal-
matur og umhverfisvænn miðað við
aðra matvælaframleiðslu. Þar nýtur
Laxá sérstöðu með góðum aðgangi
að aukaafurðum úr manneldis-
vinnslu á uppsjávar- og hvítfiski.“
Prótein úr úrgangi
Eftirspurn eftir fóðri sem er um-
hverfisvænna og með minna kolefn-
isspor hefur aukist í takti við kröfur
neytenda til eldisafurða. „Við erum
að flytja maís frá Kína og soja frá
Suður-Ameríku. Soja skilur eftir sig
mikið kolefnisspor vegna skógar-
eyðingar og flutninga. Þannig að við
erum að vinna að því að finna eitt-
hvað sem getur komið í staðinn fyrir
þetta jurtamjöl sem við getum feng-
ið hér innanlands eða innan Evrópu.
Við höfum tekið þátt í evrópsku
verkefni sem snýr að nýtingu úr-
gangs í skógariðnaði. Með efna-
fræðilegum aðferðum eru einsykrur
einangraðar úr trjákurli, þær eru
síðan notaðar í fóður fyrir einfrumu-
bakteríur sem eru próteinríkar.
Þetta er látið vaxa í tönkum og svo
er massinn þurrkaður og mulinn
niður í duft. Út frá þessu verkefni
hefur verið ákveðið að byggja verk-
smiðju í Frakklandi og Laxá á for-
kaupsrétt á þessu SCP-hráefni,“
segir Gunnar Örn.
Hann bendir einnig á að unnið sé
að sambærilegu verkefni hér á landi
þar sem fyrirtæki í samstarfi við
Landsvirkjun á Þeistareykjum er að
skoða notkun koltvísýrings til pró-
teinframleiðslu úr einfrumungum
og einnig smærri MATÍS-verkefni
þar sem nýttar eru aukaafurðir úr
kornrækt til að búa til prótein með
einfrumungum. „Þetta eru mjög
spennandi verkefni líka, það væri
mikill munur að geta fengið fleiri
umhverfisvæn hráefni innanlands.“
Hann kveðst eiga sér draum um
að kornrækt hér á landi verði einnig
mun meiri í framtíðnni, þar sem nú-
verandi framleiðsla sé langt frá því
að svara hráefnisþörf fóðurfyrir-
tækja. „Það þyrfti ekki endilega að
styrkja bændur til að hefja korn-
rækt, það þarf bara einhvers konar
bjargráðasjóð þannig að ef það yrði
uppskerubrestur færu þeir ekki í
gjaldþrot. Síðan þyrfti að vera eitt-
hvert söfnunarkerfi í anda kaup-
félaganna svo hægt yrði að kaupa í
miklu magni.“
Þó viðurkennir Gunnar Örn að
málið sé ekki einfalt enda þarf fram-
leiðsla á repju, sólblómum og hveiti
hér á landi að skila samkeppnishæfu
hráefni, bæði með tilliti til gæða og
verðs.
Mikil vaxtartækifæri
Laxá fiskafóður hefur vaxið hratt
síðustu fimmtán árin samhliða mikl-
um vexti í fiskeldi sem framleiddi
bara 5 þúsund tonn árið 2010 en var
á síðasta ári komið í 54 þúsund tonn.
Mikill vöxtur í fiskeldi á komandi
árum mun svo ýta undir enn frekari
vaxtarmöguleika fyrirtækisins.
„Vaxandi landeldi í Þorlákshöfn
og á Reykjanesinu er mest spenn-
andi fyrir okkur. Það kemur líklega
til okkar þar sem við getum afhent
fiskafóður á eldisstöð úr fóðurtanki
og sparað þannig kostnað á plast-
sekkjum og brettum, auk þess sem
það er vinnusparnaður á eldisstöð
og stórt umhverfismál hvað varðar
mengun og kolefnisspor. En við er-
um í dag ekki nógu stórir til að
sinna öllu því sem fram undan er í
fiskeldinu. Við erum að tala um
verkefni í landeldi þar sem búið er
að fjármagna fyrsta áfanga og þar
mun endanlegt framleiðslumagn
verða einhver 100 þúsund tonn. Þó
svo bara fyrsti áfangi yrði að veru-
leika erum við að tala um einhver 30
þúsund tonn. Það er umtalsverð
aukning frá markaðnum núna þar
sem landaeldi á matfiski ásamt
seiðaeldinu er aðeins 10 þúsund
tonn.
En við hugsum stærra en það.
Við erum dótturfélag Síldarvinnsl-
unnar og er móðurfélagið í sam-
starfi við BioMar um áreiðanleika-
könnun um að byggja nýja verk-
smiðju. Laxá er auðvitað hluti af
þeirri vegferð. Þar sjáum við fyrir
okkur að framleiða einnig fituríkt
fiskafóður fyrir sjóeldi á laxi sem er
ört vaxandi. Það er ekkert sem
stoppar að það fari í 100 þúsund
tonn og þá erum við að tala um 120
þúsund tonn af fóðri. Við viljum
taka þann markað líka.“
Betri saga
Gunnar Örn segist sannfærður um
að það takist að koma upp nýrri
verksmiðju sem annar innanlands-
markaði. „Þá erum við að tala um
120 þúsund tonna framleiðslu með
möguleika á að stækka í 240 þúsund
tonn. Þannig að bara fyrsti áfangi
væri tíföldun á framleiðslu Laxár.“
Íslendingar ættu að vera fullfærir
um að framleiða allt sitt fiskafóður
sjálfir og með umhverfisvænni hætti
en innflutt, að mati hans. Það skilar
mun lægra kolefnisspori og ekki síst
betri sögu um sérstöðu íslenskra
fiskeldisafurða sem hefði jákvæð
áhrif á viðhorf neytenda á erlendum
mörkuðum.
Ljósmynd/Laxá fiskafóður
„Vaxandi landeldi í Þorlákshöfn og á Reykjanesinu er mest spennandi fyrir okkur,“
segir Gunnar Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Laxár fiskafóðurs á Akureyri.
Innlend verksmiðja anni eftirspurn
„Okkur þykir glórulaust að flytja út fiskimjöl og lýsi til þess að flytja inn fiskafóður til baka. Það er hvorki gott fyrir þjóðarbúið né
umhverfið,“ segir Gunnar Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Laxár fiskafóðurs á Akureyri. Hann segir ekkert því til fyrirstöðu að
fóðurverksmiðja hérlendis geti mætt innlendri eftirspurn, en félagið bindur vonir við tíföldun framleiðslunnar á komandi árum.
Ljósmynd/Laxá fiskafóður
Verksmiðjan á Akureyri framleiðir nú
um 12 þúsund tonn af fiskafóðri. Stefnt
er að því að reisa nýja verksmiðju sem
getur framleitt allt að 240 þúsund tonn.
ELTAK sérhæfir sig
í sölu og þjónustu
á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum