Feykir


Feykir - 06.04.2022, Blaðsíða 15

Feykir - 06.04.2022, Blaðsíða 15
14/2022 15 að biðja fyrir fólki og dýrum og má segja að það sé svolítið það sem einkenndi mína trú snemma að ég trúi mjög heitt á mátt bænarinnar og kærleiksríkra hugsana. Það breytti svo miklu í mínu lífi þegar mér lærðist að biðja líka fyrir sjálfri mér. Þegar kom að því að velja mér há- skólanám þá var eitthvað sem fékk mig alltaf til að endurskoða val mitt. Ég var komin á fremsta hlunn með að skrá mig í nám í félagsráðgjöf enda var ég ákveðin í því að vilja vinna við einhvers konar ráðgjöf og vinna með fólki. Það var þó alltaf einhver efi til staðar um að félagsráðgjöfin væri rétta leiðin fyrir mig og ég kynnti mér því ýmsar námsleiðir. Það var svo Þráinn, unnusti minn, sem spurði hvort ég hefði ekkert velt því fyrir mér að nema guðfræði og eftir að hafa lesið kennsluskrána í guðfræði nokkuð oft, ákvað ég að fara og hitta námsráðgjafa til að kynna mér námið enn frekar því ég gat ekki betur séð en að guð- fræðinámið kæmi inn á ansi mörg af mínum áhugasviðum. Mér fannst þó í fyrstu svolítið fjarstæðukennd tilhugsun að verða prestur en það átti svo sannarlega eftir að breytast. Ég gekk út frá námsráðgjafanum algjörlega ákveðin í að guðfræði væri akkúrat það sem ég ætti að læra, enda kom það á daginn og ég fann mjög fljótt að það átti vel við mig.“ Edda segir að ekki hafi hvarflað að henni að verða prestur þegar hún var krakki þar sem hún sá fyrir sér að gerast bóndi, hestakona og rithöfundur. „Á unglingsaldri langaði mig líka til þess að verða leiðsögumaður og síðar á lífsleiðinni velti ég fyrir mér störfum á borð við þroskaþjálfa, félagsráðgjafa eða sérkennara.“ Hvað er það við prestastarfið sem þú telur mest spennandi? „Mér finnst það vera mikil forréttindi að fá að starfa með fólki á öllum aldri og prests- starfið er líka alveg einstaklega fjölbreytt. Það er fátt skemmti- legra og meira gefandi en að fá að starfa með börnum, eiga samtal og samfélag ásamt því að sinna fræðslu og kynna fyrir þeim hvernig þau geta notið góðs af trúnni í hinu daglega lífi. Að fá að deila og taka þátt í stærstu gleðistundum í lífi fólks og vera til staðar fyrir það á sorgarstundum og þegar erfiðleikar banka upp á er dýrmætt og nærandi,“ segir Edda. Jarðarfarir eru oft á tíðum þrungnar sorg og táraflóði og fleiri eru erfiðu málin sem prestar þurfa að sinna. Edda bendir á að í guðfræðideild HÍ sé kennt eitt sálgæslunámskeið sem skyldufag og stundum er einnig boðið upp á valnám-skeið í sálgæslu. „Einnig fara verðandi prestar og djáknar í starfsþjálf- un á vegum Þjóðkirkjunnar þar sem við fáum tækifæri til að kynnast nánar og öðlast þjálfun í hinum ýmsu þáttum prests- starfsins, m.a. að þjóna við kistulagningar og útfarir og fá frekari kynningu og þjálfun í sálgæslu. Þar sem sálgæslan er mjög stór þáttur í minni köllun til prestsstarfsins þá var ég ákveðin í að taka viðbótarnám í sálgæslu og hef lokið diplómanámi í sálgæslu frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Það nám var einstaklega lær- dómsríkt og gerir mig sannar- lega betur í stakk búna til að takast á við krefjandi aðstæður sem upp kunna að koma í prestsstarfinu.“ Aðspurð um einhverja skemmtilega sögu úr náminu segir Edda frá skemmtilegri staðreynd um sveitunga sína en þegar hún hóf nám í guðfræði þá hafi guðfræðideildin verið næst minnsta deildin í HÍ en einungis heimspekideildin var með færri skráða nemendur. „Samt var staðreyndin sú að í deildinni voru fjórir Skagfirðingar, þar af vorum við þrjár sem allar lærðum til prests og allar eigum við það líka sameiginlegt að vera Seylhreppingar og að sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ, fermdi okkur.“ Hver eru helstu áhugamálin og hvernig gengur að sinna þeim? „Ég er mikil félagsvera en á mér líka rólegri hlið og hef frá barns- aldri notið þess að lesa og grúska í bókum í ró og næði. Í seinni tíð hef ég sérstaklega gaman af því að fletta í ljóða- bókum. Ég hef alla tíð haft unun af hestamennsku og finnst skemmtilegt að stússast í ýmsum landbúnaðarstörfum. Ég hef jafnframt mikinn áhuga á fólki, mannréttindum, menningu og tungumálum og hef gaman af því að fara á góða tónleika og elska að ferðast, innanlands sem og erlendis. Mér finnst líka mjög skemmtilegt að brjóta stundum upp hversdagsleikann með því að fara t.d. á kajak, sjóbretti, taka rúnt á fjórhjóli, skreppa í berjamó, veiða í soðið eða skella mér á skíði. Mér hefur gengið alveg þokkalega að sinna áhugamálunum þótt ég vildi gjarnan gera svolítið meira af því að ferðast.“ Það er greinilega í nógu að snúast en hvernig skyldi Edda sjá fyrir sér að stunda áhuga- málin á nýjum stað? „Húna- vatnssýslan er nú alveg frábær staður til að sinna aðal áhugamálinu sem er hesta- mennskan sem og það að kynnast nýju fólki og taka þátt í því sem er um að vera í samfélaginu. Hér í Þingeyra- klaustursprestakalli hefur verið tekið alveg einstaklega vel á móti mér og ég er í skýjunum að vera flutt í svona frábært sam- félag. Ég er ekki komin með hestana mína hingað enn en það er alveg klárlega á planinu og mér hefur þegar verið boðið hesthúspláss. Við Þráinn erum Frá vígslu í Hóladómkirkju. Efri röð f.v.: Sr. Bryndís Valbjarnardóttir, sr. Gísli Gunnarsson, Edda Hlíf og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup. Neðri röð: Sr. Sigríður Gunnarsdóttir, sr. Stefanía Steinsdóttir. sr. Halla Rut Stefánsdóttir og sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi. líka í hrossarækt og eigum mörg spennandi afkvæmi undan Blundi okkar frá Skrúð sem gaman verður að fylgja eftir. Tíkin mín hún Snæfríður flutti til mín um síðastliðna helgi, hún nýtur sín vel hérna við bakka Blöndu og finnst gaman að spranga um í nýju og spennandi umhverfi. Hér er líka mikil tón- listarmenning og ég sé fram á að geta valið úr hinum ýmsu tónlistarviðburðum til að mæta á. Heimamenn hafa sumir hverjir fært mér góðar gjafir og meðal annars hefur bæst við bóka- kostinn svo ég hef úr nógu að velja til að lesa mér til yndis og ánægju. Hér er nóg af veiðiám og vötnum, stutt í skíðasvæði Tindastóls og ég á vafalaust eftir að skella mér í kajakferð niður Svartá með Bakkaflöt í sumar. Svo er sannarlega kostur að vera með fjölskylduna í næsta nágrenni.“ Nú eru fermingar að hefjast og þú eflaust með einhverja krakka í fermingarfræðslu, eða hvað? „Já ég er með alveg frábæran hóp af þrettán ferm- ingarbörnum í fræðslu en fermingarfræðsla er eitt af því allra skemmtilegasta sem ég geri í mínu starfi. Það er einstaklega gefandi að eiga samtal um lífið og tilveruna við fermingarbörn- in. Að fá að sjá og upplifa lífið og trúna frá þeirra sjónarhorni ásamt því að miðla til þeirra frekari þekk-ingu og velta upp spurningum til að dýpka sýn þeirra á tilveruna og trúna enn frekar. Ég læri sjálf alltaf eitt- hvað nýtt með hverjum hópi fermingarbarna sem ég fæ að fylgja, þau fræða mig ekkert síður en ég fræði þau.“ Lífsleikni og faðirvorið Hvað varðar fermingarfræðsl- una í dag, miðað við þegar hún sjálf fermdist, segir Edda töluvert minni áherslu vera á utanbókarlærdóm þótt hann hafi ekki alveg lagst af. Mest áhersla sé lögð á faðirvorið, trúarjátn- inguna og svo kannski stöku bænir eða sálmavers eftir áhuga. „Meiri áhersla er lögð á lífsleikni, hvernig trúin nýtist okkur í hinu daglega lífi og svo velt- um við fyrir okkur alls konar stórum spurningum er varða lífið og tilveruna. Svo hefur ýmislegt breyst hvað varðar viðteknar venjur í tengslum við fermingarveislur. Þegar ég fermdist var t.d. langalgengast að fermingar- veislan væri haldin heima, nú leigja flestir sal undir veisluna. Umfang fermingargjafa hefur líka aukist töluvert frá því að ég fermdist. Fermingarathöfnin sjálf hefur þó lítið sem ekkert breyst, fermingarbörnin velja sér enn Biblíuvers sem þau flytja við athöfnina og játast því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns, að mínu mati einstaklega skemmtileg og falleg athöfn þar sem allir gleðjast saman.“ Hvað getur þú sagt mér frá fermingunni þinni og hvað var eftirminnilegast? „Ég fermdist 23. maí 1999 í Víðimýrarkirkju í Skagafirði en sú kirkja er mér einstaklega hjartfólgin. Sr. Gísli Gunnarsson fermdi mig en það er gaman að segja frá því að ásamt því að hafa líka skírt mig þá var hann einnig vígsluvott- ur í prestsvígslunni minni. Ég fermdist í kjól af Eddu ömmu minni sem hún Sigga langamma mín saumaði á hana. Yfir kjólnum var ég svo í jakka úr eigu Línu ömmu. Mér þykir mjög vænt um það í dag að hafa valið að fermast í flíkum úr eigum formæðra minna sem eru mér svo miklar fyrirmyndir í lífinu. Þyrey systir sá um fermingar- greiðsluna og ég tók ekki í mál að fara í einhverja fermingar- myndatöku. Veislan var haldin heima í Víðiholti þar sem boðið var upp á alls konar tertur, heita rétti og aðrar kræsingar sem fjölskyldan útbjó, en það er mjög einkennandi fyrir fjölskylduna mína að allir leggjast á eitt þegar kemur að hvers konar veislu- höldum.“ Edda fullyrðir að enginn vafi hafi verið í sínum huga að fermast á sínum tíma og segist í einlægni hafa fermst vegna trúarinnar. En hvað myndi hún segja við krakka sem tvístíga frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort þau ættu að fermast eða ekki? „Við þau vil ég segja að það er engin ein rétt leið til að trúa. Trú er persónuleg og hver og einn ætti að hlusta á sitt innsæi og sannfæringu. Það er öllum hollt að kynna sér trú og trúmál, ekki hika við að spyrja prestinn ykkar eða aðra sem þið treystið krefjandi spurninga til að geta tekið upplýsta ákvörð- un sem er rétt fyrir ykkur. Kærleikurinn er í mínum huga sterkasta aflið í heiminum og eitthvað sem allir ættu að geta sameinast um og Jesús Kristur er svo ótrúlega töff og flott fyrirmynd og leiðbeinandi þegar kemur að því að hafa kærleik- ann að leiðarljósi í lífi sínu. Frá fermingardegi Eddu en fermingar- dressið var kjóll og jakki af ömmunum.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.