Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 20
18 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 99. árg. 2023
Hvað hefur Ísland fram yfir Svíþjóð?
Ég sakna stundum „þetta reddast“ hugarfarsins sem er
ríkjandi heima. Ef það koma upp vandamál þá er þeim
bara reddað, en hér í Svíþjóð hef ég upplifað að það
fari allt í upplausn ef eitthvað, smáatriði jafnvel, virkar
ekki eins og það á að virka. Hér fæ ég ekki matartímann
greiddan og vinnudagurinn er lengri fyrir vikið. Ég átti
erfitt með að venjast því að dagarnir byrja fyrr og enda
fyrr hér í Svíþjóð, morgunvakt byrjar til dæmis klukkan 7
eða fyrr og kvöldmatur á stofnunum er borinn fram rétt
eftir klukkan 16 síðdegis.
Er mönnunarvandinn mikill í Svíþjóð?
Já, það er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum.
Hjúkrunarfræðingar hér kvarta yfir lágum launum, miklu
álagi og slæmu vinnuumhverfi. Hjúkrunarfræðingar
flýja fastráðningar, margir fara í kulnun og almennt
er mikil óánægja hjá stéttinni. Það sem er ólíkt er að
kerfið hérna er má segja tvöfalt. Annars vegar eru það
hjúkrunarfræðingar sem eru fastráðnir og hins vegar
hjúkrunarfræðingar sem manna einstaka vaktir og vinna
stundum í fleiri vikur og mánuði á sömu deild í gegnum
ráðningarfyrirtæki. Þeir hjúkrunarfræðingar eru með
mun hærri laun en þeir sem eru fastráðnir, geta valið
sínar vaktir og frí á annan hátt en fastráðnir. Það eru
kostir og gallar við bæði kerfin en á mörgum deildum er
stór hluti starfsmanna ráðinn í gegnum ráðningafyrirtæki
og það telst vera vandamál og merki um að eitthvað
gangi ekki upp á viðkomandi deild ef enginn vill vera
fastráðinn þar.
Ætlar þú að flytja aftur til Íslands?
Ég vona það en hef ekki ákveðið hvenær.
Hvers saknar þú helst að heiman?
Fjölskyldu og vina, það er ákveðin sorg að vera alltaf
svona langt í burtu frá öllum og missa af svo miklu.
Hvernig er hversdagslífið frábrugðið þarna úti?
Ég upplifi það rólegra og það er minna stress. Ég bý
miðsvæðið, samgöngur eru góðar og stutt að fara allt.
Samfélagið er mjög barnvænt en ég hef ekki átt barn og
verið búsett á Íslandi svo að get ekki borið það saman.
Hvaða áhugamálum sinnir þú í frítíma þínum?
Mín helstu áhugamál eru crossfit og að dansa þótt ég sé
álíka léleg í hvoru tveggja en ég hef kynnst nýju fólki í
gegnum bæði áhugamálin sem er frábært.
Hvar sérðu fyrir þér að þú verðir eftir tíu ár?
Ætli ég verði ekki búin með meira nám eða alla vega
búin að skrá mig í meira nám. Mig langar líka að fara
aftur að starfa á sjúkrahúsi, mig vantar meiri reynslu í
bráðahjúkrun og vona að ég hafi náð mér í hana eftir
10 ár. Svo er draumurinn að læra að minnsta kosti eitt
tungumál til viðbótar. Að lokum er planið að vinna
eitthvað meira tengt mínu masters-námi, það gæti verið
rannsóknarvinna, hjálparstarf erlendis eða stefnumótun
og réttindamál fólks á flótta.
Stuðlaberg heilbirgðistækni ehf. • Stórhöfða 25 • Reykjavík • stb@stb.is • 569 3180 • stb.is
Markmið okkar eru að efla heilsu, auka lífsgæði, auðvelda störf og daglegt líf
Fimmtudaginn 8. júní kl. 09:00-12:00 mun Vicky Gudesen, hjúkrunarfræðingur hjá Juzo
í Danmörku, kynna nýjungar og nýjar nálganir í stað vafninga til meðferðar á bjúg og
langvinnum, erfiðum bláæðasárum og tengdum vandamálum. Meðferðin nýtist einnig
sem síðbúið meðferðarúrræði við alvarlegum brunasárum. Meðferðin er áhrifarík og
einfaldari í framkvæmd en hefðbundnir vafningar. Á fyrirlestrinum verður farið yfir
hugmyndafræði vörunnar, ábendingar og framkvæmd.
Kynningin fer fram í sýningarsal Stuðlabergs heilbrigðistækni, Stórhöfða 25 - 3. hæð.
Léttar veitingar og hádegisverður verður í boði í lok kynningar.
Skráning fer fram í gegnum netfangið anna@stb.is til og með 5. júní, þar sem
tekið skal fram nafn, fagheiti og vinnustaður. Takmarkað pláss í boði.
Við hlökkum til að taka á móti ykkur,
Starfsfólk Stuðlabergs heilbrigðistækni
KYNNING
Jóna með sambýlismanni sínum Eliasi Tuffaha og dóttur þeirra Leuh Margréti
Hjúkrunarfræðingur í öðru landi