Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2021, Page 8

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2021, Page 8
8 Gekk vel miðað við allt Þegar þarna var komið sögu var starfsemin næstum því að komast í eðlilegt horf. „Það liðkaðist mikið um þetta þegar bólusetningarnar fóru af stað og þá gekk þetta betur,“ segir Garðar og bætir við að þá hafi verið farið að taka við þeim í endurhæfingu sem voru að ná sér eftir COVID. „Þeir ein- staklingar máttu blandast öllum,“ útskýrir Garðar. Ennþá segir hann að töluverð hólfaskipting sé á Reykjalundi og að meðferðasvið eitt og tvö blandist ekki saman þótt þau séu bæði í húsinu. Búið sé að skipta prógramminu þannig að leiðir þessara einstaklinga liggi ekki saman. „Sem er alveg klárlega mikill hausverkur fyrir marga,“ segir hann brosandi og bætir við að miðað við allt hafi þetta gengið bara vel. Endurhæfingin nánast sú sama Þegar ég spyr Garðar hvort hann hafi orðið var við mikla afturför hjá skjólstæðingum sínum á þessum tíma segist hann ekki geta fullyrt neitt. „Það voru örugglega margir sem biðu lengi eftir að komast inn og þeim hefur klárlega versnað. Auðvitað reyndum við að taka fólk inn eftir bestu getu.“ Hann segir að slíkt fari í gegnum ferli og þegar beiðni berist sé hægt að meta þörfina. „Núna er biðin ekki tiltakanlega löng eftir þessu mati og svo er yfirleitt mjög stutt bið þangað til fólk kemur inn í endurhæfingu.“ Endurhæfingin segir hann að hafi ekki breyst neitt að ráði. „Fólk kemur ennþá í þessar fjórar til sex vikur hingað í lungnaendurhæfingu. Þetta er bara eins og vinnudagur. Þú kemur á morgnana milli átta og níu og ert svo til þrjú, fjögur á daginn. Við erum samt ennþá hólfaskipt þannig að við náum ekki að bjóða nákvæmlega sömu þjónustu og við gerðum fyrir COVID, en vonandi styttist í það.“ Þjálfunin segir hann að sé hins vegar orðin eins og hún var, fyrir utan bilin sem myndast í æfingaprógramminu vegna hólfa- skiptingarinnar. Ennþá þurfi líka að tvískipta tækjasalnum. „Nánast allir fara í tækjasalinn og fá æfingaáætlun þar. Meðferðarsvið tvö, þ.e. lungnafólkið, kemst ekki í tækjasalinn nema eftir hádegi á mánudögum, fyrir hádegi á þriðjudögum, eftir hádegi á miðvikudögum, fyrir hádegi á fimmtudögum og svo milli tíu til eitt á föstudögum. Svo er meðferðarsvið eitt með tíma þar á milli. Þetta er svona púsluspil. Fólk fær samt sína þjálfun.“ Púsluspilið áskorun Ég spyr Garðar hvort hann telji að helsta áskorunin þennan tíma hafi falist í þessu púsluspili sem hólfaskiptingin hefur í för mér sér. „Já, þannig að skjólstæðingar okkar gætu fengið það sem þeir þyrftu og að við gætum boðið þeim góða þjónustu,“ segir hann hugsi og bætir við að hann telji að þau hafi gert það. „Við höfum alla vega fengið þau viðbrögð hjá fólki. Það hefur verið ánægt og fundið gríðarlega mikinn mun á sér.“ Hreyfiseðillinn Þegar ég nefni hvað taki við eftir endurhæfinguna á Reykjalundi segir Garðar að oft haldi fólk áfram t.d. á HL stöðinni, eða þar sem sérhæfðir sjúkraþjálfarar og íþróttafræðingar starfi. Einnig nefnir hann hreyfiseðilinn sem hann segir að hafi litið dagsins ljós fyrir nokkrum árum. Hreyfiseðillinn felst í því að æfingaáætlun er sett upp í samráði við skjólstæðinginn í tiltekinn tíma, t.d. sex til átta vikur í byrjun. Hver hreyfiseðill gildir í eitt ár. Einstaklingnum er kennt á kerfið og svokallaður hreyfistjóri fylgist með hversu mikið viðkomandi sé búinn að hreyfa sig, þ.e. skráningunni og er í sambandi við hann. „Á Reykjalundi eru tveir hreyfistjórar sem sinna allmörgum eftir útskrift. Þannig hafa skjólstæðingarnir áfram tengingu við Reykjalund og eru í eftirfylgd hjá hreyfistjóranum.“ Hann segir að ef viðkomandi vill svo halda áfram með hreyfiseðilinn, þá geti hann gert það hjá hreyfistjóra í sínu umdæmi. „Það ættu að vera komnir hreyfistjórar inn á margar heilsugæslustöðvar. Þetta er t.d. mikið notað úti á landi.“ Auðvelt að segja fólki að hreyfa sig Ég spyr Garðar að lokum hvaða skilaboð hann hafi til þeirra sem ekki séu ennþá farnir að hreyfa sig og þjálfa eftir COVID. „Það er auðvelt að segja fólki að hreyfa sig en það er erfiðara að byrja,“ svarar hann og brosir út í annað. „Annars skiptir mestu að fara rólega af stað. Ef maður ætlar sér of mikið er hætta á því að maður hrasi, en maður stendur þá upp aftur.“ Garðar hvetur fólk til að leita sér aðstoðar ef því finnst erfitt að koma sér af stað. „Þá vil ég sérstaklega benda á þessa hreyfiseðla,“ segir hann og getur þess að þeir séu mjög hvetjandi og ættu að vera komnir á flestar heilsugæslustöðvar. „Til þess að fá þá þarftu að fá beiðni í gegnum heimilislækni.“ Gæti verið fyrsta skref Hann segir að oft þurfi ekki nema smávegis stuðning til að koma sér í gang. „Það hjálpar mikið að vita af einhverjum sem fylgist með án þess að vera einhver lögga. Hreyfiseðillinn gæti því verið fyrsta skref,“ segir hann og bætir við að ef þörf er á meiri stuðningi sé ráðlegt að leita til sjúkraþjálfara í einstaklings- meðferð, en að það þurfi líka að gera í gegnum heimilislækni. Það er löng bið hjá þeim, en hreyfiseðillinn getur brúað slíkt bil. Þess ber að geta að allir hreyfistjórar eru sjúkraþjálfarar. Þegar við kveðjumst hugsa ég til þess hve fljótt og fagmannlega starfsfólkið á Reykjalundi hafi brugðist við þessum erfiðu aðstæðum sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér. Það sama má sannarlega líka segja um framlag alls okkar harðduglega framlínufólks á þessum fordæmalausu tímum.

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.