Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 16

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 16
16 Nesjavallaveginn. „Við bjuggum í Keflavík og þá fórum við eiginlega um hverja helgi, en eftir að við fluttumst hingað förum við sjaldnar,” segir hann hlæjandi og bætir við að þau geri það samt ennþá. „Ég vil ekki horfa á Axel fara þarna upp í rjáfur og vera að mála og gera við,” segir Elsa. Axel hlustar á konu sína og brosir út í annað. „Ég hræddi eiginlega líftóruna úr henni hérna um helgina því að það var ekkert sjónvarp uppi í sumarbústað og ég þurfti að athuga með loftnetið og endaði með að ég tók það bara niður.” Hann er kletturinn minn „Okkur þykir alltaf yndislegt að vera í bústaðnum,” segir Elsa og bætir við að hann hvíli á kjallara þaðan sem sé innangengt og að húsið standi svolítið hátt og að svo sé hátt ris. „Þarna var hann að klöngrast,” segir hún alvarleg og segist sjálf vera svo lofthrædd að hún geti ekki horft upp á hann í þessum aðstæðum. „Ég hef aldrei fundið neitt fyrir lofthræðslu,” segir Axel. „Hann er kletturinn minn” heldur Elsa áfram á öllu alvarlegri nótum. „Þó að hann sé ekki lofthræddur þá er hann ekkert unglamb lengur frekar en ég. Ég er farin að finna fyrir miklum kvíða og ég fer helst ekki ein á mannamót.” Erfitt að komast í rafmagn á húsbílnum Axel rifjar upp ferðalag þeirra hjóna um sumarið. „Við erum með þennan fína húsbíl og ætluðum að ferðast dálítið meira. Það varð hins vegar ekki úr því nema bara ein vika og þá vorum hjá frændfólki hennar, af því að þar komumst við í rafmagn til að hlaða þessa,” segir hann og bendir á súrefnisvélina. „Við völdum náttúrulega þessa viku og ætluðum að fara austur á land,” segir Elsa, „sem var alveg kreisí. Það var svo erfitt að komast að á tjaldstæðum og við gátum hvergi fengið rafmagn. Við ákváðum því að stoppa fyrir austan Kirkjubæjarklaustur hjá frænku minni og þar gat ég hlaðið súrefnisvélina sem ég get hreinlega ekki verið án.” Hún var orðin kvíðin og náði ekki að slaka. „Svo jafnaði þetta sig smám saman,” bætir Elsa við. Krefst mikillar vinnu og skipulags Heilsubresturinn einn og sér setur vissulega mikið strik í reikninginn. Þar við bætist svo öll þessi fyrirhyggja og skipulag sem almenningur telur sjálfgefið, en þau þurfa að standa klár á. „Ég veit að það er hamlandi fyrir hann að eiga konu sem er svona,” segir Elsa og horfir á eiginmann sinn. „Það er gott að maður sé kominn á eftirlaun,” segir Axel og slær á léttari strengi. „Það eru komin sex ár síðan. Ég var búinn að vera tvö ár á eftirlaunum þegar hún varð alveg háð súrefni. Það er eiginlega alveg full vinna að sjá um heimilið,” bætir hann við og hlær. Segja má að það sé líka full vinna að vera sjúklingur. Hlutskipti okkar í lífinu eru sannarlega misjöfn, en að sama skapi er afar mikilvægt að við öðlumst innsýn í líf hvert annars. Vísindasjóður - Þekking er forsenda framfara Árið 2017 stofnuðu Samtök lungnasjúklinga sjóð sem hefur það markmið að efla íslenskar vísindarannsóknir á lungnasjúkdómum með fjárframlögum til rannsókna á orsökum lungnasjúkdóma, forvörnum, meðferðum og lífsgæðum sjúklinga. Fimm manna stjórn vísindasjóðsins er skipuð fjórum fagmönnum af lungnasviði auk fulltrúa Samtaka lungnasjúklinga. Rekstur sjóðsins er í höndum Samtaka lungnasjúklinga, en allar ákvarðanir um styrkveitingar eru unnar faglega af stjórn sjóðsins. Tekjur Vísindasjóðs Samtaka lungnasjúklinga, auk vaxta af stofnframlagi, eru minningargjafir, erfðagjafir, aðrar gjafir, áheit og önnur framlög sjóðnum til styrktar. Þeir sem vilja stuðla að framgangi vísindarannsókna á lungnasjúkdómum geta lagt inn á reikning sjóðsins. Bankareikningur vísindasjóðsins er 0133-15-010098, kt. 691217-0940. Vinsamlegast sendið greiðslustaðfestingu á netfangið lungu@lungu.is

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.