Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 19

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 19
19 mikið í hjartalækningum og hjartsláttartruflunum og að sjálfsögðu í taugakerfinu og heilanum. Þar gengur þetta í rauninni allt saman fyrir jónagöngum. Sjá hvernig hlutirnir virka „Þarna kom tenging við eðlisfræðiáhugann sem ég fékk í Hagaskólanum. Að sjá hvernig hlutirnir virka,” segir Ólafur og segir að umsókn sín fyrir lungnalækningarnar hafi í raun byggst á þessari rannsóknarhugmynd sem hann hafi strax verið farinn að vinna að meðan hann var í lyflækningunum. „Þetta var dásamlegur tími og þarna var maður á kafi í að sjá sjúklinga samhliða því að hlaupa á rannsóknarstofuna, jafnvel seint á daginn og að sjálfsögðu oft um helgar. Ekki beint fjöskylduvænt,” bætir hann við og brosir út í annað. Fjölskyldan Eiginkona Ólafs er Hulda Harðardóttir, lyfjafræðingur og eiga þau tvö börn. Þau Hulda fóru saman út til náms í Bandaríkjunum árið 1993 og fæddist sonur þeirra rétt áður, en dóttir þeirra fæddist svo í Iowa árið 1996. Fyrir átti Ólafur son úr fyrra hjónabandi. „Hann er búinn að gera mig að tvöföldum afa,” segir hann skælbrosandi og segist hlakka til að passa afastrákinn sinn um kvöldið. „Ég hef átt gott fjölskyldulíf og verið ótrúlega heppinn. Það er langt í frá sjálfsagt og ég kann virkilega að meta það.” Hvernig byrjar svo lyfjaþróunarsagan? „Hún byrjar eiginlega, árið 1995-6, en þá er ég að rannsaka hvernig rafmagnið, eða klórjónin flyst í gegnum þessi jónagöng eftir því hvernig maður breytir þeim,” segir Ólafur. Hann útskýrir að maður geti breytt prótíninu, en jónagöng séu í eðli sínu bara prótínhlunkur. „Öll prótín eru búin til úr amínósýrum og til þess að reyna að skilja hvernig flæðið er þarna í gegn, getur maður leyft sér að breyta þessari eða hinni amínósýrunni og verið með alls konar kenningar um hvernig þetta stýrist og flæðið á klóríðinu minnkar, eða eykst, eftir því hverju maður breytir,” segir hann, greinilega vanur að útskýra flókna hluti á mannamáli. Framtíðarmarkmiðið að hanna lyf „Tilgangurinn með öllu þessu brölti var alltaf að skilja uppbygginguna til þess að geta í framtíðinni hannað eitthvert lyf,” heldur hann áfram. „Árangurinn sem við náðum að lokum í þessum rannsóknum var að geta útskýrt samband þess hvernig prótínið var í laginu og hvernig klóríðið fluttist í gegn. Þetta voru algerar grunnvísindarannsóknir. Ég hafði mjög gott af þessu því að ég hafði aldrei verið í svona rannsóknum áður.” Af hverju voru jónagöngin svona mikilvæg? Þetta varð doktorsverkefni Ólafs og hann segir að slík vísindaverkefni séu í mjög föstum skorðum í Bandaríkjunum. Fjölskyldan hafði ákveðið að flytjast heim til Íslands árið 2000, en það voru miklar kvaðir á honum í náminu sem fólust m.a. í því að hann var mikið að sinna sjúklingum meðfram vísindarannsóknunum. Stóra spurningin sem sótti á hann á þessum árum segir hann að hafi verið hvers vegna þetta væri allt komið undir þessum jónagöngum. Ef þau gefa sig, fær maður lífshættulegan sjúkdóm eins og þennan arfgenga slímseigjusjúkdóm. „Fólk dó úr slímseigju þar sem slímið varð allt of þykkt og bakteríurnar söfnuðust bara saman. Það var alveg sama hvaða sýklalyfjum var sturtað í sjúklingana. Þetta eyðilagði bara lungun smám saman þar sem ekki reyndist hægt að uppræta sýkingarnar.” Klæðningin virkar ekki Ólafur segist líka hafa séð mikið af öðrum lungnasjúklingum sem voru margir með langvinna lungnateppu og sjúkdóminn berkjuskúlk (bronchiectasis). „Allir þessir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að klæðningin innan á lungunum, þetta epíþel (epithel), eða þessar frumur sem klæða þau að innan, virka ekki eins og þær eiga að gera. Þegar árið 2000 nálgaðist var þetta farið að heilla mig mjög mikið. Auk þess sem ég áttaðið mig á því að algengustu lungnasjúkdómarnir eiga nánast rætur í svokallaðri ephithel dysfunction, eða því að klæðningin virkar ekki. Asmi, langvinn lungnateppa, berkjuskúlk og flestar tegundir lungnakrabbameins, eiga uppruna í þekjuvef lungnanna, þekjunni sem klæðir þau að innan.” Hvað er að henni? Þegar heim var komið sumarið 2000 hafði hann tekið doktorsverkefnið með sér og varð það samstarfsverkefni University of Iowa og Háskóla Íslands. Leiðbeinendur hans voru þeir Guðmundur Þorgeirsson og Michael Welsh og fór vörnin svo fram árið 2004. „Þarna um sumarið 2000 sagði ég Mike að ein hugmynd væri sérlega ágeng. Allir þessir lungnasjúklingar sem ég var að hitta á göngu- og legudeildunum vöktu stöðugt með mér spurninguna: ‚Hvað er að klæðningunni hjá þessu fólki?’ Þetta fólk er varnarlaust. Þetta truflaði mig mikið.” Líðanin batnaði þótt sýklarnir lifðu Um þetta leyti las Ólafur grein um slímseigjusjúkdóminn eftir bandaríska vísindamanninn, Lisa Saiman, en hún og hennar teymi höfðu gert klínískar rannsóknir á sjúklingum þar sem þau gáfu þeim lyfið azithromycin. Það er sýklalyf sem er m.a. mikið notað við öndunarfærasýkingum og tilheyrir svokölluðum makrólíða sýklalyfjahópi. Rannsóknin byggðist á niðurstöðum úr asískri rannsókn sem sýndi fram á að eldra lyf af sömu tegund, erythromycin, hefði náð að bæta líðan fólks með berkjubólgu- sjúkdóm sem var mjög algengur í Asíu. Saiman og félögum fannst þetta forvitnilegt og gerðu því klíníska rannsókn með nýrri útgáfu af makrólíði, svokallað azithromycin. Lyfið gáfu þau sjúklingum með slímseigjusjúkdóm til að kanna hvort þeir næðu einhverjum árangri. Í stuttu máli batnaði bæði líðanin og lungnastarfsemin umtalsvert þótt bakteríurnar hefðu haldið áfram að ræktast.

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.