Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Síða 24

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Síða 24
24 Upphaf SLS á Reykjalundi Hún var því aftur lögð inn á sjúkrahús og að þeirri dvöl lokinni var henni sagt að hún ætti að fara inn á Reykjalund. „Þar byrja Samtök lungnasjúklinga,“ segir Brynja og gerir stutt hlé á máli sínu. „Á þeim góða stað,“ heldur hún áfram með áhersluþunga. „Fólkið þar bjargaði lífi mínu og breytti því til svo margs. Þarna var alveg afburða starfsfólk,“ segir hún og bætir við, „Afburða! Þau voru öll svo umhyggjusöm. Það var virkilega gott að vera þar!“ Brynja segist hafa náð mjög góðum árangri á Reykjalundi. Hún dvaldist þar allan tímann og fór aldrei heim um helgar og segist hafa notað þær líka í að þjálfa sig. Samtök lykilorðið! „Það var yndislegt fólk þarna með mér á deildinni og sumir sem ég hafði samband við í mörg ár á eftir,“ rifjar Brynja upp. „Þarna hitti ég m.a. mann sem hét Jóhannes Kr. Guðmundsson. Við tókum tal saman og fórum að ræða að það væri enga hjálp að finna úti í samfélaginu. Fólk virtist vanta allan metnað. Það hefur nefnilega aldrei verið svona veikt.“ Hún segir því við hann að það vanti einhvern stað þar sem lungnasjúklingar geti leitað til. „Það þyrftu að vera einhver svona samtök. Og það var lykilorðið!“ Í beinu framhaldi af því fóru þau að ræða þessi mál af fullri alvöru. Jóhannes var búinn að vera langdvölum á Reykjalundi og þekkti vel til mála. Auk þess ræddu þau við hjúkrunarfræðingana sem voru afar hjálplegir. „Svo fáum í lið með okkur Hauk Þórðarson, þáverandi yfirlækni á Reykjalundi og Björn Magnússon, lungnasérfræðing.“ Brynja segir að þetta hafi útheimt heilmikla vinnu. „Við fengum svo mína góðu vinkonu, Sólveigu Ólafsdóttur, til liðs við okkur. Blessuð sé minning hennar. Hún hafði svo mikla reynslu af félagsstörfum og vissi allt um allt. Hún setti upp lögin fyrir okkur. Svo var settur dagur og að sjálfsögðu var fundurinn haldinn uppi á Reykjalundi,“ segir hún og dregur fram fundarbókina þar sem stofnfundur Samtaka lungnasjúklinga er skráður. Stofnfundur Samtaka lungnasjúklinga Þar ávarpaði Haukur Þórðarson fundinn, 20. maí árið 1997. Jóhannes Guðmundsson flutti svo ávarp. „Hann var svo veikur,“ rifjar Brynja upp. „Hann gat ekki gengið. Hann kom niður í hjólastól, tveir hjúkrunarfræðingar með honum og við öllu búinir.“ Hún segist hafa boðið honum að halda á hljóðnemanum fyrir hann sem hann vildi ekki þiggja. „Ég ætla að standa upp,“ sagði hann og það gerði hann! „Sólveig var kosinn fundarstjóri sem var alveg hárrétt. Lögin voru svo kynnt og samþykkt óbreytt. Björn Magnússon hélt fyrirlestur. Jóhannes reifaði svo hvernig aðdragandinn að stofnuninni hefði verið. Því næst var kosið til stjórnar og Jóhannes varð formaður í tvö ár. Aðrir í stjórn voru: Björn Magnússon, Kolbrún Guðmundsdóttir, Brynja Runólfsdóttir og Dagbjört Theódórsdóttir. Guðlaug Guðlaugsdóttir og Magnús Karlsson voru kosin til vara. Skoðunarmenn voru Jóhann Þorvaldsson til tveggja ára og Svandís Sturludóttir til eins árs. Félagsgjaldið var 1,500 kr.“ Brynja rifjar upp þennan eftirminnilega viðburð sem hún segir að hafi farið mjög vel fram. Okkur var boðið upp á veitingar, allt mjög huggulegt og afskaplega gaman, skemmtileg og stór stund,“ segir hún og bætir við að þeim hafi svo boðist fundaraðstaða í Hallgrímskirkju þar sem þau gátu haldið fræðslufundi og aðrar samkomur. „Svo var heilmikið verið að reyna að afla fjár til þess að gefa alls konar tól og tæki og reynt að láta gott af sér leiða.“ Aðild að SÍBS Eftir ábendingu segir Brynja að þau hafi sótt um að verða eitt af aðildarfélögum SÍBS. „Við fengum aðild og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera fulltrúi Samtaka lungnasjúklinga í stjórn SÍBS. Það var mjög áhugaverður tími,“ segir hún og rifjar upp að hún hafi ekki alltaf verið sammála öllu sem þar fór fram. „Það sem var aðalatriðið í mínum augum var félagið mitt og félagarnir. Svo var mér líka mikið í mun happdrættið því að það dró svo stórt hlass í sambandi við alla fjáröflun,“ segir hún og bætir við hálfbrosandi, „Ég held að ég hafi þótt full aðgangshörð! Svo komu upp ýmis mál – ég er mjög hreinskilin – ég kunni illa við að láta þagga niðrí mér.“ Brynja bætir við að þessi átta ár sem hún var þarna, hafi samt verið mjög ánægjulegur tími. „Ég segi oft að 8 ár séu hámarkstími í svona stjórnarsetu. Eftir það ferðu að vera eins og heimaríkur hundur.“ Á þinginu árið 2019 var Brynja sæmd gullmerki SÍBS sem hún segist afar þakklát fyrir. Hún kveðst alltaf halda tengingunni við Samtök lungnasjúklinga. „Ég færi bókhaldið fyrir þau og það er mikið ánægjuefni. Svo var mér líka sýndur mikill sómi þegar þau gerðu mig að heiðursfélaga! Og ég vissi ekki neitt!“ Hún rifjar upp fundinn sem hún stýrði og þegar kom að liðnum önnur mál og hún segir loks að ekkert annað sé á dagskrá, þá hafi verið hrópað hátt JÚ! „Ég bara lamaðist,“ segir hún hrærð. „Þetta var dásamleg stund og ég var afskaplega ánægð og glöð.“ Samtök lungnasjúklinga eiga þessari heiðurskonu sannarlega mikið að þakka og öllum þeim sem áttu hlut að máli við stofnun félagsins. Fyrsta stjórn Samtaka lungnasjúklinga. Frá vinstri: Kolbrún Guðmundsdóttir, Björn Magnússon, Jóhannes Kr. Guðmundsson, Brynja D. Runólfsdóttir og Guðlaug Guðlaugsdóttir.

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.