Heima er bezt - 01.12.2002, Side 17
að hverfa fyrir öðrum ljósfærum. Kolan bar lélega birtu,
raunar svo lélega að furðulegt var að nokkur skyldi geta
unað við þá lýsingu.
Svo komu vegglamparnir, litlir og heldur birtudaufir,
þó að framför væri að þeim. Og ekki má gleyma
týrunum, sem bæði voru notaðar í útihúsum og
innanbæjar. Þeim fer nú að fækka, sem vita deili á gerð
þeirra.
Á hverju hausti kom faðir minn með olíudunk,
venjulega frá Akureyri. Olían í honum átti að endast til
vors en það gekk nú stundum illa því mikil
gestanauð var á Fremri-kotum og
ljósmetið vildi því eyðast örar en
ella.
Við krakkarnir sátum oft
tímunum saman í myrkri uppi
í einhverju rúminu í
baðstofunni og biðum þess
að mamma kæmi inn
með ljóstýruna, sem hún
var að vinna við í búri
og eldhúsi, en faðir
minn og eldri bræður
voru úti við
gegningar. Og þá var
það leikur okkar að
vita hvert yrði fyrst
til að koma auga á
Ijósgeislann sem
barst inn um rifu á
baðstofuhurðinni
þegar mamma var á
leiðinni til baðstofunnar
og kalla „ljós, ljós!“
Kirkjuferðir
Það þótti sjálfsagt að fara
til kirkju á jólunum þegar
messað var á Silfrastöðum, ef
nokkur tök voru á. Við yngri
krakkarnir vorum ekki látin fara svo
langa leið en hún varð ekki gengin á minna
en tveimur klukkutímum. Og foreldrar okkar gátu
ekki báðir farið samtímis vegna okkar krakkanna, nema
þegar svo vildi til að amma, Guðrún Hallsdóttir, var hjá
okkur um jólin. Hún kom oftast einu sinni á vetri frá
Axlarhaga í Blönduhlíð, þar sem hún átti heima hjá syni
sínum, Eiríki, og var þá hjá okkur eins og mánaðartíma.
Og það var ómældur fögnuður yfir því að fá hana í
heimsókn. Hún kunni svo mikið af alls konar sögum að
þær virtust óþrjótandi. Og margar þeirra hef ég síðan
notað á ferðalögum mínum á leiðinni um landið eða í
náttstað.
Nú, auk þess höfðu svo þeir, sem sóttu kirkju á
Silfrastöðum, sérstaka ánægju af því að tala við
húsbóndann þar, eða öllu heldur að hlusta á hann. Það var
Steingrímur Jónsson, sem þar bjó langa ævi og var
ákaflega einkennilegur um tungutak og skoðanir. Hann
var framúrskarandi hispurslaus í tali og sagði held ég allt
sem hann hugsaði. I sumum bókum mínum hef ég minnst
á hann nokkuð rækilega og lengi því ekki þetta rabb
okkar að ráði með því að segja frá honum. Eitt tilsvar
hans vil ég þó nefna hér, af því að það er einmitt tengt
messu á Silfrastöðum.
Þetta var á nýársdag. Kirkjufólkið hafði safnast saman í
bæjardyrunum á Silfrastöðum, sem voru stórar og
rúmgóðar og beið þar eftir presti sínum, séra
Birni Jónssyni á Miklabæ. Er prestur
kom í hlaðið og hafði stigið af
hestinum, gekk hann inn í
bæjardyrnar þar sem
Steingrímur stóð mitt á
meðal messufólksins og
talaði við það. Séra Björn
gekk í milli manna,
heilsaði öllum með
handabandi og óskaði
gleðilegs árs. Er hann
bar að Steingrími
tekur hann í hönd
hans og segir:
„Sæll og
blessaður,
Steingrímur, og gott
og gleðilegt ár.“
Steingrímur
svaraði um hæl:
„Nú, þú sagðir þetta
nú líka í fyrra og það
hefur aldrei verið eins
bölvað og síðan.“
Kímdu þá flestir og
prestur ekki síður en aðrir.
Tvennir tímar
Jólin hafa sjálfsagt alltaf sinn
boðskap að flytja, lítið breyttan. En
allur þessi fyrirgangur nú, auglýs-
ingamennska, glingrið, sem nú berst að börnum,
bæði í kaupstað og sveit, er svo ólíkt því sem áður
gerðist, að enginn samanburður kemur þar til greina.
Tilbreytnin í öllum þessum jólaháttum, veisluglaumurinn,
íburðurinn í mat og drykk, allt er þetta svo andhverft því,
sem gerðist á fátæku heimili í afdal fyrir 80 árum, að þar
verður ekki orðum að komið.
En þrátt fyrir allan þennan ytri glans, er kannski ástæða
til þess að efast um að gleðin sé jafn djúp og heit og
eftirminnileg hjá börnum nú og hún var í allri fátæktinni
og skortinum hjá mér og mörgu fólki á mínum aldri,
þegar við vorum að ganga fyrstu skrefin til móts við
jólin.
Heima er bezt 529