SÍBS blaðið - 01.06.2023, Qupperneq 3
3
2. tbl. 2023
SÍBS-blaðið
39. árgangur | 2. tölublað | júní 2023
ISSN 1670-0031 (prentuð útgáfa)
ISSN 2547-7188 (rafræn útgáfa)
Útgefandi: SÍBS
Borgartúni 28a
105 Reykjavík
sibs@sibs.is, www.sibs.is
Ábyrgðarmaður: Guðmundur Löve
gudmundur@sibs.is
Ritstjóri: Páll Kristinn Pálsson
pallkristinnpalsson@gmail.com
Auglýsingar: Öflun ehf.
Umbrot og prentun: Prentmet Oddi ehf.
Upplag: 8.500 eintök
Hlutverk SÍBS er að stuðla
að heilbrigði þjóðarinnar.
SÍBS á og rekur
endurhæfingar miðstöðina Reykjalund,
öryrkjavinnustaðinn Múlalund,
Heilsumiðstöð SÍBS og
Happdrætti SÍBS.
Efnisyfirlit
3
Af hverju kvenheilsa?
6
Breytingaskeið kvenna
12
Kynlöngun og andleg líðan
á breytingaskeiði
14
Konur, svefn og hormón
Þekkir þú þínar innri árstíðir?
18
Þvagleki - Tengsl við stoðkerfið
20
Tíðahringurinn og íþróttir
Grein
Efni blaðsins er að þessu sinni tileinkað kvenheilsu.
En af hverju kvenheilsa? Og hvað með karlana?
Er verið að búa til enn eitt sílóið þar sem líkaminn
er bútaður niður í mismunandi einingar? Er þetta
tímaskekkja í aukinni umræðu um ólíka kynvitund
og kynhneigð einstaklinga? Allt eru þetta spurn-
ingar sem komu fram þegar við settum á laggirnar
nýtt kvenheilsuteymi innan Heilsugæslu höfuð-
borgarsvæðisins. En sem betur fer var jákvæð og
uppbyggjandi umræða meira áberandi og skilningur
á nauðsyn þess að sinna þessum málaflokki vel og
markvisst og viðtökurnar hafa verið frábærar.
Undanfarin ár hefur umfjöllun um kvenheilsu og
ekki síst breytingaskeið kvenna fengið aukið pláss
í umræðunni sem er að flestra mati löngu tíma-
bært. Með þessari samantekt langar mig að draga
fram þrjár megin ástæður þess að tímabært er að
huga að kvenheilsu sérstaklega í nálgun okkar í
heilbrigðiskerfinu. Í umræðunni hér er kvenheilsa
miðuð út frá heilsu einstaklinga sem fæðast með
XX litninga og eru skilgreind sem kvenkyns við
fæðingu og umfjöllunin tekur að mestu mið af
kyntvíhyggju. Og varðandi karlana, þá er gott að
taka fram að með því að veita konum þjónustu vegna einkenna og sjúkdóma sem
herja sérstaklega á konur er ekki verið að taka neitt frá körlum. Þjónusta til þeirra
minnkar ekki. Þar eru einnig tækifæri til að draga fram sérstöðu karllíkamans og
veita viðeigandi þjónustu.
Stýrikerfi líkamans
Stýrikerfi líkamans eru margskonar og taka þarf tillit til þeirra allra til að skilja
hvernig líkami okkar starfar. Kynhormónin eru mjög öflugt stýrikerfi og hafa áhrif á
alla líkamsstarfsemina. Stýrikerfi ólíkra kynja eru ólík og það er fyrsta ástæðan af
þeim þremur sem mig langar að nefna sem ástæðu þess að vert er að horfa til kven-
heilsu sérstaklega. Hormónin estrogen og prógesterón eru iðulega nefnd sem kven-
hormón og testósterón sem karhormón. Til að flækja þetta aðeins þá er testósterón
einnig hluti af kynhormónum kvenna og allt snýst þetta um magn, hlutföll, samspil
og sveiflur. Erla Björnsdóttir sýnir í mynd í sinni grein um svefninn hvernig breyti-
leiki kynhormóna í kvenlíkama er miklu meiri en breytileiki hormóna í líkama karla.
Áhrif þessa öfluga stýrikerfis á líkamsstarfsemi, tilfinningar, svefn, mataræði og
hreyfingu hefur lítill gaumur verið gefinn þar til nú. Hún setur þessar breytingar
fram í samhengi við breytileika árstíðanna sem er skemmtileg nálgun. Þannig er
líkami kvenna ekki bara með líkamsklukku sem hefur mismunandi hormónasveiflur
innan hvers sólarhrings heldur einnig mánaðarlegar sveiflur sem breyta því hvernig
líkaminn starfar.
Þessi breytileiki er líka mismunandi milli æviskeiða. Á frjósemistímabili eru
hormónasveiflur með nokkuð reglulegum hætti en svo þegar breytingaskeiðið fer
að segja til sín þá verða þessar sveiflur óreglulegar og ófyrirséðar. Birtingarmynd
Af hverju
kvenheilsa?
Erla Gerður Sveinsdóttir
heimilislæknir, lýðheilsu-
fræðingur og sérfræðilæknir við
offitumeðferð
Yfirlæknir Kvenheilsu hjá Heilsu-
gæslu höfuðborgarsvæðisins