Læknablaðið - 01.03.2023, Síða 11
L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109 127
R A N N S Ó K N
Edda Dufþaksdóttir1
næringarfræðinemi*
Eva Jacobsen1
næringarfræðinemi*
Ása Valgerður Eiríksdóttir2
lífeindafræðingur
Óla Kallý Magnúsdóttir3
næringarfræðingur
Kristín Ólafsdóttir2
lífefnafræðingur og dósent í eiturefnafræði
Þórhallur Ingi Halldórsson1
faraldsfræðingur og prófessor
*framlag þessara höfunda var jafnt við ritun greinarinnar.
1Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu í lyfja-
og eiturefnafræði, læknadeild Háskóla Íslands, 3Þróunarmiðstöð íslenskrar
heilsugæslu.
Fyrirspurnum svarar Þórhallur Ingi Halldórsson, tih@hi.is
Á G R I P
BAKGRUNNUR
Rannsóknir frá Færeyjum hafa sýnt fram á skýr tengsl milli útsetningar
móður fyrir kvikasilfri á meðgöngu og taugaþroska fósturs og hafa
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Umhverfisstofnun Bandaríkjanna
(US-EPA) lagt til mismunandi heilsuverndarmörk fyrir neyslu kvikasilfurs.
Margar þjóðir hafa gefið út ráðleggingar um fiskneyslu barnshafandi kvenna
og framkvæma reglulegt eftirlit með kvikasilfri í lífsýnum. Fáar slíkar
mælingar hafa verið gerðar hér á landi.
AÐFERÐIR
Slembidreifð íhlutandi rannsókn meðal 120 barnshafandi kvenna á
höfuðborgarsvæðinu. Íhlutunarhópurinn fékk ítarlega fræðslu um fiskneyslu
á meðgöngu en viðmiðunarhópurinn almenna fræðslu hjá mæðravernd.
Styrkur kvikasilfurs í hári var mældur við upphaf og lok rannsóknar, hann
borinn saman við heilsuverndarmörk og tengsl við fiskneyslu voru metin.
NIÐURSTÖÐUR
Meðalstyrkur (staðalfrávik) kvikasilfurs í hári við upphaf rannsóknar var
0,48 μg/g (0,33) sem er undir þeim styrk í hári sem heilsuverndarmörk
EFSA byggja á (1,8 μg/g) en 5% þátttakanda var yfir þeim styrk í hári sem
heilsuverndarmörk US-EPA byggja á (1,1 μg/g). Skýr tengsl (p<0,001) sáust
milli fiskneyslu og styrks kvikasilfurs í hári sem var að meðaltali 0,25 mg/g
hjá þeim sem borðuðu fisk ≤3/mánuði en 0,80 mg/g hjá þeim sem borðuðu
fisk 3-4 sinnum í viku. Þær konur sem sögðust hafa borðað hákarl nýlega
(3%) mældust með tiltölulega há gildi. Íhlutunin leiddi ekki til marktækrar
breytingar á styrk kvikasilfurs við lok rannsóknar.
ÁLYKTUN
Styrkur kvikasilfurs í hári barnshafandi kvenna er innan þeirra
heilsuverndarmarka sem gefin hafa verið út í Evrópu. Rétt væri að skerpa
enn frekar á ráðleggingum varðandi neyslu mengaðra tegunda eins og
hákarls.
Kvikasilfur í hári
barnshafandi kvenna
Inngangur
Kvikasilfur er þungmálmur sem finnst náttúrulega í umhverfinu
en losast einnig út í umhverfið meðal annars við eldgos, brennslu
jarðefnaeldsneytis og námuvinnslu.1 Kvikasilfur sem losað er
með þeim hætti safnast á endanum fyrir í hafi og vötnum þar
sem örverur umbreyta því í metýlkvikasilfur. Þetta lífræna form
efnisins hvarfast auðveldlega við prótein og magnast því styrk-
ur efnisins upp og verður mestur í tegundum sem eru hærra í
fæðukeðjunni.2 Metýlkvikasilfur frásogast greiðlega í mönnum
(~90%), fer auðveldlega bæði yfir blóð-heila þröskuld og í gegnum
fylgju.3 Hærri styrkur í naflastrengsblóði miðað við blóð móður
bendir til meiri útsetningar hjá fóstri.3
Há tíðni greininga alvarlegra taugasjúkdóma í Minamata-flóa
í Japan um miðja síðustu öld, sem rakin var til neyslu á sjávar-
fangi sem hafði mengast af kvikasilfri vegna losunar affallsvatns
frá nærliggjandi verksmiðju, varpaði ljósi á mögulega skaðsemi
kvikasilfurs í sjávarfangi. Rannsóknir á þessu slysi sýndu fram á
greinileg áhrif á taugaþroska fósturs í tilvikum þar sem lítil merki
eitrunar voru sjáanleg hjá móður.4 Síðari rannsóknir á áhrifum
metýlkvikasilfurs á taugaþroska barna hafa einkum beinst að
útsetningu á meðgöngu á minna menguðum svæðum þar sem
neysla sjávarfangs er algeng. Í framskyggnum ferilrannsóknum
frá Færeyjum á börnum sem fæddust í kringum 1990 komu fram