Læknablaðið - 01.03.2023, Síða 18
134 L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109
R A N N S Ó K N
Hera Birgisdóttir1 læknir
Thor Aspelund2,3 tölfræðingur
Reynir Tómas Geirsson4,5 læknir
1Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sauðárkróki, 2Miðstöð lýðheilsuvísinda, Háskóla
Íslands, 3Hjartavernd, 4kvennadeild Landspítala, 5læknadeild Háskóla Íslands.
Fyrirspurnum svarar Reynir Tómas Geirsson, reynirg@landspitali.is
Á G R I P
TILGANGUR
Mæðradauði er fátíður og alvarlegur atburður, – mælikvarði á umgjörð
þungunar og barneigna. Tilgangur rannsóknarinnar var að finna og
flokka tilvik á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum og skoða
breytingar dánarhlutfalla á 40 ára tímabili.
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Gögn frá Hagstofu Íslands um konur 15-49 ára sem létust 1985-2015
voru samkeyrð við fæðingaskráninguna og vistunarskrár til að finna
konur sem létust á meðgöngu, ≤42 dögum eða innan 43-365 daga
frá fæðingu barns eða lokum snemmþungunar. Fyrir árin 1976-1984
var leitað handvirkt. Sjúkraskrár og krufningaskýrslur voru skoðaðar.
Dauðsföllin voru flokkuð í bein, óbein eða ótengd og ákvarðað hvort
mæðradauði var snemm- eða síðkominn.
NIÐURSTÖÐUR
Alls létust 1600 konur 15-49 ára, þar af 48 í þungun eða á árinu eftir
hana. Fæðingar voru 172.369 og heildartíðni dauðsfalla mæðra ≤365
daga var 27,8/100.000 fæðingar. Mæðradauði samkvæmt skilgreiningu
Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (bein/óbein tilvik ≤42 dagar) varð í
14 tilvikum, eða 8,1/100.000. Tíðnin lækkaði milli fyrsta og síðasta 10
ára tímabilsins, með mestri lækkun í upphafi og síðan minni lækkun
til loka rannsóknartímans. Beintengd dauðsföll voru 6, óbeint tengd
20 og ótengd 22 (slysfarir, sjúkdómar). Orsakir beintengdra dauðsfalla
voru alvarleg meðgöngueitrun, lungnablóðrek og fylgjuvefskrabbamein.
Óbeint tengd dauðsföll urðu vegna undirliggjandi sjúkdóma, svo sem
krabbameins, sykursýki, heila/hjartasjúkdóma og sjálfsvíga. Engin kona
lést í tengslum við utanlegsþungun, asablæðingu eða svæfingu/deyfingu.
ÁLYKTANIR
Mæðradauði á Íslandi er með því lægsta sem þekkist. Konur létust vegna
meðgöngunnar, en einnig af versnun undirliggjandi sjúkdómsástands
eða ótengdum ástæðum. Árvekni þarf sem fyrr vegna kvenna í
áhættuhópum og gagnvart alvarlegum fylgikvillum þungunar og
barneigna.
Mæðradauði á Íslandi
1976-2015
Inngangur
Mæðradauði er enn vandamál í heiminum.1,2 Þessi sorgartilvik
eru nú sjaldgæf frá því sem var fyrir aðeins 100-150 árum á Ís-
landi,3,4 vegna bættra þjóðfélagsaðstæðna, mæðraverndar og nú-
tíma heilbrigðisþjónustu. Margfalt betri aðbúnaður og menntun
hefur bætt lýðheilsu. Tilkoma getnaðarvarna og lækkandi barna-
dauði hefur skilað sér í mun lægri þungunar- og fæðingatíðni,
sem hefur haft áhrif til hins betra í nær öllum löndum, einnig
þeim sem búa við lágan þjóðarauð og misskiptingu gæða.2,5,6 Al-
þjóðaheilbrigðisstofnunin áætlaði að 295.000 konur hefðu látist
í heiminum í tengslum við meðgöngu og fæðingu árið 2017, um
800 á hverjum degi. Það voru samt 35% færri en létust árið 2000,
þegar heildartalan var 451.000.7
Alþjóðlegur mælikvarði sem kallast mæðradauðahlutfall (ma-
ternal mortality ratio, MMR) er notaður í samanburði milli landa.
Hlutfallið var 211/100.000 lifandi fædd börn fyrir allan heiminn
árið 2017.7 Á heimsvísu hafa mæðradauðatölur farið hratt lækk-
andi síðustu tvo til þrjá áratugi, einkum í auðugri löndum.7,8
Vandamálin eru mest í fátækari og stríðshrjáðum löndum.7,8
Langflestar konurnar, um 99%, létust þar sem fátækt er útbreidd
og menntunarstig kvenna slæmt.5-7 Mæðradauði verður samt
hvarvetna, líka á betur settum svæðum heimsins. Alls staðar er
þörf á að fylgjast með og grandskoða slík tilvik.
Áður voru einungis talin dauðsföll í sýnilegri þungun, jafn-
vel aðeins í því sem þá var kallað fæðing (≥28 vikna meðganga)
og aðeins að 42 dögum frá fæðingu (6 vikum).6,9 Síðustu áratugi
hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælt með því að talin séu
öll tilvik sem tengjast greindri þungun, óháð því um hverskyns
þungun var að ræða eða tímalengd hennar. Dauðsföll geta verið