Læknablaðið - 01.03.2023, Síða 46
162 L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109
Halldóra Ólafsdóttir
geðlæknir
Hvers vegna geðlækningar?
Þegar litið er yfir farinn veg hef ég
enga viðhlítandi skýringu á því að ég
varð geðlæknir. Ekki var það sérlega
grunduð ákvörðun, fremur röð tilvilj-
ana og einhvers konar innsæi sem erfitt
er að útskýra með rökum. Eða bara
heppni, glópalán? Þegar leið að lok-
um læknanámsins var ég komin með
áhuga á fjórum til fimm sérgreinum,
geðlækningum þar á meðal, og reyndi
fyrir mér á nokkrum sviðum, bæði sem
kandídat og reyndur deildarlæknir.
Ég hafði lengi blendna afstöðu til þess
að læra geðlækningar. Mér varð snemma
ljóst að sú grein læknisfræðinnar var
sett skör neðar en aðrar sérgreinar meðal
kolleganna. Sumir þeirra reyndu í
fúlustu alvöru að telja mér hughvarf
þegar ég var komin með námsstöðu er-
lendis og þótti mér það talsvert skondið.
Mér hafði sjálfri fundist gaman og
spennandi að vinna á Kleppi. Þar komu
til skoðunar fjölbreytt og óvenjuleg
vandamál, sum mjög erfið hjá ungu
fólki þar sem mikið var í húfi. Engir
tveir sjúklingar eins og smám saman fór
maður líka að sjá manneskjuna á bak
við sjúkdóminn sem var þá bara eins og
við hin. Margir reyndust líka greindir,
jafnvel afburðagreindir, skemmtilegir og
uppátækjasamir. Þeir voru ólíkir þeirri
fordómalituðu mynd sem ég hafði áður
gert mér af fólki með geðsjúkdóma.
Þá féll mér vel við geðlæknana, góðir
húmoristar þar á meðal, tóku sjálfa sig
ekki of hátíðlega og margir rétt svona
mátulega skrýtnir. Taldi mig falla vel
inn í hópinn. Starf aðstoðarlæknis á
Kleppi gat hins vegar verið erfitt, langar
og leiðinlegar sjúkraskýrslur, flókið að
komast að greiningu eða annarri niður-
stöðu og fáar sem engar rannsóknir til að
styðjast við. Ég skildi lítið í meðferðinni
nema helst lyfjameðferð þar sem ég naut
góðrar tilsagnar Gísla J. Þorsteinssonar
geðlæknis. Þá vorum við unglæknarnir
oft miklu þreyttari í lok vinnudags en á
öðrum deildum. Var þá eins og sorgir og
þjáning sjúklinganna sætu föst í haus og
hjarta unglæknisins löngu eftir eftir að
vinnudegi lauk.
Við vorum snemma látin axla ábyrgð
Ég tók þó geðlæknisfræðina ekki að fullu
í sátt fyrr en á námsárunum í Bandaríkj-
unum. Kennsla og handleiðsla var oftast
framúrskarandi, við vorum snemma látin
axla ábyrgð og fengum mjög víðtæka og
fjölbreytilega reynslu, jafnt í viðtalsmeð-
ferð, geðlyfjameðferð, atferlismeðferð
og rafmeðferð auk starfa á sérhæfðum
deildum og í teymum, sem ekki þekktust
þá hér á landi.
Að loknu sérnámi, með amerískt
sérfræðipróf upp á vasann og full af
sjálfstrausti, réð ég mig til starfa á geð-
deild Landspítala og starfaði þar í 33 ár
og samhliða á stofu í 17 ár. Eins og flestir
nýbakaðir sérfræðingar fyrr og síðar
áttaði ég mig fljótlega á hversu mikið
vantaði upp á að ég væri fullþroska sér-
fræðingur. Ábyrgðin virtist stundum
yfirþyrmandi og oft var sárt að geta ekki
hjálpað sjúklingunum meira en raun
varð á. Góð og þörf lexía í auðmýkt, ekki
síst í fagi þar sem svo mikið vantar upp
á vísindalega þekkingu og rannsóknir
miðað við aðrar greinar læknisfræðinnar.
Stundum þurfti að byggja greiningu og
meðferð á tilgátum, reynslu og hyggjuviti
og svo er að sumu leyti enn. Þessar tak-
markanir fræðanna kveiktu þó hjá mér
lifandi áhuga á faginu, sem ekki hefur
dvínað. Mér þótti fátt skemmtilegra en að
lesa um geðlæknisfræði, um nýjungar og
framfarir en einnig um gamlar kenningar
og sögu fagsins.
Margt hefur breyst frá þeirri geðlækn-
isfræði sem ég lærði á árunum 1980-1985
þótt viss grunnur hafi staðist tímans
tönn, einkum í klínískum vinnubrögð-
um. Það hafa verið forréttindi að fá að
fylgjast með þróun fræðanna og marg-
víslegum nýjungum. Flest hefur horft til
bóta en sumt var að mínu mati betur gert
á árum áður, einkum þegar kemur að
aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk. Það
var meiri ró yfir vötnunum, ekki skortur
á leguplássum og flestir sjúklingar fengu
þann dýrmæta tíma sem þurfti til að láta
sér batna.
Myndi ég mæla með faginu fyrir
unga lækna? Það var lán mitt að verða
geðlæknir, en hver tekur ákvörðun fyrir
sig. Vitna að lokun frjálslega í þekkta
auglýsingu frá RÚV: „Geðlækningar eru
fag fyrir forvitna.“
S É R G R E I N I N S E M É G V A L D I
Sérfræðilæknar svara: - Hvernig varð sérgrein þeirra fyrir valinu?
Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?