Bautasteinn - 01.04.2004, Qupperneq 8
8
Ánægjan að launum
Alla þessa vinnu hefur Silli unnið á eigin
kostnað og hann sér ekki eftir því. „Það
var áhuginn sem dreif mig áfram og það
að hafa eitthvað að gera. Þetta var virki-
lega skemmtilegt verk og gaman að
grúska í þessu. Ég hef lagt í töluverðan
kostnað við þetta allt saman og margar
ferðir, en ég sé ekki eftir því. Til dæmis
fann ég 65 leiði sem ekki höfðu verið
skráð á Einarsstöðum í Reykjadal bara
með því að ferðast um og tala við ættingja.
Það voru mín laun og svo hef ég hlotið
miklar þakkir fyrir þessa vinnu frá ýmsu
fólki. Ég kynntist líka mörgu góðu fólki
og hafði gaman af því.“
Silli vinnur á gamla Machintosh tölvu
sem einhverjum þætti nú betur geymd á
safni en í skráningarvinnu, en Silli segir
hana duga vel. „Það var samþykkt á hér-
aðsfundi að gefa mér nýja tölvu en ég
vildi ekki þiggja það og vinn enn á þá
gömlu. Ég hef samt fylgst með þróun
mála, t.d. vefnum gardur.is eins og ég get.
Sá vefur er góður, en það er bara
svo mikið verk óunnið hvað legstaða-
skrárnar varðar. Víða eru þær ekki haldn-
ar eins og vera ber og ég skora á athafna-
fólk að feta í fótspor mín og safna þessum
upplýsingum og skrá þær. Þetta er tilvalið
hugðarefni t.d. fyrir eldra fólk sem er hætt
að vinna og vill nýta tíma sinn til gagn-
legra hluta. Það væri upplagt fyrir fólk að
fara í þetta því víða er pottur brotinn.
Kirkjubækurnar eru til og þar er hægt að
finna upplýsingar til að vinna út frá, ég hef
fengið mikið af ljósritum af slíkum bókum
frá Þjóðskjalasafninu, auk þess að afla
upplýsinga með viðtölum. Mín kynslóð
hefur að vissu leyti brugðist hvað skrán-
ingarnar varðar og ég held að það væri
mun betra fyrir fólk sem dvelur t.d. á elli-
heimilum að hafa eitthvað eins og þetta
fyrir stafni. Þau ár sem ég hef unnið í
þessu hef ég alltaf vitað að kvöldi þegar ég
leggst til svefns hvað ég ætla að gera dag-
inn eftir, en margt af gamla fólkinu sem
dvelur á elliheimilunum fer bara í graut-
inn klukkan níu og sest svo og bíður eftir
hádegismatnum.“ -Þessi vinna hefur þá
veitt þér mikla lífsfyllingu? „Já, tvímæla-
laust, svo mikla að ég hef þurft að vera
með sérstaka klukku sem hringir kl. 12 til
að minna mig á hádegismatinn!“
Ljósmyndun, saumaskapur
og umbrot
Silli lætur legstaðaskráninguna ekki
duga sér og hann hefur tekið mikið af
myndum í gegnum tíðina. Hann var frétta-
ritari Morgunblaðsins í 60 ár og í seinni
tíð hefur hann gert nokkurs konar heim-
ildarmyndir þar sem hann tekur lit-
skyggnumyndir (slides) og skrifar texta
við. Þannig hefur hann skráð nokkur
sveitarfélög, byggðir og mannlíf. Hann
tekur líka að sér að safna minningargrein-
um og brjóta þær um og setja í möppur í
stærðinni A4 eða A5 fyrir aðstandendur
og segir hann það mjög svo þakklátt verk.
Og ekki má gleyma því að hann er lista-
maður líka og hefur saumað út margt fal-
legt í gegnum tíðina. Núorðið saumar
hann aðallega krosssaum og hlustar á út-
varp á kvöldin því hann segist sjónvarps-
maður lítill. Hann býr enn í húsinu sem
hann ólst upp í og stofurnar prýða falleg
húsgögn frá foreldrum hans, ömmu og
afa. Mikið af bókum er að finna heima hjá
Silla og ósjálfrátt gengur maður út frá því
að Silli sé mikill bókaormur, en hann gerir
lítið úr því: „Ég keypti mikið af bókum
þegar ég var ungur og ætlaði að lesa þær
þegar ég yrði gamall, en ég hef ekki
komist í það ennþá,“ segir Silli og brosir
út í annað. Hann er þó mikill áhugamaður
um alls kyns töl og hefur safnað ýmsum
slíkum bókum, t.d. Læknatali, Nemenda-
tölum ýmiss konar og fleiru.
Silli er svo sannarlega merkilegur mað-
ur sem hefur lagt sitt af mörkum til samfé-
lagsins. Hann er sannkallaður innblástur
til fólks sem hefur lokið hefðbundinni
starfsævi og vonandi verður vinna hans
öðrum hvatning til dáða. Við kveðjum
Silla og þökkum innlitið í forvitnilegan og
fróðlegan heim þessa afkastamikla manns
sem enn er að.
Viðtal og myndir: Hulda G. Geirsdóttir
Á þessari mynd sést vel hvernig Silli myndi
vilja að allir heimagrafreitir yrðu merktir,
með koparskilti á stein. Litla stúlkan á
myndinni var á ferð með afa sínum, Birki
Fanndal sem smellti af myndinni, en
stúlkan heitir Athena Neve. Steinninn
stendur við Grundarhól, en hjónin Bragi
Benediktsson og Sigríður Hallgrímsdóttir á
Grímsstöðum á Fjöllum eiga veg og vanda
af þessari framkvæmd.
Silli er listamaður í höndunum og saumar
mikið út. Þessi stóll er hans verk.
Legsteinagerðin Sólsteinar hefur flutt um set í kjölfar væntanlegra byggingarframkvæmda í landi Lundar í Kópavogi þar sem
fyrirtækið hefur rekið starfsemi sína undanfarin átta ár. Sólsteinar eru nú staðsettir við Kársnesbraut 98 sem er vestar í Kópa-
vogi og þar er hægt að koma og skoða úrval steina í rýmri og betri sýningaraðstöðu en áður var í boði.
Að sögn Þóris Barðdal eiganda fyrirtækisins er áhersla lögð á persónulega þjónustu, en Sólsteinar eru lítið fjölskyldufyrirtæki
sem Þórir setti á stofn eftir að hafa numið höggmyndalist erlendis og búið víða um heiminn. Í dag segir hann steinsmíðina hafa
náð yfirhöndinni og listin sé nokkurs konar aukabúgrein. Sólsteinar leggja meginháherslu á granít, sem Þórir segir sterkasta og
endingarbesta grjótið. „Við bjóðum upp á granít alls staðar að úr heiminum og erum með fjölbreytt úrval lita, gerða og forma.
Ég hvet fólk til að koma og heimsækja okkur á nýja staðinn og skoða úrvalið. Við tökum vel á móti öllum.“ Einnig er hægt að
skoða myndir af steinum á heimasíðu fyrirtækisins www.solsteinar.is.
Sólsteinar á nýjum stað