Bautasteinn - 01.04.2004, Page 16
16
Eins og áður hefur verið sagt frá í Bautasteini verður haldin
norræn ráðstefna um málefni kirkjugarða og bálfarastofa dagana
24. - 27. ágúst 2005 í Reykjavík.
Ráðstefnur þessar eru haldnar á fjögurra ára fresti og var hún
síðast haldin í Åbo í Finnlandi í september 2001.
Í lok þeirrar ráðstefnu var boðið til þinghalds á Íslandi síðsum-
ars 2005 og fer nú að hilla undir að allt að 500 þátttakendur
bregði sér yfir hafið og heimsæki okkur. Mikill áhugi er á ráð-
stefnunni á hinum Norðurlöndunum og ekki vafi að hér verður
gestkvæmt.
Ráðstefnur þessar hafa verið haldnar frá 1985, þá í Finnlandi,
1989 í Stokkhólmi, 1993 í Noregi, Kaupmannahöfn 1997 og loks í
Åbo 2001 eins og áður sagði. Aðili af hálfu Íslands er Kirkju-
garðasamband Íslands og situr Þórsteinn Ragnarsson í stjórn
norrænu samtakanna NFKK (Nordiska Forbundet för
Kirkogårdar och Krematorier).
Samið hefur verið við ráðstefnuskrifstofuna Congress um allt
skipulag og undirbúning. Verður ráðstefnan haldin í Háskólabíói.
Í bígerð er að bjóða þátttakendum frá Færeyjum og Grænlandi
en fulltrúar þaðan hafa ekki áður setið ráðstefnur þessar.
Dagskrá þingsins er í undirbúningi og fyrirhugað að vanda til
verka. Fjallað verður sérstaklega um greftrun og útfarasiði á nor-
rænum slóðum. Mun m.a. verða fjallað um íslenska greftrunar-
siði fyrr á tímum og mun fulltrúi frá Þjóðminjasafninu verða einn
af aðalfyrirlesurum þingsins.
Á þing sem þetta eiga fjölmargir erindi. Má þar nefna stjórn-
endur og starfsmenn kirkjugarða, garðyrkjufræðinga, arkitekta
o.fl. Fyrirhugað er að hafa sýningu á ýmsum vörum og áhöldum
sem kirkjugarðar nota og er sú sýning jafnframt í undirbúningi
og verður hún á sama stað.
Allur undirbúningur verður vandaður þannig að þingið verður
öllum aðstandendum til sóma. Áhugi nágranna okkar er mikill,
bæði á málefnum kirkjugarða á Íslandi og líka á landi og þjóð.
Ísland og kirkjugarðar hérlendis hafa upp á margt að bjóða og
getum við stolt sýnt gestum menningararfleið þá sem er í kirkju-
görðum okkar. Þá er ekki að efa að starfsmenn íslenskra kirkju-
garða geta mikið lært af samstarfsfólki frá öðrum löndum.
Þá er bara að taka frá 35. viku ársins 2005 og mæta til þings
dagana 24. - 27. ágúst.
Norræn ráðstefna í Reykjavík árið 2005