Helgarpósturinn - 09.05.1985, Blaðsíða 15

Helgarpósturinn - 09.05.1985, Blaðsíða 15
irsemi taugar jeftir Sigmund Erni Rúnarsson — mynd Jim Smart | Jón Hermannsson telst til frumkvöðlanna í íslenskri kvikmyndagerð og só maður sem enst hefur lengst í henni án pásu. Hann er aðeins farinn að grána í vönaum eftir framleiðslu fimm bíómynda f fullri lengd, en við útlit hans er annars það að athuga að hann vantar einn og annan fingur á hægri hönd. Puttana missti hann þegar vélsög við Melaskólann í hverfinu heima vakti athygli sex ára snáða. Hún var í gangi. Annars á hann að baki býsna litríka reynslu. Eftir landspróf fór hann beint á sjóinn sem hálf- drættingur á togara, síðan í verkamannasnap á höfninni og svo keyrði hann öskubíl eitt sumar hjá borginni. Árið 1958 kláraði hann loftskeyta- próf hjá Pósti & síma og vann næstu tvö árin hjá Landhelgisgæslunni í tólf mílna stríðinu. Svo tók við þriggja ára nám í tæknifræði í Englandi. Hann hélt hinsvegar loftskeytakunnáttunni við með því að beita henni á togurum á sumrum þessara námsára. Og strax að afloknu því námi fékk hann inni sem fyrsti stúdíóstjórinn hjá sjón- varpinu. Það var árið 1965; þessi nýi miðill að byrja og reynslan engin. Og meðal annars þess- vegna var hann sendur með öðrum út til Köben að læra undirstöðuatriðin í stúdíóvinnu hjá danska sjónvarpinu. Upp úr þessu fór hann að róast. Var hjá tívíinu til 76, þar af frá 70 sem yfirmaður kvikmyndadeildar. Samt sinnti hann þessu ekki óskiptur, hafði nefnilega komist í kynni við Þránd Thorodds um 70 og brasaði síð- an með honum í gerð minni myndverka. Og áfram eftir að hann sagði upp hjá sjónvarpi 76. Hvorki meira né minna en „ísjakinn" hét þetta fyrirtæki þeirra. Starfsemin fólst að miklu leyti í því að stússa með útlendum fréttamönnum sem hingað komu að snapa. Og svo annað sem til féll. Annars var fyrsta stóra verkefni Jóns Her- mannssonar á sviði filmunnar þegar hann lagði giska einsamall í gerð myndar um feril fyrsta ný- sköpunartogarans, Ingólfs Arnarsonar; allt frá því að þetta merka skip kom fyrst fánum prýtt til hafnar og til þess er það var sent ryðgað í brotajárn. Þá mynd lauk Jón við um 1970. Og þannig rann saman kvikmyndaáhuginn og tog- araástríðan! Svo kom Ágúst Þetta er hratt farið yfir sögu. Það er ástæða til þess að hægja á við seinni hluta áttunda áratug- arins. Indriði G. heitir maður: „Einhverntíma um þetta leyti vorum við að velta því mikið fyrir okkur að gera bíómynd um íslenskt efni fyrir ís- lenskan markað,“ segir Jón afslappaður í tali, eins og hann er alla jafna. „Svo kom Ágúst Guð- mundsson heim frá námi og við þremenning- arnir gerðum með okkur félag. Svo látlaust var nú þetta upphaf íslenska kvikmyndaævintýris- ins.“ — Hvernig tókst að fjármagna þá hugmynd að filmgera Land og syni Indrida? „Það var svo annað mál. Þetta var stórt happ- drætti þá, eins og reyndar öll bíómyndagerð er og verður hérlendis. Okkar lán var að fá fjóra banka í lið með okkur til að dreifa áhættunni, auk þess sem Kvikmyndasjóður varð til um þetta leyti í sinni upprunalegu rnynd." — Og þú varst pródúsentinn. I hverju felst sá starfi? „Hann felst náttúrlega í því að halda utan um pyngjuna. Og svo er þetta líka óskaplega mikið útvegunarstarf, að minnsta kosti eins og því er háttað hérlendis. Vanalega er til dæmis ekkert til af tækjum og dóti sem til þarf og því þarf að redda. Þetta er líka mikið skipulagsstarf, sem að vísu leggst jafnt á framleiðandann og leikstjór- ann.“ — Var ekkert hik á ykkur þremenningum í fyrstu? „Jú, vissulega. En við hefðum heldur aldrei farið af stað með þetta, ef við hefðum ekki haft fulla trú á því að ævintýrið endaði vel. Ég sá strax mikla möguleika í þessari sögu Indriða. Mér fannst hún hafa allt til þess að verða að góðri filmu, fyrir utan það að bókin hafði verið mikið lesin og var því þekkt. Sögur eru misjafn- lega filmískar. Land og synir er afskaplega film- ísk. Hún byggist voðalega mikið upp á staðarlýs- ingum og umhverfi. Það er plúsinn." Forin forvitni — Endadi þetta œvintýri svo vel aö þínum dómi; ég á viö móttökurnar? „Móttökurnar komu mér ekki á óvart. Ég var allan tímann viss um að íslendingar hefðu áhuga á að sjá sínar eigin kvikmyndir að sama skapi og íslenskur leikhúsáhugi hefur alltaf ver- ið mikill. Fólk vill ekki eingöngu vera bundið af erlendum áhrifum. Fólk vill íslenskt. Ég varð þess kannski mest var í áhuganum sem allur al- menningur sýndi strax við gerð Lands og sona. Það voru allir boðnir og búnir til að hjálpa. Og svona er þetta ennþá, þó nærfellt tuttugu ís- lenskar bíómyndir séu að baki. Hjálpsemin, greiðviknin og áhugi almennings á því að styðja uppgang íslenskrar kvikmyndagerðar er það sem best hefur dugað henni." — Er áhuginn eitthvað aö minnka? „Þessu er ekki auðvelt að svara. Víst er að for- vitnin er farin, en engu að síður held ég að áhug- inn sé ennþá fyrir hendi. Og það verður hann áfram, svo framarlega sem menn bera sig eftir því að bjóða fólki upp á athyglisverða hluti." — Þad hefur verid léleg aösókn að síðustu þremur íslensku myndunum. Bendir það til þess að þœr séu ekki athyglisverðar? „Við sem unnum að þeim teljum þær að sjálf- sögðu vera fullrar athygli verðar. Ánnars hefð- um við ekki gert þær. Én okkur getur náttúrlega skjátlast eins og öðru fólki." — Kanntu uppskriftina að mynd sem örugg- lega gengur á íslandi? „Ég hef það á tilfinningunni að í þessu þjóð- félagi þar sem fólk leggur mjög hart að sér til að lifa, sé líklegast að mynd sem slær á mjög létta strengi standi undir sér. Við skulum bara segja grínmyndir." — Ber þá að einblína á grín, buddunnar vegna? „Fólk þreytist aldrei á því að skemmta sér. Það eitt er á hreinu hér uppi á Islandi." — Og þið hjá Nýju lífi, œtliö þið nœst að gera grínmynd? „Ég reikna með því, já, hvernig svo sem sú gleðimynd verður. Við erum komnir með góða Yeynslu á þessu sviði, enda sinnt þessum þætti kvikmynda meira og markvissar en aðrir hér á landi.“ Útsjónarsemi og taugar — Ég nefndi áðan að aðsókn að þremur síð- ustu myndum hérlendis hafi verið léleg. Að vísu hefur Skammdegið ykkar sótt mjög í sig veðrið síðustu daga. Eru kvikmyndagerðarmenn dauf- ir í dag? „Það er alltaf slæmt að koma með íslenska kvikmynd á markað, ef næsta innlenda mynd þar á undan hefur gengið illa, að ekki sé talað um ef jafnvel tvær þær síðustu hafa hlotið litla aðsókn. Þá er sjaldnast von á góðu, vegna hætt- unnar á því að vantrú hafi gripið um sig meðal fólks á íslensku efni almennt. Þetta held ég að hafi gerst núna, og það er miður. Það eykur svo hvorki á bjartsýni manna né gefur íslenskri filmugerð gott orð út á við, þegar úthlutun Kvik- myndasjóðs á svona tímum er þannig varið að mestu fé er veitt til að greiða upp skuldir gam- alla mynda. Nei, menn eru svo sem ekkert að ærast af bjartsýni, en það er heldur enginn upp- gjafartónn í mönnum. íslensk kvikmyndagerð lognast ekkert út af úr þessu." — A að sjá til þess með ríkisstyrkjum? „Það finnst mér ekki. Það er gagnstætt mín- um skoðunum að ríkið eigi að blanda sér inn í listina sem þrífst í þessu landi. Og þá er ég að tala um allar listgreinar. Æskilegast er að listin geti staðið á eigin fótum frekar en að markast misjafnlega af allskonar sjóðum landsmanna. Sumar listgreinar þrífast þó að vísu ekki án ein- hverra styrkja vegna fámennis í landinu. En þar tel ég kvikmyndagerðina ekki með. Hún er hreinlega það sterkur miðill, ef rétt er að staðið, að engrar miðstýringar þarf með. Og þó hún kunni að vera í einhverri ládeyðu núna, þá er ekkert sem bendir til þess að hún geti ekki hafið sig upp að nýju af eigin afli.“ — Þannig aö stórhugurinn og hugsjónin lifir enn með íslenskri kvikmyndagerð? „Stórhugurinn er enn fyrir hendi, en hvort getan er það að sama skapi, er lítið hægt að segja um. Hugsjóninni verða fjármunir og ökonómía að fylgja, að öðrum kosti leiðir hún ekki til neins, og hvort eitthvert samband verður þarna á milli í framtíðinni, er enn erfiðara að spá um. Við verðum að h.afa það í huga að kvik- myndagerð er sú listgrein þar sem menn hætta sér alltaf út á ákaflega hálan ís. Þetta vinnst ekki við önnur skilyrði. Og það sem til þarf ef vel á að takast, er tvennt: útsjónarsemi og taugar." — Ert þú að fara á taugum eftir framleiðslu fimm mynda? „Ég held ekki, að minnsta kosti er ég ennþá í svo andlega ágætu jafnvægi að ég hyggst halda áfram. Ég get ekki hætt.“ — Háður þessu? „Það held ég hljóti að vera.“ Filman heimilisfórnar virði! — Ég œtla að víkja talinu aðeins að Útlagan- um, áður en þú segir mér meira afsjálfum þér. Þetta er stœrsta verkefnið sem íslenskir kvik- myndagerðarmenn hafa ráðist í fram að þessu... „Og ég er að vona að menn leggi ekki út í stærra verk, þeirra vegna.“ — Hvað áttu við? „Það bara gengur ekki að gera stærri mynd en Útlagann á Islandi. Á núvirði kostaði álíka mynd um 32 milljónir — sem er næstum helmingi meira en allur Kvikmyndasjóður hafði til úthlut- unar síðast — og miðað við núgildandi bíómiða- verð — sem er 230 krónur, en af því fær fram- leiðandinn 160 — þyrftu yfir 200 þúsund manns að borga sig inn á verkið. Það þýddi að aðstand- endur myndarinnar yrðu að gera sér vonir um að sjúklingar og gamalmenni mættu í bíóið, fyrir utan alla aðra landsmenn!" — Þá ert með öðrum orðum að segja að þú hafir ekki verið ánægður með aðsóknina á Út- lagann? „Ég var jafn ánægður með hana og aðstæður leyfðu. Það komu eitthvað um 80 þúsund manns á Útlagann hér heima. Eftir að þeim sýningum lauk nam tapið á myndinni nálægt fimmtán milljónum á núvirði... — Var þetta þá þess virði? „Við sem stóðum að Útlaganum unnum að myndinni í tvö ár án þess að fá greyddan eyri all- an þann tíma. Heimilisskuldirnar hlóðust því upp hjá hverjum og einum. í því fólst mestur skaðinn. Ég var það lánsamur að konan mín — Kolbrún Jóhannesdóttir — var í vinnu á meðan á þessu stóð, þannig að það var hægt að skrapa saman í mat og halda húsinu. Og hvort ein bíó- mynd getur nokkurntíma orðið þess virði að heimili manns sé næstum fórnandi fyrir hana — því er kannski best svarað með annarri spurn- ingu: Gengur þetta öðruvísi?" — Kvikmyndafélagið sem stóö að gerð Út- lagans gaf upp öndina að honum sýndum. Hversvegna? Var tapið of stórt eða ...? „Þetta var að vissu leyti uppgjöf. Og mikil mis- tök að mínu viti. Við hefðum átt að leggja strax út í gerð annarrar myndar, þrátt fyrir allar skuld- irnar. Grínmynd hefði til dæmis átt að koma til greina. Það er afskaplega bagalegt að leggja nið- ur fyrirtæki í kvikmyndagerð sem á annað borð er komið vel af stað. Það kostar svo mikið að byrja. Þarna vorum við búnir að koma okkur upp tækjum, úrvalsgóðu og samæfðu liði og ég er viss um að hugmyndirnar hefði ekki vant- að ef á hefði reynt. En það er gott að vera vitur eftir á ...“ Ekki mikið fyrir afsakanir — Snúum okkur þá að þér: Þinn ferill hefur verið litrikur. Hefur hann að einhverju leyti verið tilviljanakenndur? „Hann var það kannski í upphafi, eins og ég býst við að sé hjá flestum. Þáttaskil í mínu lífi voru þegar ég hóf störf hjá sjónvarpinu. Eftir það hefur þetta verið markviss stefna í þá átt að framleiða skemmtiefni fyrir fólk.“ — Líturðu á þig sem listamann? „Eigum við ekki frekar að segja listiðnaðar- mann!“ — Sem jafnan hefur staðið baksviðs? „Já, og þar hefur farið vel um mig. Ég get ekki ímyndað mér að ég fái notið þess að vera í sviðs- ljósi. Ég er ekki mjög hégómagjarn maður." — En gremst þér aldrei sú staðreynd að það eru svo til einvörðungu leikararnir og leikstjór- inn sem fá klappið að frumsýningu lokinni? „Nei, nei. En ég verð hinsvegar að segja, að mér fannst alveg óþarfi að taka þennan sið upp úr leikhúsi og yfirfæra á kvikmyndirnar þegar þær komu til sögunnar. Þessi siður spilar sjálf- sagt á einhverja strengi leikstjóra og leikara, en hann truflar mig ekkert í sjálfu sér.“ — Ertu kvikmyndafrík? Eg á til dœmis við það hvort þú setjist fyrir framan heimavídeóið að af- loknum vinnudegi og standir ekki upp fyrr en undir háttatíma? „Það verður nú að segjast alveg eins og er, að ég góni ekki mikið á vídeó, en það hefur hins- vegar ekkert með áhuga minn á góðum bíó- myndum að gera. Nei, það er einna helst að ég setjist niður með bók þegar ég kem heim til mín eftir tíu til tólf tíma vinnudag." — Hverskonar bók? „Ég les allskonar bækur, en yfirleitt ekki á ís- lensku. Ég sæki mikið í afþreyingarefni á ensku." — Hvernig gœi ertu? „Ég held að mér sé óhætt að segja að ég sé ró- legur að eðlisfari. Svo er ég ofboðslega mikill bjartsýnismaður. Til marks um það er að ég er ennþá á kafi í kvikmyndagerð." — Púarðu á svörtu hliðar tilverunnar? „Ja, það er að minnsta kosti ekki hægt að segja að ég hafi lagt svartsýnisraus mikið fyrir mig um dagana. En auðvitað skiptast á skin og skúrir í mínu lífi eins og annarra. Og eitt í viðbót, fyrst þú ert að leita eftir mínum persónuleika: Ég er ekki mikið fyrir það að vera með afsakanir, að því leyti að ef eitthvað fer miður sem ég hef tekist á við, þá verður bara að hafa það. Afsakan- ir við siíkar aðstæður, eins og þær, að þetta hafi nú farið svona vegna þessa og hins, gefa ekki vísbendingu um það að maður ætli að læra eitt- hvað af mistökunum." Tenadur Flokknum frá barnæsku — Jón Hermannsson er fœddur hvar? „I Vesturbænum, nánar til tekið á Melunum í þann mund er seinna heimsstríð skall á. Camp Knox og slík sóldátasvæði voru mínir uppeldis- staðir." — Og fórst í landsprófen tókst þér svo langa pásu í námi. Af hverju? „Sjórinn heillaði svo mikið. En svo kom ég bakdyramegin að skólunum. Og sé ekki eftir því. Það reyndist mér ákaflega vel að hafa kynnt mér skóla lífsins áður en ég prófaði hina.“ — Áttirðu ekki að verða lögfrœðingur? „Ja, ég er kominn frá miklu menntaheimili. Og lögfræðin, já. Pabbi, Hermann Jónsson, var lögfræðingur, mamma, Auður Auðuns, er lög- fræðingur, afi minn var líka lögfræðingur, meira að segja langafi minn einnig. Ég býst þannig við að það hafi einhverjar vonir verið bundnar við það að lögfræðiáhugi leyndist með mér. Hins- vegar var þessari fræðigrein aldrei haldið að mér. Og sama gilti reyndar um allt nám. Það var aldrei nein pressa á mig í þeim efnum. Nú, svo var ég bara enginn námsmaður. Ég var afskap- lega mikill prakkari á mínum unglingsárum. Og baldinn í meira lagi." — Móðir þín var fyrsti kvenráðherra landsins. Hafði pólitík mikil áhríf á strákinn Nonna? „Hún hafði vissulega mikið að segja í öllu mínu uppeldi. Ég ólst upp í mjög pólitísku um- hverfi og alls kyns pólitískum vangaveltum. Ég var samt ekki beittur neinum áróðri. .. — En varð sjálfstœðismaður úr þér? „Já, kannski í þröngum skilningi þess orðs.“ — Hvað áttu við? „Ég er mjög ópólitískur í hugsun, þó ég hafi vitaskuld mínar skoðanir á þjóðmálunum. Ég aðhyllist hinsvegar ekki ofstækisstefnur að neinu leyti.“ — Kýstu? „Já, ég kýs.“ — Hvað? „Yfirleitt hef ég nú kosið Sjálfstæðisflokkinn. Það er erfitt að kjósa eitthvað annað en það sem maður hefur verið tengdur frá barnæsku." — Hvað hefur nýst þér best í lífinu? Og nú hugsar Jón Hermannsson sig lengi um í fyrsta skipti í þessu viðtali. En segir svo: „Það er bjartsýnin."

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.