Helgarpósturinn - 09.05.1985, Blaðsíða 20

Helgarpósturinn - 09.05.1985, Blaðsíða 20
I MYNDLIST Ból Tryggva Ólafssonar Tryggvi Ólafsson er með málverkasýningu í Listasafni ASÍ og henni lýkur hinn 27. maí. Það er hægt að halda því fram að málarinn sé stöðugt í helli sínum, á sama stað og þegar hann hóf feril sinn sem hellamálari. Hann er þar í sama rökkri, með svipaða liti, í sama ham og í upphafi. Málverkin sem rist voru á veggi í skútum og iit dreypt í krotið eru þó víst eldri. Engu að síður er málarinn í vinnustofu sinni sem er hellir hans. Hægt er líka að halda því fram að málarinn sé í bóli sínu þegar hann er að mála. Eitt einkenni listmálarans er að hann hreiðrar um sig innan ákveðins ramma, í hinni víðustu merkingu, og hann hreiðrar einnig um sig í ákveðnum formum. Að lokum vinsar hann úr. Heilinn velur lokaformin og vinnur úr þeim. Hann gerir það kannski fremur í leit að fullnægju en full- komnun. Ymsir kalla úrvinnsluna stöðnun, einkum þeir sem hafa ekki umgengist mikið listirnar og halda að þær séu einhver tegund af vöru- úrvali. Það að list eigi að lúta sömu lögmálum og vöruúrvalið er afar rík hugsun meðal íslend- inga. Sú skoðun stafar bæði af lítilli umgengni við listir og einkum af mjög fábreytilegri um- gengni við hugsun almennt séð. í þokkabót erum við flest í næstum ömurlegum tengsl- um við tilfinningalíf okkar, listina að njóta og skynja. Nánust tengsli eru við viljann og þær frumstæðu hvatir að „vilja koma sér áfram". Af afrekum okkar á því sviði er samt best að dást með strigapoka yfir höfðinu, þegar við lesum um dáðirnar í atvinnurekstri, popp- tónlist og að íslandsklukkan hljómi nú í Kardimommubænum o.s.frv.... Um afrekin má lesa á öðrum síðum Helgarpóstsins sem er að verða að íslenskri „Afrekaskrá". Örlög þeirra sem hafa farið til útlanda, eins og Tryggvi, og dvalið þar langdvölum, eru þess vegna lærdómsrík. Satt að segja fer listamaðurinn aldrei að heiman. Það stafar af tvennu: hann nærist á uppruna sínum og á heima hvarvetna og hvergi nema innan ramma verka sinna. Útlöndin færa listamanninum aðeins and- rúmsloft og formskyn. ísland og íslendingar eiga lítið skylt við frelsi heldur formleysi eða formleti, í daglegu lífi sínu, þótt umbrot forma sé undirstaða náttúru þeirra, bæði lands og þjóðar. En lista- „í list Tryggva er allt formbundið, því raðað niður. Og hvert mál- verk hefur yfir sér vissan blæ málverka- safns og höggmynda," segir m.a. I umfjöllun Guðbergs Bergssonar um málverkasýningu Tryggva Ólafssonar ( Listasafni ASl. menn og almenningur hér ber lítið skyn- bragð á það. Umbrot formanna er ógn, nátt- úruhamfarir, auðn. Hjá Tryggva er náttúran komin fyrir löngu úr „náttúrulegu" umhverfi sínu inn í hið „eðlilega" umhverfi vinnustofu málarans. Og hún er þar gjarna sem „uppstilling" og sjald- an samfelld heild heldur brot. Það er vegna hins ljóðræna eðlis myndlistarinnar. „Sögu- list“ hefur ekki verið stunduð hér nema í út- skurði, vefnaði, skreytilist. í list Tryggva er allt formbundið, því raðað niður. Og hvert málverk hefur yfir sér vissan blæ málverkasafns og höggmynda. Á veggj- unum eru myndirnar sem sjálfstæð söfn í röðum. Slíkt getur einmitt hent málara sem eru það sem kallað er „náttúrubörn". Ég veit ekki hvort Tryggvi hefur gert Poussin að fyrirmynd sinni. En í verkum beggja er fengist við klassískan heim. Og svo er blái liturinn í ættartengslum. Popplistin hjá Tryggva er orðin að því sem hin klassíska rómverska list var Poussin. Hún er aðeins uppspretta sem speglar andlit hins innra manns listamannsins. Og þetta gerir heimalistina svo heimslega: það að listamaðurinn, sem er dæmigerður heimalningur, finnur sér ból í bólstað tímans, í bláma himinsins, andrúmslofti bernskunn- ar og sögunnar. En hann er ekki að burðast sífellt með kálgarðinn heima hvert sem hann fer. Eitt form leitar stöðugt meir inn í list Tryggva: þangformið. Og það er blöðruþang. Og einnig er þarna viss keimur af reikulu rót- lausu þangi sem rekst um víðan sjá og að straumar og votir vindar velki því til og frá... En stílviljinn heldur því innan Iist- rænna takmarka. BÓKMENNTIR Frá Ara fróöa til Jóns Arasonar eftir Árna Óskarsson Heimir Pálsson: Frásagnarlist fyrri alda. íslensk bók- menntasaga frá landnámsöld til sida- skipta. 191 bls. Forlagid 1985. Hér er á ferðinni yfirlit um íslenskar bók- menntir frá landnámsöld til siðaskipta og er bókin einkum ætluð til kennslu á framhalds- skólastigi. Margvísleg ágreiningsmál hafa komið upp meðal fræðimanna fyrr og síðar um bókmenntir á þessu tímaskeiði. Höfundi er því nokkur vandi á höndum þegar hann leitast við að draga upp heildstæða mynd af því, enda kemst hann svo að orði í formála að bókinni: „Þótt margt sé um fullyrðingar og stað- hæfingar í þessari bókmenntasögu eins og öðrum hefur það verið vilji minn að forðast í lengstu lög að kveða upp dóma og láta líta svo út sem flókið mál geti verið einfalt. Margt er enn á huldu um sögu fornra bókmennta okkar. Sumt mun verða það um aldir, annað kann að skýrast fyrr en varir. Margvíslegar bókmenntir eru enn órannsakaðar að mestu (t.d. margt hinna klerklegu fræða) og vant að vita hvað þar kann að leynast. Um annað eru skoðanir skiptar og breytilegar frá einni tíð til annarrar. Bók sem þessi getur aldrei siglt alveg framhjá skerjum ágreinings, enda vafasamt að það sé alltaf þess virði." Eins og þessir varnaglar bera með sér hlýt- ur bók sem þessi að vera nokkur vitnis- burður um stöðu sjálfra bókmenntarann- sóknanna. Heimir leitast við að gera grein fyrir helstu tilgátum og kenningum varðandi uppruna hinna ýmsu bókmenntagreina jafn- framt því sem hann fjallar um bókmenntaleg sérkenni þeirra, hugmyndafræðilegan og samfélagslegan bakgrunn þeirra og hlut- verk. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að leyfa sér miklar málalengingar í bók af þessu tagi. Heimir stiklar á stóru en hefur tekist að setja fram mikið efni í stuttu máli á skýran og aðgengilegan hátt. Hann notar óspart texta- dæmi til útskýringa og upplyftingar og í upp- hafi hvers kafla eru tíundaðar helstu spurn- ingar sem þar er fjallað um. Þá er í lok hvers kafla vísað til ýmissa fræðirita þar sem frek- ari fróðleik um efnið er að finna. Bókin hefst á inngangi um landnám og menningu og yfirliti yfir tímabil bókmennta- sögunnar, en síðan tekur við kafli um skeið óskráðra bókmennta 800—1100. Fjallað er um eddukvæði og dróttkvæði, tegundir þeirra, aldur og varðveislu. Heimir veltir fyr- ir sér gildi torræðra dróttkvæða fyrir nútíma- lesendur og kemst að þeirri niðurstöðu að „brjótist lesandi alla leið til myndarinnar verða laun erfiðisins ekki aðeins skilningur einstakra orða og kenninga heldur einnig innsýn í hugarsýn og hugsunarhátt þar sem öll náttúran er lifandi og persónugerist. Sé grannt að gáð kann reyndar að vera meiri skyldleiki með nútímaljóðlist (módernisma) og þessari kveðskapargrein en beinlínis ligg- ur í augum uppi, einmitt vegna þess að frum- leg myndsmíð nútímaskálda minnir einatt á nýgervingar dróttkvæðaskáldanna." (bls. 60) Fjallað er um heimsmynd og hugmynda- fræði heiðinna manna, m.a. raktar margvís- legar hugmyndir fornbókmenntanna um líf og dauða. Niðurstaðan verður sú að því fari fjarri að hægt sé að fella trúarhugmyndir heiðinna manna í heildstætt kerfi, viðhorf til lífs og dauða hafi t.d. verið mjög á reiki. í kaflanum um sagnritunarskeið 1000—1350 er drepið á upphaf ritmennta, menningarmiðstöðvar, bókagerð og varðveislu. Því næst er farið yfir bókmenntagreinarnar og þróun þeirra, þýðingar, konungasögur, biskupasögur, veraldlegar samtíðarsögur, riddarasögur, fornaldarsögur og ítarlegast fjallað um íslendingasögur. Lengi var hart deilt um sannleiksgildi ís- lendingasagna, spurninguna um það hvort sögurnar væru sagnfræði eða skáldskapur. Heimir' styðst hér við kenningar Steblin Kamenskijs um sannleiksskilning forn- manna sem varpað hafa nýju ljósi á þessi deilumál. Hann benti á að nútímafólki væri tamt að greina á milli tvenns konar sann- leiks, „vísindalegs" og „listræns". Slíkur greinarmunur var hins vegar ekki gerður til forna heldur fól sannleikshugtakið í þá daga í sér hvort tveggja. Þetta kallaði Kamenskij „einþættan" sannleik og sagði: „Sá sem flutti einþættan sannleik um for- tíðina leitaðist bæði við að skýra rétt frá og endurskapa fortíðina í allri sinni lifandi heild. En þar með var þetta ekki aðeins sannleikur í eiginlegri merkingu, heldur og list, eða órofa eining þess sem er ósamrýmanlegt í huga manna nú á dögum. Einþættur sann- leikur er okkur að eilífu glataður. Hann er alls ekki meðalvegur milli hinna tveggja sannieikstegunda nútímans; hann er miklu auðugri og efnismeiri en þær báðar til sam- ans, gagnólíkur báðum, hinn þriðji sannleik- ur. Tilraunir til að ákvarða, hvað sé sögu- legur og hvað listrænn sannleikur í sögun- um, eru með öðrum orðum leit að aðgrein- ingu innan sannleikshugtaks, sem á séreðli sitt og tilveru því að þakka, að slík aðgrein- ing er þar einmitt ekki til." (90) I kaflanum um íslendingasögurnar er gerð grein fyrir þremur meginkenningum um uppruna þeirra, sagnfestukenningu, bók- festukenningu og þeirri þriðju og yngstu sem Heimir nefnir formfestukenningu. Um þau mál hefur mikið verið skrifað en Heimir dregur fram meginágreininginn og skýrir með dæmum úr sögunum. Það sem skrif- að er hér um stíl og frásagnareinkenni ís- lendinga þykir mér hálf stuttaralegt, einkum með tilliti til nafns bókarinnar (sem raunar er villandi því að hún tekur til fleiri skáldskap- artegunda en þeirra sem hafa frásagnir að geyma). Öllu ítarlegri er umfjöllunin um samfélagið í sögunum, þau samfélagslegu átök sem upplausn goðaveldisins fæddi af sér og speglast í mörgum sagnanna. Lokakafli bókarinnar fjallar um blóma- skeið rímna og sagnadansa og er hann æði ágripskenndur. Full ástæða hefði t.d. verið að draga fram fleira en hér er gert úr athygl- isverðum rannsóknum Vésteins Ólasonar á sagnadönsum. En hvað sem slíkum að- finnsluatriðum líður þá er bók þessi á marg- an hátt prýðilegt yfirlitsrit bæði fyrir skóla- nema og almenning. Myndir þær sem Hrafn- hildur Schram hefur valið lífga upp á bókina og færa efnið nær nútímalesendum. „Heimir Pálsson stiklar á stóru en setur fram efnið á skýran og að- gengilegan hátt," segir m.a. í umfjöllun Árna Óskarssonar um ný- útkomna bók Heimis Pálssonar „Frásagna- list fyrri alda". I 20 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.