Morgunblaðið - 27.03.1979, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 27.03.1979, Blaðsíða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 27. MARZ 1979 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 27. MARZ 1979 29 Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvœmdastjóri Haraldur Sveinaaon. Ritatjórar Matthíaa Johanneaaen, Styrmir Gunnarsaon. Ritstjórnarfulltrúí Þorbjörn Guðmundsson. Fréttastjóri Björn Jóhannaaon. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson Ritstjórn og afgreiósla Aóalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar Aöalstræti 6, sími 22480. Áskriftargjald 3000.00 kr. á mónuöi innanlands. I lausasölu 150 kr. eintakíó. Friðarsamningar Egypta og ísraela jr Igær voru undirritaðir í Washington friðarsamningar milli Israels og Egyptalands. Þar til á síðustu misserum hefur fáum núlifandi manna komið til hugar, að þessi stund ætti eftir að renna upp. Átök Israela og Araba hafa verið svo hatrömm og heiftúðug og deiluefnið sjálft svo flókið, að það virtist óleysanlegt með öllu. En sá sögulegi viðburður hefur nú gerzt, að friðarsamningar hafa verið undirritaðir milli ísraela og Egypta, þeirra tveggja þjóða, sem mest átök hafa staðið á milli undanfarna áratugi. Það væri of mikil bjartsýni að ætla, að þar með væri friður tryggður í Miðausturlöndum. Reynslan hefur kennt okkur að fara varlega í að setja fram slíkar fullyrðingar. Hins vegar eru friðarsamningarnir milli þjóðanna tveggja stærsti áfanginn í baráttunni fyrir því að koma á friði í Miðausturlöndum, sem náðst hefur á okkar tímum. Þeir eru því mikið fagnaðarefni og þjóðir heims hljóta að ala með sér vonir um, að smátt og smátt megi takast að efla og útbreiða friðinn í þessum heimshluta. Átök milli Gyðinga og Araba eru ekki nýtilkomin. Þau.eiga sér sög'u langt aftur í aldir. Rætur þessara átaka standa svo djúpt og eðli þeirra er svo margslungið og svo nátengt sálarlífi Araba og Gyðinga, að það er beinlínis heimskulegt fyrir þá, sem víðs fjarri eru, að ætla sér að fella dóma um það hvor aðilinn hafi rétt fyrir sér og hvor hafi á röngu að standa. Þannig er einfaldlega ekki hægt að fjalla um þessi deiluefni. Saga Gyðinga er saga ótrúlegra hrakninga um heimsbyggð- ina. Á fyrri hluta þessarar aldar voru þeir ofsóttir og svívirtir í A-Evrópu, um miðbik aldarinnar í V-Evrópu. Bandaríkja- menn hafa ekki hreinan skjöld í þessum efnum frekar en margir aðrir og nægir að vísa til hrakninga flóttamannaskips með Gyðinga frá Þýzkalandi á árunum fyrir heimsstyrjöldina síðari, sem ekki fengu fremur landgönguleyfi í Bandaríkjun- um en annars staðar og að lokum var skotið skjólshúsi yfir þá í Bretlandi. Ofsóknir á hendur Gyðingum eru heldur ekki bundnar við þessa öld eina heldur er það mikil saga langt aftur í aldir. Viðleitni Gyðinga til þess að taka sér fasta búsetu í ísrael og hasla sér þar völl er meira en skiljanleg, þegar litið er til sögu þeirra og fortíðar. En það þýðir heldur ekki að loka augunum fyrir því, að sú viðleitni hefur orðið til þess, að milljónir Araba hafa flosnað upp af landi, sem þeir telja sig eiga rétt til ekki síður en Gyðingar. I raun getum við, sem búum hér á hjara veraldar, enga grein gert okkur fyrir þeim hörmungum, sem dunið hafa yfir þennan hóp Araba. Fjölskyldur hafa misst eigur sínar og staðið snauðar uppi. Fjölskyldur hafa sundrast á svo átakanlegan hátt, að úr því verður aldrei bætt. Þess eru fjölmörg dæmi, að Arabafjöl- skyldur, sem bjuggu á vesturbakka Jórdanár, fyrst á landsvæðum, sem féllu í hlut Israels við stofnun Israelsríkis, síðan á landsvæðum, sem ísraelar hertóku í sex daga stríðinu, hafa splundrast gersamlega og dreifzt víða um lönd. Fjölskyldubönd eru líklega mun sterkari meðal Araba en meðal okkar íslendinga og er þá mikið sagt og getur hver og einn gert sér í hugarlund hvaða áhrif slík sundrun hefur á fólk, sem verður fórnarlömb hennar og til hvers konar haturs er stofnað, sem líklega verður ekki eytt nema á tíma margra kynslóða. Okkur íslendingum sem öðrum er því hollt að varast dómhörku í þessum efnum sem öðrum, er varða þjóðir í fjarlægum heimshlutum, sem búa við allt aðrar aðstæður, allt annan hugsunarhátt og allt aðra menningu en við. Það á ekki við að leggja okkar eigin mælikvarða á það, sem gerist hjá þessum þjóðum, hvort sem um er að ræða Gyðinga og Araba, Afríkuþjóðir eða Asíubúa. Friðarsamningarnir milli ísraela og Egypta eru mikilvæg- ur áfangi til friðar í Miðausturlöndum. Þeir eru mesti árangur, sem náðst hefur í þeim efnum til þessa — ekkert meira — og ekkert minna. Verkamannasamband fslands: Ný skipan verðbótagreiðslu á laun samkvæmt frumvarpi Ólafs skerðir þá launaverðtryggingu sem um var samið Formanna- og sambandsstjórnar- fundur Verkamannasambands ís- lands var haldinn um helgina, og þar var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Formanna- og sambandsstjórnar- fundur Verkamannasambands Is- lands vill minna á, aö Verkamanna- sambandið hvatti til myndunar núverandi ríkisstjórnar. Tilgangur sambandsins var að fá vinveitt ríkisvald sem hefði félagsleg um- bótamál á stefnuskrá sinni, tryggði fulla atvinnu, verndaði kaupmátt lægstu launa og stefndi að auknum kaupmætti verkafólks, jafnframt því að stöðva þá óðaverðbólgu sem hrjáð hefur alþýðuheimilin í landinu. Fyrir fundinum liggur frumvarp forsætisráðherra um stjórn efna- hagsmála og fleira. Það er álit fundarins að í frumvarpinu séu ýmis ákvæði er stefni mjög til bóta varðandi stjórn efnahagsmála. Til dæmis betri heildarstjórn og mögu- leikar á markvissri fjárfestingu. Einnig vill fundurinn nefna þau ákvæði sem snerta samtök launa- fólks og hagsmuni þess sérstaklega svo sem að gert er ráð fyrir beinu samstarfi ríkisvalds og samtaka launafólks og því, að atvinnurekend- um sé skylt að tilkynna viðkomandi stéttarfélagi með tveggja mánaða fyrirvara, ef um ráðgerðan samdrátt í rekstri er að ræða. Þá fagnar fundurinn því, að í frumvarpinu eru ákvæði um ráð- stafanir til að koma fram umbótum í atvinnurekstri og að efla skuli sér- staklega atvinnurekstur á félagsleg- um grunni. Fundurinn lýsir hins vegar óánægju sinni með þann kafla frum- varpsins sem varðar verðbætur á laun, og telur að á honum þurfi að gera breytingar. Ljóst er að sú nýja skipan á greiðslu vísitölubóta á laun sem ráðgerð er, myndi skerða þá verðtryggingu launa sem um var samið í síðustu kjarasamningum. Það er álit fundarins að vel komi til greina að breyta um form í sambandi við vísitölu á laun og að í þeim efnum komi til álita að taka tillit til breyttra viðskiptakjara við útreikning á kaupgjaldsvísitölu. Fundurinn leggur áherslu á að við slíkar formbreytingar verði þess vandlega gætt, að hugsanleg launa- lækkun, sem af þeim hlytist, verði síst látin koma niður á almennum verkamannatekjum. Af þeim ástæðum gerir fundurinn tillögur um eftirfarandi breytingar á kaflanum um vísitölubætur á laun: 1. Gert verði ráð fyrir að á árinu 1979 og þar til nýir kjarasamningar milli launafólks og atvinnurekenda hafa verið gerðir, skuli greiða með vísitölubótum samkvæmt frumvarp- inu sérstaka, fasta launauppbót, jafnháa upp að tilteknu launamarki. Sú greiðsla yrði ekki látin skerða yfirvinnu- og vaktaálög. — Tryggja verður að þessar sérstöku launa- bætur nái að fullu til elli- og örorkulauna, og annarra hliðstæðra tryggingabóta. 2. Áfengis- og tóbaksútgjöldum verði haldið utan við útreikning verðbóta- vísitölu og grunn hennar, eins og kjarasamningar kveða á um. Verð- bótavísitalan verði sett á 100, en meðferð frádráttarliða verði með sama hætti og nú er. 3. Fundurinn styður ákvæði frumvarpsins um að hækkun á olíu- styrk til þeirra, sem kynda íbúðar- húsnæði með olíu, komi ekki fram í vísitölu. — Hins vegar getur fundurinn ekki samþykkt að vísi- tölubætur á laun verkafólks verði lækkaðar til að greiða olíukostnað atvinnurekstrarins. 4. Fundurinn telur ekki óeðlilegt að áhrifum af tengingu verðbótavísitölu við viðskiptakjör verði dreift að hluta á síðari vísitölutímabil ársins. 5. Fundurinn telur að hugsanlegri lækkun niðurgreiðslna megi mæta með hækkun skattleysismarka. Verkamannasamband íslands hefur áður lýst yfir eindregnum vilja til samstarfs við núverandi ríkis- stjórn. Fundurinn lýsir fullum stuðningi við baráttuna gegn verð- bólgunni og bendir á, að nauðsynlegt kunni að vera að gefa stjórnvöldum aukið svigrúm til aðgerða í peninga- málum, með því að rýmka ákvæði um bindiskyldu. Fundurinn ítrekar samningsvilja sinn um leið og hann lýsir því yfir, að margt hafi vel tekist í samstarfi launafólks við ríkisstjórnina. Fundurinn vill í þessu sambandi minna á eftirfarandi: 1. Kauplækkunarlögin frá febrúar og maí 1978 hafa verið numin úr gildi. 2., Full atvinna hefur verið tryggð í öllum meginatriðum. 3. Nokkuð hefur áunnist í átökunum við verðbólguna. 4. Afnám 20% söluskatts á matvöru og auknar niðurgreiðslur á land- búnaðarvörum hefur orðið lág- launafólki til hagsbóta. 5. Mikilvæg félagsleg réttindi hafa fengist fram, verkafólki til handa. Þó átelur fundurinn þann drátt sem orðið hefur á framkvæmd „félagsmálapakkans" í meðförum Alþingis, og krefst þess að Alþingi afgreiði á næstu dögum þau mikilvægu réttindi, sem ríkis- stjórnin hefur lofað að beita sér fyrir. Það er eindregin ósk fundarins, að áfram geti tekist gott samstarf launafólks og ríkisstjórnarinnar. - Grundvöllur slíks samstarfs verður að vera, að áfram verði tryggð full atvinna og stefnt verði markvisst að bættum kjörum verka- fólks og félagslegum umbótum. Þannig verði hraðað nýrri löggjöf um verkamannabústaði, löggjöf sem tryggi öllum landsmönnum sem jafnastan lífeyri, og nýrri laga- setningu um öryggi, aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Fundurinn skorar því á stuðnings- flokka ríkisstjórnarinnar að leggja sig fram við að ná samkomuiagi um afgreiðslu efnahagsmálafrumvarps- ins á þeim grundvelli sem gerð er tillaga um í þessari samþykkt, þann- ig að megináhersla verði lögð á að vernda kaupmátt láglaunafólks. Fundurinn heitir á ríkisstjórnina að láta ekki tímabundna erfiðleiká og innbyrðis ósamkomulag um einstaka þætti verða þess valdandi að stjórnin fari frá. Verkafólk bindur miklar vonir við þetta stjórnarsamstarf og ríkisstjórnin hefur mikið verk að vinna, sem rétt er nýhafið. Fall þessarar ríkisstjórnar yrði áfall fyrir verkalýðssamtökin og Stefnumið þeirra. Slíkt má ekki gerast." Hvað segja þeir um ályktun Verkamannasambandsins? Kjartan Tómas Ragnar Benedikt Þorsteinn Ómögulegt að segja til um hvort þetta hefur áhrif í átt til samkomulags innan ríkisstjórnarinnar segir Kjartan Jóhannsson sjávar- útvegsráðherra „Það verður að hafa í huga í þessu sambandi, að það hafði náðst sam- komulag sem Alþýðuflokkurinn hef- ur lýst yfir að hann vill standa að,“ sagði Kjartan Jóhannsson í gær- kvöldi er hann var spurður álits á ályktun Verkamannasambandsins frá því um helgina. Kjartan sagði það að sjálfsögðu ánægjulegt að Verkamannasam- bandið skuli taka heildstæða stefnu, og taka undir ýmsa þætti frum- varpsins, og margt í ályktun þess myndi koma til athugunar, einkum það er lyti að verðhömlunarmark- miðum, en það væri auðvitað brýn- asta hagsmunamál verkafólks að árangur næðist á því sviði, einkum fyrir það fólk er lægst hefði launin. Kjartan sagði ómögulegt að segja til um hvort þetta álit Verkamanna- sambandsins hefði einhver áhrif í átt til samkomulags innan ríkis- stjórnarinnar. „Ég er mjög tregur til að hvika frá frumvarpinu" segir Tómas Árnason fjármálaráðherra „Ég fagna því að það virðist vera vaxandi skilningur á því hve þessi krónutölukauphækkunarstefna er gagnslaus," sagði Tómas Árnason fjármálaráðherra er hann var spurð- ur álits á ályktun Verkamannasam- bandsins. „Það er greinilegt að menn eru að gera sér grein fyrir því, að almennar krónutöluhækkanir leiða af sér óhjákvæmilegar verðhækkanir og koma fram í stórhækkuðu verð- lagi sem veldur því að launahækkan- irnar verða að engu og renna út í sandinn," sagði fjármálaráðherra ennfremur. Til viðbótar sagði ráðherrann svo koma hættuleg verðbólguáhrif á atvinnulífið og atvinnuuppbygging- una, og því væri það enn frekara fagnaðarefni ef menn virtust vera að átta sig á þessari svikamyllu. „En hvað frumvarpið sjálft varðar, það sem nú liggur fyrir, þá álít ég að það sé svo nátengt afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu fjárfestinga- og lánsfjár- áætlunar að ef menn ætla að fara að slaka þar á þá raskar það þeim áformum sem menn hafa unnið að, sérstaklega í baráttunni gegn verð- bólgunni," sagði Tómas ennfremur, „þannig að ég er mjög tregur til að hvika þar frá.“ — Verður ályktunin til þess að léttara verður eða erfiðara að þínu mati að ná samkomulagi innan ríkisstjórnarinnar? „Ég skal ekkert um það segja, en mér finnst í heild vera þannig blær á ályktuninni, að svo virðist sem Verkamannasambandið vilji hafa þessa ríkisstjórn, og styðja hana, og þau markmið sem stjórnin hefur sett sér. Þannig virðist það að minnsta kosti vera.“ „Verkamannasambandið hefur rétt fram sáttahönd“ segir Ragnar Arnalds samgönguráðherra „Með þessari ályktun er Verka- mannasambandið að rétta fram sáttahönd og sýna ótvíræða viðleitni í þá átt að endar megi ná saman, og ég fagna þessari ályktun," sagði Ragnar Arnalds samgönguráðherra er hann var í gær spurður álits á ályktun Verkamannasambandsins. Þær leiðir sem á er bent í ályktun- inni sagði Ragnar tvímælalaust vera þær leiðir sem helst kæmu til greina, og alveg ljóst væri að ekki stæði á Alþýðubandalaginu að leita sam- komulags eftir þessum brautum. Spurningin væri hins vegar hvernig hinir flokkarnir brygðust við. Ragnar kvað það eiga að verða mun auðveldara að ná samkomulagi innan ríkisstjórnarinnar eftir að þessi ályktun lægi fyrir, að þessari ályktun hefði staðið menn úr öllum stjórnmálaflokkum, þó að sér í lagi hefðu þeir verið úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. í ályktuninni væru ákvæði um varðveislu lægstu launa með sérstökum láglaunabót- um, ef menn væru ekki fáanlegir til að gera breytingar á vísitölukafla frumvarpsins og ótrúlegt væri annað en ná mætti samkomulagi í sam- ræmi við það. „Vona að ályktunin leiði til sátta í þessari leiðindadeilu“ — segir Benedikt Davíðsson íor- maður Sambands byggingarmanna „Ég get nú ekki sagt mikið um þessa ályktun ennþá, því að ég er ekki farinn að lesa plaggið enn sem komið er,“ sagði Benedikt Davíðsson í gær, er Morgunblaðið innti hann álits á ályktun Verkamannasam- bands Islands sem samþykkt var um helgina. Kvaðst Benedikt því ekki vera reiðubúinn til að tjá sig um efnis- atriði ályktunarinnar, nema hvað hann kvaðst vera mjög ánægður með að hún gæti „leitt til samkomulags i þeirri leiðindadeilu sem nú er milli stjórnarflokkanna, en þó ekki ef plaggið er þannig að í því felist að verkalýðshreyfingin afsali sér ein- hverjum samningsbundnum réttind- um í sambandi við vísitöluna. Ég tel engar forsendur til þess að veita slíkt afsal," sagði Benedikt að lokum. „Verkalýðsforingjarnir vinna enn sem fyrr gegn hagsmunum umbjóðenda sinn“ — segir Þorsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins „Mér sýnist að Verkamannasam- bandið sé á sömu línu og ríkisstjórn- in, það vill greinilega lögfesta gengisfellingarstefnu til tveggja ára,“ sagði Þorsteinn Pálsson fram- kvæmdastjóri Vinnuveitendasam- band Islands í samtali við Morgun- blaðið í gær er hann var spurður álits á ályktun Verkamannasam- bandsins. Þorsteinn sagði að ályktunin breytti engu um þá meginstaðreynd þessa máls, að efnahagsfrumvarpið miðaði að því einu að lögvernda núverandi verðbólgustig. Kjarni málsin væri auðvitað sá, að lífskjör fólksins yrðu ekki bætt nema með því að skapa fyrirtækjunum aðstöðu til að auka framleiðni og verðmæta- sköpun. Þetta skildu ekki forystumenn verkalýðsfélaganna og því væru þeir enn sem fyrr að vinna gegn hagsmunum umbjóðenda sinna. Sagði Þorsteinn staðreyndina auð- vitað vera þá, að launþegar og eigendur fyrirtækja ættu sameigin- legra hagsmuna að gæta á fjölmörg- um sviðum, en allar aðgerðir í efnahagsmálum án raunhæfrar at- vinnustefnu væru vindhögg, og þetta frumvarp sem nú lægi fyrir Alþingi og tillögur Verkamannasambandsins breyttu engu þar um. „Að því er varðar þessar hugmyndir um þak á verðbætur á laun,“ sagði Þorsteinn ennfremur, „þá höfum við alltaf varað við slíkum aðgerðum. Það hefur aldrei tekist að brjóta niður launakerfið með slíkum lögþvinguðum ráðstöfunum. Síðasta rikisstjórn reyndi þetta án árangurs og þessi ríkisstjórn endurtók tilraunina með þeim afleiðingum að allt er í upplausn: Rikisstarfsmenn fá verðbætur án þaks, en hluti starfsmanna á frjálsum markaði verður að sætta sig við skerta vísitölu vegna aðgerða ríkisstjórnar- innar. Ég sé ekki annað en tillögur Verkamannasambandsins miði að því að magna þessa ringlureið enn, og satt að segja skil ég ekki þennan gengisfellingaráhuga verkalýðs- forystunnar. Það er alveg ljóst, að frumvarpið og þessi ályktun Verka- mannasambandsins getur ekki leitt til annars en gengisfalls og inn- lendra verðhækkana, og það þjónar hvorki hagsmunum fyrirtækjanna né launþega. Þjóni það persónu- legum hagsmunum verkalýsðforingj- anna um stundarsakir, þá getur það ekki gert það til langs tíma,“ sagði Þorsteinn að lokum. Hvað segja þeir um takmarkanir á þorskveiðunum? Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar: Stjómvöld hafa komið nokkuð til móts við skoðanir fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunin lagði til að hámarksafli þorsks við ísland á þessu ári færi ekki upp fyrir 250 þúsund tonn. Jón Jóns- son forstjóri stofnunarinnar sagði í gær að hann teldi að stjórnvöld hefðu með fyrirhuguðum aðgerð- um, sem sjávarútvegsráðherra hefði kynnt á föstudag, komið þó nokkuð til móts við fiskifræðinga í sambandi við uppbyggingu þorsk- stofnsins. Með því að setja afla- hámarkið við 280—290 þúsund tonn væri þó ekki farið alveg að ráðum fiskifræðinga. — Ef þorskveiðin á árinu verður 280—290 þúsund tonn hefur það í för með sér hægari vöxt hrygningarstofnsins en við höfum lagt til, sagði Jón. — Með okkar tillögum var stefnt að því að hrygningarstofninn næði 500 þúsund tonnum árið 1983. Ef veiðin verður 290 þúsund tonn í ár verður hrygningarstofninn á bilinu frá 200—425 þúsund tonn fram til 1988. Með þessum aðgerðum, sem boðað- ar hafa varið, verður hrygningar- stofninn 420 þúsund tonn 1983, en það er 80 þúsund tonnum lægra, en við gerðum ráð fyrir í okkar til- lögum. Ef veiðin verður 300 þúsund tonn í ár fer hrygningarstofninn aldrei yfir 400 þúsund tonn fram til 1988. — Hafrannsóknastofnunin gerir sér ljóst að takmarkanir á veiðum hafa margvíslega erfiðleika í för með sér. Hins vegar er það svo, að því fyrr sem friðað er því auðveld- ara er það. Eftir því sem lengra líður verður það aðeins erfiðara og erfiðara. Við höfum bent á að takmörkunaraðgerðirnar þurfi að ganga yfir alla aldursflokka og þar má ekki undanskilja þann fisk, sem orðinn er kynþroska, sagði Jón að lokum. Hafnnnsóknastofiuuiin leggur tll. að þorskafli ársins 1979 fari ekki fram úr 250 þús. tonnum og árlð 1980 ekki fram úr 270 þús. tonnum. Æakileg aflasamaetning f þroskveiðum úrið 1979 verði sem hér segir: þús. tonn 3—4 ára ............................................................. 55 5—6 ára ............................................................. 130 7 ára og eldri ...................................................... 65 Afli alls 250 Til samanburðar er áaetluð aflasamsetning árið 1978 þessi: þús, tonn 3-4 ára .............................................................. 33 5-6 ára ............................................................. 214 T ara og eldri ....................................................... 83 Afli alls 330 Skýringin á því, að afli geti aukist á 3—4 ára fiski á nœsta ári þrátt fyrir súknarminnkun er nær eingöngu af því, að 1975 árgangurinn, er talinn allt að helmingi stærri en 1974 árgangurinn var f fyrra. Að öðru leyti sýnir þessi samanburður að draga verður mjög úr afla á 5—6 ára fiski og einnig er samdráttur nauðsynlegur á veiðum á hrygningarfiski (7 ára og eldri). Úr skýrslu Haírannsóknastofnunar um ástand nytjastofna á fslandsmiðum og aflahorfur 1979. Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ: „Minni hagsmunir verða að víkja fyrir meiri,> — EF MENN eru sammála um að nauðsynlegt sé að takmarka þorsk- veiðarnar og setja ákveðið aflahá- mark verða menn að hafa kjark til að ákveða hvar og hvenær tak- marka skuli til að settu marki verði náð, sagði Kristján Ragnarsson formaður Landssambands is- lenzkra útvegsmanna í gær er Morgunblaðið spurði hann álits á þeim aðgerðum, sem sjávarútvegs- ráðherra hefur boðað til uppbygg- ingar þorskstofninum. — Það er endalaust hægt að deila um hvort takmarka skuli netaveiðar bátanna á vetrarvertíð eða sumar- afla togaranna, sem hefur verið mjög mikill undanfarin ár og stund- um svo mikill að til erfiðleika hefur komið við vinnslu hans. Eðlilegast væri að takmarkanir kæmu á báða þessa þætti. Möguleikar bátanna eru þó mun minni vegna lélegrar afkomu og vegna síminnkandi afla undanfar- in ár, en til þess getur þó komið síðar á vertíðinni til viðbótar því að net verða tekin úr sjó í vikutíma um páska. — Aflatakmarkanir togara með þorskveiðibanni í 70 daga til viðbót- ar páskum og jólum eða alls í þrjá mánuði á árinu eru illbærilegar, en í því efni verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri þegar haft er í huga mikilvægi þess að þorskstofninn verði byggður upp að nýju. Við treystum því að stjórnvöld geri ráðstafanir til að tryggja rekstraraf- komu togara á banntímanum þegar þeim er ætlað að veiða aðrar fiskteg- undir. — Við höfnum alfarið þeim hug- myndum, sem ráðherra hefur rætt um að þorskveiðar verði skattlagðar sérstaklega, þar sem hér er um þjóðfélagslegt vandamál að ræða, sem öll þjóðin verður að bera. Stjórn LIÚ hefur nú eins og ávallt áður tekið ábyrga afstöðu í þessu máli og mælt með þessum ráðstöfunum, sagði Kristján Ragnarsson að lokum. r Oskar Vigfússon formaður Sjómannasambandsins: „Þjóðfélagið í heild verð- ur að bera þessar byrðar,, - ÞJÓÐFÉLAGIÐ í heild verður að bera þær byrðar, sem óhjákvæmilega eru samfara samdrætti í þorskveiðum og uppbyggingu þorskstofnsins, en ekki sjómannastéttin ein, sagði Óskar Vigfússon formaður Sjómannasambands íslands i gær aðspurður um álit á fyrir- huguðum aðgerðum í þorskveiði- málum á þessu ári. — Fiskveiðarnar eru þunga- miðjan í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar og þegar nauðsyn ber til að draga þær saman er óeðli- legt að þeir menn, sem stunda þessa atvinnugrein, beri einir þann kostnað, sem er samfara uppbyggingunni. Þessar aðgerðir, sem boðaðar hafa verið, eru stjórnvaldsaðgerðir og ekki okkar hugmyndir, þannig að ég tel að stjórnvöld verði að finna lausn á þeim vandamálum, sem koma upp vegna þessara aðgerða. Hins vegar til ég taka það fram, að við sjómenn erum frekar en margir aðrir fylgjandi friðunarað- gerðum, sagði Óskar. Á miðvikudag verður haldinn stjórnarfundur hjá Sjómanna- sambandinu þar sem rætt verður um þessi mál.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.