Morgunblaðið - 03.09.1982, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 03.09.1982, Blaðsíða 22
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 3. SEPTEMBER 1982 22 Stríð og friður I grein Friðarhreyfingin — eftir Guðmund Heiðar Frímannsson Það hefur ekki farið fram hjá íslendingum fremur en öðrum þjóðum á Vesturlönd- um, að samtök, sem nefnast friðarhreyfing, hafa nokkuð látið að sér kveða í stjórnmál- um þessara landa síðastliðið ár. Þau hafa haldið stórfundi í höfuðborgum Norðurálfu og New York, sett fram kröfur um, að dregið verði úr kjarn- orkuvígbúnaði. Hér á landi hafa verið stofnuð friðar- samtök á Akureyri, og á Klambratúni héldu Samtök herstöðvaandstæðinga fund undir svipuðum eða sömu slagorðum og tíðkazt hafa er- lendis á friðarfundum. Það hefur lítið lát orðið á skrifum í blöð til að kynna málstað hreyfingarinnar. Af og til hafa heyrzt gagnrýnisraddir, en þær hafa ekki farið sérlega hátt. í fjórum greinum ætla ég að hafa orð á fáeinum rök- semdum, sem mæla gegn því, að tekið sé tillit til krafna h reyf i ngari nnar. Friður er mikilvæg gæði. Um það efast í rauninni eng- inn. Friður er meginforsenda þess, að mannlíf geti gengið með eðlilegum hætti í samfé- lagi og að þegnarnir geti notið frelsis og annarra lífsins gæða. Þegar stríð geisar, er það almenn regla, að menn neyðast til að beygja sig undir vilja almannavaldsins, fá ekki að gagnrýna stjórnvöld, verða að hlýða skipunum þeirra og leggja líf sitt að veði. Þeir, sem vilja, að einstaklingarnir fái að lifa lífinu óáreittir, njóta frelsis, frjálshyggju- menn, hljóta því að vera tals- menn friðar. Herbert Spencer, brezkur heimspekingur, hélt því fram í riti sínu, sem kom út 1850, Social Statics, að stríð stöfuðu af of miklum ríkis- afskiptum. Væri dregið úr þeim, frelsi einstaklinganna aukið hyrfu allar ástæður fyrir stríði. Eða eins og Steinn Steinarr orðaði svipaða hugs- un, þegar hann var að hugsa um seinni heimsstyrjöldina: „Stríðið er þýðingarlaust. Ég ætlaði einu sinni að segja Sví- þjóð stríð á hendur. Það var í Gautaborg fyrir mörgum ár- um. Ég stóð fyrir framan ein- hvern djöfulinn, sem hét Vasa-Café og öskraði. Hvern- ig fór það? Ég veit ekki til, að Svíþjóð hafi lent í nokkru klandri, hvorki við mig né aðra.“ (Kvœöasafn og greinar, Rvík., 1964, bls. 249.) En nú bregður svo við, að fáir ef nokkrir frjálshyggjumenn hafa tekið undir málstað frið- arhreyfingarinnar. Raunar hefur enginn rökstutt kröfur hennar með því að vísa til frelsis, svo að mér sé kunnugt. Hvernig stendur á því, að allir eru ekki reiðubúnir að ljá málstað friðarhreyfingarinn- ar lið? Aður en leitazt verður við að svara þessu, er rétt að benda á eitt einkenni friðar- ins. Hann er ekki æðstur allra gæða. Ef á þjóð er ráðizt, þá hefur hún siðferðilegan rétt til að verja hendur sínar. Og hún hefur þá líka siðferði- legan rétt til að gera þær ráðstafanir, sem gera henni kleift að hrinda árásum. Ef á þjóð er ráðizt, þá getur hún farið í réttlátt stríð. Kirkjan hefur meðal annarra fallizt á þetta með kenningum sínum um réttlátt stríð. Friður er því ekki skilyrðislaust betri en stríð. Stundum verða aðrir hlutir mikilvægari. Þetta fall- ast þeir friðarsinnar ekki á, sem á erlendum málum nefn- ast „paeifistar". Þeir vilja frið, jafnvel þótt á þá sé ráð- izt, frið hvað sem það kostar. Um þessa friðarsinna er ekki ástæða til að fjölyrða hér, því að málsvarar friðarhreyf- ingar þessara ára hafa tekið það skýrt fram, að þeir séu ekki friðarsinnar í þeim skiln- ingi. Það hefur vakið athygli mína og annarra, að inn í þessa friðarhreyfingu hafa blandazt hópar, sem vart geta talizt friðelskandi og erfitt er að trúa, að taki þátt í hreyf- ingunni af ást á friðnum einni saman. Það hafa meira að segja vaknað grunsemdir um, að fjármunir frá Ráðstjórn- arríkjunum renni í sjóði frið- arhreyfingarinnar. (Sjá Vlad- imir Búkovskí: Kremlverjar stýrðu fjöldagöngum og fjöldafundum friðarhreyf- ingarinnar, Stefnir, maí 1982; Betra að vera rauður en dauð- ur hér í blaðinu, 23. janúar; The Peace Movement and the Soviet Union í Commentary, maí 1982.) Það væri þá ekki í fyrsta skipti, sem slíkt gerð- ist. En þótt þau veittu miklu fé í sjóði samtaka í friðar- hreyfingunni, þá er það á end- anum ekki aðalatriði. Það varpar einungis rýrð á hreyf- inguna, en segir í sjálfu sér ekkert um það, hvort líklegt sé, að málstaður hennar sé réttur eða rangur. Þegar maður snýr sér að markmiðum friðarhreyf- ingarinnar, þá þyngist róður- inn nokkuð, því að ekki er augljóst, hver þau eru. Það virðist vera svo, að driffjöðrin í þessari hreyfingu sé andúð á Bandaríkjunum og hernað- armætti þeirra. En markmið- in eru ofurlítið önnur að minnsta kosti í orði kveðnu. Friðarhreyfingin berst ekki gegn hefðbundnum vopnabún- aði heldur gegn kjarnorku- vopnum. Hún vill, að þeim verði fækkað í báðum hernað- arbandalögunum í Evrópu, Atlantshafsbandalaginu og Varsjárbandalaginu, í þeirri trú, að veröldin yrði öruggari eftir á en áður, ef þetta yrði framkvæmt. Sérstaklega beinir friðarhreyfingin spjót- um sínum að þeirri ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að staðsetja tæplega 600 Persh- ing-flaugar og stýriflaugar í löndum Vestur-Évrópu. En ákvörðunin um að setja þær þar var tekin að undirlagi leiðtoga Vestur-Evrópu, vegna þess að þeir óttuðust nýja gerð eldflauga, SS-20, sem Rússar voru að koma fyrir á skotpöllum í vestustu héruðum Ráðstjórnarríkj- anna. Friðarhreyfingin hefur líka sett á oddinn kröfur um kjarnorkuvopnalaus svæði, meðal annars á Norðurlönd- um. Auk þess hafa komið fram hugmyndir um, að land- helgi íslands verði lýst kjarn- orkuvopnalaus. Guðmundur Heiðar Frímannsson Það þarf ekki að hafa mörg orð um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Það er fyrst og fremst erfitt að skilja, hvers vegna hún er sett fram, því að ekki er vitað til, að nein kjarnorkuvopn séu þar. Það er venjulega ekki talin ástæða til að krefjast einhvers, sem þeg- ar er fyrir hendi. Ef á hinn bóginn felst í þessari kröfu, að Ráðstjórnarríkin fjarlægi kjarnorkuvopn sín af Kola- skaga, úr Eystrasalti og Eystrasaltsríkjunum, þá er hægt að taka hana alvarlega. En það er kannski vart við því að búast, að krafan verði gerð svo afdráttarlaus. Kröfunni um kjarnorkuvopnalausa landhelgi hlýtur að fylgja ein- dreginn vilji um, að Land- helgisgæzlan verði efld, verði nánast að atvinnusjóher. Það er til lítils að setja fram kröf- ur og fá þær jafnvel sam- þykktar, ef ekki er með nokkru móti hægt að líta eft- ir, að þeim sé framfylgt. Nema hugsunin sé sú, að stöð- in í Keflavík taki þetta að sér. Það má geta þess, að þessi krafa er beinlínis til komin vegna friðarhreyfinganna í Evrópu. Viðbrögð ráðamanna í Bandaríkjunum við óskum og kröfum friðarhreyfingar- innar hafa meðal annars verið þau að ákveða, að í framtíð- inni verði auknum hluta kjarnaflauganna komið fyrir í kafbátum í þeim tilgangi bersýnilega að komast hjá fjölmennum mótmælum, eins og nú hafa átt sér stað. Ein afleiðing friðarhreyfingarinn- ar í Evrópu er því aukinn kjarnorkuvopnabúnaður í höfunum. Friðarhreyfingin á íslandi mætti gjarnan taka eftir samhengi hlutanna. En hvað segir friðarhreyf- ingin um eldflaugarnar í Evr- ópu? í Þjóðviljanum 30. júní birtist sameiginleg yfirlýsing frá friðarhópum víðsvegar að úr Evrópu og Bandaríkjunum í íslenzkri þýðingu. í henni segir meðal annars: „Með víð- tækum stuðningi Bandaríkja- manna milljónum saman krefst þessi hreyfing að Bandaríkin og Sovétríkin stöðvi þegar í stað tilraunir, framleiðslu og dreifingu allra nýrra vopna og vopnakerfa. Slík stöðvun kæmi í veg fyrir það, að komið væri upp í Évr- ópu hættulegum kerfum, sem raska þar jafnvægi svo sem Pershing II og stýriflaugum af hálfu Bandaríkjamanna eða að Sovétmenn bæti við SS-20 flaugum, það yrði fyrsta skrefið í þá átt að skera niður vopnabúr risaveld- anna.“ Og nokkru síðar: „Þeg- ar þjóðum Evrópu verður frjálst að marka sína eigin stefnu, rjúfa fjötra fortíðar- innar, þá verður þeim einnig kleift að beita sér gegn víg- búnaðarkapphlaupinu og hin- um ógnvænlegu afleiðingum kúgunarstefnu sem birtist um allan heim.“ Þessi seinni yfir- lýsing kemur í kjölfar þeirrar skoðunar, að tvískipting þjóða í Norðurálfu í hernaðar- bandalög ýti undir vopna- kapphlaupið og skapi hættu á, að lönd utan þeirra verði not- uð sem stríðsvettvangur. Það er rétt að benda á nokkrar firrur í þessum setn- ingum, því að annað er vart hægt að kalla þessar villur. í fyrsta lagi er algerlega órökstutt, hvernig bandalögin skapi hættu fyrir þjóðir utan þeirra. í öðru lagi er rétt að taka fram, að lönd í Evrópu utan hernaðarbandalaga, eins og Svíþjóð, Sviss og Júgó- slavía, eyða miklu hærri hluta þjóðartekna til landvarna og vígbúnaðar en lönd í AtU antshafsbandalaginu. Það skyldi þó ekki vera, að banda- lagið gerði aðildarþjóðum sín- um kleift að eyða minna fé til landvarna, en ella væri, án þess að öryggi þeirra minnk- aði og stuðlaði þannig að friði. í þriðja lagi virðist þurfa að benda friðarhreyfingarfólki á, að löndum Vestur-Evrópu er frjálst að ákveða framtíð sína. Þau ákváðu að bindast sam- tökum gegn hættunni úr aust- urvegi. Ef þau ákvæðu nú að taka ekki þátt í samtökunum, er enginn, sem meinar þeim það. Þetta verður ekki sagt um þjóðir Austur-Evrópu, sem enn eru góss Ráðstjórn- arríkjanna, sem þau hrifsuðu í kjölfar síðari heimsstyrjald- arinnar. Einhver hættu- legasta fásinnan í þessari yf- irlýsingu friðarhreyfingar- innar er að leggja hernaðar: bandalögin tvö að jöfnu. í fjórða lagi er rétt að menn taki eftir, hvernig tekið er til orða um SS-20 flaugarnar. Það er staðhæft, að hvort- tveggja raski jafnvægi að staðsetja Pershing II-flaug- arnar og stýriflaugarnar í Vestur-Evrópu „eða að Sov- étmenn bæti við SS-20-flaug- um“. Nú er það vandi út af fyrir sig, hvernig skilgreina á hugtakið „jafnvægi", en um það er almennt samkomulag, að SS-20-flaugar Sovétmanna hafa raskað jafnvæginu nú þegar, og Pershing II og stýri- flaugarnar eru tilraun til að leiðrétta þessa röskun. Ef jafnvægi væri, þyrftu engar SS-20-flaugar að vera í vest- ustu héruðum Ráðstjórnar- ríkjanna. En kannski skilja friðarhreyfingarmenn Jafn- vægi“ þannig, að það sé ástandið á hverjum tíma, og því megi alls ekki breyta. Það er undarleg afturhaldssemi og auk þess misskilningur. Það er ljóst, að friðarhreyf- ingin vill, að hvorki verði sett- ar upp Pershing II-flaugar eða stýriflaugar í Vestur- Evrópu né SS-20-flaugar í Ráðstjórnarríkjunum eða Austur-Evrópu. En hvað ætl- ar friðarhreyfingin að gera, hvað ætlar hún að leggja til, ef Ráðstjórnarríkin halda ótrauð áfram framleiðslu og uppsetningu SS-20-flauga? Sú er raunin fram til þessa og hvað vill friðarhreyfingin taka til bragðs? Varla vonast hún eftir að geta haft áhrif á leiðtoga gerzka ævintýrisins með mótmælagöngum þar austur frá eftir þá hlálegu meðferð, sem konur af Norð- urlöndum sættu sig við, þegar þær töldu sér trú um, að þær væru að boða þegnum Ráð- stjórnarríkjanna frið. Á Vestur-Evrópa að bíða örlaga sinna með hendur í skauti og vona, að kúgunin verði ekki of grimmileg? Ef við gefum okkur, að frið- arhreyfingin sé ábyrg hreyf- ing og að hún vilji koma í veg fyrir uppsetningu Pershing II-flauganna, hvernig vill hún tryggja öryggi Vestur- Evrópu? Hún þarf ekki að gera sér neinar grillur um, að hún hafi áhrif á stjórn Ráð- stjórnarríkjanna. Það, sem þyrfti að koma í stað flaug- anna, er hefðbundinn vopna- búnaður. Það ætti friðar- hreyfingin að leggja til. En það yrði nokkru dýrara en að setja upp flaugarnar. Til við- bótar þeirri 3% raunverulegri aukningu á framlögum til landvarna, sem Atlantshafs- ríkin samþykktu árið 1978, en fá þeirra hafa framfylgt, þyrfti að bæta við einu til einu og hálfu prósenti. Þetta mat byggist á þeirri forsendu, að vega þyrfti upp tap flaug- anna og að ekki yrði gripið til kjarnorkuvopna gegn innrás Ráðstjórnarríkjanna. (Sjá The Economist, bls. 30—32, 31. júlí 1982.) Er friðarhreyf- ingin tilbúin að leggja til þessa aukningu? Eða er hún einungis ábyrgðarlaus sam- tök, sem leika sér að dýpsta ótta um að veröldin farist eða einlægustu vonum um fagurt mannlíf á jörðunni, með hættulegu bulli og villandi slagorðum? Kallar hún yfir sig það, sem hún berst hat- rammlegast gegn? Vill hún raunverulegan frið eða sættir hún sig við friðsamlega kúg- un?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.