Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.2001, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. DESEMBER 2001 A LLT sem er sterkt og fal- legt er bogið eða ávalt. Stysta leiðin á jörðinni er ekki bein heldur bogin, þess vegna erum við að þvælast yfir Grænland á leið vestur um haf. Og allt sem er sterkt er kúpt: jörðin sjálf, sólin, hauskúpan, konubrjóst! Allt sem er kantað er veikt, það vissu Rómverjar þegar þeir byggðu Kólosseum sem enn stend- ur og vex inn í eilífðina eins og sumir lista- menn. Köntuð hugsun er að öðru jöfnu heldur veik hugsun og fær litlu um þokað til fram- búðar. Sjáðu bara Hitler…Stalín…“ Þetta segist Matthías Johannessen hafa lært af Buckminster Fuller, bandaríska al- fræðingnum sem hingað kom og hann átti langt samtal við á sínum tíma. Hann er nú lát- inn en í nýju ljóðaúrvali Matthíasar er kafli sem er skírskotun í hann. Matthías heldur áfram á mjúku línunum: „Góðir listamenn hugsa mjúkt og bogið og ávalt. Þess vegna eru þeir svo oft misskildir. Sú kantaða eða ferhyrnda hugsun er kröfu- harður húsbóndi og óforbetranlegur keppi- nautur við mýkt og mjúkar línur. Hún er hugs- un hörkunnar og hversdagsleikans. Það er allt of mikið af kantaðri hugsun, einkum í stjórn- málavafstri. Hún er forsenda fordóma, óbil- girni og árásarhneigðar, og þá ekki síst mann- jafnaðar sem hefur verið einskonar plága á Íslandi allt frá landnámsöld. Þeirri arfleifð mættum við kasta fyrir róða, en það er hægara sagt en gjört, því að hún er í genunum – eins og margar aðrar forsendur illvígra sjúkdóma. Kærleikurinn er hin bogna, mjúka lína. Einnig ástin. Það hefði verið óhugsandi að Steinn yrkti um að hann gengi í ferning eða ferhyrning í kringum allt sem er! Það er engin tilviljun þegar hann segir í lok þessa dýrlega ástarkvæðis: „Og innan þessa hrings er veröld þín.“ Auðvitað var hún þar, stúlkan! Hann tal- ar líka um hina íbjúgu veröld í Söknuði, hlýja og góða veröld minninganna, en hið hvíta blóm dauðans vex aftur á móti á hornréttum fleti í Tímanum og vatninu og það rignir gagnsæjum teningum við ragnarök.“ Listræn tök eitt, hráefni annað Matthías hefur gefið út átján ljóðabækur og er birt úr þeim öllum í nýju ljóðaúrvali sem Silja Aðalsteinsdóttir valdi í. Matthías sendir einnig frá sér nýja skáldsögu, Hann nærist á góðum minningum. Titillinn er fenginn úr Don Kíkóta og eins og riddarinn hugumprúði berst sögupersóna Matthíasar við vindmyllur sínar á ferð um innri heim og ytri – þetta er saga um „styrjöld einmana manns við sjálfan sig“, eins og segir í bókinni. Minningunum raðar hann saman í mynd af sjálfum sér en hún er brot- hætt eins og tilveran öll. –Matthías, allir vilja vita hvort þetta sé myndin af Matthíasi Johannessen sem þarna er dreginn upp? „Nú, er það virkilega? Mannskepnan hefur líklega breyst lítið sem ekkert gegnum tíðina. Ég er nýbúinn að fara gegnum ævisögu Pro- usts eftir Edmund White og fengið þar enn eina staðfestingu á því. Hann sýnir fram á hvernig Proust vinnur mestu skáldsögu síð- ustu aldar upp úr reynslu sinni og minningum, þótt allt sé þar dulbúið og lagað í hendi. Ég hafði ekki lesið skáldverk Prousts þegar ég skrifaði Hann nærist á góðum minningum, en upplýsingar Whites komu mér ekki á óvart. Allt verður til af einhverju efni, segir Snorri, og hefur helst ekki gaman af öðru en því sem hefur eitthvert jarðsamband. En mér finnst einna merkilegust útgáfusaga þessa franska skálds, auðmanns, snobbs og snillings. Menn voru þá eins og nú að gramsa í end- urminningunum að baki skáldverksins og þeir sem leitað var til um útgáfu á fyrsta bindi vildu ekkert með þessar formlausu og óendanlegu minningar hafa, eins og „hin bókmenntalega“ afgreiðsla hét. Á þessum tíma var bókmenntakönnuðurinn mikli Sainte-Beuve enn í tísku, þótt Proust hefði litlar mætur á kenningum hans sem hnigu að því að nauðsynlegt væri að þekkja hvern krók og hvern kima í hugskoti höfund- arins til að geta skilið verk hans. Ef maður vissi til að mynda ekki því næst allt um Balzac þýddi ekkert að lesa sögur hans; maður yrði að þekkja grundvöllinn og hann væri að finna í bréfum skáldsins, athugasemdum og frásögn- um vina hans. Að öðrum kosti væri lesturinn einslags ósvinna. Þannig átti að lesa öll skáld sem máli skiptu. Þetta er auðvitað hin mesta firra eins og Proust sagði sjálfur, þótt slíkar upplýsingar séu einatt hið mesta góðmeti og venjulega mikil fullnæging venjulegrar eðlislægrar hnýsni. Proust var sólginn í ævisögur lista- manna, ekki síður en aðrir. Hann var ekki á móti ævisagnaritun eða forminu sem slíku, þvert á móti. En sem forsenda skilnings þótti honum það ekki sá vegvísir sem haldið var fram með bókmenntagreiningu Sainte- Beuves, síður en svo. Meðferð efnisins skipti auðvitað höfuðmáli. Listræn tök eru eitt, hráefni annað. Og svo hófst útgáfubaráttan. Persónuleit- inni var haldið áfram, en lauk auðvitað með því að lesendur gáfust upp og sneru sér að verk- inu eins og það kemur fyrir af skepnunni Marcel Proust. Og nú les hann enginn með sama hugarfari og þegar við hnýsumst í leg- steina í gömlum kirkjugarði og reynum að lesa nöfnin því að þau eru öll afmáð og enginn þekkir þessar nafnlausu grafir, nema sérfræð- ingar eins og White. Nú er einkabílstjórinn, sem var uppáhaldsástmaður skáldsins, í hlut- verki fallegrar konu í sögunni og ærir skáldið með afbrýðisemi. En hverjum er ekki sama úr því sem komið er? Proust var sem sagt einhvers konar ut- angarðsmaður í samfélagi sínu og allir af- greiddu hann á þeim forsendum sem lestirnir kváðu upp úr: hann var auðmaður, hann var snobb, hann var hægrisinnaður tækifær- issinni. Allt þetta mátti kannski til sanns vegar færa, einnig að hann væri hommi sem fáir vissu þó um á sínum tíma, en það hafði farið fram hjá mönnum að hann var snillingur, hvort sem þeim líkaði betur eða verr. Einn þeirra sem dæmdu skáldskap hans úr leik var mótmælendaskáldið fræga, André Gide. Síðar kom í ljós að hann hafði bara, eins og sumir aðrir, flett sögu Prousts en ekki lesið og nagaði sig ævinlega í handabökin fyrir þennan vesaldóm. Nú lesa menn mörg hundr- uð bækur á svipstundu eins og að drekka vatn! Síðar auðnaðist Proust að fá útgefanda að verki sínu, en þurfti að borga með útgáfunni. Sá hét Bernard Grasset og hefur verið kall- aður fyrsti nútímalegi bókaútgefandi heims. Hann kunni öll brögðin sem enn eru notuð; fréttatilkynningar og alls kyns blaðakynn- ingar notaði hann eins og nú ert gert, há- stemmdar auglýsingar handa mergð sem les eins og kýr sem finna sér góða sameiginlega jórturstund – og ekki nóg með það, heldur voru bæði Proust og Grasset sérfræðingar í matarboðum og blíðkuðu gagnrýnendur með gjöfum og gælum; ekki síst Proust sjálfur. En Grasset var sagður múta þeim sem þess voru verðugir. Samt voru ekki prentuð nema 2000 eintök í þessu milljónaþjóðfélagi. Ekki var aðdáun skáldsins samt mikil á út- gefanda sínum og líkti honum við pappírshníf úr fílabeini! Svo þegar atlaga var gerð síðar að þeirri virðulegu nefnd sem úthlutaði frægustu bók- menntaverðlaunum Frakka hlaut Proust ekki nema sex atkvæði af tíu. Þeir fjórir sem enn sátu við sinn keip héldu fast við sitt, þótt þeir yrðu undir en skáldið ofan á. Og þar hefur hann verið síðan, enda átti hann ekki mörg ár ólifuð. En þessir fjórir eru enn á stjái ef skoðað er í saumana á samfélaginu.“ Stíl hefur hrakað –Þú hefur stundum lýst áhyggjum þínum af fagurfræðinni í samtímanum, og það má kannski til sanns vegar færa að hún hafi gufað upp af yfirborðinu sem allt þekur, hlutirnir eiga að vera flottir og fægðir og umfram allt augljósir en það vantar eitthvað meira. „Í samtölum Claude Bonnefoy og leikrita- skáldsins fransk-rúmenska, Eugene Ionesco, segir skáldið að hann hafi gefist upp á mörgum skáldsögum vegna þess hve illa þær voru skrifaðar, þótt efnið væri kannski athygl- isvert. Mér hefur stundum farið eins. Stíl hef- ur hrakað, enda fáir sem hugsa um þessar est- etísku umbúðir sem skipta þó í raun öllu máli af þeirri einföldu ástæðu að það hefur verið skrifað um allt milli himins og jarðar, en skáld- leg tök eru alltaf ný eins og Passíusálmarnir. Ionesco segir: „Ég skildi skáldskap, skildi að það er ekki sagan sem máli skiptir, heldur umfram allt hvernig hún er skrifuð; með öðr- um orðum að saga ætti að birta dýpri hugsun. Að það skipti meira máli hvernig sagan er sögð en um hvað hún fjallar, það er aðalsmerki bókmenntalegrar köllunar “ Flestir sækjast eftir „spennandi“ efni og það er þetta efni sem á að selja. Um það fjalla auglýsingarnar. Ekki list, að minnsta kosti ekki endilega. Væri ástæða til að hafa áhuga á Bjarti í Sumarhúsum, ef sagan væri ekki frábærlega vel skrifuð? Þetta er heldur ömurlegur karl, ekki síst sem tákngervingur einstaklings- hyggju. En hann er skrifaður inn í þær list- rænustu umbúðir sem hugsast getur. Þar skil- ur milli feigs og ófeigs. Eða Kristrún í Hamravík og hyski hennar? Án stílsnilldar Hagalíns hefði uppistand henn- ar engum tíðindum sætt og allra síst sem áfangi í íslenskri bókmenntasögu. Og Ionesco heldur áfram: „Það sem fólk hef- ur áhuga á er ekki það sem er algildur sann- leikur, heldur persónulegar játningar, sem sagt það vill liggja á skráargatinu. Það sem fólk hefur áhuga á er ekki það sem er algilt eða almennt í skáldverkinu, heldur vill það fá að vita um einkalíf höfundar. Sem sagt, það vill kynnast öllu nema verkinu sjálfu. Það er að sjálfsögðu hnýsilegt að kynnast heimildum, en þó hnýsilegra að skoða verkið sjálft.“ Og svo sér hann sig knúinn til að taka fram að leikpersónur hans eru ekki – að minnsta kosti ekki alltaf – hans „alterego“, eða hans annað sjálf. Þær eiga einnig sinn eigin heim utan við skáldið og skoðanir hans sjálfs. Sem sagt, mannskepnan hefur ekkert breyst, hvað sem líður þjóðfélagsumbúðunum. Þetta vitum við án þess neinn nenni lengur að tíunda það, enda hefði enginn áhuga á því.“ Heimurinn allsherjar kækur –Ég ætla ekki að spyrja þig um ástæður þessa ástands, ekki endilega, en þú hefur talað um „einsmenningu“ og átt við hvernig allt er að verða að einu og hinu sama, hvernig allir éta vitleysuna upp eftir hver öðrum og þykjast góðir. „Sjónvarpið hefur sannfært mig um að heimurinn er einn allsherjar kækur. Og David Letterman er alvörufíflið í þessari for- kostulegu heimssýningu. Allt endurtekið, ein- hver þarf að láta á sér bera, hann þarf að selja eitthvað, ekki síst ef hann er einhvers konar listamaður. Einhver er með þátt, hann þarf að láta á sér bera. Kannski þarf hann að lifa á ein- hverju. Hann er með sófa og stól í sjónvarps- sal. Fólk sest í sófann og er spurt heimsku- legra spurninga, það reynir að vera fyndið. Rithöfundur kemur inn í salinn, les upp og kveikir í bókinni. Það er kallaður gjörningur. Síðan er bullað um ástina eða önnur „einka- mál“. Flissað og hlegið. Og áður en varir veit enginn hvort hann er að horfa á sjónvarpsþátt á NBC, Hjá Larry King, CBS – allsstaðar sama sölumennskan, allsstaðar sama skvaldr- ið, allsstaðar sami kækurinn. Þetta er svona eins og ef maður færði á milli sjónvarpsstöðva og sæi alla spyrlana snýta sér eins, og spyrl- arnir reyndu undir drep að taka þátt í þessari óvæntu uppákomu. Ég hef kallað þetta eins- menningu. Hún hefur að vísu alltaf loðað við heiminn en nú er hún að ganga af honum dauð- um. Sjónvarpið er kassi, maður ýtir á hnapp og þá spretta upp sprellikarlar á gormum. Þeir eru allir eins og það er nákvæmlega sama hvort þeir eru í CNN, NBC eða íslenska sjón- varpinu – þeir koma upp úr kassanum af sömu ástæðu, eða á ég að segja af sömu ástríðu: að skemmta sjálfum sér!“ Móðurmjólkin gott veganesti –Það er mikið talað um alþjóðvæðingu í svipuðum skilningi og henni stillt upp gegn þjóðarhugtakinu og þjóðararfleifðinni. Þú hef- ur sagst óttast að við missum undirstöðuna ef við gætum ekki að okkur. Hvað áttu við? „Arfleifðina fær maður ekki í skóla, ekki endilega, heldur með móðurmjólkinni. Það ís- lenskt skáld sem hefur ekki fengið þetta vega- nesti er harla illa statt, ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum þegar auðvelt er að verða svokallaðri alþjóðamenningu að bráð, en að því er unnið öllum árum. Það er svo sem gott og blessað en við hljótum þá líka að hafa ein- hverju öðru hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna en efla einsmenningarstefið og sinna helst engu öðru. Það hefur verið genetískur metnaður alla tíð að rækta gamalkunn ein- kenni okkar.“ –En er samræða okkar við umheiminn ekki nauðsyn, spratt ekki íslensk menning úr henni og hefur hún ekki átt sín mestu blómaskeið þegar erlendu áhrifin hafa verið sem mest – á miðöldum, á nítjándu og tuttugustu öld? „Í mínum huga var einsmenningarskáld mótmælenda á sínum tíma, Hallgrímur Pét- ursson, ein af landvættunum á válegum tím- um. Hann var öðruvísi, þótt ekki vantaði er- lendu áhrifin á list hans og hugsun en hann breytti þeim í íslenskan veruleika sem er um- hverfi okkar enn í dag, ekki einungis í kirkjum landsins, heldur allsstaðar þar sem gustar ær- lega af íslenskri hugsun. Þessa vitneskju fékk ég ekki endilega í ís- lenskudeild Háskólans, heldur með móð- urmjólkinni. Og hún er gott veganesti. Sr. Hallgrímur var minn maður þegar í barnæsku og svo kom sr. Matthías til skjal- anna. Móðir mín lagði samt mesta áherslu á hinn fyrr nefnda vegna Passíusálmanna en þeir lágu gjarna á náttborðinu hennar, og svo auðvitað biflían og sálmabókin. Ég held henni hafi þótt hvað mest til um þegar þar birtist óforvarandis sálmur eftir son hennar. Stund- um kom ég að henni þar sem hún sat ein, göm- ul ekkja í íbúðinni sinni við Garðastræti, og las guðsorð. Þegar ég lít um öxl til æsku minnar sé ég hana ávallt innan hrings í vesturbænum. Það sem dugði henni er mér einnig nægilegt veganesti. En hún kenndi mér líka að skilja milli Krists og kirkjunnar því að guðs vegir væru víðar.“ Ljóðið getur orðið langlíft eins og skjaldbakan –Þér hefur líka orðið tíðrætt um vegferð ljóðsins í fári samtímans. En þótt hávaðinn ætli allt að kæfa eru menn samt alltaf að yrkja og lesa ljóð, sennilega vegna þess að þar er kannski von á meitlaðri hugsun sem annars ber ekki mikið á. Mér sýnist ljóðið lifa sínu lífi hvað sem menn segja. „Það er raunar fátt um ljóðið að segja, enda er það hlédrægt í eðli sínu. Samt hefur það verið þrautalending í öllum goðsögulegum bókmenntum, frá Hómer og Biflíunni til yngri verka. En umhverfið er ekki endilega ljóðvænt í þeirri háreysti sem við nú lifum. Skoska skáldið R.L. Stevenson orti sniðugt kvæði sem heitir Skugginn og lýsir barns- skugga sínum og hvernig hann stækkar og minnkar án tillits til þess hvernig hann sjálfur stendur í stað, og svo einn morgunin þegar drengurinn fer á ról fyrir allar aldir að dást að dögginni á blómunum í garðinum við húsið hreyfir skugginn sig ekki og heldur áfram að sofa. Leti skuggans er drengnum óskiljanleg í þessum hugmyndaheimi barnsins – og til íhug- unar. Bandaríska ljóðskáldið Róbert Frost orti kvæði um veginn sem hann valdi ungur inn í hversdagsgulan skóg drauma sinna. Þar var um tvær leiðir að velja. Hann horfði lengi fram eftir vegunum og sá að þeir voru svipaðir en annar var að mestu gróinn upp og lítt troðinn og varð þess vegna fyrir valinu. Þetta val skipti sköpum, segir skáldið þegar hann horfir SKÁLDLEG TÖK ERU ALLTAF NÝ Matthías Johannessen hefur gefið út tvær bækur á þessu hausti, ljóðaúrval sem Silja Aðalsteinsdóttir hefur valið úr öllum ljóðabókum hans og skáldsöguna Hann nærist á góðum minningum. ÞRÖSTUR HELGASON ræddi við Matthías um bækurnar og skáldskapinn í fortíð, samtíð og framtíð.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.