Tíminn - 07.02.1987, Blaðsíða 10

Tíminn - 07.02.1987, Blaðsíða 10
10 Tíminn ARNAÐ HEILLA Laugardagur 7. febrúar 1987 sjötugur Kynni mín af Gylfa Þ. Gíslasyni, jafnaðarmanninum og rithöfundin- um, tókust löngu áður en ég kynntist manninum sjálfum og lærði að meta hann að verðleikum. Snemma á unglingsárunum barst mér í hendur lítið kver eftir Gylfa: Jafnaðarstefn- an, trúi ég það heiti. Ef mig ekki misminnir voru þeir fóstbræður Mars og Engels utan á kápunni í félagi við minni spámenn norðurevr- ópskra krataforingja eins og Staun- ing, hinn danska síðskegg og Gle- ment Atlee nauðrakaðan (sem stór- bokkinn Churchill sagði ákaflega lítillátan - og ekki að ástæðulausu). Ég man ekki betur en ég hafi haft þetta kver í farangrinum í sveitina sumarið 1950. Þegar illa viðraði til útiverka gafst næði til að brjóta heilann um fræði Gylfa. Af lestri þessa kvers rann upp fyrir mér hvílíkur reginmunur væri á mann- skilningi jafnaðarmanna og komm- únista - og er þó einlægt verið að kenna báða við sama ismann. Gylfi boðaði ekki Paradís á jörðu sam- kvæmt formúlu sjálfskipaðrar úr- valssveitar, þeirra sem allt þykjast vita og skilja öðrum betur. Gylfi boðaði trú á manninn, dómgreind hans og siðgæðisvitund. Samkvæmt hans ritúali er jafnaðarstefnan spurning um siðferðislegt gildismat; hún er húmanismi + mannréttinda- barátta. Gylfi útskýrði orsakasamhengi efnahagsskipulags og lýðræðis. Hann sýndi fram á, að lýðræði fengi ekki staðist, nema þar sem hið efnahagslega ákvörðunarvald dreifðist á marga aðila, sem eru óháðir valdhöfum. Sú röksemda- færsla leiðir til niðurstöðu, sem við köllum blandað hagkerfi, þar sem eignarréttarform eru margvísleg og efnahagslegt vald er dreift. Þarna var opnaður gluggi til nýrra átta. Þarna heyrði ég í fyrsta sinn sagt frá því, um hvað nútímaleg jafnaðar- stefna snýst. Þetta var ekki hörð kenning í samanburði við þann rétttrúnað rannsóknarréttarins, sem lesa mátti af guðspjöllum Einars og Brynjólfs. Og vakti til umhugsunar, sem hefur reynst lífsseig. Gylfi sýndi fram á það með fræðilegum rökum og vísan til sögulegrar reynslu, að hinn kost- urinn er sá, að valdhafarnir (Ríkið) fari einir með þetta gífurlega vald. Það endar ævinlega í valdbeitingu - lögregluríki. Gildir þá einu, hvort böðulshöndin er brún eða rauð - eins og Tómas kvað. Sú kom tíð á pólitísku gelgjuskeiði, að mér þóttu fræði Gylfa helst til þurr og hversdagsleg - varla nógu spenn- andi fyrir tíðarandann. Um skeið varð ég innlyksa í völundarhúsi hinn- ar hátimbruðu hugmyndafræði Marx gamla og epígóna hans. Þaðan rataði ég út aftur síðla á menntaskólaárum undir leiðsögn Djilasar og Cros- lands hins enska. Sá var reyndar húmanískur hagfræðingur og list- unnandi, sem minnti um margt á hinn þýskskólaða Gylfa. Ég rifja upp þessi bernskukynni aff leiðbeinanda og læriföður á 70 ára afmæli hans, vegna þess að hún staðfestir, að Gylfi Þ. Gíslason hefur verið óvenjulegur stjórnmálamaður. Þeir stjórnmálamenn íslenskir, sem með ritverkum sínum hafa náð því að sá frjókornum nýrra hugmynda í huga unglinga á mótunarskeiði, cru ekki margir. Þeir sem hafa afvega- leitt ungar sálir í pólitískri hjátrú og hindurvitnum, eru helst til margir. Andlegur heiðarleiki, yfirburða- þekking, rökrétt hugsun, skýr fram- setning og látlaus stíll - þetta eru kostir, sem prýða hvern mann. Gylfi Þ. Gíslason hefur sýnt það í lífsstarfi sínu, að hann er þessum kostum búinn umfram flesta menn. Hann var á sínum tíma mjög umdeildur stjórnmálamaður. Hann fór ekki varhluta af sleggjudómum og illmælgi miður góðgjarnra sam- tíðarmanna. En verkin blífa. Þess vegna er það, að vegur Gylfa og virðing með þjóðinni fer vaxandi. Hann er metinn að verðleikum af verkum sínum. Um það blandast engum hugur lengur að hann skipar varanlegan sess í fremstu röð stjórn- málaleiðtoga okkar tslendinga á lýðveldistímanum. Við sem nú erum á miðjum aldri eða rúmlega það eigum margar minningar um framgöngu Gylfa í íslensku þjóðlífi. Ég minnist hans frá fjölsóttum kappræðufundum á vegum Stúdentafélags Reykjavíkur, þar sem hann sótti og varði málstað jafnaðarmanna af þekkingu, leikni og reisn. Framganga hans í útvarps- umræðum frá Alþingi kom oft á óvart; hann tók viðfangsefnin einatt öðrum tökum en aðrir ræðumenn og nálgaðist þau af meiri yfirsýn en títt er um menn, sem eru niðursokknir í dægurmálaþras. Það er flestra manna mál, þeirra sem ég þekki úr röðum skóla- og listamanna, að menntamálaráðherr- ann Gylfi Þ. Gíslason, hafi borið af öðrum, sem því virðulega embætti hafa gegnt, að þeim ólöstuðum. Tækifæris- og samkvæmisræður Gylfa frá þessum tíma urðu oft fleygar. Gylfi á til skálda að telja, enda vafðist ekki fyrir honum að ávarpa þingveislur í léttu og leikandi bundnu máli. Tónskáldinu Gylfa hafa menn kynnst af rómantískum lögum hans við öndvegisljóð Tóm- asar Guðmundssonar, Jóns Helga- sonar og annarra þjóðskálda. Oft eru það öríög manna, sem þegið hafa í vöggugjöf jafn marg- brotið gáfnafar og hér er lýst, að þeir verða verksmáir, vegna skorts á einbeitingu. Það er hins vegar til marks um skapfestu og viljastyrk Gylfa, að þessir margbrotnu hæfi- leikar voru agaðir til skapandi verka. Afmælisritið, Hagsæld, tími og hamingja, sem vinir Gylfa standa að, í tilefni 70 ára afmælisins, endur- speglar vel fjölbreytni viðfangsefna og ótrúleg vinnuafköst höfundar. Ungur gerðist Gylfi háskólakennari að starfi og hugsjón. Jafnframt var hann brautryðjandi í hagfræði- kennslu og íslenskun þeirrar fræði- greinar. Það er aðalsmerki Gylfa sem kennara, að hann hefur búið í hendur nemendum sínum fjölda rita um hagfræðileg efni. Öllu þessu kom hann í verk samhliða erilsömu og lýjandi starfi stjórnmálamanns- ins. Þannig gerir hann skömm til mörgum háskólakennaranum, sem hélt sig þó við leistann sinn og lét sér nægja að ástunda fræðin ein. Þegar Gylfi var horfinn á braut úr eldlínu stjórnmálanna tók hann aft- ur til við háskólakennsluna af sömu elju og áhuga og fyrr. Þannig hefur hann seinni árin gerst brautryðjandi í kennslu fiskihagfræði innan Við- skiptadeildar og dregið þar saman föng í hendur nemendum á móður- málinu. Þetta sýnir m.a. hversu heill hann kom út úr róstum stjórnmála- baráttunnar með óskert starfsþrek og í fullu fjöri. Af stjórnmálaferli Gylfa gnæfir sennilega hæst framlag viðskiptaráð- herra Viðreisnar til þeirra löngu tímabæru og róttæku umbóta á hagstjórn, sem hrundið var í fram- kvæmd á fyrra skeiði þeirrar farsælu ríkisstjórnar. Síðan hefur íslenskum stjórn- málaforingjum nijög fatast stjórn efnahagsmála eins og lesa má af línuritum um óðaverðbólgu og skuldasöfnun seinni ára. Þar þarf aftur að taka til hendinni og koma fram róttækum umbótum á stjórn- arfari og stjórnsýslu, í framhaldi af umbótastarfi viðreisnarmanna. Heimt handritanna úr höndum Dana hefur áreiðanlega verið stór stund á ferli hins hámenntaða og listunnandi menntamálaráðherra. Sem dæmi um framsýni Gylfa og raunsætt mat á stöðu mála má nefna, að gáfaðir menn í bændastétt harma það nú alla daga að viðvörunarorð- um Gylfa um fyrirsjáanlegar ógöng- ur bænda undir jarðarmeni mis- ráðinnar ríkisforsjár og einokunar- kerfis, var ekki sinnt í tæka tíð. Nú vildu margir þá Lilju kveðið hafa. Á sl. ári hélt Alþýðuflokkurinn hátíðlegt 70 ára afmæli sitt. Þar kom fyrrverandi formaður Alþýðuflokks- ins og jafnaldri, Gylfi Þ. Gíslason eftirminnilega við sögu. 1 ræðu sinni við setningarathöfn flokksþingsins miðlaði lífsreyndur stjórnmálaleið- togi okkur hinum af reynslu sinni. Þar kvað við tón umburðarlyndis og velvildar í garð allra manna, það er hinn hreini tónn, sem mætti að ósekju gæta meir í samskiptum einstaklinga og hópa, í okkar fámenna þjóðfé- lagi. Alþýðuflokkurinn og Gylfi eru ekki einasta jafnaldrar. Þeir hafa átt samleið í bráðum hálfa öld. Af þeim 70 árum, sem Alþýðuflokkurinn hef- ur starfað, hefur Gylfi Þ. Gíslason átt sæti í miðstjórn fíokksins í 46 ár. Hann var ritari flokksins í 20 ár, varaformaður í 2 ár og formaður í 6 ár (1968-74). Formaður þingflokks var hann í 10 ár, eða þar til hann vék af þingi árið 1978. Alþýðuflokkurinn og Gylfi hafa mátt þola saman súrt og sætt, vel- gengni og mótlæti. Það verður að segja reykvískum jafnaðarmönnum til hróss, að þeir höfðu snemma vit á að virkja hæfileika hins unga gáfumanns í þágu flokks og þjóðar. Alþýðuflokkurinn fól Gylfa mikinn trúnað. Og Gylfi níddist í engu á þeim trúnaði, sem honum var sýndur. Fyrir hans tilverknað öðrum fremur náði flokkurinn miklum ár- angri í stjórnarstörfum. Enn í dag erum við jafnaðarmenn stoltir af þeim góðu verkum. En á seinni hluta formannstímabils síns fékk Gylfi einnig að kenna á því harða lögmáli, að laun heimsins eru van- þakklæti. Því tók hann með karl- mennsku og æðruleysi, sem honum er í blóð borið. I Viðskipta- og hagfræðingatali er þess getið, að hagfræðiprófessorinn og stjórnmálamaðurinn Gylfi Þ. Gíslason eigi sönglög á þremur hljómplötum. Heitin eru táknræn: Við sundin blá, Lestin brunar og Eg leitaði blárra blóma. Heitin á hljómplötunum, ljóða- og lagavalið, staðfestir að þessi afkastamikli stjórnmálamaður er í innsta sinni óforbetranlegur rómantíker. Um það luma ég á lítilli sögu, sem lýsir fagurkeranum og listunnandanum Gylfa Þ. Gíslasyni. Sú var tíð að kona mín var fremst í flokki fagurra ungmeyja, sem héldu uppi merki íslenska dansflokksins. Éinhvern tíma snemma á skólaárum hennar færði dansflokkurinn upp nýjan frumsaminn ballett, eftir danska balletmeistarann Erik Bidsted. Ég bið að heilsa, hét hann. Daginn eftir var ballerínan stödd á myndlistar- sýningu í gamla Listamannaskálan- um. Þar steðjar að henni frakka- klæddur valdsmaður, tekur ofan sinn svarta hatt og hneigir sig djúpt fyrir ballerínunni. Hann þakkaði af hrifn- ingu fyrir ánægjulega kvöldstund og hvatti hana eindregið til dáða í þjónustu danslistarinnar, sem þá var vissulega í bernsku hér á landi. Þarna var þá kominn sjálfur mennta- málaráðherrann, fagurkerinn og listunnandinn í einni og sömu pers- ónu. Margur valdsmaðurinn hefði látið ógert að ávarpa svo virðulega unga skólastúlku, sem var að stíga fyrstu sporin á sviðinu. - Kannske var það líka stjórnmálamaðurinn sem kunni sig. Álla vega er þetta litla atvik ekki gleymt, þótt meira en 30 ár séu liðin síðan. í Biskupasögum segir frá því er menn ræddu sín í milli um mannkosti og ágæti Isleifs biskups. Þar var nærstaddur fóstursonur hans, Jón Hólabiskup Ögmundarson, og komst svo að orði um fóstra sinn að æ síðan hefur verið í minnum haft á íslandi: „Hans skal ég ávallt geta er ég heyri góðs manns getið.“ Þessi orð vil ég gera að mínum um Gylfa Þ. Gíslason. Að svo mæltu flyt ég honum hugheilar þakkir okk- ar íslenskra jafnaðarmanna fyrir giftudrjúgt starf og dygga þjónustu við góðan málstað í bráðum hálfa öld. Við árnum Gylfa, Guðrúnu konu hans Vilmundardóttur, sonum þeirra og fjölskyldu allri heilla á afmælinu. Okkur hinum óska ég þess til handa, að við megum enn um langa framtíð njóta góðra verka afmælisbarnsins, landi og lýð til heilla. Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins. Á sjötugsafmæli Gylfa Þ. Gísla- sonar lít ég í huganum yfir glæsilegan starfsferil hans. Gylfi hefur lengi staðið í fylkingarbrjósti bæði í sinni fræðigrein og á sviði stjórnmála. Að loknu kandidatsprófi í hagfræði frá háskólanum í Frankfurt am Main árið 1939 hóf hann kennslustörf við Viðskiptaháskóla íslands og hélt þeim áfram í Háskóla fslands, þegar kennsla í viðskiptafræði og hagfræði fluttist þangað árið 1941. Hann var skipaður dósent árið 1940 og prófessor 1946. Doktorsprófi lauk hann við sinn gamla háskóla í Frankfurt árið 1954 og árið 1971 var hann gerður heiðursdoktor við Há- skóla Islands. Gylfi hefur setið í miðstjórn Al- þýðuflokksins í 46 ár og var formað- ur hans í sex ár. Auk þess hefur hann gegnt mörgum öðrum helstu trúnað- arstörfum innan flokksins. Hann sat á Alþingi sem þingmaður Reykvík- inga í 32 ár, eða frá árinu 1946 til 1978. Hann var menntamálaráð- herra árin 1956-1971, eða samfellt í 15 ár, og af þeim tíma var hann einnig viðskiptaráðherra í meira en 12 ár. Jafnframt fór hann með sam- skipti íslands við alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála eins og Efna- hags- og framfarastofnunina (OECD áður OEEC), Alþjóða- gjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabank- ann og viðskiptabandalögin í Evrópu (Fríverslunarsamtökin, EFTÁ, og Evrópubandalagið) allan sinn langa ráðherraferil. Hann hefur látið norrænt samstarf mjög til sín taka og var árin 1971-1978 formaður menningarmálanefndar Norður- landaráðs og fjárlaganefndar Norðurlandaráðs árin 1975-1978. Hann er nú formaður Norræna fé- lagsins á íslandi. Ég hef hér stiklað á stóru í starfs- ferli Gylfa, því nákvæm upptalning á öllum þeim margháttuðu trúnaðar- störfum, sem hann hefur gegnt, sprengir af sér öll bönd. Auk kennslu- og stjórnmálastarfa hefur Gylfi verið mikilvirkur rithöfundur og einn helsti brautryðjandi í kennslu og rannsóknum á efnahagsmálum hér á landi. Hann hefur skrifað fjölda bóka og ritgerða í fræðigrein sinni, en hefur auk þess látið sér fátt óviðkomandi, sem varðar farsæld fslendinga, afkomu þeirra og menn- ingu. Honum er einstaklega vel lagið að koma skoðunum sínum á framfæri á ljósu máli. Fjölbreytnina í störfum Gylfa og hugðarefnum má glöggt sjá af úrvali úr ræðum hans og ritgerðum, sem vinir hans og sam- starfsmenn hafa gengist fyrir að gefið er út í bókinni Hagsæld, tími og hamingja í tilefni af sjötugsafmæl- inu. Úrvalinu fylgir einnig ítarleg skrá um rit hans. Gylfi leggur gjörva hönd að ritsmíðum jafnt um reikn- ingsskil fyrirtækja sem varðveislu þjóðmenningar. Það sætir furðu, hversu miklu Gylfi hefur komið í verk um dagana. Þó finnst mér enn merkilegra, að hann er enn í dag jafnstarfsamur og hann var á sínum yngri árum. Nú, þegar hann stendur á sjötugu, er hann afkastamikill að semja og gefa út kennslubækur í þjóðhagfræði og rekstrarhagfræði. Hann hefur frá því hann hóf kennslu á ný árið 1972 lagt grundvöll að nýrri grein við viðskiptadeild Háskóla íslands, fiskihagfræði, og eins og fyrri daginn ekki látið sér nægja að nota erlendar kennslubækur heldur samið sérstakt kennsluefni á íslensku, sniðið eftir íslenskum aðstæðum. Kennslustarf Gylfa er stórvirki, sem flestir mættu vera fullsæmdir af einu, en hjá honum er það aðeins einn þráður í margþættum starfsferli. Gylfi Þ. Gíslason sannar með lífi sínu og starfi þá kenningu um örlæti andans, sem Sigurður Nordal setti fram í ritgerðinni „Samlagning" í tímaritinu Vöku árið 1927: Mörgum manni hættir við að spara sjálfan sig og minnast hins alkunna stærðfræðilögmáls: Það eyðist allt sem af er tekið. En undir eins og kemur yfir á landamærasvið efnis og

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.