Tíminn - 27.05.1987, Blaðsíða 13

Tíminn - 27.05.1987, Blaðsíða 13
Miövikudagur 27. maí 1987 Tíminn 13 llillll llllllillllllll MINNING Stefánsson Helgi Fæddur 17. janúar 1912 Dáinn 17. maí 1987 Lát mig starfa, lát mig vaka, lifa. meðan dagur er. Létt sem fuglinn lát mig kvaka, lofsöng, Drottinn, flytja þér, meðan ævin endist mér. Lát mig iðja, lát mig biðja, lífsins faðir, Drottinn hár. Lát mig þreytta, þjáða styðja, þerra tár og græða sár, gleðja og fórna öll mín ár. M.J. Þessar ljóðlínur komu upp í hug- ann er við fréttum að kvöldi 17. maí s.l. að Helgi Stefánsson, móður- bróðir okkar væri látinn eftir skamma sjúkdómslegu. „Gleðja og fórna öll mín ár.“ Pað á svo sannarlega við um líf og starf Helga. Fyrstu minningar tengdar Helga frænda er tilhlökkunin hjá okkur krökkunum hjá afa og ömmu í Haganesi er von var á honum og fjölskyldu frá Reykjavík, en þau komu norður í Mývatnssveit á hverju sumri. Dagurinn ætlaði aldrei að líða, amma var svo létt í spori og við horfðum í suðurátt og loks sást bíll beygja í áttina að Haganesi. í endur- minningunni eru næstu vikur eintóm gleði og sólskin. Helgi Stefánsson fæddist 17. janúar 1912 næst elstur barna Ás- laugar Sigurðardóttur og Stefáns Helgasonar í Haganesi, en þau eru Sigurður, Hlfn, Hjördís og fvar, auk Helga. Þau Áslaug og Stefán bjuggu í Haganesi frá árinu 1907-1968. Að Helga stóðu þingeyskar ættir og er hann afkomandi Helga Ásmunds- sonar á Skútustöðum. Helgi ólst upp á mannmörgu heimili og snemma fór hann að vinna og draga björg í bú. Ungur að árum var hann orðinn slyngur veiði- maður, gekk til rjúpna á vetrum, stundaði gæsaveiðar á haustin og veiddi silung í Mývatni og Laxá. Áhugi hans á veiðiskap hélst alla tíð þó árin færðust yfir. Hann unni útivist og bar virðingu fyrir öllu lífi, jafnt á láði sem legi og gekk um af stakri alúð og snyrtimennsku, en þannig eru allir sannir veiðimenn. Helgi var við nám í samvinnu- skólanum veturinn 1934-’35. Hann kvæntist Sylvíu Jónsdóttur f. 16. júlí 1911 árið 1936 og eignuðust þau þrjár dætur. Ásta f. 18. ágúst 1938 d. 28. mars 1939, Bryndís f. 31. maí 1940, Hildur f. 17. febrúar 1946. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau að Meðalholti 2, en árið 1950 flutti fjölskyldan að Háteigsvegi 11. Sylvia andaðist í nóvember 1958 aðeins 47 ára gömul. Helgi vann fyrst hjá Lýsissamlaginu, síðan hjá Kristjáni Skagfjörð og hjá Osta- og smjörsölunni þar til hann hætti störf- um fyrir aldurs sakir. Þau árin hinstu lifa í endurminning sinni um unnið, tapað stríð, og enduræfa stöku á ævikvöldsins vöku, sem barst á milli bæja á bernsku þeirra tíð. Þó glatt var oft ú hjalla og glóði vín á skálum í góðra vina hóp, hvert auga ástum þrungið, margt íslenskt kvæði sungið, sem brjóstsins þela þýddi og þrá til lífsins skóp. En lífið kallar alla, sem lifa vor á meðal, frá leikjamóti burt, og hörðum höndum tekur og harm og trega vekur. Um eðli manns og óskir er ekki framar spurt. K.f.D. Við systurnar viljum þakka fyrir þá aðstöðu sem við höfum notið á heimili Helga frá fyrstu tíð í nærfellt 30 ár. Það var sama hvort komið var að norðan eða erlendis frá, Helgi frændi var boðinn og búinn að sækja mann og keyra hvert sem var. Svo sjálfsagður hlutur var að búa á Háteigsveginum að um það var sjaldnast spurt. Helgi var mikið snyrtimenni, umgengni hans á heimilinu var einstök, allt í röð og reglu. Vinir okkar og skólasystkin voru fljót að rata á Háteigsveginn og voru einnig velkominn. Eftir að við vorum komnar með maka og börn styrktust böndin við Helga enn meira. Hann varð vinur og félagi eiginmanna okkar. Helgi undi sér vel í góðra vina hópi og var ómissandi á öllum tyllidögum í fjöl- skyldunni, þá sat gleðin í fyrirrúmi. Hann hafði yndi af söng og sagði snilldarlega frá. Helgi bar hag dætra sinna og barnabarna mjög fyrir brjósti og sendum við þeim öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Það er vor í lofti, hugurinn reikar í Mývatnssveitina, nú er fagurt niður með á og upp um eyjar. „Sunnanvindur sumar hlýr, sól og vor um allan dalinn" eins og svo oft var þar sungið. Far þú í friði friður Guðs þig blessi hafðu þökk fyrir allt og allt Margrét og Úlfhildur Rögnvalds- dætur Helgi Stefánsson var fæddur 17. janúar 1912 að Haganesi í Mývatns- sveit. Hann flutti þaðan til Reykja- víkur 1938. Helgi varallatíð tengdur sínum átthögum og á hverju sumri fór hann norður í Haganes. Þar tók hann þátt í heyskapnum og stundaði veiðar. Lífsbarátta fólksins í Mývatns- sveit byggði á því að menn þurftu að hafa allar klær úti til þess að tryggja lífsviðurværi. Veiðar í Mývatni og Laxá ásamt eggjatöku og fuglaveiði voru hluti af þessari baráttu. Þannig var líf fólksins tengt náttúrunni og þau tengsl efldu virðingu og urri- hyggju þess við hana. Líf Helga mótaðist mjög af upp- vextinum, þó hann flyttist til borgar- innar, þá undi hann sér best úti í náttúrunni. Það voru ófáar helgarnar sem hann hélt til veiða og fengsæll var hann svo af bar. Ég var fimm ára gamall þegar hann tók mig fyrst með norður í Mývatnssveit. Síðan fór ég með honum norður á hverju ári til 14 ára aldurs. Það var í þessum ferðum sem ég kynntist honum í sínu rétta um- hverfi. Þegar ég hugsa aftur til þess tíma, þá koma upp margir atburðir í huga mér. Þessi tími er mér dýrmætur og stend ég í þakkarskuld við afa minn fyrir að hafa sýnt mér þá þolinmæði að taka mig með sér í þessar ferðir. Það er freistandi að segja frá einum atburði sem lýsir glögglega þeirri þekkingu sem afi hafði á náttúrunni. Vestur af Vindbelg í Mývatnssveit er vatn sem heitir Sandvatn. Sand- vatn er frekar grunnt og mikill gróður í því og nær hann sumstaðar upp á vatnsborðið. 1 vatninu er þokkaleg veiði og hægt að fá væna silunga. Erfitt er að veiða á stöng þarna vegna gróðursins og því var einkurn veitt í net. Bakkar vatnsins eru kjarri vaxnir og því mjög fallegt þar. Suður úr vatninu rennur smá læk- ur og geyrndi afi bát niður með honum. Vandi er að sigla að læknum vegna gróðursins sem cr þéttur og getur hann farið í skrúfuna. Er smá renna í miðjum læknum sem hægt er að sigla eftir. Ekki er akvegur að vatninu og þarf því að labba dálítinn spotta frá bílnum og þar til komiö er að læknum. Afi lagði net í Sandvatn og var vitjað um daglega. Eitt sinn var spáð því að fara myndi að hvessa og var ákveðið að taka upp netin svo þau fylltust ekki af slýi. Fórum við tveir að sækja netin. Gekk allt að óskum og hófum við að taka úr netunum og setja þau síðan um borð. Aldrei hafði aflinn verið meiri og var þegar farinn að setjast gróður í þau svo netin voru þung. Gekk verkið því seinlega og fór að hvessa þannig að erfiðlega gekk að halda bátnum í horfinu. Þegar við áttum eftir að taka upp eitt netið skall á dimm þoka. Við vorum búnir að taka stefnuna á netið og fundum það. Þegar netið var komið um borð var ég orðinn gjörsamlega áttavilltur og leist ekki á blikuna. Afi settist við mótorinn ogsetti í gang. Hann rýndi út í þokuna sneri bátnum og sigldi af stað. Þannigsigldum viðgóða stund, við og við sáum við kjarrivaxna bakkana. Kjarrið virifist nú sem hár skógur og hólar urðu að fjöllum. Skyndilega birtist rennan í læknum fyrir framan bátinn, afi hafði tekið hárrétta stefnu á hana, án þess að hafa nokkur sýnileg kennileiti til þess að fara eftir. Það voru þreyttir en ánægðir veiðimenn sem komu heim í Haganes þetta kvöld. í þessum ferðum norður í land, þá veitti hann mér ómetanlega reynslu scm ég bý að. Sögur þær sem hann sagði eru ógleymanlegar og aldrei var hann í vandræðum með að koma orðum að hlutunum. Það var mikið lán að eignast slíkan afa, minning hans lifir með okkur. Helgi Kristjánsson Ég var ekki ýkja há í loftinu þegar ég kynntist Helga Stefánssyni, þeim öðlings manni í fyrsta sinn. Það var fyrir ca. 17 árum síðan, að ég fór í fyrsta sinn að kaupa ost fyrir foreldra mína í Osta og smjörsölunni við Snorrabraut, en þar starfaði Helgi sem sölumaður um árabil. Hin hlýlega framkoma hans og meðfædd- ur innileiki verkaði svo sterkt á mig barnið að ég átti til að spyrja mömmu hvort osturinn væri ekki að verða búinn, og lagði þá tindilfætt upp í næsta leiðangur inn á Snorra- braut. Á þessum árum hefði mig síst grunað að Helgi Stefánsson ætti eftir að verða langafi barnanna minna. Sjálf hef ég alltaf kallað hann afa, en til skýringar þeim sem hafa hváð, jú afi hans Helga. Hann var okkar heimili ómetanlegur vinur. Alltaf boðinn og búinn að hlaupa undir bagga ef eitthvað var. „Hvert ertu að fara? get ég skutlað þér? eða á ég að koma niður í Miðstræti og vera hjá krökkunum ef þú þarft eitthvað að fara?“ Já hann er búinn að vera okkur öllunt ómetanlegur og það skarð verður vandfyllt. Selma Ósk Kristiansen Með þessunt örfáu orðum langar okkur systkinin til að kveðja okkar elskulega langafa, sem nú er dáinn. Daglega kom hann til okkar, kátur og hress, til þess að leika við okkur og veita okkur alla þá hlýju og umönnun, sem honum einum var lagið. Já um hádegisbil alla daga fórum við að búast við honum heim í Miðstræti 10 á Cremlin bílnum sínum. Við vorum svo lánsöm að fá að njóta nærveru hans svo ríkulega okkar fyrstu ævi ár. Það verður okkur gott veganesti á lífsleiðinni. Fyrir allt þetta færum við langafa bestu þakkir. Baldur og Bryndís FRlMERKI Merki afmælissýningarinnar. Frímerkjasýningin sem markar þrjátíu ára afmæli Félags frímerkja- safnara, verður haldin á Hótel Loft- leiðum dagana 30. maí til 1. júní næstkomandi. Þarna verða sýnd frí- merki í um 140 römmum. Er þetta landssýning undir vernd Landssam- bands íslenskra frfmerkjasafnara. Merkasta sýningarefnið verður efni frá Þjóðskjalasafninu sem ekki hefir áður verið sýnt hér á landi. Efni þetta var sýnt í Osló á síðast- liðnu hausti og vakti þar geysimikla athygli. Eru þetta 5 rammar í heið- ursdeild. Þá verður svokallaður nálarflokk- ur í fyrsta sinn á frímerkjasýningu hér, en þessi flokkur er fyrir algera byrjendur og reglur því ekki eins strangar og á venjulegum sýningum. Verða 6-8 sýnendur í þessum flokki. Einnig verður kynningardeild á sýn- ingunni, en þar getur meðal annars að líta heilt safn íslenskra frímerkja á forprentuðum blöðum. Þar verður einnig hluti af heintabyggðarsafni „Úr Strandasýslu", auk jólamerkja og tegundasafna. Meðal safna í samkeppnideild verður safn Folke Löfström frá Sví- þjóð og tvö íslensk flugsöfn. Annað flugsafnið spannar aðeins íslensk flug og er það í sex römmum. Hitt safnið spannar einnig millilandaflug og er það í 12 römmum. Þá verða mörg fleiri söfn í þessari deild. Bókmenntadeild verður einnig á sýningunni og verða þar a.m.k. þrjár íslenskar bækur. Stimplahandbók Þórs Þorsteins, en Strandasýslusafn- ið er sett upp samkvæmt henni. „íslensk frímerki" Sigurðar H. Þor- steinssonar og kennslubók hans, sem kom út fyrir jólin „Um frímerkja- söfnun". Sérstakt pósthús með sérstimplum verður á sýningunni þessa þrjá daga. Um leið og Félagi frímerkjasafn- ara er óskað til hamingju með þrí- tugsafmælið, eru frímerkjasafnarar hvattir til að skoða sýninguna. Silfurverðlaun eða meira á þessari sýningu veita eiganda safnsins rétt til að sýna á alþjóðlegum frímerkjasýn- ingum. 100 ára afmæli Árbæjarsafn þeirra Norðmanna verður 100 ára í ár og af þessu tilefni gefur norska póststjórnin út tvö frímerki, þann 10. júní. Stórbærinn Björnstad frá Vágá sem er meira en 100 ára gömul bygging, er myndefni frímerkis að upphæð 2,70 nkr. „Hestur og riddari" er svo myndefni hins frímerkisins, sem er að upphæð 3,50 nkr. Er þetta skurðmynd frá 18. öld eftir Christen Erlandsen Listad. Merkin eru útfærð og grafin af Sverre Morken, en prentuð í seðla- prentsmiðju Noregsbanka. Sigurður H. Þorsteinsson.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.