Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 5. JÚLÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson olafurgudsteinn@gmail.com ! Þýskar pylsur og súrkál eru ekki lengur í framvarðarsveit mettra maga Þýskalands. Mest seldi skyndibiti Þýska- lands á nefnilega rætur sínar að rekja til Tyrklands. Þetta er auðvitað hinn einkar fram- bærilegi, saðsami og ódýri matur döner kebab. Var réttur þessi einmitt fundinn upp af tyrkneskum inn- flytjendum í Berlín á áttunda áratug síðustu aldar og hefir æ síðan fest sig meir og meir í sessi í Þýskalandi og raunar um Evrópu alla. Mætti segja, þrátt fyrir öll „gamalt-kjöt–hneykslin“, að dönerinn sé um margt táknmynd sambúðar þýskra og tyrkneskra í land- inu. Staður þar sem mismunandi skoð- anir falla milli þilja í setningunni: „Hvaða sósu?“ Hverfum nú til miðvikudagsins 25. júní í Berlín. Umhverfið er litað fjórum litum: hvítum, gulum, rauðum og svört- um. Meiri fólksmergð en vanalega á götum úti. Augljós spenna liggur í loft- inu. Rafmögnuð spenna. Ástæðan fyrir því? Knattspyrnuleikurinn milli Þýska- lands og Tyrklands mun fara fram inn- an nokkurra stunda. Og því fer fjarri að öll spennan sé Þýskalands megin. Fjöldinn allur af borgarbúum hefir átt svefnlausar nætur af áhyggjum yfir gengi hálf-asísku strákanna í rauðu peysunum. Því líkt og mörgum er kunnugt um er langsamlega stærsti hluti innflytjenda- fólks Þýskalands frá Tyrklandi. Raunar er það svo að sumir hverjir borgarhlut- anna eru kenndir við Tyrki og teljast um margt nokkurs konar ríki í ríkinu, kimi eða hvað það nú heitir. Ekki eru allir þó á eitt sáttir með veru þeirra og atferli innan hins fornfræga Prúss- lands. Oftast á það við um snoðklipptan félagsmálapakka, sem telur sig upp- runalegan sverð og skjöld landsins, þó ekki sé sú skilgreining algild. Þess vegna voru uppi ákveðnar áhyggjur um að hlutirnir gætu farið úr böndunum fyrir og eftir þennan þýðing- armikla leik. Og síðan ljóst var að þess- ar þjóðir myndu mætast í undan- úrslitum Evrópumótsins var sýknt og heilagt hamrað á friðarboðskap í fjöl- miðlum og í samfélaginu almennt: elsk- ið þið friðinn, strjúkið þið kviðinn! Og viti menn! Ótrúlegt nokk, mann- skepnunni er ekki alls varnað. Miðviku- dagurinn 25. júní fór að nær öllu leyti friðsamlega fram (ja, fyrir utan vesen i Dresden þar sem döner-búllur voru skemmdar). Á mörgum stöðum Berlínar og raunar um land allt fagnaði og skemmti sér, meira að segja, þýskt og tyrkneskt fótboltaáhugafólk í samein- ingu, veifandi samtímis þjóðfánum sín- um. Flestir klæddust svo Tyrkir hvítri treyju dvalarlands, eða heimalands síns, á sunnudeginum var og studdu Schweinsteiger og félaga til dáða… Nú hefir því verið fleygt fram að knattspyrnan eigi það til að vera ópíum fólksins. Enda á fólk það til að gera meira en að gleyma sér í þeirri sælu- vímu sem boltinn getur skapað eftir góðan sigur síns fólks, ja, eða bitran ósigur. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að tuðrusparkið hafi í sér ígildi trúarbragða; ekki íþróttin sem slík auðvitað, heldur trú aðdáendanna. Enda hafa í gegnum tíðina ótalmargar óendanlega heimskulegar athafnir og almenn fúlmennska verið tengd nafni átrúnaðar sem og fótboltans. Vissulega er Guð og Fótbolti alvar- legt „stöff.“ Því var það þeim mun ánægjulegra og gerði sitt til að auka tiltrú þessa pennahaldara á mannfólk- inu hve allt gekk vel fyrir sig. Ég meina fyrst enginn hætti að kaupa sér döner getur þessi sambúð vart verið svo slæm. Þeir snæddu samt áfram döner! Eftir Kristján B. Jónasson kbjonasson@gmail.com F yrir þremur áratugum virðist sem þeir sem þá rituðu í dag- blöð á Íslandi hafi enn trúað því að hægt væri að skilja betur söguna, samtíðina og mennina með því að lesa bókmenntir. Nú er þessi trú að mestu aflögð. Maður heyrir ekki nokkurn mann minnast á að skáldsögur, ljóð eða leikrit hafi nokkurt þekkingargildi. Óljósar og órökstuddar en um leið fullkomlega ein- stefnandi og einæðandi hugrenningar „álits- gjafa“ um hvernig samfélagið hafi þróast á und- anförnum áratugum eru miðlægari í umræðunni en hugarheimur nokkurs sam- tímaskáldverks. Sagnfræðingar og annað hug- vísindafólk er þrátt fyrir að vera þjálfað í rökræðulist furðulega seinþreytt til ábendinga um það sem sannara reynist. Því er nóg pláss í íslenskri umræðu fyrir dellu. Ekki síst ýmiss- konar fimbulfamb um samhengi sögunnar. Fyrirferðarmiklir einstaklingar básúna nánast afskipta- og andmælalaust furðulegar allsherj- arkenningar um íslenska sögu sem ekki hafa sterkari grundvöll en þeirra eigin þokukenndu æskuminningar ásamt einlægum vilja til að setja mark sitt á framtíðina. Hnignun bókmenntanna og uppgangur per- sónulegrar söguskoðunar eru blöð á sömu jurt. Í staðinn fyrir að túlka orð annarra, texta sem aðrir hafa samið, setja menn og konur sitt eigið sjálf í fókusinn sem eina haldbæra viðmiðið í sögulegum efnum. Þrjár nýlegar deilur af þess- um toga: hlerunarmálið, ímynd Íslands og um- ræðurnar um þjóðarsáttina, sýna að það erfitt er að koma auga á að til sé sameiginlegur skiln- ingur á nútímasögu íslensku þjóðarinnar. Þeir sem taka til máls telja sig ekki lúta sameigin- legum skilningi um hvað á að ræða eða til hvers. Af þeim sökum er líka tilgangslaust að ætlast til þess að álitsgjafar eða vitsmunabrekkur líti á margbrotin og stundum mótsagnakennd við- horf skáldsögu til sögulegs veruleika sem inn- legg í umræðuna. Það væri einfaldlega á skjön við þann skilning að sagan sé fyrst og fremst tilfinning einstaklinganna en ekki þátttaka fjöldans. Veldi tilfinninganna í íslenskri söguumræðu breytir því ekki að bókmenntir hafa margt að segja um núliðna sögu og það verður skýrara eftir því sem sögulega minnið grefur sig lengra niður í helstu viðfangsefni áranna um 1990: sátt og stöðugleika. Endurkoma þessara lykilhug- taka ætti að vera tilefni til að teygja sig í hilluna eftir nokkrum bókum frá þessum tíma sem sögðu sögu hins nýfrjálsa Íslands út frá sjón- arhorni miðstéttarinnar og þeirrar skelfulegu áþjánar sem henni hefur allan lýðveldistímann verið búin af kreddum, óskynsemi, drauma- ringli, dugnaðartrú og almennri vitleysu. Öfugt við það sem oft er haldið er fram í sögulegri grautartúlkun ýmissa „álitsgjafa“ er menning- arleg arfleið íslenskra rithöfunda af skárra kalí- beri síðustu tvo til þrjá áratugina ákall um sam- félag stöðugleika, sáttar og skynsemi. Framlag rithöfunda og menntamanna til stöðugleika- hugmyndafræðinnar – sem var um skeið og er nú að verða aftur að ráðandi viðmiði allra hluta – hefur aldrei verið virt viðlits því menn telja sig muna að Davíð Oddsson og frjálst framsal kvótans hafi verið einrátt um málið. En sá sem les skáldsögur eins og Heimskra manna ráð og Kvikasilfur eftir Einar Kárason, Þetta er allt að koma eftir Hallgrím Helgason, Íslenska drauminn eftir Guðmund Andra Thorsson, Grandaveg 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur eða Efstu daga og Hversdagshöllina eftir Pétur Gunnarsson sér mætavel að þar eru dregnar upp ljóslifandi myndir af fegurð og hörmungum þess þjóðfélags sem berst eins og brjálað tröll gegn hinni raunverulegu skynsemi en hengir hatt sinn á snaga „almennrar skynsemi“ sem hefur það hlutverk helst að ala af sér hörm- ungar fyrir konur, börn og réttsýna menn en hossa maníusjúkum brjálæðingum og dilettönt- um. Það verður ljóst að kraftarnir sem brjóta niður tilraunir venjulegs fólks til að búa í sam- félagi réttsýni og upplýsingar eru sömu kraft- arnir og almennt er talið að muni hossa fólki til betra lífs og af því sprettur hin tragíska vídd þessara bóka. Berserkjahugmyndafræðin sem býr til dýnamík íslensks samfélags og gerir það kannski spennandi fyrir hugmyndafræðinga út- rásarinnar og stjórnmálafræðiprófessora er um leið atlaga að öllum helstu baráttuefnum mið- stéttarinnar. Hún vill fyrst og fremst fá að lifa lífinu í friði og spekt, hafa stöðug viðmið og búa í samfélagi sem virðir óskir þess um skynsam- lega umsýslu náttúrunnar, barnanna, auðlind- anna og peninganna. En það kemur ekki í veg fyrir að hún bindur samt trúss sitt við delluna, óreiðuna og vitleysuna. Hún hengir að endingu sjálf myllusteininn um háls sér. Ef pistlar nokkurra ofantalinna rithöfunda frá síðustu mánuðum í Frétta- og Morgunblaði eru skoðaðir sést að enn berjast þeir fyrir því að viðhorf miðstéttarinnar til lífsins séu virt: Hallgrímur Helgason er orðinn eins og Cató gamli í stöðugum áminningum sínum um upp- töku evru svo íslensk miðstétt búi við stöðuga mynt. Pétur Gunnarsson bendir á sinn yfirveg- aða en festulega hátt á fáránleika iðnvæðing- arhugmyndafræðinnar sem virðist löngu komin úr öllu sambandi við helstu lögmál rökfræð- innar og nýtur þar fullgilds stuðnings frá óvini rökfræðinnar númer eitt: Sjálfstæðisflokknum. Guðmundur Andri Thorsson hvetur til þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks – óskastjórnarinnar – verði steypt hið fyrsta til að menn geti tekist af alvöru á við efnahags- vandann sem kemur jú verst niður á miðstétt- inni. Hin ráðandi stjórnmálastétt sé jafn höll undir drauma, haldlausa dugnaðarhugmynda- fræði og almennt ringl og þeir amatörar í efna- hagsstjórn sem fengu að spreyta sig á íslenska hagkerfinu áratugum saman. Því það er jú sam- eiginleg niðurstaða jafnt alvöru sagnfræðinga sem „álitsgjafa“ að hið nýfrjálsa Ísland hafi náð undraverðum árangri í fáránlegri efnahags- stjórn og telst viðtekin söguskoðun. En nú vilja menn meina að ekkert hafi breyst. Sami þver- girðingshátturinn og tuddaskapurinn sem telji skynsemi, upplýsingu og sanngirni afgangs- stærð í umsýslu almannavelferðar sé við stjórn- völinn. Mesta áhyggjuefnið er þó ekki dilettantismi stjórnmálamannanna, heldur að fulltrúar nýju tímanna, hin glæsta fjármálaherdeild, virðist vera snýtt úr sömu nös. Henni er nú legið á hálsi af útlendingum að hafa tekist á við heim- inn eins og manísk skáldsagnahetja úr penna Einars Kárasonar. Þess vegna þurfi íslenskur almenningur að kljást við tragíkómíska niður- lægingu drauma sinna. Sagan er alltaf eins: konur, börn og réttsýnir menn blæða fyrir dell- una. Við erum stödd í gróteskum suðupotti meðalmennskunnar sem Hallgrímur Helgason lýsir í Þetta er allt að koma þar sem sá er mest metinn sem ekkert kann og ekkert getur og sem íslenskt aumingjasamfélag hossar vegna þess að pabbi viðkomandi er í flokki og frímúr- urum. Engin sátt og enginn stöðugleiki Ákall „Öfugt við það sem oft er haldið er fram í sögulegri grautartúlkun ýmissa „álitsgjafa“ er menningarleg arfleið íslenskra rithöfunda af skárra kalíberi síðustu tvo til þrjá áratugina ákall um samfélag stöðugleika, sáttar og skynsemi.“ FJÖLMIÐLAR » Berserkjahugmyndafræðin sem býr til dýnamík ís- lensks samfélags og gerir það kannski spennandi fyrir hug- myndafræðinga útrásarinnar og stjórnmálafræðiprófessora er um leið atlaga að öllum helstu baráttuefnum mið- stéttarinnar. Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.