Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 4
4 LAUGARDAGUR 5. JÚLÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Eyþór Halldórsson eythorh@hi.is S umarið 1972 dvaldi Guðberg- ur Bergsson í Flatey á Breiðafirði. Þetta sumar bjó þar einnig um tíma Jón Gunnar Árnason, nýlista- maður, en þeir störfuðu báð- ir í SÚM-hópnum á þessum tíma. Afrakstur dvalarinnar var líkneski af Frey, sem Jón Gunnar hjó og ljóðfórnir sem Guðbergur færði líkneskinu. Ég bað Guðberg að rifja upp þennan tíma. „SÚM hélt sýningu á Fodor-safninu í Amst- erdam árið 1971 og síðan fer ég heim til Ís- lands um vorið og er þá heimilislaus. Í gegnum Nínu Björk og Braga Kristjónsson kemst ég í hús sem heitir Hölluhús. Þá voru mörg hús auð í Flatey og Hölluhús hálfgerð rúst. Loftið var fallið niður en það var olíukynding þarna. Og Jóhannes, annar bóndinn í Flatey, hjálpaði mér við að láta olíukyndinguna í gang. Þannig að það var hlýtt eða þannig. En í raun og veru var ekki hægt að búa í svona húsi. Það var ekk- ert borð en ég fann gamla hurð sem ég notaði til að vinna við. Svo voru sjaldan bátsferðir á milli og oft erfitt að ná í mat. Og þá þurfti ég að læra að baka, og komst líka upp á lagið með að borða njóla. Og blöðin af njólanum eru voða- lega góð. Í þessu Hölluhúsi bjó Halla sem mér skilst að hafi verið amma hans Muggs, myndlist- armanns. Húsið var byggt handa henni og stóð rétt hjá kirkjugarðinum. Og það var sagt að hún gengi aftur og enginn vildi búa í þessu húsi vegna þess að hún var þarna draugur. Og svo var ég þarna allt sumarið, langt fram á haust og þar sem fáar hurðir voru í Hölluhúsi og allt voðalega opið, þá sá ég kirkjugarðinn og norðurljósin og bjóst við að Halla kæmi í gegn- um rústirnar, en ég sá hana aldrei.“ Ljóðfórnarkrukka Hvað varð til þess að þú fórst að yrkja ljóð í Flatey? „Ég gaf fyrst út ljóðabók 1961, Endurtekin orð. Ljóðin hafði ég ort á löngum tíma. Ég held að ég hafi fyrst birt ljóð í Tímariti Máls og menningar árið 1957. Síðan fór ég með handrit til Kristins E. Andréssonar en hann vildi ekki gefa það út. Hann spurði mig hvort ég væri ekki fátækur listamaður sem hefði ekkert starf en ég svaraði því auðvitað neitandi vegna þess að ég var í starfi. Og þá sagði hann: Nú þá ligg- ur ekkert á að gefa út ljóðabók. Þannig að ég beið þangað til Sigfús Daðason kom og hann gaf út Endurtekin orð. Síðan yrki ég þessi ljóð í Flatey. Jón Gunnar Árnason bjó til höggmynd af Frey og lét hana í smá gil og síðan fór ég þangað á hverjum degi með einhverja hugsun. Og þar sem hugsunin átti að vera eldfim klauf ég eldspýtu og lét smá renning á milli, efni sem var klofið, og lét þetta í krukku fyrir framan Frey. Þetta var ljóðfórn- arkrukka. Ég hafði búið til nokkrar krukkur áður og sýnt þær, en þær seldust.“ Og hvernig vannst þú svo úr þessum ljóð- fórnum úr krukkunni? „Síðan fer ég með þetta til Reykjavíkur. Og þetta er auðvitað ófullburða; þetta var bara ein hugsun. Og síðan skipulagði ég hana. Nú, þar sem þetta voru eldspýtur, og brennisteinninn enn á eldspýtunni, hefði ég getað kveikt í einni og allt fuðrað upp. Þá hefði eyðileggingin tekið við eins og skot. En síðan ákveður þú að eyði- leggja ekki og láta eldinn ekki ráða, heldur hugsunina. Og ég, í þessu tilviki, skipulagði og setti saman.“ Þetta hefur því verið einhverskonar hug- myndalist hjá þér? „Já, það má segja það. Ég orti líka ljóð-hljóð og söng þau og Flateyjar-Frey inná segul- band. Og ég flutti þau í fyrsta sinn árið 1971 í Amsterdam á Fodor-safninu. Og síðan flutti ég þetta á mörgum stöðum; í Kaupmannahöfn, Helsinki og á nokkrum stöðum í Bandaríkj- unum, bæði í Kaliforníu og við Richmond-há- skóla. En síðan hætti ég þessu vegna þess að þetta var svo ógurlega mikil vinna. Ég keypti reyndar gott segulband til þess að geta sett þetta saman. Það var svona stereo-band sem gat farið á eina línu og svo yfir á aðra, og blandað saman til að fá meiri hljómgrundvöll. Upprunalega var ætlunin að gefa þetta út á kassettum en það var auðvitað gífurlega mikil vinna fyrir einn mann að standa í þessu. Það var ekki til þessi tækni sem nú er. Og svo eyðilagðist þetta. Þetta var heil ópera sem ég söng og flutti í Kaupmannahöfn, og lét á segulband. En Else Alfelt úr CoBra hópnum, sem var með sýningu þarna, varð al- veg snarvitlaus og hún eyðilagði að mestu leyti bandið. Þannig að það er til, en er mjög laskað. Ég hef stundum verið að hugsa um að fara með það og fá kannski stúdíó og setja það sam- an aftur. En það hefur ekkert orðið úr því vegna þess að ég hef verið önnum kafinn.“ Frjósemin er í niðurníðslunni Hvenær byrjarðu að yrkja ljóð og hljóð? „Það var þannig að ég var staddur í Amster- dam, líklega árið 1969, og sá þar í fyrsta skipt- ið kassettutæki. Þá var Philips komið með svona tæki. Og ég keypti þetta og fór strax að nota það. Ég notaði kassettutækið til að safna hljóðum í borgum eins og Lissabon. Og ég á enn til, það sem ég kalla ljóð-hljóð í Lissabon, sem var mjög erfitt að taka upp vegna þess að í einræð- inu þar var fylgst vel með öllum einkennileg- heitum. En ég faldi bandið undir frakka og tók upp hljóð í þessari borg í kringum 1970. Síðan safnaði ég hljóðum blindra manna í Madrid, sem voru að selja miða syngjandi. Og það var afar erfitt vegna þess að þeir voru svo varir um sig. Þeir fundu á sér að maður var nálægt þeim og voru með stafi sem þeir lömdu mann með. En ég bjó til þennan söng blindra manna í Madrid og á hann til á snældu. Nú eru þessir blindu menn alveg horfnir og ekki til neinar heimildir um þá eða þeirra blindrasöng nema það sem ég gerði. Þetta var í og með gert til þess að varðveita. Ljóð í borgum. Þá var um- ferðin að byrja að verða allsráðandi og öll mannleg hljóð voru að hverfa. En þar sem ég var heimilislaus á þessu tíma- bili var erfitt fyrir mig að halda utan um þetta. Þannig að margt eyðilagðist. Ég átti mikið af þessu uppi á lofti í húsi sem var við Lindargöt- una en þegar húsin þar voru rifin eyðilagðist allt sem ég geymdi þar. Bæði handrit og ým- islegt. Ég hélt til dæmis að það væri öruggur staður á Barónsstígnum í kjallara, þar sem ég fékk að geyma ýmislegt, en þar sem hann var alveg við gangstétt, og ekkert gler, sullaðist snjór yfir þetta á veturna og eyðilagði allt að mestu. Bæði bækur og annað sem ég átti. En svo var það núna um daginn, fyrir nokkrum mánuðum, að kona sem ég leigði hjá fann heil- mikið af ljóðum sem ég hafði ort eða búið til. Og svona finnst þetta á ýmsum stöðum.“ Talandi um eyðileggingu. Þú segir í inn- gangi að Flateyjar-Frey að þetta séu ljóð um hrörnun og frjósemi. Geturðu skýrt þetta nán- ar? „Þegar ég kom til Flateyjar var allt í nið- urníðslu þar. Og þessi ljóð um Flateyjar Frey eru á vissan hátt um hrörnun eyjunnar, og líka um frjósemina sem var þar í eina tíð. Þannig að þetta rís einhvern vegin upp úr Frey sem er guð frjóseminnar, en hann er líka sá sem eyði- leggur. Þannig á vissan hátt er þetta tákn- rænt, ekki bara táknfræðileg ljóð, ekki bara um Flatey, heldur líka almennt um heiminn og Ísland á þessum tíma. Sem var að leggjast mjög mikið í eyði. Í Flatey var blómleg byggð en síðan fór fólk- ið og skildi húsin eftir. Og nú er þetta orðið fal- legt byggðarlag þar sem nýja yfirstéttin á Ís- landi – peningastéttin – býr til kvikmyndir. Núna eru þarna vel settir listamenn sem fara þangað til að búa til rándýrar bíómyndir, uppá margar milljónir, þar sem við bjuggum áður og áttum ekki krónu. Svona breytist tíminn.“ Þannig að fólk fór upprunalega frá eyjunni til að elta peninga en nú er þar ný stétt sem er að eyða peningum? „Já, þá er þetta orðið fínt, skilurðu. Þegar við vorum þarna þótti það vera mjög ófínt. En það er oft þannig að einhverjir brjóta ísinn eða eru framúrstefnumenn, en síðan koma hinir á eftir. Það er reynt að níða framúrstefnumenn- ina niður og þegar búið er að drepa þá á ein- hvern hátt kemur ríka fólkið á eftir. Nú er þetta orðinn svona snobbstaður. Mér finnst mjög furðulegt að sjá þetta. Eins og til að mynda kvikmynd eftir Baltasar Kor- mák sem var kvikmynduð í húsi sem ég orti eitt ljóð um í Flateyjar-Frey, og var þá í al- gjörri niðurníðslu. Þá var þetta miklu ljóð- rænna, fallegra, ósnortnara og harðsögulegra heldur en það er núna. Því það sem maður sér þarna núna er bara einhver tilgerð sem þeir ráða ekki við á listrænan hátt. Það er gert að einhverri útflutningsvöru, sem er alls ekki góð útflutningsvara.“ Þú hefur fundið frjósemi í niðurníðslunni og eyðileggingunni á eyjunni? „Já, það er yfirleitt þannig að frjósemin er í niðurníðslunni. Það er alveg sama hvort það er Monet eða hver sem er. Hann málar óhreinindi í tjörninni, Vatnaliljurnar, og þessar fallegu liljur eru í þessari leðju. En hann býr til þetta gífurlega fallega listaverk. Og það er yfirleitt þannig með listafólk að þú finnur þetta í leðj- unni. Það sem fólki finnst jafnvel vera ógeðs- legt er hin raunverulega fegurð. Þess vegna er oft mikil óreiða í kringum listamenn þar sem þeir vinna vegna þessa að þeir vinna úr óreið- unni og skipuleggja hana.“ Þannig að þú hefur unnið úr umhverfinu í Flatey, skipulagt það og um leið reynt að greina íslenskan samtíma? „Já, að vissu leyti gerði ég það. Bókin er á vissan hátt tákn um íslenskan veruleika og líka um frjósemina í þessari upplausn. Því það er líka frjósemi í íslenskri upplausn, það er ekki bara eyðilegging. Það er líka frjósemi í henni.“ Aldrei verið fyrir það að sitja á kaffihúsum Í Flateyjar-Frey talarðu mikið um stöðnun eða trénun í íslensku samfélagi og bókin virðist á einhvern hátt vera persónulegur dómur hjá þér yfir íslenskum samtíma. „Á þessu tímabili var mikil trénun í íslensku samfélagi. Það var staðnað í algjörri peninga- hyggju. Það var allt miðað við hvað maður ætti marga bíla. Eða hvað bílarnir kostuðu. Það var allt saman staðnað í því og annað var ekki til. Það var líka algjör pólitísk stöðnun. Til vinstri var alltaf verið að hjakka á því sama í sam- bandi við Sovétríkin, sem voru í raun og veru fallin. Og hinir voru að hjakka á Ameríkanan- um. Það var algjör hægri til vinstri hjökkun í stjórnmálum. Og auk þess voru sömu flokk- arnir búnir að vera við völd í 14 ár. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri stöðnun. Auk þess í bókmenntum var gífurlega mikil stöðnun. Það var haldið að Halldór Laxness væri enda- punktur, og síðan ekki söguna meir.“ Og þú heldur til Flateyjar til að reisa þinn frjósemisguð gegn þessu? „Ég get ekki sagt að ég hafi verið frjósemis- guðinn; en ég held að Tómas Jónsson hafi breytt ansi miklu. Ég held að hann hafi haft mjög mikil áhrif á íslenskt samfélag. Miklu meira en af er látið, vegna þess að þetta var það mikið högg sem samfélagið fékk. Og það er oft sem þetta byrjar í bókmenntunum. Þó að maður haldi að bókmenntir hafi ekki mjög mikil áhrif, þá held ég að bókmenntir geti haft talsverð áhrif.“ Og þú hefur fundið fyrir því þegar Tómas Jónsson kom út? „Ég gerði þetta ekki í neinum sérstökum til- gangi nema bara í mínum eigin. En svona eftir því sem ég skynja þetta þá held ég að það hafi orðið heilmikil uppleysa af þessu; að þetta hafi leyst upp ýmislegt í samfélaginu sem var. Og Slæm er andúðin, en ve Guðbergur „Og það er yfirleitt þannig með listafólk að þú finnur þetta í leðjunni. Það sem fólki finnst jafnvel vera ógeðslegt er hin raunverulega fegurð. Þess vegna er oft mikil óreiða í kring- um listamenn þar sem þeir vinna vegna þessa að þeir vinna úr óreiðunni og skipuleggja hana.“ Nýlega kom út hjá Martin Schmitz forlaginu í Þýskalandi ljóðabók Guðbergs Bergssonar, Flateyjar-Freyr, í þýskri þýðingu. Útgáfan er einnig hugsuð fyrir íslenska lesendur, þar sem upprunalegur texti er hafður með, og ætti það að sæta tíðindum þar sem bókin hef- ur verið ófáanleg á íslenskum bókamarkaði um þó nokkurt skeið. Höfundurinn fylgdi út- gáfunni eftir í marsmánuði með upplestrum í Austurríki og Þýskalandi. Lesbók náði tali af Guðbergi í Vínarborg og forvitnaðist um verkið og forsögu þess.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.