Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 5. JÚLÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Páll Baldvin Baldvinsson pok@islandia.is T inna Gunnlaugsdóttir leikhússtjóri Þjóð- leikhússins birti grein í Lesbók Morgun- blaðsins á laugardag fyrir viku sem hún kallaði „Orðum fylgir ábyrgð – viðtökur og vandi gagnrýnenda“, Tinna er opinber starfsmaður og skrifar þessa grein sem slíkur. Hún er tímabundið ráðin til að reka næststærsta leikhús landsins og hefur mest fjármagn allra leikhús- stjóra til reksturs leiksýninga. Greinina skrifar hún til að finna að þeim einstaklingum sem starfa við að fjalla um leiksýningar – það er rétt hjá Tinnu að orðum fylgir ábyrgð – hún er að agnúast út í Martin Regal, Maríu Kristjánsdóttur, Jón Viðar Jónsson, Þorgerði Sigurðar- dóttur, Elísabetu Brekkan, Silju Aðalsteinsdóttur og undirritaðan. Ástæðan er einföld: Tinnu Gunnlaugsdóttur þykir hrósið ekki nóg sem sviðsetningar Þjóðleikhússins hafa fengið í vetur. Hún er reyndar ekki maður til að tala með skýrum dæmum, málefnaleg getur grein embættis- mannsins ekki talist, ekki einu sinni í sjálfslofinu sem hún hefur grein sína á: „viðburðaríkt leikár í Þjóðleikhúsinu,“ segir hún. Eitthvað viðburðaríkara en hin 58 má spyrja? „Fjölbreytni hefur verið með besta móti og boginn spenntur hátt í listrænu tilliti,“ segir hún. Það er umdeil- anlegt og ef til vill ekki rétt af forstöðukonunni að fella svo afdráttarlausa dóma um eigin störf, það er eiginlega betra að aðrir geri það. Mælikvarðar skoðaðir Það er rétt hjá Tinnu að ýmsa mælikvarða má nota til að mæla árangur í leikhúsrekstri: hagnaður og tap er eitt. Gaman hefði verið að sjá tölur um stöðu hússins reikn- ingslega? Áhorfendafjöldi er annað: hvernig var aðsókn á liðnu leikári miðað við fyrri ár? Hver var verkefnafjöld- inn, sýningarfjöldinn, meðalaðsókn á sýningu á þeim fjór- um sviðum sem ríkið rekur? Engan af þessum mælikvörðum kýs embættismaður- inn að nefna með staðreyndum, tölulegum upplýsingum. Reyndar má efast um að vinsældir verks segi mikið til um listrænan árangur: Ef sá mælikvarði gilti væri Laddi6tugur toppurinn á íslenskri leiklist. Það dettur engum í hug – allra síst honum sjálfum. Tinna telur til sem mælikvarða tilnefningar til leikslist- arverðlauna og á þá við Grímuna, hin svokölluðu fagverð- laun íslensks leikhúsfólks. Því er til að svara að eftir skamma sögu Grímunnar hef ég þá skoðun að hún sé nær alveg ómarktæk sem faglegt viðmið um árangur í ís- lenskri leiklistariðkun. Hún er vinsældakosning leikhús- fólks um hvert annað og hefur næsta lítið með faglegt mat að gera, enda er fyrirkomulag hennar runnið sér til húðar. Kveinkað sér undan gagnrýni Þá er það mælikvarðarnir „þakklæti áhorfenda“ og „við- brögð gagnrýnenda“. Það er raunar hið síðarnefnda sem rekur frúna að lyklaborðinu, það sem hún kallar svo smekklega „vanda gagnrýnenda“, þ.e. þeir voru ekki nógu hrifnir af þremur tilteknum íslenskum verkum sem voru á verkefnaskrá Þjóðleikhússins á liðnum vetri: Óhappi eftir Bjarna Jónsson, Baðstofunni eftir Hugleik og Ástin er diskó etc. eftir Hallgrím Helgason. Það er stór vandi í huga frúarinnar. Tinna Gunnlaugsdóttir hefur skýrar hugmyndir um skyldur gagnrýnenda, miklar hugmyndir: gaman væri raunar að allra þeirra viðmiða gætti í skrifum hennar sjálfrar um annarra verk, en svona mælikvarða setur hún öðrum í opinberri umfjöllun: „Starfi gagnrýnandans fylgir mikil ábyrgð. Honum ber að upplýsa lesendur um hvað leikhúsin bjóða upp á hverju sinni og leitast við að skilja og fjalla um hverja leiksýningu á hennar eigin forsendum. Hann verður að hafa hæfileika til að greina hvert var stefnt með sýning- unni, hver markmiðin voru og hvernig tókst til. Ef gagn- rýnandi er ekki tilbúinn til þess, er viðbúið að honum mis- takist eða yfirsjáist margt. Að fjalla um leiklist er mikil kúnst, og krefst ekki einungis reynslu og þekkingar, heldur umburðarlyndis, víðsýni og virðingar fyrir störf- um og skoðunum annarra. Gagnrýnandinn ber líka mikla ábyrgð gagnvart leikhúslistafólki og leikhúsinu í heild. Honum ber að meta af eins mikilli hlutlægni og honum er unnt hvernig listafólkinu hefur tekist upp og verður því að kunna að leggja til hliðar fordóma sína, persónuleg tengsl og tilfinningalega afstöðu. Í hörðum samkeppnis- heimi, þar sem tækifærin til að sýna hvað í hverjum og einum býr eru ekki mörg er sérstaklega mikilvægt að allrar sanngirni sé gætt í umfjöllun um ungt listafólk. En ef til vill ber gagnrýnandinn þó hvað mesta ábyrgð gagn- vart nýsköpun í sínum ólíku myndum.“ Dylgjur um annarleg sjónarmið Og Tinna heldur áfram og metur frammistöðu þeirra sem störfuðu við opinbera gagnrýni á liðnum vetri, ekki bara þeirra sem gagnrýndu leiksýningar Þjóðleikhússins, heldur alla gagnrýni allra gagnrýnenda og segir þar „ýmislegt sem vekur furðu – persónulegar árásir eru ekki óalgengar, gífuryrðin mörg og ekki laust við að í þeim gæti ákveðinnar beiskju.“ Nú bjóst lesandinn við að fá nokkur dæmi um furðuna, gífuryrðin og hina ákveðnu beiskju, en embættismaðurinn sem hér að ofan gerði svo ríkar kröfur til gagnrýnenda sinna var þá farin að spara orðin í plássið. Í hinni „málefnalegu“ umræðu lætur hún það alveg vera af hverju hún var svona hissa, hvaða orð voru og stór og hvar hún greindi beiskjuna ákveðnu. Var hrósið líka beiskt? Hvers konar umræðugrundvöllur er þetta eiginlega? Látum vera þótt Tinna Gunnlaugsdóttir sé svakaspæld yfir að þessir fimm sex sem skrifa að jafnaði um hverja íslenska sviðsetningu atvinnumanna lykju ekki upp ein- um rómi að allt sem rataði á svið væri æðislegt, en þarf að fara á þetta plan? Ég man reyndar ekki betur en að það væru nokkuð skiptar skoðanir um þessar þrjár leiksýn- ingar Þjóðleikhússins sem hún mærir síðar í grein sinni. Tek raunar fram að ég fjallaði ekki um neina þeirra. Árás á ritstjórnir Hvað felst í hinni almennu og órökstuddu gagnrýni Tinnu? Hvaða persónulegar árásir er hún að tala um? Hver réðist á hvern? Er hún að gera því skóna að rit- stjórnir Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, 24 stunda, Víð- sjár Ríkisútvarpsins, Viðskiptablaðsins, Kistunnar og DV láti það viðgangast að starfsmenn þeirra stundi ein- elti í skrifum sínum? Að í gagnrýni þeirra sem voru nefndir hér fremst í greininni sé rauður þráður þar sem einstakir listamenn í leiklistarbransanum séu lagðir í ein- elti af öðrum ástæðum en listrænni frammistöðu? Hver er svona vondur við hvern og veit Tinna fyrir víst af hverju það er, fyrst hún leyfir sér að tala svona, embætt- ismaðurinn? Í sömu grein fer hún fram að umfjöllun sé aukin um leiklist í þessum miðlum þar sem hin óvönduðu vinnubrögð þrífast. Merking og mið „Ég er hjartanlega sammála þér, en þú átt bara að orða það öðruvísi,“ sagði Gísli Alfreðsson leikhússtjóri ein- hvern tíma við mig. Ekkert er jafnhjákátlegt og þegar leikhúsfólk fer að kvarta yfir orðavali gagnrýnenda. Fæst af því hefur reyndar dæmi á takteinum og oftar en ekki fer það rangt með þegar það mannar sig upp í að kvarta yfir skrifum manns, en hér er gott tækifæri fyrir leikhússtjórann að koma með nokkur dæmi um „gífur- yrðin“ með leiðbeiningum um hvernig viðkomandi átti að orða sömu hugsun öðruvísi. Ákveðin beiskja og óákveðin “ … ekki laust við ákveðna beiskju.“ Leikhússtjórinn veit hvað hún er að tala um en við hin ekki: hvað á hún við? Beiskja er sárindi, vonbrigði. Hún er sannarlega ekki að tala um vonbrigði í huga gagnrýnandans vegna of mikilla væntinga á tiltekinni leiksýningu. Nei, hún er að gefa annað í skyn. Eru það erfiðleikar í hjónabandinu gagn- rýnenda, vonbrigði með persónulegan frama? Þekkir Tinna Gunnlaugsdóttir þennan hóp það vel að hún geti sagt eitthvað til um það? Ónei, hvað er hún þá að dylgja um? Hæfni gagnrýnenda Allt er þetta fólk háskólamenntað – og ekkert af því úr HR með MBA, heldur með klassíska menntun í háskól- um heima og erlendis. Sumt með leiksögumenntun, bók- menntamenntun, allt er það þrautþjálfað í skoðun á leik- sýningum hafandi haft það áhugamál frá unga aldri og að atvinnu um lengri og skemmri tíma. Af hverju heldur leikhússtjórinn að það sé beiskt þó það hrífist ekki af öll- um þessum áttatíu leiksýningum sem hér voru í boði í fyrra? Ekki heldur hún að það hafi viljað vera í þeim sporum að bera ábyrgð á öllu því sem mestan part er meðalmennskudrasl? Er hún að gefa í skyn að Þorgerður Sigurðardóttir sé ekki hrifin af leiksýningu vegna þess að hana hafi langað til að gera leikmynd að viðkomandi verki? Jón Viðar hafi langað til að leikstýra því? Dómur hans um Ástin er diskó hafi verið harður vegna þess að Jón hafi fundið minnstu löngun til að koma á einhvern hátt nærri því sköpunarverki? Hver er þessi ákveðna beiskja sem við þjáumst af þessi sem skrifum um leik- hús? Hvað kom til? Ekki veit ég hvað rak Tinnu Gunnlaugsdóttir til að skrifa þessa grein sem er yfirlætisfull, ómálefnaleg og sjálf- hverf. Hún sóttist eftir því fyrir nokkrum árum á undan öllum öðrum að taka að sér starf þjóðleikhússtjóra. Hún tók við erfiðu búi, ónýtu húsi, uppástöndugum og óánægðum leikflokki. Henni hefur ekki tekst að ná sam- an liðsheild í þann hóp enn, fór ekki þá leið eins og sumir fyrirrennarar hennar að skipta um áhöfn að stóru leyti eins og Sveinn Einarsson reyndi, og Stefán Baldursson gerði. Ég ætla mér ekki að fella neina dóma um frammi- stöðu hennar í starfi, hef óskað henni fararheilla allt frá upphafi og mun óska henni velfarnaðar þar til yfir lýkur. Við erum málkunnug frá því við vorum börn og erum nær jafnaldra. Frumburðir okkar eru jafnaldrar, skólafélagar og vinir. Foreldrar okkar voru vinafólk, Herdís og Bald- vin voru samstarfsmenn alla sína tíð. Svo öllu sé haldið til haga. En svona sendingar vil ég ekki fá frá henni né öðr- um starfandi við leikhús: kjósi menn að ræða greinarskrif um leiksýningar skulu þeir gera það með dæmum og rök- ræðu eða þegja ella. Sól í huga Tinnu Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri skrifaði grein í Lesbók fyrir viku þar sem hún gagnrýndi gagnrýn- endur. Hér svara tveir gagnrýnendur grein hennar, annar óskar eftir frekari rökstuðningi og dæmum og hinn vill fá að heyra þær reglur sem Tinna vinnur eftir við leikhússtjórnina. Höfundur er leiklistargagnrýnandi við Fréttablaðið. Eftir Maríu Kristjánsdóttur majak@simnet.is Í Lesbókinni 28.júní sl. setur þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdóttir,fram leiðbeiningar í 24 liðum um hvernig gagnrýnendur eigi að skrifagagnrýni því eins og hún segir „að fjalla um leikhús er mikil kúnst“. En það er líka „mikil kúnst“ að reka leikhús. Sú, sem gerir kröfur um að þeirri stofnun sem hún stýrir, og rekin er af almannafé, sé sýnd „ást og virðing“; og um hana sé fjallað af þekkingu, skilningi, víðsýni, mildi, um- burðarlyndi, sanngirni, hlutlægni, ungviðakærleik, fordómalaust - svo fátt eitt sé nefnt af reglunum tuttugu og fjórum; sú hin sama mætti ætla að kappkosti sjálf að vera til fyrirmyndar í samskiptum við aðra og hafa mót- aða listræna stefnu byggða á þekkingu. Ég tel því eðlilegt að þjóðleikhússtjóri láti nú ekki deigan síga heldur birti líka þjóð sinni og okkur, illa upplýstum gagnrýnendum, þann siðræna og listræna vegvísi sem hún sjálf sannanlega og í hvívetna starfar eftir. Geri hún það, geti hún það, heiti ég því að hengja leiðbeiningar hennar 24 í gullnum ramma yfir tölvunni minni. Morgunblaðið/Kristinn Reglur Tinnu María Kristjánsdóttir vill að Tinna Gunnlaugsdóttir upplýsi um þær listrænu og siðrænu reglur sem hún starfar eftir í Þjóðleikhúsinu. Hin mikla kúnst Höfundur er leiklistargagnrýnandi við Morgunblaðið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.