Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2008, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 5. JÚLÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Irmu Erlingsdóttur og Hrund Skarphéðinsdóttur irma@hi.is F ramtíðarlandið hefur frá stofnun félagsins verið virkur þátttak- andi í þjóðmálaumræðunni, ekki sem flokkur eða stjórn- málafl heldur sterkt baráttuafl fyrir nýjum viðhorfum til stór- iðju- og umhverfismála. Félagið hefur farið nýjar og óvæntar leiðir í starfi sínu og hefur ekki vílað fyrir sér að takast á við ríkjandi orð- ræðu og hugmyndir. Framtíðarlandið er ólíkt hefðbundnum um- hverfisverndarsamtökum að því leyti að það leggur höfuðáherslu á atvinnumál. Þannig hef- ur gagnrýni Framtíðarlandsins á virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hér á Íslandi mikið til beinst að þeim þætti er lýtur að kostnaði skatt- greiðenda við virkjanaframkvæmdirnar og stóriðju, svo og almennt að atvinnu- og byggða- sjónarmiðum. Náttúruverndarsamtök á Íslandi hafa ólík áherslusvið en öll vinna þau fjölþætt, skapandi og öflugt starf. Það verður að rekja það til föð- urhúsa að íslenskir náttúruverndarsinnar ein- blíni á eitt mál í umfjöllun sinni og setji ekki málflutning sinn í samfélagslegt eða alþjóðlegt samhengi. Árangur eða skipbrot? Anna Björk segir Framtíðarlandið gangast gagnrýnislaust við orðræðu „nýfrjálshyggju“ og snúast þannig á sveif með stjórnvöldum og öðrum þeim sem fara fyrir uppbyggingu stór- iðju á Íslandi. Máli sínu til stuðnings segir hún málflutning félagsins, Andra Snæs, Bjarkar og fl. „nær samhljóða“ nýlegri skýrslu forsætis- ráðuneytisins „Ímynd Íslands. Styrkur, staða og stefna“. Það að nefnd á vegum forsætisráðu- neytisins taki upp sumar áherslur félagsins og fleiri aðila sem hafa talað á svipuðum nótum um ímynd Íslands þarf ekki að veikja málflutn- ing Framtíðarlandsins, þvert á móti. Þrátt fyrir að gera megi ákveðna fyrirvara við skýrsluna, m.a. þá söguskoðun sem þar er höfð í hávegum, teljum við það frekar bera vott um árangur af starfi félagsins, og fleiri aðila, að nefnd á vegum hins opinbera taki upp röksemdafærslu sem miðar að því að gera náttúru landsins hátt und- ir höfði og sýna henni virðingu og sæmd. Það er svo annað mál hvort stjórnvöld hafi síðan dug og döngun í sér til að útfæra eða hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem nefnd- in stingur upp á en þær eru misgóðar og sumar lauslegar. Þar kemur enn á ný til kasta um- hverfisverndarsamtaka, sérfræðinga af ólíkum sviðum og annarra aðila, að gagnrýna, fylgja eftir og/eða krefjast aðgerða. Anna Björk segir ennfremur að umhverf- isvernd sem skírskotar til ímyndar landsins hafi beðið skipbrot og kallar eftir nýrri bar- áttuaðferð. Það vita allir sem koma að um- hverfisverndarbaráttu, eða hafa kynnt sér hana, að það er stöðugt verið að leita nýrra leiða til árangurs og það er ljóst að jafnvel þótt allt líti út fyrir að álverin haldi áfram að rísa á Íslandi hefur orðið skýr vitundarvakning undanfarin tvö til þrjú ár, þökk sé því öfluga starfi sem ólík umhverfisverndarsamtök hafa unnið. Þegar umhverfisverndarfólk talar um ímyndir Íslands er, ólíkt því sem Anna Björk segir, ekki átt við skiptimynt á því markaðs- torgi sem nú er við lýði. Innan þeirrar heims- skipunar fær náttúran ekki notið vafans og hún er ekki metin að verðleikum. „Nýfrjálshyggja“ Anna Björk telur það ámælisvert að gagnrýni Framtíðarlandsins og fleiri á ríkisstyrki til stóriðjuframkvæmda á Íslandi sé ekki sett í samhengi við hugmyndafræði „nýfrjáls- hyggju“. Rétt er að athuga að hugtakið er síður en svo einfalt í notkun; til dæmis er töluverður og umdeildur munur á hugtökum eins og new liberalism, social liberalism, neoliberalism og fleiri frjálshyggju-hugtökum. Framtíðarlandið er þverpólitískt afl og leit- ast við að leggja fram uppbyggilega og faglega gagnrýni á áætlanir, stefnumótun og fram- kvæmdir, án þess að beina henni sérstaklega gegn hugmyndafræði eða stjórnmálaöflum. Stjórnir félagsins hafa ekki talið það þjóna markmiðum þess eða vera vænlegt til árangurs í þeim verkefnum sem það hefur tekið sér fyrir hendur. Við höfum þannig meðvitað unnið okk- ur frá hugtökum eins og „hægri“ og „vinstri“ og þeirri hugsun sem þau takmarkast oft við, einmitt í þeim tilgangi að finna nýjar, skapandi og ferskar leiðir að umræðunni. Hins vegar setjum við alla gagnrýni okkar í vítt stjórn- málafræðilegt og þjóðhagslegt samhengi líkt og skýrslur félagsins um lýðræði og efnahags- og byggðamál sýna. Þessi vinnuregla Framtíðarlandsins merkir ekki að félagið telji markaðskerfið gallalaust. Eins og Sigurður Jóhannesson hagfræðingur í sérfræðingaráði Framtíðarlandsins bendir á í nýlegum pistli á heimasíðu Framtíðarlandsins, getur enginn markaðsbrestur réttlætt „að hið opinbera virki ár, ef það gengur ekki upp á við- skiptalegum forsendum, frekar en ástæða var til dæmis til þess að grípa inn í þegar þjóðin hafnaði súkkulaðigosdrykknum SÚKKÓ um árið“. Sigurður vísar í tvær greinar í pistlinum máli sínu til stuðnings. Aðalheimild annarrar grein- arinnar er iðnaðarráðuneytið, en Landsvirkjun er heimildin að hinni, svo að þar eru ekki öfga- fullir náttúruverndarmenn á ferð. Hinn 31. ágúst 1997 birtist í Morgunblaðinu greinin „Verkefnafjármögnun í stað ríkisábyrgðar“. Þar segir m.a.: ,,Þeir sem nú eru við völd í orku- og iðnaðargeiranum vilja dreifa áhætt- unni, þykir ekki skynsamlegt að virkja í skjóli og á ábyrgð opinberra aðila til að útvega raf- magn til nýrrar álbræðslu með því að safna upp meiri skuldum hjá Landsvirkjun. Kom þessi stefna meðal annars fram í tillögum nefndar um framtíðarskipan orkumála [...]. Þar er sér- staklega vakin athygli á mikilvægi þess að virkjanaframkvæmdir vegna stóriðju verði á markaðsgrundvelli. Þess vegna kom upp hug- mynd um verkefnafjármögnun nýrra orku- mannvirkja vegna stóriðju þar sem leitað yrði eftir fjármagni á innlendum og erlendum fjár- magnsmarkaði. Ríkið myndi ekki gangast í ábyrgð fyrir skuldum orkufyrirtækisins og reksturinn yrði sjálfur að standa undir endur- greiðslu lána.“ Framhaldsgrein birtist fjórum árum síðar, 6. desember 2001. Þá ræddi Morgunblaðið við fjármálastjóra Landsvirkjunar undir yfirskrift- inni „Um gríðarmikla hagsmuni að tefla“. Fjár- málastjórinn segir: ,,Byggingu vatnsorkuvera fylgir gríðarlegur fjármagnskostnaður í upp- hafi, rekstrarkostnaður þeirra er hins vegar lít- ill og líftíminn mjög langur eða allt að 80 til 100 ár. Þeir sem koma að verkefnafjármögnun hugsa hreinlega ekki svona langt, sem aftur þýðir að ef Landsvirkjun ætlaði að byggja sínar framkvæmdir á slíkri fjármögnun myndi það verða til þess að orkuverðið yrði það hátt að við værum ekki lengur samkeppnisfær um stór- iðju.“ Með því að fjalla um efnahagsrök hefur Framtíðarlandið augljóslega tekist á við tabú í umræðunni. Umhverfisrök gegn virkjunum njóta nú á dögum viss skilnings en arðsemisrök eru ekki tekin alvarlega, m.a. í fjölmiðlum (jafnvel þótt þau séu ættuð úr iðnaðarráðuneyti og frá Landsvirkjun), eða þau fá stimplana „markaðshyggja“ eða „nýfrjálshyggja“og eru tekin úr samhengi líkt og í grein Önnu Bjarkar. Aðgerðaleysi hins opinbera Í grein Önnu Bjarkar er gefið í skyn að félagið aðhyllist aðgerðaleysi hins opinbera í uppbygg- ingu samfélaga. Í fyrravetur stóð félagið fyrir þremur landshlutaþingum, Vestfjarðaþingi, Reykjanesþingi og Austurþingi, til að ræða at- vinnumál og framtíðarhorfur á ólíkum svæðum og í þeirri von að skapa megi samstöðu með fjölbreytilegum lausnum í atvinnumálum. Það var skýr niðurstaða þinganna að stuðningur hins opinbera eigi að felast í því að tryggja stöðugt efnahagsumhverfi, styrkja grunngerð samfélagsins og auðvelda íbúum á hverjum stað að uppfylla óskir sínar en ekki í því að styðja við bakið á einstökum fyrirtækjum. Á þingunum kom einnig fram að mikilvægt er að viðhalda sérstöðu ólíkra svæða og byggja á henni, frekar en að henni sé fórnað. Anna Björk lætur ennfremur í veðri vaka að Fram- tíðarlandið hafi ekki bent á að ríkisstuðningur til álvera sé á kostnað annarra framkvæmda í landinu en það er alrangt. Ríkisstyrkt atvinnugrein Atvinnu- og efnahagsrökum hefur verið beitt markvisst í þágu stóriðjuupbyggingar og hefur Framtíðarlandið allt frá stofnun þess tekið þessi rök til greiningar og gagnrýni. Í fyrra kom út skýrsla Atvinnulífshóps Framtíð- arlandsins um hvort bygging Kárahnjúkavirkj- unar og álvers á Reyðafirði hafi verið rétt og skynsamleg miðað við arðsemi, umhverfis- kostnað, lýðræði, byggðasjónarmið og hag- stjórn. Nýverið kom svo út ný skýrsla Atvinnu- lífshóps um ríkisstyrki til virkjana og stóriðju. Dulinn kostnaður vegna byggingar og rekstur álvera og sölu raforku til þeirra hefur meðal annars falist í beinum ríkisstyrkjum, lágri arð- semiskröfu, ókeypis losunarheimildum, fórn- arkostnaði vegna náttúruspjalla og vanmats á verðmæti landsins sem fer undir virkjanir og tengdar framkvæmdir. Þá eru margfeldisáhrif álvera yfirleitt stórlega ofmetin. Atvinnu- og byggðasjónarmið Mikil fjárfesting liggur á bak við hvert starf í álverksmiðjum og samsvarandi orkufram- kvæmdum. Í fyrrnefndri skýrslu segir: „Ef markmiðið er aðeins að útvega sæmilega laun- uð störf er hægt að ná því markmiði fyrir brot af þeirri fjárfestingu sem fer í orkufram- kvæmdir til stóriðju. Þótt álver séu umfangs- mikill atvinnurekandi og greiði tiltölulega góð laun hefur reynslan m.a. frá Bandaríkjunum sýnt að starfsemi þeirra hefur aðeins spornað gegn óhagstæðri byggðaþróun í strjálbýli þar sem slík álver eru rekin, en hún hefur ekki megnað að snúa þróuninni við.“ Framtíðarlandið hefur endurtekið bent á að ný tækifæri á sviði ferðaþjónustu, hátækni, fjármálastarfsemi og mörgum öðrum greinum hafa orðið til á tiltölulega stuttum tíma. Til þess þurfti ekki handafl stjórnmálamanna eða sér- stakar fyrirgreiðslur. Athafnafrelsi og stöðug- leiki stuðlar að því að frumkvæði, þekking og sköpunarkraftur fólksins sjálfs fái notið sín. Stjórnvöldum ber að virkja þann mannauð sem í þjóðinni býr. Stóriðjustefnan þrengir að vaxt- arskilyrðum annarra atvinnugreina og stefnir í voða fjölmörgum tækifærum til framtíð- arvaxtar. Skapandi starf og barátta í stöðugri endurnýjun Anna Björk kallar eftir nýjum baráttuaðferð- um. Af nýlegu starfi félagsins okkar má nefna Náttúrukort sem Framtíðarlandið stendur að ásamt fræðimönnum og ljósmyndurum er nú aðgengilegt hverjum þeim sem vill kynna sér stóriðjuáform á Íslandi á slóðinni: www.natt- urukort.is. Náttúrukortið er kort af Íslandi sem gefur yfirsýn yfir þau svæði sem fyrir- hugað er að nýta til orkuframleiðslu eða raska á annan hátt vegna stóriðjuáforma á Íslandi. Aðgangur að þessum upplýsingum hefur hing- að til verið mjög takmarkaður. Svæðin eru flokkuð eftir því hvort þau eru óröskuð, röskuð eða fullvirkjuð. Auk ljósmynda af hverju svæði um sig eru veittar ítarlegar náttúrufarsupplýs- ingar. Sum þessara svæða eru þegar horfin, önnur langt gengin og enn önnur eru í hættu vegna áforma um raforkuframleiðslu eða stór- iðju. Framtíðarlandið er nú með í undirbúningi orða- og hugtakasafn sem ber yfirskriftina „Hver á orðið“. Því verður ætlað að skemmta og fræða og draga athyglina að orðum og orða- notkun og valdi orðanna. Ekki er því um að ræða hefðbundið orðskýringasafn heldur frek- ar frjálslega útgáfu af orðskýringum sem eiga að sýna fram á hvernig skilgreiningarvaldið er misnotað til dæmis í þágu áliðnaðar á Íslandi eða eins og við erum vitni að þessa dagana í þágu olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum. Hugtakalistinn er tilraun til að fletta ofan af (grafa undan og „afbyggja“) orðræðu sem set- ur afarkosti og selur tilbúnar pakkalausnir. Til að byrja með verða settar upp skýringar við nokkur valin hugtök. Fólki verður jafn- framt boðið að senda inn hugmyndir að skýr- ingum til ritstjóra hugtakasafnsins og/eða koma með ábendingar um orð og hugtök sem þarfnast greiningar og „aðhlynningar“. Á þennan hátt verður leitast við að „lækna“ orð- ræðuna jafnóðum eða eins fjótt og unnt er hverju sinni. Þetta verður því einskonar bráða- vakt orðanna! Meðal fyrstu hugtakanna sem verða skýrð eru:„Íslenskur hátækniiðnaður“, „Umhverfiskröfur“, „Græn orka“, „Fullkomn- asta tækni“, „Sjálfbærni“, „Atvinna/atvinnu- leysi“ og „Hagvöxtur“. Fyrstu hugtökin munu birtast á heimasíðu félagsins á næstu vikum. Allir sem vettlingi geta valdið eru beðnir að leggja Framtíðarlandinu lið í þessu og fleirum þjóðþrifaverkum.  Heimildir: Sjá skýrslur félagsins á heimasíðu þess: www.framtidarland- id.is Virkt afl í umræðunni Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Vaxtarskilyrði „Stjórnvöldum ber að virkja þann mannauð sem í þjóðinni býr. Stóriðjustefnan þrengir að vaxtarskilyrðum annarra atvinnugreina og stefnir í voða fjölmörgum tækifærum til framtíðarvaxtar.“ Bor í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Anna Björk Einarsdóttir birti grein í Lesbók Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag þar sem hún gagnrýnir m.a. Framtíðarlandið og íslenska náttúruverndarsinna fyrir að „ein- blína á ímynd Íslands“ og taka ekki afstöðu til nýfrjálshyggju. Fyrrverandi og núverandi formaður Framtíðarlandsins svara þessum staðhæfingum. Irma Erlingsdóttir og Hrund Skarphéðinsdóttir eru fyrrverandi og núverandi formaður Framtíðarlandsins. »Með því að fjalla um efna- hagsrök hefur Framtíðar- landið augljóslega tekist á við tabú í umræðunni. Umhverf- isrök gegn virkjunum njóta nú á dögum viss skilnings en arð- semisrök eru ekki tekin alvar- lega, m.a. í fjölmiðlum (jafnvel þótt þau séu ættuð úr iðnaðar- ráðuneyti og frá Landsvirkj- un), eða þau fá stimplana „markaðshyggja“ eða „ný- frjálshyggja“og eru tekin úr samhengi líkt og í grein Önnu Bjarkar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.