Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.03.2010, Blaðsíða 4
4 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 1 / 2010 Íslendingar eiga mikla samleið með Evrópuþjóðum. Hinn sameiginlegi markaðurinn er Íslendingum mjög mikilvægur og aðgangur að honum með EES-samningnum hefur reynst íslenskum útflutningsgreinum mikil lyftistöng. Íslendingar eiga gott samstarf við flestar Evrópuþjóðir og menningarleg tengsl eru mikil. Þess vegna er það í raun óskiljanlegt að íslenskum ráðamönnum skuli hafa dottið það í hug sl. haust að gera sögulegt at hjá þessum mikilvægu nágrönnum okkar. Aldrei áður í sögu þessa merka ríkja- sambands hefur það gerst að stjórnvöld í Evrópuríki sæki um aðild án þess hafa stuðnings almennings fyrir slíkri inn- göngu, og hvað þá án þess að hafa lýðræðislegan þingmeirihluta að baki sér sem er fylgjandi aðild að ESB. En af hverju í ósköpunum á þetta mál erindi í leiðara Lögmannablaðsins? Hafa lögmenn ekki mismunandi skoðanir á kostum og galla ESB-aðildar, eins og aðrir? Er verið að nota þennan vettvang til að koma á framfæri sjónarmiðum gegn aðild. Svarið við því er nei. Hér er engin afstaða tekin til þess hvort aðild að Evrópusambandinu sé góð eða slæm, eða hvort það varði lögmenn nokkru yfir höfuð. Það sem hins vegar kemur lögmönnum við er eftirfarandi: Íslenskt réttarkerfi, bæði dómstólar og stjórnsýslan, glímir nú við verkefni af stærðargráðu sem engan hefði órað fyrir. Gríðarlegur málafjöldi blasir við dómstólum og stjórnsýslusviðið hefur ekki undan við að leysa úr málum. Réttarkerfið er því hreinlega á mörkum þess að geta staðið undir hinu mikilvæga hlutverki sínu sökum álags og ónógra fjárveitinga. Þau réttarspjöll sem af öllu þessu leiðir kunna að reynast óbætanleg, að ekki sé talað um skaðann sem hlýst af minni tiltrúa almennings á skilvirkni réttarkerfisins. Gjaldheimta í réttarkerfinu hefur verið stóraukin, í sumum tilvikum um þúsundir prósenta. Dregið hefur verið úr möguleikum til gjafsóknar og lítil sem engin von er á úrræðum til þeirra sem leita þurfa réttar síns gagnvart stjórn- sýslunni. Löggæsla í landinu hangir á horreiminni, að sögn þeirra sem þar starfa, og eftirlitsaðilar á borð við samkeppnisyfirvöld vísa frá sér málum vegna manneklu. Í þessari holskeflu miðri ákveða forystu- menn ríkisstjórnarinnar að nú sé rétti tíminn til að hleypa af stokkunum einhverju mannfrekasta og flóknasta verkefni sem stjórnsýslan mun nokkurn tímann taka að sér; aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þetta væri mögulega réttlætanlegt ef lýðræðislegur vilji stæði til þess að Íslendingar ættu að koma sér hið snarasta inn í Evrópusambandið. Þannig væri raunverulega verið að forgangsraða verkefnum og menn yrðu að sæta því að annað væri sett til hliðar. Því er hins vegar alls ekki svo farið. Allar skoðanakannanir sem gerðar eru benda til þess að fylgismönnum aðildar fari hratt fækkandi og nálgast þeir nú sögulegt lágmark í slíkum könnunum. Og sjálf aðildarumsóknin, sem jú var vissulega samþykkt með meirihluta atkvæða á Alþingi, á hvaða grunni stendur hún? Nokkrir þingmenn sem samþykktu umsóknina lýstu jafnframt yfir andstöðu sinni við aðild að ESB en til að skorast ekki undan merkjum í sögulegu stjórnar- samtarfi greiddu þeir atkvæði með ályktun um umsókn. Í ljós kom í atkvæða- greiðslunni að minnihluti þingmanna var í raun fylgjandi aðild og er það vafalítið einsdæmi að ríkisstjórn sendi inn aðildarumsókn að ESB á slíkum grunni. Það er raunar athugunarefni hvort þeir þingmenn, sem lýstu sig andvíga eigin atkvæði við atkvæðagreiðsluna, hafi brotið gegn þeirri stjórnarskrárbundnu skyldu að fylgja eingöngu sannfæringu sinni í störfum sínum á þingi. Það má svosem búa við að íslenskir ráðamenn geri sig að athlægi meðal kollega sinna í Evrópu, að þeir mæti í hinar háu hallir í Brüssel með svo að segja allt niðrum sig, búnir að ýta á bjölluna í erindisleysu. Hitt er öllu verra þegar svona vanhugsað bjölluat dregur úr möguleikum ríkisvaldsins til að standa sómasamlega að þeim verkefnum sem skyldur þess heimafyrir kveða á um. Frá ritstjóra Borgar Þór Einarsson hdl. Dýrkeypt bjölluat í Brüssel

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.