Skólavarðan - 01.02.2005, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.02.2005, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 5. ÁRG. 2005 Á undanförnum fimmtán árum hafa orðið miklar breytingar á þeim umbúnaði og aðstæðum sem ríki og sveitarfélög búa skóla- starfi. Rekstur grunnskólans færðist frá ríki til sveitarfélaga og sveitarfélögin tóku mörg hver í kjölfarið myndarlega á í upp- byggingu skólahúsnæðis. Ný lög voru sett um leik-, grunn- og framhaldsskóla og á eftir fylgdu reglugerðir og aðalnámskrár. Samræmdum prófum hefur verið fjölgað og nú er verið að undir- búa vinnu sem tengist styttingu náms til stúdentsprófs. Allar hafa þessar breytingar eflaust verið hugsaðar til að bæta menntakerf- ið þó svo að sumar þeirra hafi verið og séu ennþá mjög umdeild- ar. Breytingarnar sýna í það minnsta að ráðamenn hafa áhuga á menntamálum og vilja leggja sitt af mörkum til þess að íslenskir skólar veiti nemendum sínum bestu menntun. Á þessum sama tíma hafa kennarar þurft að heyja harða kjara- baráttu. Viðvarandi óánægja hefur verið meðal kennara á öllum skólastigum með laun sín mestallan þennan tíma og samanburð- ur við viðmiðunarstéttir hefur nánast alltaf verið kennurum óhag- stæður. Skemmst er að minnast þeirrar niðurstöðu Hagfræðistofn- unar Háskóla Íslands að menntun grunnskólakennara sé óarðbær háskólamenntun. Sú kjarabarátta sem háð hefur verið hefur sannarlega bitnað á skólastarfinu og námi nemenda meðan á henni hefur staðið. En viðvarandi óánægja starfsmanna með kjör sín gerir það einnig og áhrif slíkrar óánægju eru mun meiri til lengri tíma litið. Þetta vita kennarar og forystumenn þeirra. Þess vegna snýst baráttan fyrir ásættanlegum kjörum ekki bara um að kennarar fái þau laun sem þeim ber fyrir vinnu sína, henni er jafnframt ætlað að gera skólana að góðum vinnustöðum sem eru eftirsóttur starfs- vettvangur fyrir nemendur og kennara. Baráttunni fyrir bættum kjörum kennara er þannig öðrum þræði ætlað að skapa forsend- ur fyrir bættu skólastarfi. Kennarar og skólastjórnendur eru lykillinn að góðu skólastarfi. Þeir hafa þekkingu, reynslu og sjónarhorn á starfið í skólanum sem leggja þarf til grundvallar þegar hugað er að þróun og breyt- ingum skólakerfisins í heild, á einstökum skólastigum eða í ein- stökum skólum. Þetta verða forsvarsmenn ríkis og sveitarfélaga að skilja ef vilji þeirra stendur raunverulega til þess að íslensk- ir skólar verði í fremstu röð. Þeir verða að skilja að breytingar og þróun byggjast á því starfi sem unnið er í skólunum og þeirri þekkingu sem þar er til staðar. Þeir verða að skilja að forsendur samstarfs um skólaþróun eru traust og gagnkvæm virðing. Og þeir verða að skilja að gæði og árangur ráðast óhjákvæmilega að nokkru af þeim starfsaðstæðum sem starfsmönnum skólanna eru búnar á hverjum tíma. Hermann Jón Tómasson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum. Forsendur samstarfs um skólaþróun eru traust og gagnkvæm virðing Hermann Jón Tómasson

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.