Skólavarðan - 01.02.2005, Blaðsíða 34

Skólavarðan - 01.02.2005, Blaðsíða 34
SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 5. ÁRG. 2005 SMIÐSHÖGGIÐ Kennarar hafa lengi átt í basli með að réttlæta fyrir öðrum að það þurfi að greiða þeim laun í samræmi við kröfur sem gerðar eru til starfsins. Allan minn starfsferil hefur sú verið raunin. Launa- deilurnar sem ég hef verið þátttakandi í eru ófáar og margar eftirminnilegar, en með átta vikna verkfalli grunnskóla- kennara á síðastliðnu ári finnst mér sem nú sé komið að endapunkti. Það væri að æra óstöðugan að ætla að fjalla hér um lyktir þessa verkfalls og alla þá tilfinningaflækju sem fylgdi í kjölfarið, hún er flestum í fersku minni. Kennarar sem ætla að sinna sínu mikilvæga starfi áfram geta lítið annað gert en horfa fram á við og nýta þessa reynslu til að takast á við komandi tíma. Við sitjum uppi með samning til fjögurra ára sem stór hluti stéttarinnar hafnaði; samning sem gerður var í skugga lagasetningar. Það segir sig sjálft að þessi fjögur ár þarf að nýta vel til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig að þeim liðnum. Samstaða kennara í verkfallinu vakti að- dáun og furðu annarra stéttarfélaga.Glæsi- legan fund í Háskólabíói, kröfugöngu niður Laugaveg og mótmælastöður með litlum fyrirvara má þakka sterku trúnað- armannakerfi. Það má með sanni segja að hér hafi kennarafélögin í Reykjavík og nágrenni sinnt skyldu sinni með sóma. Oftar en ekki var fullt út úr dyrum í verk- fallsmiðstöðinni. Sömu sögu má segja víða á landsbyggðinni þó að meira hafi borið á félögum okkar á höfuðborgarsvæðinu, enda fjölmennasti hópurinn og nær helstu fjölmiðlum. Við þurfum nú á þessari víðtæku sam- stöðu að halda sem aldrei fyrr og ættum því að taka höndum saman og senda skila- boð út í þjóðfélagið. Við gætum byrjað á því að taka forseta íslenska lýðveldisins á orðinu er hann undirstrikaði í áramóta- ávarpi til þjóðarinnar mikilvægi starfsins í grunnskólunum.Við þurfum þó sjálf að fylgja því eftir og hamra á því að þetta séu ekki innantóm orð heldur full merkingar. Það er okkar verk að koma þeim skilaboð- um áfram. Ég sé sóknarfæri í því að Kenn- arasambandið nýti næstu fjögur ár til að sá slíkum kynningarfræjum; finni leiðir til að koma á framfæri og vekja athygli á öllu því frábæra starfi sem kennarar sinna. Svo virðist sem drjúgur tími samningavið- ræðna á síðastliðnu ári hafi farið í að sann- færa viðsemjendur okkar um að kennarar væru raunverulega að skila sinni vinnu. Slík tímaeyðsla er óþolandi og undirstrikar nauðsyn þess að rétt sé að málum staðið. Framundan er aðalfundur Félags grunn- skólakennara og þing Kennarasambands Íslands. Þar er að sjálfsögðu vettvangur fyrir skoðanaskipti og nýjar hugmyndir. Ég hvet þátttakendur eindregið til virkra umræðna og ennfremur hvet ég þá, sem telja sig hafa eitthvað fram að færa, til að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa. Það er ekki skortur á hæfu fólki innan vébanda kennara, það get ég fullyrt eftir þetta tímabil sem ég hef verið trúnaðarmaður. Ég hef kynnst mörgu nýju fólki og dáist að þeim dugnaði og þeirri einlægni sem birtist í störfum þess. Það hefur líka verið skemmtilegt að fylgjast með málflutningi vaskra manna og kvenna í sveit ungra kennara; svo fullra af eldmóði. Það minn- ir mig óneitanlega á gömlu góðu dagana þegar mín kynslóð var kölluð til starfa. Um leið og ég óska þess að nýtt ár færi okkur nýjar áherslur get ég ekki stillt mig um að spyrja enn spurninga sem ég hef svo oft spurt áður við ýmis tækifæri. Ekki eru þær þó öllum þóknanlegar. Hvernig stendur á því að hlutfall karla og kvenna í trúnaðarstörfum fyrir kennara endurspeglar ekki samsetningu kynjanna í stéttinni? Hvers vegna slást ekki allar þess- ar frábæru og frambærilegu konur, sem ég hef kynnst að undanförnu, um lykilstöð- urnar í stéttarfélagi okkar? Er fjölgun karla í trúnaðarstörfum merki um að þeir séu að sækja í stórum stíl inn í stéttina? Gott ef satt væri, ekki trúi ég að launin heilli. Ég er hins vegar einlægur talsmaður þess að fjölga þurfi karlmönnum í stéttinni. Við konurnar vil ég segja þetta: Þori ég, vil ég, get ég? Já, ég þori, get og vil. Þessi klausa dugði nokkuð vel á 8. ára- tugnum. Valgerður Eiríksdóttir Höfundur er kennari í Fellaskóla. 34 Að horfa fram á við Við gætum byrjað á því að taka forseta íslenska lýðveldisins á orðinu er hann undirstrikaði í áramótaávarpi mikilvægi starfsins í grunnskólunum.Við þurfum þó sjálf að fylgja því eftir og hamra á því að þetta séu ekki innantóm orð heldur full merkingar. Það er okkar verk að koma þeim skilaboðum áfram. Ég sé sóknarfæri í að KÍ nýti næstu fjögur ár til að sá slíkum kynningarfræjum; finni leiðir til að vekja athygli á því frábæra starf i sem kennarar sinna.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.