Alþýðublaðið - 17.06.1944, Blaðsíða 6

Alþýðublaðið - 17.06.1944, Blaðsíða 6
ALÞÝÐUBLAÐIÐ 17. iúní 1944 Myndin var tekin í júní 1941 eftir' ríkisstjórakjörið. Á myndinni sjást, frá vinstri til hægri taldir: Sveinn Björnsson ríkisstjóri, Vigfús Einarsson ríkisráðsritari, Eysteinn Jónsson viðskiptamálaráðherra, Ólafur Thors atvinnu- og samgöngumálaráðherra, Hermann Jónasson forsætis-, dómsmála- og landbúnaðarmála- ráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson félagsmála- og utanríkismálaráðherra og Jakob Möller fjármálaráðherra. stjórnarinnar til málsins, og var talið víst, að það myndi fá stað- festíngu ker-ungs. Vaitýskan virt- ist hafa unnið sigur, þó að lítill væri meirihlutinn. MEÐAN umræðurnar um frumvarpið stóðu yfir á þing- inu, bárust þær fréttir til Islands, að hægri stjórnin væri farin frá í Danmörku og vinstri menn komnir til valda. Töldu heima- stjórnarmenn að sú stjórn myndi verða eftirgefanlegri gagnvart kröfum íslendinga en hægri stjórnin hafði verið, og hugðust vinna af öllum mætti móti því að frumvarp Valtýs yrði að lög- um. í kosningunum árið áður höfðu ísfirðingar kjörið til þings sýslumann sinn, Hannes Haf- stein, og var þetta þing hið fyrsta, sem hann sat. Hann hafði áður verið lítið við stjórnmál riðinn, en var afbragðs skáld, hverjum manni glæsilegri og hinn mesti afburðamaður í hvívetna. Hann gerðist heimastjórnarmaður og var, þó óreyndur væri, sjálfkjör- ixm foringi flokks síns sökum þess, hver atgervismaður hann var. I þinglokin ákváðu heima- stjórnarmenn að senda mann til Hafnar til þess að tjá stjórninni óánægju flokksins með frumvarp það, er þingið hafði samþykkt, einkum með ákvæðið um búsetu ráðherrans í Kaupmannahöfn. Varð Hannes Hafstein fyrir val- inu. Förin bar hinn glæsilegasta á- rangur. Tók stjómin honum vel og svo fór, að dómsmálaráðherr- ann, Alberti, sem einnig var ís- landsráðherra, lagði fyrir auka- þingið 1902 tvö frumvörp. Annað var Valtýsfrumvarpið frá 1901, en hitt var nýtt frumvarp, þar sem kröfur heimastjórnarmanna voru teknar til greina og ákveðið að ráðherrann skyldi búa í Reykjavík. Veturinn áður hafði þingið ver- ið rofið og kosningar fóru fram vorið 1902. Við þær kosningar féllu þeir báðir Valtýr Guð- mundsson og Hannes Hafstein, og var því hvorugur þeirra á auka- þinginu. Heimastjórnarflokkur- inn vann sigur við kosningarnar, og þegar til þings kom, greiddu allir atkvæði með frumvarpi heimastjórnarflokksins, enda höfðu Valtýingar enganveginn verið andvígir því, að ráðherrann væri búsettur í landinu, en höfðu, er þeir samþykktu frumvarp sitt árið áður, verið vonlausir um að svo góð lausn fengist á málimi sem raun varð á. Alþingi var nú rofið að nýju og kosningar fóru fram vorið 1903. Heimastjórnarmenn sigruðu enn, og Hannes Hafstein varð þing- maður Eyfirðinga. Frumvarp heimastjórnarmanna var nú sam- þykkt á ný, og voru hin nýju stjórnarlög staðfest af konungi hinn 3. okt. 1903. í ársbyrjun 1904 var Hannes Hafstein skipað- ur ráðherra Islands. Hvorki fyrr eða síðar hefur verið stigið stærra skref í einu í áttina til fullkomins sjálfstæðis íslendinga. Landið hafði fengið innlenda stjórn, og ráðherrann bar ábyrgð fyrir alþingi. Aðal- gallinn á stjórnarlögunum var sá, að íslandsmálin skyldu lögð fyr- ir konung í ríkisráði hans. En þrátt fyrir það er það þó stað- reynd að frá þeim degi er Hannes Hafstein varð ráðherra íslands hefur þjóðin að langmestu leyti ráðið málum sínum sjáíf. VALTÝR GUÐMUNDSSON og HANNES HAFSTEIN voru fulltrúar hinnar ungu og upp- rennandi borgarastéttar á Is- landi. Báðir voru þeir fram- sæknir og stórhuga um efnaleg- ar framfarir og dreymdi um véla- öld þá, er í hönd fór. Báðir ósk- uðu þeir Islandi þess sjálfstæðis, sem hugsanlegt var, en vildu taka í bráðina tilboðum frá Dön- um, sem fælu í sér stjórnarbót, enda þótt þau væru ekki full- nægjandi. Þegar heimastjórnin var sett á laggirnar var a. m. k. Hannesi Hafstein það ljóst, að sú skipan var engin eilífðarráð- stöfun. Hún var einungis vopna- hlé, en eftir slíku vopnahléi ósk- aði Hannes Hafstein af heilum hug og vonaðist eftir að geta snú- ið kröftum landa sinna að innan- landsmálunum, því að án þess að styrkja sig og efla inn á við, var óhugsandi að Island gæti orðið fullkomins sjálfstæðis aðnjót- andi. Hin næstu fimm ár stjórnaði Hannes Hafstein landinu með hinum mesta viturleik og skör- ungsskap. Það tímabil er eitt hið mesta framfaratímabil í sögu þjóðarinnar. í rúman áratug eftir að stjórn- in var flutt inn í landið réð af- staða manna til stjórnardeilunn- ar við Dani á yfirborðinu flokka- skiptingu í landinu. En ef betur er að gætt, kemur það greinilega í ljós, að stjórnmálamennirnir höfðu þetta mál einungis á odd- inum; það var í raun og veru allt annað en það, sem um var barizt. Andstæðingar Hannesar Hafstein þjöppuðu sér saman smátt og smátt og mynduðu Sjálfstæðisflokkinn (1907), en foringjar hans álitu að heima- stjórnarmenn væru of eftirgefan- legir við Dani. Báráttan stóð þó að mestu leyti um innanlands- málin og um völdin í landinu. Á þeim árum voru deilurnar mjög harðar og spöruðu hvorugir aðra. Með því að gera nógu róttækar kröfur í sjálfstæðismálinu gat stjórnarandstaðan alltaf haft hin- ar mestu vonir um fylgisaukn- ingu vegna þess, að alþýðan, einkum bændur, var jafnan fús til að fylgja þeirri stefnu, er gekk lengst í andstöðunni gegn Dönum. Árið 1906 andaðist Kristján konungur 9. og Friðrik 8. tók við ríkjum. Friðrik konungur var mikill íslandsvinur og' vildi gera allt sem unnt var til þess að gera íslendinga ánægðav Hið fyrsta verk hans hvað Island snerti var að bjóða alþingi til heimsóknar í Danmörku, og skyldu þingmenn vera þar gest- ir konungs og ríkisþings. Flestir þingmanna þágu boðið og fengu hinar beztu viðtökur í Dan- mörku. Stjórnmálaárangurinn af för þessari var sá, að ákveðið var á fundi danskra og íslenzkra þingmanna, að nefnd yrði sett, skipuð dönskum og íslenzkum þingmönnum, til þess að semja ný sambandslög í stað stöðulag- anna frá 1871, sem síðan skyldi leggjast fyrir ríkisþingið og al- þingi til samþykktar. Einnig var ákveðið að Friðrik konungur og flokkur danskra^ þingmanna skyldi heimsækja ísland sumarið eftir (1907). KonungUr og fylgdarlið hans kom til íslands í lok júlímánaðar sumarið 1907. Skipaði hann þá hina fyrirhuguðu sambandslaga- milliþinganefnd. í henni áttu sæti 20 menn, þar af 7 íslending- ar. Var ráðherrann, Hannes Haf- stein, sjálfkjörinn. Hinum sætun- um var skipt jafnt milli stjórnar- manna og stjórnarandstæðinga. í febrúarmánuði 1908 tók nefndin til starfa í Kaupmanna- höfn. Samkomulagið var yfirleitt gott og frumvarp til sambands- laga var samið. Samkvæmt frum- varpi þessu átti Island að vera „frjálst og sjálfstætt land“ í sam- bandi við Danmörku um einn og sama konung, og mál þau, er báð- ir aðilar hafa orðið ásáttir um að telja sameiginleg í lögunum. Danmörk og ísland eru því í ríkjasambandi, er nefnist veldi Danakonungs (det samlede danske Rige). Að lokum er á- kvæði um, að hvor aðili um sig geti krafizt endurskoðunar á lög- unum eftir 25 ár, og ef samkomu- lag næðist ekki, átti konungur J; með tveggja ára fyrirvara að á- jl kveða, að samfeandinu um sam- i eiginlegu málin, að undanskyldu konungssambandinu, utanríkis- málum og hervörnum á sjó og landi, skyldi vera slitið. Öll nefnd in að Skúla Thoroddsen und- anteknum samþykkti frumvarp- ið. Hann vildi að ísland væri í lögunum kallað „frjálst og full- veðja ríki“ og að sambandsslit gætu náð til allra mála að kon- ungssambandinu einu undan- skildu. Nokkurra annarra minni háttar breytinga krafðist hann einnig. Þing var nú rofið og efnt til nýrra kosninga vegna hins nýja sambandslagafrumvarps. Stjórn- arandstæðingar risu upp gegn því og nú hófst einhver hin harðasta kosningabarátta, sem hefur átt sér stað hér á landi. Héldu stjórnarandstæðingar því jafnvel fram, að með frumvarp- inu hefðu nefndarmennirnir selt Dönum frelsi landsins og kastað öllum landsréttindum á glæ. Nefndin hefði yfirleitt staðið sig illa nema Skúli Thoroddsen einn. Þó gerðust ýmsir af stjórnarand- stæðingum formælendur frum- varpsins, svo sem Jón Jensson, sem bæði fyrir þann tíma og síð- ar var þekktur sem eldheitur sjálfstæðismaður. Hinn eiginlegi forystumaður stjórnarandstöð- unnar var Björn Jónsson, rit- stjóri Isafoldar, en hann mun hafa verið einhver hinn snjallasti áróðursmaður, sem ísland hefur átt. Við kosningarnar urðu fylgis- menn frumvarpsins í miklum minnihluta. Margir álitu, að ef frumvarpið yrði að lögum, væru réttindi landsins glötuð. Ýmsir vonuðu að umbætur myndu fást á því og bjuggust við, að Danir myndu fást til að ganga að breytingartillögum Skúla Thoroddsen. Næsta vetur lét Hannes Haf- stein af ráðherradómi og Björn Jónsson tók við. Þegar hafnar voru málaleitanir við dönsku stjórnina um breytingar á frum- varpinu, kom það í ljós, að hún vildi með engu móti; ganga lengra en nefndin hafði gert. Hefði frumvarp þetta orðið að lögum, hefði þá þegar mikið á unnizt. Þó má telja það mikið happ, að frumvarpið var fellt, vegna þess, að betri lausn fékkst á málinu einum áratug síðar. En árið 1908 gat énginn séð þá lausn fyrir, því að heimsstyrjöldin mikla og afleiðingar hennar voru þá öllum huldar. Árið 1911 unnu heimastjórnar- menn mikinn kosningasigur, og á næstu árum voru gerðar nokkrar tilraunir til að fá lausn á sjálf- stæðismálinu. Verða þær ekki raktar hér, en þess skal einungis getið, að allt sat að mestu leyti við sama, þangað til árið 1918. HEIMSSTYRJÖLDIN fjar- iægði ísland frá Danmörku, og hvað viðskipti snerti urðu Is- lendingar mjög háðir Bretum, sem á styrjaldarárunum réðu öllu, sem þeim sýndist hér á landi. íslendingar voru nú sjálfir orðnir færir um að annast sigl- ingar til annarra landa. Án milligöngu Dana var gerður við- skiptasamningur við Breta, og vioskipti voru hafin við Ame- ríku. Á síðustu ái’um styrjaldarinn- ar var auðsætt að Þjóðverjar og bandamenn þeirra myndu bíða ósigur. Hugðust Danir þá gera kröfu til þess hluta Slésvíkur, þar sem meginþorri íbúanna var af dönsku þjóðerni og talaði danska tungu. Krafan byggðist ekki fyrst og fremst á því, að Danir höfðu átt landið áður, heldur á þeirri grundvallarreglu, að hverri þjóð væri heimilt að ráða málum sínum sjálf. Þar sem það gat ekki verið neitt vafamál, • að íslendingar voru sérstök þjóð, var því harla erfitt fyrir danska stjórnmálamenn að neita lengur að sinna sjálfstæðiskröfum ís- lendinga. Almennt höfðu Danir líka miklu meiri áhuga fyrir að fá Slésvík, en að halda íslandi, og vildu sýna það í verkinu, að þeir sjálfir virtu þær grundvallar- reglur, sem þeir byggðu kröfu sína til Slésvíkur á. Sumarið 1918 voru sendir hingað til Reykja- víkur 4 fulltrúar aðalflokkanna dönsku. Tókust samningar með þeim og fulltrúum íslendinga, og voru þeir samningar samþykktir af báðum þjóðum og gengu í gildi 1. desember 1918. Samkvæmt samningum þess- um varð ísland fullvalda kon- ungsríki í persónusambandi við Danmörku. Danir fóru að mestu leyti með utanríkismál íslend- inga í umboði þeirra. Þegnrétt- urinn var gagnkvæmur. Eftir árslok 1940 gat þing hvorrar þjóðarinnar um sig krafizt end- urskoðunar á sáttmálanum, en tækjust ekki nýir samningar inn- an þriggja ára, mætti hvor aðili um sig slíta sambandinu með vissum skilyrðum. Persónusambandið milli ís- lands'og Danmerkur hélst í rúm- lega 20 ár eða þangað til bæði löndin^ voru hernumin vorið 1940. Á þeim tíma kom aldrei til nokkurs alvarlegs ágreinings milli þjóðanna. Þjóðirnar héldu drengilega heit sín hvor við aðra. Öll þróunin gekk þó í þá átt að fjarlægja þær hvora frá annarri. Viðskiptin við Danmörku fóru minnkandi, en jukust við ýmis önnur lönd, og oft kom það í ljós frá íslenzkum •tjórnmálamönn- um, að ekki kæmi annað til mála en að sambandinu yrði slitið, er fresturinn væri útrunninn. Skilnaður Islands og Dan- merkur hefur þó nú orðið með öðrum hætti en þjóðirnar höfðu gert ráð fyrir. Öfl, sem hvorug þjóðin gat ráðið við, skildi þær að áður en samningstíminn var út runninn. Sambandslögin áttu að falla úr gildi árið 1943, en engin tök voru á því að fulltrúar þjóð- anna gætu ræðst við um endur- nýjun eða niðurfellingu þeirra. Þó hafa íslendingar með því að fresta formlegum sambandsslit- um þar til nú, fyrir sitt leyti upp- fyllt öll uppsagnarskilyrði sam- bandslagasáttmálans. Hitt er að- eins eðlileg afleiðing sambands- slitanna, enda okkar innanlands- mál, að afnema konungdóminn, en engin skynsamleg ástæða var til þess að halda konungs- sambandi, þegar allt annað sam- band var úr sögunni. í dag er ís- land að fullu og öllu laust við ítjórnmálatengsl við önnur ríki, og getur því að styrjöldinni lok- inni gengið til samvinnu við hin- ar norrænu bræðraþjóðir sínar á ný sem fullkomlega jafnrétthár áðili, en þá fyrst er öllum þrösk- uldum úr vegi rutt fyrir því, að órjúfandi vinátta takist með Is- lendingum og frændþjóðunum á Noráurlöndum. 3;wm: Efnalaug SE &mi*k fðMmmm $$ íitm , ýfaptmSé ^itais &Í&& / , J|®s4i©í»tL. íslendingar, 5 sendið okkur fatnað yðar til Ureinsunar, litunar eða pressunar Elsta efnalaug landlsiBis

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.