Morgunblaðið - 14.11.1959, Qupperneq 13

Morgunblaðið - 14.11.1959, Qupperneq 13
Laugardagur 14. nóv. 1959 MORCUNfíLAÐIÐ 13 BókmerLritirnar eft í GREINARKORNI um íslenzka 1 bókaútgáfu á árinu 1958, sem Kristján Karlsson ritstjóri Helga- fells skrifaði í tímarit sitt fyrir ári, komst hann meðal annars svo að orði: „Ég verð að játa, að ég fann fátt sem mér virtist benda á mikla grósku í íslenzk- um bókmenntum, fremur en raun ar undanfarín ár og enn síður margt, sem sannfærði mig um, að íslenzkar bókmenntir stæðu í dag Halldór K. Laxnes eins sterkum rótum og við vilj- um gjarnan trúa. Mér hefur ein- mitt virzt ýmislegt benda til nokkuð óhugnanlegrar útþynn- ingarstefnu í íslenzkum bók- menntum síðari árin. Og mér er ekki grunlaust um, að ástæðuna sé að finna í eins konar næringar- efnaskorti í andlegu lífi okkar og bókmenntalegri hefð, þrátt fyrir hin mörgu og merkilegu af- rek íslendinga í bókmenntum á síðari öldum eigi síður en í forn- öld. Við eigum í dag einkum tvenns konar lifandi hefð: Ljóð- ræna hefð og frásagnarhefð, en okkur skortir tvímælalaust heim- spekilega og andlega undirstöðu í bókmenntir okkar, og þess vegna er svo mikil hætta á, að þær, sem eru að miklu leyti leik- mannslist, tómstundalist, leysist upp i lýriska mærð eða enda- lausar frásagnir af fátæklegum atburðum úr þjóðlífinu, þar sem sneitt er auðveldlega hjá öllum átökum við tilverunnar rök. Allt- of mikið af þeim bókum, sem við gefum út árlega, eru einungis einnar víddar, ef svo rr.á til orða taka, þær eru allar á lengdina, en skortir bæði dýpt og breidd“. Mér komu þessi orð Kristjáns í hug þegar ég fór að hugsa um íslenzkar bókmenntir eftir stríð í sambandi við fyrirlestur um efnið fyrir norræna stúdenta, sem sóttu nýskeð námskeið við Háskóla íslands. Hvað hefur gerzt í bókmennt- um okkar síðustu 15 árin, síðan stofnað var lýðveldi á íslandi og við lentum á alfaravegi heimsins í fleiri en einum skilningi? Áður en reynt er að svara þeirri spurningu, er rétt að horfa sem snöggvast lengra til baka. Sé litið yfir íslenzkar bókmenntir í heild sinni, má í mjög stórum dráttum segja, að gegnum þær gangi einn rauður þráður, hinn epíski þráður eða frásagnarhefð- in. Þetta á jafnt við um bundið mál sem óbundið, en í fyrra til- vikinu er jafnframt fyrir hendi rík ljóðræn hefð, sem einkum birtist í náttúrulýrik og ástar- tjáningum. Helztu undantekning- ar frá hinni epísku hefð eru satír an eins og hún kemur fram t.d. í Bandamannasögu, nokkrum eddukvæðum og verkum þeirra Jóns Thoroddsens, Benedikts Gröndals og Þórbergs Þórðarson- ar; heimspeki- og trúarljóð Hall- grims Péturssonar, Matthíasar 5 . i i Fyrri grein \ Jochumssonar og Einars Bene- diktssonar; og loks nokkur verk Halldórs Laxness, einkanlega „Vefarinn mikli frá Kasmír“ og „Brekkukotsannáll". Ég veit ekki hvort reynt hefur verið að skýra fátækt okkar að annars konar bókmenntum en epískum, og ég geri mér engar vonir um að skýra hana, en það er kannski leyfilegt að kasta fram getgátum, sem kynnu að varpa einhverju ljósi yfir málið eða a. m. k. vekja til nánari um- þenkingar um það. Það er augljóst að umhverfi og félagslegar aðstæður setja skáld- skap hverrar þjóðar ákveðin tak- mörk og gefa honum sérstakan svip. Þetta kemur berlega í ljós þegar gerður er samanburður á bókmenntum tveggja eða fleiri þjóða, t.d. á frönskum og rúss- neskum bókmenntum eða brezk- um og bandarískum. ísland er á margan hátt ólíkt öðrum menn- ingarlöndum á norðurhveli jarð- ar: það er mjög strjálbýlt, hrjóstr ugt, fjöllótt og nakið og víðernin mikil. Slíkt umhverfi örvar ekki til ígrundunar eða sjálfsskoðunar. Hugurinn leitar ósjálfrátt út á við, til hinna miklu víðerra. Það verða háttúran og maðurinn í náttúrunni sem mestu máli skipta. Skáldskapurinn hneigist til ytri lýsinga, náttúrulýsinga og frásagna af athæfi manna (sem að vísu gefa oft til kynna hug- renningar þeirra). En það er sjaldan horft inn í sálina eða sjálfan sig. Fólksfæðin í landinu veldur einnig miklu hér um. í strjálbýl- um löndum, eins og t.d. Ástralíu eða Kanada, geta stórir hópar hnappazt saman á ákveðna staði og myndað þar stórar heildir, t.d. stórborgir. Á íslandi er þessu ekki til að dreifa. Hér hafa lands- menn til skamms tíma búið afar- dreift og í smáum hópum. Hér hafa ekki skapazt þau mörgu og flóknu vandamál, sem jafnan koma upp í borgum og þéttbýl- um byggðum. Lífið er í stórum dráttum einfalt frá félagslegu sjónarmiði, vandamálin eru helzt bundin við samskipti tveggja eða þriggja einstaklinga, baráttu við fátækt, óáran eða náttúruöfl, en ekki að sama skapi við þjóðfélag-1 ið eða máttarvöldin. Eitt af helztu j vandamálum í erlendum nútíma- skáldskap er staða einstaklings- ins í mannfélaginu og leit hans að sjálfum sér í myrkviði fjöld- ans. Slík vandamál eru fágæt í íslenzkum bókmenntum- Hjá okk ur virðast vandamálin snúast um árekstra gamla og nýja tímans, togstreituna milli bæja og sveita, og svo auðvitað ástaraunir sem alls staðar fylgja mannkindinni. Á síðustu hundrað árum hafa verið mikil félagsleg umbrot á fslandi. Þjóðin hefur breytzt úr bændaþjóðfélagi í bæjaþjóðfélag, hún hefur háð langa og harða sjálfstæðisbaráttu, og jafnframt hafa tækniframfarir fleytt henni frá miðöldum inn í nútímann. Öll þessi umbrot hafa verið and- stæð hugsanlegum tilhneigingum til hugleiðinga um hlutskipti mannsins á jörðinni, stöðu hans í alheiminum. Hin daglegu vanda mál kölluðu mest að. Það var alltaf verið að berjast fyrir ein- hverju eða gegn einhverju, sífellt verið að bæta eða endurbæta, og skáldskapurinn var tæki í bar- áttunni, sjálfstæðisbaráttunni, hugsjónabaráttunni, verkalýðs- baráttunni. Ef það kom fyrir að menn hvíldu sig frá dægurmálunum, fóru þeir ekki að íhuga, heldur rifjuðu þeir upp fortíðina, forn afrek, ættartölur forfeðranna, skrýtnar sagnir og annað þvium- líkt. Þessi þjóðlegu fræði eru í rauninni að binda íslenzkum bókmenntum drápsklyfjar. Nú skilji enginn orð mín svo að epískur skáldskapur sé út af fyrir sig ómerkilegri en annars konar skáldskapur. Því fer víðs fjarri. íslendingasögur og skáld- sögur margra mætra höfunda, ekki sízt Jóns Trausta, og Hall- dórs Laxness, eru stórbrotinn skáldskapur. Ég hef einungis leit- azt við að benda á ýmsar tak- markanir, sem íslenzkum skáld- skap virðast vera settar, með þeim afleiðingum að hann er fá- breyttari en skáldskapur margra annarra þjóða. — ★ — Hefur þetta þá ekki breytzt á síðustu árum? Jú og nei. Heims- styrjöldin kastaði fslandi út í hringiðu alþjóðamála og rauf ein- angrun þjóðarinnar fyrir fullt og allt. íslenzkir höfundar komust í nánari snertingu við umheiminn Guðmundur Daníelsson og lærðu margt af erlendum skáldbræðrum. En það er eins og við séum ekki enn búnir að jafna okkur eftir umskiptin. Við höfum ekki lært að beizla þá orku sem losnaði úr læðingi þeg- ar við urðum sjálfstæð þjóð og fundum nútímann flæða inn yfir okkur. Fáum íslenzkum prósa- höfundum hefur tekizt að hand- sama nútímann í verkum sín- um. Þetta stafar sennilega með fram af því, að allt er á fljúgandi ferð ennþá: þróunin er svo ör að menn verða að hafa sig alla við til að halda í við hana. Það vant- ar ef svo má segja þyngdarpunkt- inn í tilveruna, þjóðfélagið er í sífelldri breytingu, og slíkt er mjög erfitt viðfangs fyrir alvar- lega þenkjandi höfunda, nema þá helzt satíruhöfunda, enda er satir an sérlega áberandi í bókmennt- um okkar á þessari öl.d Hvað hefur þá gerzt í bók- menntunum eftir stríð? Fyrst er að nefna það að með hernámi landsins komu ný vanda mál til sögunnar. Samskipti ís- lendinga við erlent setulið var nýtt yrkisefni, sem margir. eldri höfundar spreyttu sig á, en eng- um þeirra tókst að lyfta því i skáldlega hæð nema kannski Hall dóri Laxness í „Atómstöðinni", sem er hugsuð sem satíra, en er stórskemmd af skrækróma for- dæmingu höfundarins og póli- tískri einsýni. Síðan komu yngri höfundar og fjölluðu um vandamálið. Elías Mar skrifaði tveggja binda skáld- söguna „Sóleyjarsaga", sem er til þrifalaus langloka. Indriði G. Þorsteinsson og Jón Dan fjölluðu óbeint um það í skáldsögunum „79 af stöðinni" og „Sjávarföll" og tókst betur, en náðu samt ekki tökum á efninu. Stæling Indriða á Hemingway gerði margar lýs- ingar hans á persónum og atburð- um framandi íslenzkum lesend- um, og Jóni tókst ekki að ljá vandamálinu raunverulega merk- ingu í sögu sinni, hann er of veikur fyrir ýkjum. Vandamál listamannsins í þjóð- félaginu er eitt af höfuðyrkisefn- um erlendra skáldsagnahöfunda, en því hafa verið gerð fátækleg skil á fslandi. Halldór Laxness fjallaði um það af mikilli snilld í „Heimsjósi" fyrir stríð og aft- ur í „Brekkukotsannáli", sem er að mínum dómi langbezta skáld- saga okkar eftir stríð. Þetta verk tekur til meðferðar margar spurn ingar um lífið, listina og sannleik- ann, það býr yfir miklum blæ- brigðum og heillandi margræði. Guðmundur Böðvarsson fjallaði um svipað efni í fyrstu skáldsögu sinni, „Dyr í vegginn", í fyrra, en höfundurinn ræður ekki við form ið sem hann velur sögunni, þann- ig að vandamálið rennur út úr höndunum á honum í sögulok, þó margt sé vel um bókina að öðru leyti. „Blindingsleikur" Guðmundar Daníelssonar, sem kom út 1955, er nýstárlegt skáldverk í íslenzk- um bókmenntUm, táknrænt og margrætt. Þar er tekin til með- ferðar leit mannsins að sjálfum sér og sínu sanna eðli. Sagan vekur margar spurningar og svar ar þeim ekki öllum, en 'nún er mjög fagmannlega samin og knýr lesandann til ihugunar um marg- slungna þætti mannlegs eðlis. „Hrafnhetta" Guðmundar, sem kom út í fyrra, er góð söguleg skáldsaga um heitar ástríður og tragísk örlög, en ég ræði ekki hinn sögulega þátt íslenzkra bók- mennta í þessu greinarkorni. Loftur Guðmundsson reyndi að semja satíru á heinismælikvarða með „Jónsmessunæturmartröð á fjallinu helga“ (1957), en hann skorti bæði hæfileika tii sam- þjöppunar og hnitmiðunar þó hug myndin í verkinu væri út af fyr- ir sig góð. Seinni skáldsaga hans, „Gangrimlahjólið", er tilraur. til táknrænnar túlkunar á vélamenn ingu nútímans, en fer út um þúf- ur vegna takmarkaðrar kunnáttu höfundar í meðferð mjög erfiðs forms. En báðar eiga þessar til- raunir lof skilið, því með þeim var reynt að brjóta nýtt land í íslenzkum nútimabókmenntum. Þá er komið að fjórum „ung- um“ höfundum sem gert hafa virðingarverðar tilraunir til að skapa frumleg skáldverk, og ár- angurinn er vonum betri, þó ekki sé um að ræða nein meiriháttar afrek. Fyrst þessara verka var skáld- sagan „Vögguvísa" eftir Elías Mar, sem kom út 1950. Hún bregð ur upp svipmynd af nútímalífi í Reykjavík, nokkrum ungling- um sem lent hafa á glapstigum og tíðarandanum í höfuðborginni upp úr stríðinu. Bókin var fyrst og fremst nýjung að því er stílinix snerti, þó víða sé í henni berg- mál úr „Atómstöðinni". Höfund- urinn er vel heima í götumáli Reykjavíkuræskunnar og beitir því fimlega. Bygging sögunnar er líka góð og hún tekur á alvar- legum nútímavandamálum, en maður hefði kosið meiri dýpt í hana. Næst kom „Strandið" eftir Hannes Sigfússon árið 1955. Sú saga er bæði breiðari og dýpri en „Vögguvísa", en hinn tákn- ræni atburður sem hún greinir frá rís tæpast undir þeirri ætlun höfundar að búa yfir heimssögu- legri merkingu. í sögunni er dreg in upp mynd af erlendu olíu- skipi sem hrekst stjórnlaust að klettaströnd, af áhöfninni, Kín- verjum, Evrópubúum og Banda- ríkjamanni, og afdrifum hennar. Jafnframt skyggnumst við í hug arfylgsni vitavarðar, sem er að reyna að lemja saman skáldsögu og verður sjónarvottur slyssins. Framh. á bls. 14. Þœr I ét u lífið Claude Kogan og Claudine Van de Stratten komust aldrei upp á hinn 8103 m. háa Demantsgyðju- tind í Himalayafjöllunum, eða sjötta hæsta tind í heimi. Þær fórust báðar aðeins 600 m. frá tindinum í októberbyrjun, þegar kvennleiðangur reyndi að klífa fjallið. Claude Kogan, fertug frönsk kona, var fyrirliði flokksins. Þó . hún væri ekki nema 140 sm. á hæð var hún alltaf kölluð hæsta kona í heimi, eftir að hún kleif með Raymond Lambert 7700 m. hátt fjall. Hinar komust til byggða heilar á húfi. Myndin var tekin af konunum tveimur, er þær voru að búa sig út í þessa svaðilför.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.