Morgunblaðið - 31.01.1963, Blaðsíða 8
8
m i í. * < 5* v ;. s • » v-
MORCU1SBLAÐ1Ð
Fimmtudagur 31. íanúar 1963
Hugrún Gunnarsdóttir og Bríet Héðinsdóttir í hlutverkum systranna Claire og Solange.
Gríma:
Vinnukonurnar
Höfundur: Jean Genet
Leikstjóri: Þorvarður Helgason
Þýbandi: Vigdis Finnbogadóttir
FRUMSÝNING Grímu á „Vinnu-
konunum" eftir franska hðfund-
inn Jean Genet í Tjarnarbæ á
þriðjudagskvöldið var kærkom-
inn viðburður í fábreytilegu
menningarlífi borgarinnar, við-
burður sem hafði að vísu meira
fræðslu- og reynslugildi en
skemmtigildi, en þá hlið leik-
hússfns virðast borgarbúar eiga
mjög erfitt með að meta, og kom
það fram á frumsýningunni: hús-
ið var ekki nærri fullskipað.
Þessi furðulegi skortur á for-
vitni um það, sem óvenjulegt er
eða nýstárlegt, er með öðru
hryggilegur vitnisburður um
andlegan sljóleik Reykvíkinga,
menningarlegan doða og stöðn-
un. Hvernig ætlar fólk, sem er
hrætt við að kynnast nýjum við-
horfum og ferskri reynslu, að
fara að því að þroskast og vitk-
ast?
Jæja, nóg um það í bili.
Fyrir sýninguna á sjálfu leik-
riti Genets flutti Þorvarður
Helgason snjallan og greinar-
góðan inngang um skáldið, lífs-
feril hans, skáldverk og lífsvið-
horf, en Erlingur Gíslason las
nokkra kafla úr verkum hans til
skýringar innganginum. Var
þessi kynning mjög til fyrir-
myndar og bjó áheyrendur und-
ir þá óvenjulegu reynslu sem í
vændum var.
„Vinnukonurnar" eru athyglis-
vert og hneykslanlegt leikrit
sem alla varðar, af því það sýn-
ir okkur þá hlið mennskrar nátt-
úru sem allir keppast við að
gleyma og afneita.
Genet er vissulega enginn
hversdagsmaður á skáldaþingi.
Hann fæddist óskilgetinn í París
árið 1910, var tekinn í fóstur af
bóndafjölskyldu, settur á upp-
eldisheimili vandræðabarna fyr-
rr þjófnað tíu ára gamall. Eftir
margra ára dvöl á ýmsum upp-
eldisstofnunum gekk hann í hina
alræmdu Útlendingaherdeild, en
strauk þaðan. Árið 1948 var
hann náðaður af forseta Frakk-
lands eftir að hann hafði hlotið
lífstíðarfangelsi fyrir tíu þjófn-
aði, og átti náðunin rætur að
rekja til bænarskjals ýmissa
þekktrá rithöfunda og lista-
manna í Frakklandi. Genet
samdi fyrstu verk sín í fangels-
inu.
Öll verk Genets, skáldsögur,
leikrit og sjálfsævisaga, spegla
umrótið og ofsafengnar ástríð-
urnar í lífi þessa marghrjáða
manns. Hann er hinn algeri ut-
angarðsmaður sem leggur fæð á
lífsreglur og siðaboð þjóðfélags-
ins. Hann er heill og hreinskipt-
inn í afstöðu sinni, og það sem
mest er um vert: hann er lista-
maður.
„Vinnukonurnar" gefa glögga
mynd af vanda og veröld Genets.
Það sem honum liggur ríkast á
hjarta, eins og raunar flestum
leikskáldum, er hlutfallið milli
blekkingar og veruleika, spurn-
ingin um hið flókna eðli Sann-
leikans, og það hver einstakling-
urinn sé í raun og veru. Hann
leitar hins vegar fanga á önnur
mið en títt er um leikskáld: kaf-
ar niður á þau svið sálarlífsins
þar sem allar hinar myrku ást-
ríður mannsins, „eðlilegar" og
„afbrigðilegar", eru samtvinnað-
ar í torleystum flækjum.
Vinnukonurnar tvær, systurn-
ar Claire og Solange, eru túlk-
endur þeirra vandamála sem að
Genet steðja. Þær eru „fangar“
á heimilinu, en prísund þeirra á
sér ekki beinar ytri orsakir,
heldur er þeim ásköpuð: þær eru
flæktar í sitt eigið net. Ég fæ
ekki betur séð en Genet sé hér
að gera tilraun til að grafa upp
hinar flóknu rætur afbrota-
hneigðarinnar, en eflaust má
líka leggja existensjalískan skiln
ing í verkið: sambandið milli á-
kvörðunar og athafnar, spurn-
ingin um að lifa í og af verkn-
aði sínum. Enn mætti finna þjóð-
félagslega túlkun á verkinu:
Frúin er tákn mannfélagsins
sem systurnar losna ekki undan
nema með glæpi og dauða. Loks
mætti sennilega leggja dulrænah
trúarlegan skilning í leikritið:
þá yrði Frúin ímynd guðdóms-
ins, systurnar fulltrúar mann-
kyns sem leitast við að losna af
klafa hans, og mundi þá Claire
verða táknmynd mannssonarins
sem með sjálfsfórn sinni „frels-
ar“ Solange með því að fjötra
hana.
Lqikritið býður sem sé upp á
margs konar túlkanir, ef menn
vilja leggja sig niður við að
kryfja það á táknrænan hátt, en
sennilega liggur beinast við að
taka það eins og það kemur fyr-
ir sem könnun á afbrigðilegum
mannlegum hvötum þar sem ást
og hatur eru samanslungin úr
draumum, blekkingum, öfund,
einmanaleik, ofbeldishneigð, kyn
villu, lífsótta og ófullnægðum
ósíum.
Þetta léikrit er ekki tilraun til
að gefa sennilega eða kunnug-
lega mynd af hinum hversdags-
lega veruleik, heldur er það
sjálfstæð veröld á leiksviðinu,
að vísu tengd ýmsu sem við
þekkjum úr daglegu lífi, en
handan við allt svokallað raun-
sæi. Þetta er „leikur" og síðan
„leikur inni í leik“, en af þessu
tvennu verður svo með þver-
stæðum hætti „æðri veruleiki"
— ekki ósvipað og í forngrískum
harmleikum.
Og hér er það einmitt sem hið
klassíska griska hugtak kaþarsis,
„hreinsun", leikhússins kemur
til skjalanna. í upprunalegri og
sannri mynd sinni er leikhúsið
ekki fyrst og fremst skemmti-
staður, heldur nokkurs konar
„þvottalaug tdlfinninganna“: á-
horfandinn lifir hina ógnvæn-
legu og yfirþyrmandi atburði
leiksins í því skyni að verða
„nýr maður“, fá sjálfur útrás
fyrir innibyrgðar og tamdar
hvatir sínar og óskir. Leikurinn
verður honum því fyrst og
fremst reynsla, en ekki skemmt-
un eða boðskapur. Þessi grund-
vallarskilningur á hlutverki leik-
listarinnar og leikhússins virðist
vera algerlega framandi á Is-
landi, og mundi það vera ein
skýringin á frumstæðum við-
horfum íslendinga til leik-
menntar.
Ég býst við að ýmsum frum-
sýningargestum hafi þótt nóg um
ýmis atriði sem þeir urðu vitni
að á sviðínu í Tjarnarbæ á
þriðjudagskvöld, fundizt þau of
nakin og nærgöngul, en hér ligg-
ur að mínu viti megingildi þessa
torræða verks: það rótaði upp í
tilfinningalífinu, vakti duldar og
kannski áður ókunnar kenndir
og hugrenningar, þrýsti sjálfri
kviku mannssálarinnar inn í vit-
und áhorfándans. Að sjálfsögðu
voru margar kenndir og hug-
renningar leiksins framandi, ó-
hugnanlegar og jafnvel „ónátt-
úrlegar" en þær voru ekki síð-
ur sannar og máttugar fyrir það.
Þær eru þættir í lífi allra manna,
en kannski þarf maður að verða
barn í annað sinn til að gera sér
þess fulla grein. Hafi ég nokk-
urn tima séð flóknu og hrika-
legu sálarlífi barnsins brugðið
upp fyrir mér, þá var það í þessu
leikriti. Þeir sem ekki kannast
við það hljóta að hafa átt aðdá-
anlega einfalda og lognværa
bernsku.
Um sjálfa sýninguna er það að
segja, að hún hefði gjarna mátt
vera betri. Þorvarður Helgason
hefur sett leikinn á svið og felli
ég mig ekki að öllu leyti við
leikstjórn hans. í fyrsta lagi var
sýningin alltof þunglamaleg, það
lá eitthvert annarlegt farg yfir
henni. í annan stað var leikið
langtum of sterkt og blæbrigða-
laust. Þetta leiðir vitaskuld hvað
af öðru. Með hófsamari og blæ-
brigðaríkari leik hefði náðst sá
léttleiki sem lyft hefði sýning-
unni, án þess þó að draga á nokk-
urn hátt úr hinum þunga undir-
straumi og máttugu ástríðum
sem í verkinu felast. Staðsetn-
ingar virtust mér ennfremur
einhæfar og klúðurslegar, eink-
anlega í atriðinu þar sem Frúin
kemur fra'm.
Þess ber að vísu að gæta, að
með aðalhlutverkin tvö fóru ný-
liðar, sem hefur að sjálfsögðu
torveldað leikstjórnina, en það
merkilega var, að fjölhæf og
langreynd leikkona, Sigríður
Hagalín í hlutverki Frúarinnar,
fór með skarðastan hlut frá
borði. Leikur hennar var mjög
yfirborðskenndur, tilbreytingar-
laus og ómarkviss. Hún lék jafn-
an á háu nótunum með þreyt-
andi upplestrarhreimi og í per-
sónuna vantaði alla dýpt.
Hugrún Gunnarsdóttir sýndi
yngri systurina, Claire, og sýndi
víða lofsverð tilþrif, en átti oft í
brösum við hlutverkið, einkum
í skiptunum milli leiksins og
„leiksins innan leiksins". Rödd-
in var henni mjög til baga, þar
vantaði tilfinnanlega fleiri svið.
Svipbrigðin voru víða dálítið á
reiki og sums staðar kækkennd.
Bríet Héðinsdóttir lék Solange
og fór með sigur af hólmi, þó
byrjendabragur væri vissulega á
ýmsum leikbrögðum hennar.
Hún sýndi ríka skapsmuni og
furðanlegt vald á snöggum geð-
brigðum. Raddbeitingin var fjöl-
breytileg, þó leikkonan færi
stöku sinnum „út af laginu", og
svipbrigðin einatt mögnuð. Það
fór ekki milli mála, að hún
„lifði“ þetta hlutverk. Með leik
sínum hefur Bríet Héðinsdóttir
gerzt kjörgeng til viðamikilla
hlutverka á íslenzku leiksviði,
og var sannarlega mál til komið
að nýtt blóð kæmi inn í leiklist-
ina hér.
Leiktjöld gerði Þorgrímur Ein-
arsson, og voru þau frumraun
hans, mjög smekklega af hendi
leyst, einföld og stílhrein um-
gerð um verkið, í senn djörf og
hófsamleg.
Þýðing Vigdísar Finnbogadótt-
ur virtist mér lipur og hnökra-
laus, en á stöku stað var bók-
málskeimur af henni.
Gríma hefur nú í annað sinn
orðið fyrst til að kynna íslenzk-
um leikhúsgestum nýjan höfund,
sem orð fer af úti í heimi; hinn
var Max Frisch. Hefur hún með
þessu brautryðjandastarfi fylli-
lega réttlætt tilveru sína og svo
með þeim menningarbrag sem er
á sýningum hennar, þrátt fyrir
erfiðar aðstæður í öllu tilliti. En
mér hafði skilizt, að eitt megin-
verkefni hinna ungu áhuga-
manna væri að koma á framfæri
íslenzkum verkum. Hvenær
koma þau? Sannleikurinn er
nefnilega sá, að það er vafasam-
ur greiði við erlend snilldarverk
að flytja þau við mjög frumstæð
skilyrði, og' miklu nær að gera
eitthvað við það innlenda efni
sem fyrir hendi kynni að vera.
Sigurður A. Magnússon.
„Arnarnes44 afhent
eigendum
í BLAÐINU í gær var skýrt frá
því er „Arnarnes" fyrsta fiski-
skipið, sem byggt er úr stáli hér
á landi, var afhent eigendum sín
um. Af fljótfærni og misskilningi
var fyrirsögn greinarinnar röng
í tvennum skilningi, eins og
reyndar má sjá af fréttinni. Arn-
arnesið er þriðja stálskipið, sem
smíðað er á fslandi, þó það sé
fyrsta fiskiskipið, sem smíðað er
úr stáli og það var ekki sjósett sl.
laugardag eins og í fyrirsögn seg-
ir heldur afhent eigendum eins
og réttilega kom fram í grein-
inni. Er beðið velvirðingar á þess
um mistökum.
Hildur Ólafsdóttir
Minning
SORGIN grúfði yfir öllu og
þrýsti'sér inn í allra hug, bæði
meðal kennara og nemenda, dag
inn, sem það fréttist, að Hildur
Ólafedóttir hefði látizt af slys-
förum. Hún var einhvern veginn
þannig, hún’ Hildur, að hún átti
hug þeirra, sem hún var með.
Hildur var fædid 3. apríl 1949
í Reykjavík. Foreldrar hennar
voru Margrét Ólafsdóttir og
Ólafur Jensson verkfræðingur
og forseti bæjarstjórnar Kópa-
vogs. Hildur hóf nám við
Kvennaskólann í Reykjaví’k
haustið 1961 og varð brátt hvers
manns hugljúfi.
Hún var ári yngri en bekkjar
systurnar, en sá aldursmunur
kom aldrei að sök. Kennurum
þykir vænt um að finna hjá
nemandanum löngun til að vita
meira en skólinn telur vera
skyldu sína að kenna þeim. Hild
ur vildi vita margt, sem ekki
stóð í námsbókunum, og alltaf
var spurningin borin fram af
lifandi áhuga og námsvilja. Er
það ekki ofmæli, að Hildur var
í hópi efnilegustu námsmeyja,
sem stundað hafa nám við
Kvennaskólann í Reykjavík.
En Hildur var ekki aðeins góð
ur skólaþegn, heldur einnig góð
ur félagi. Bebkjarsystur henn-
ar sýndu henni margvíslegt
traust og völdu hana til trúnað-
arstarfa. Á síðasta afmælisdegi
hennar var bekkjarhópurinn
samankominn á heimili hennar
að Þingholtsbraut 47 í Kópavogi.
Þar ríkti kátína og gleði, allar
bekkjarsysturnar urðu að vera
með, enga mátti skilja eftir, og
hún hafði lag á því hún Hildur
að hæna alla að sér. Hin hóg-
væra kyrrláta lífegleði og lífe-
ánægja ríkti í öllu fari hennar.
Hið jákvæða svar við öllum hlut
um var hennar einkenni. Eitt hið
síðasta, sem hún sagði við
bekkjarsystur sínar, var þetta:
„Ég hlakka svo til að fara til
prestsins í kvöld.“ Og nú er
Hildur litla horfin, og við kveðj-
um hana með söknuði.
Við vottum foreldrum henn
ar, systkinum og nánustu að-
standendum dýpstu samúð okk-
ar. Þeim hefur hún verið meir
en hún var okkur. En það er
huggun harmi gegn, að bún var
góð, sem grátin er.
Við þökkum þér Hildur fyrir
prúða dagfarið, einlæga náms-
viljann og góða félagsandann,
sem ávallt fylgdi þér. Undir þau
orð getum við öll tekið, sem
störfuðuim með þér daglega við
Kvennaskólann í Reykjavík. Líf
Hildar var stutt, en gott. Eftir
lifir minningin, björt og hrein,
og fordæmið, sem hún skapaði
öðrum.
Guðrún F. Helgadóttir.