Morgunblaðið - 05.02.1977, Qupperneq 28
28
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 5. FEBRÚAR 1977
Björg Björnsdóttir
i Vigur — Minning
F. 7. júll 1889.
D. 24. jan. 1977.
Þegar ókunna gesti bar að garði
á æskuheimili mínu, Möðruvöll-
um í Hörgárdal, leið sjaldan á
löngu þar til afi kom og heilsaði
gestunum, kynnti sig og spurði
frétta. En I lokin lét hann þess
getið, að hann ætti 16 barnabörn,
svo ofarlega voru þau í huga hans.
Á hverjum degi heyrði ég hann
ræða um þau við ömmu. Auðheyrt
var að hann bar framtið þeirra
mjög fyrir brjósti. Þannig kynnt-
ist ég fyrst frændfólkinu í Vigur
og á Veðramóti. Mér þótti vænt
um þetta fólk og fannst það
standa mér nærri. Eitt hinna 16
barnabarna var Björg í Vigur,
sem lézt i sjúkrahúsinu á Isafirði
aðfararnótt 24. jan. s.l. Nú eru
ekki eftir nema þrjú, Sigurlaug
og Heiðbjört Bjarnadætur og
undirrituð.
Björg var fædd að Veðramóti i
Gönguskörðum 7. júli 1889. For-
eldrar hennar voru hjónin Þor-
björg Stefánsdóttir frá Heiði í
Gönguskörðum og Björn Jónsson
frá Háagerði á Skagaströnd,
hreppstjóri um langt árabil i
Skarðshreppi og dannebrogsmað-
ur. Björg var sjötta í röðinni af 10
systkinum, er upp komust. Tvö
börn dóu í bernsku. Á Veðramóti
ólst Björg upp í glaðværum syst-
kinahópi. Voru systkinin á Veðra-
móti öll vel gefin, tápmikil og
fallegt fólk, sem átti stóra
drauma.
Veðramótahjónin voru bæði
mesta greindarfólk og afburða
dugleg. Bar heimilið vott um
meiri menningarbrag en almennt
gerðist á þeim tima. Bókakostur
var þar töluverður og mikið lesið
og numið. Ljóðskáldin voru I há-
vegum höfð og hrifist af hugsjón-
um þeirra. Til þess var tekið hvað
húsfreyjan á Veðramóti var söng-
elsk og hafði fagra rödd. Söng
hún oft við langspilið sitt í rökkr-
inu fyrir barnahópinn sinn. í bað-
stofunni á Veðramóti var oft glatt
á hjalla, en þar var einnig mikið
rætt um landsins gagn og nauð-
synjar. Augljóst var að mörgu var
ábóta vaht og víða þurfti að vinna
bót til að skapa bjartari framtfð
Iandi og lýð. En stórhugur og
bjartsýni einkenndi hjónin á
Veðramóti og barnahópinn
þeirra.
Þegar Björg var um fermingu
missti hún móður sína. Var það
mikið reiðarslag fyrir hana og
heimilið allt. Óvenju mikið ástriki
hafði verið með þeim mæðgum.
Svo sár var móðurmissirinn
Björgu, að hún lagðist í rúmið af
einskærri sorg. Henni fannst öll
sund lokuð. Var henni ofraun að
horfast í augu við þann bitra
veruleika, að móðir hennar var
með öllu horfin. Fram á elliár
minntist hún móður sinnar með
sama hugarfari og lét þess getið,
að hún hefði aldrei beðið þess
bætur að missa hana, enda hefði
hún lifað frá því hún mundi fyrst
eftir sér fyrir að gleðja hana og
gera henni til geðs, svo heit var
ást hennar til móður sinnar. Ef til
vill hefur það verið upphaf ham-
ingju Bjargar hve nærgætin og
ljúf hún var við mömmu sína og
kappkostaði að létta henni erfið
uppeldis- og heimilisstörf. En sem
betur fór rétti hún við og tók gleði
sina á ný þegar frá leið.
Undu börnin á Veðramóti illa
kyrrstöðunni, þau þráðu menntun
og meira víðsýni. Tveir elstu
drengirnir fóru i Möðruvalla-
skóla, tveir þeir næstu leituðu til
Háskóla, og svo kom röðin að
systrunum. Guðrún fór i Kvenna-
skólann á Akureyri og haustið
1907 lagði Björg leið sina vestur
fyrir fjöllin og settist í Kvenna-
skólann á Blönduósi, lauk þaðan
prófi eftir tveggja vetra nám.
Kvennaskólinn á Blönduósi naut
þá mikilla vinsælda, leituðu þang-
að stúlkur viðsvegar að af landinu
til að afla sér menntunar og
þroska. Lét Björg vel yfir dvöl
sinni á Blönduósi, eignaðist hún
þar vináttu kennara og skóla-
systra.
Haustið 1911 fór Björg til
Reykjavikur, kom sér fyrir í húsi,
þar sem hún átti að sinna hús-
verkum en jafnframt njóta til-
sagnar í matreiðslu- og öðrum
heimilisstörfum. En henni likaði
illa vistin og fór til frænku sinnar
Gyðu Jósefsdóttur, sem tók henni
vel, og lærði þá fatasaum. Lét hún
yfir því, hve Gyða hefði reynst sér
vel. Útþrá gerði oft vart við sig,
Björg hafði hug á að komast út
fyrir landsteinana og hafði orð á
því við frænda sinn, er hún hitti í
höfuðstaðnum. En frændinn taldi
öll tormerki á því, nema þá helst
að leita til Ameríku. Nei, þangað
vildi hún ekki fara. Hugurinn
hvarflaði þá heim í baðstofuna á
Veðramóti, þar áttu Ameríkufar-
arnir ekki upp á pallborðið. Á
árunum, þegar fólkið hópaðist til
Ameriku, mundi hún að afi sagði
„þið eruð að svikja landið“ og
barði saman hnefunum framan i
vesturfarana. Veðramótabörnin
vildu síst að öllu svikja landið.
Var þá ekki lengur hugsað um
vesturferðir.
Veturinn I Reykjavík varð
henni að mörgu leyti til ánægju.
Hún naut þar oft góðra stunda
með systkinum sinum Haraldi og
Heiðbjörtu, sem þá voru við nám I
Reykjavik. Þegar voraði lá leið
Bjargar vestur í Vigur, réðst hún
þangað í kaupavinnu til sr. Sig-
urðar Stefánssonar móðurbróður
sins og frú Þórunnar Bjarnadótt-
ur konu hans. Það kom i hlut
Bjarna að sækja Björgu til Isa-
fjarðar á Vigurbátnum. Tæplega
hefur það hvarflað að honum þá,
að hann væri þarna að sækja
konuefnið sitt.
Heyrt hef ég að skömmu eftir
að Björg kom í Vigur hafi hana
dreymt að kallað væri til hennar:
„Þú verður umflotin sævi alla
ævi.“ „Hvaða vitleysa er þetta,“
svaraði hún að bragði, og við það
vaknaði hún. Og þannig fór, hún
átti heima í Vigur upp frá því hún
steig þar fyrst á land.
Sama vorið og Björg kom í Vig-
ur varð ég fyrir því láni um jóns-
messuleytið að koma vestur I Vig-
ur. Margt kom mér þar á óvart við
fyrstu sýn, grösug eyjan, mergð
fugla, vindmyllan á hólnum,
„spilið" á sjávarbakkanum, fall-
egi bærinn og svo allt blessað
fólkið, sem tók mér opnum örm-
um. Tókst þá óðara góð vinátta
með okkur Björgu. Þessi Vigur-
ferð hefur ávallt lifað í minni
mínu sem fagurt ævintýri.
Sjálfsagt hefur Björgu farið
svipað og mér, að margt hefur
komið henni á óvart fyrst i stað.
Fram til þessa höfðu Gönguskörð-
in verið hennar heimur, en hún
samlagaðist fljótt nýjum staðhátt-
um. Það er gjörólíkt að stunda
búskap upp til dala eða úti við sjó,
búskaparhættir allt aðrir. Heimil-
ið stóð föstum fótum, þar var litið
um fólksflutnínga. Sama vinnu-
fólkið hafði verið í Vigur svo ár-
um skipti. Setti það sinn sérstaka
svip á heimilislífið, störf þess
voru metin sem vert var og að þvi
hlynnt, er með þurfti, allt til ævi-
loka, enda virtist fólkið öruggt
um sinn hag. Heyrði ég sagt að
gömul vinnukona i Vigur hefði
sagt, þegar stríðið braust út 1914:
„Skyldi ekki blessaður presturinn
geta stillt til friðar?" Þá hafði sr.
Sigurður verið í Reykjavik, en
slíkt var traustið til húsbænd-
anna, nær ótakmarkað, blessaður
presturinn var visastur til að hafa
áhrif á heimsrásina.
Sem fyrr segir fór Björg ekki
aftur frá Vigur. Brúðkaup þeirra
Bjarna var haldið 16. sept. 1914.
Var þeim það þáðum mikil gæfa.
Bjarni var eftir sem áður önnur
hönd föður síns við búskapinn og
Björg hafði hönd í bagga með
innanbæjarstörfum og studdi
tengdamóður sina eftir föngum.
Báðar voru þær léttar í lund og
fylgdi þeim hlýja og gleði.
Vorið 1918 tóku ungu hjónin
við búinu í Vigur. Þó skipt væri
um ábúendur hélst sami heimilis-
bragur, gömlu vinnuhjúin voru á
sínum stað og nutu sama öryggis
og áður. Segir það sína sögu. Það
duldist engum, að Björg var mik-
ilhæf húsmóðir, stjórnsöm og
áhugasöm um allt er heimilið
varðaði, hvort heldur var úti eða
inni. Vinnusöm var hún með af-
brigðum og féll aldrei verk úr
hendi. Hún hafði brennandi
áhuga á öllu er til framfara horfði
og var viðbragðsfljót, ef til henn-
ar var leitað. Og það voru ekki
einungis mál heimilisins, sem
hún lét sig varða, hún fylgdist vel
með öllu, sem gerðist með þjóð-
inni og fylgdi fast þvi, sem hún
áleit að til heilla horfði. Síðustu
dagana, sem hún lifði, hafði hún
áhyggjur af því, hvenær þeir
lykju við að leggja rafmagn i
Djúpið. Þannig lifði umhyggjan
fyrir sveitungum hennar til
hinstu stundar. Henni þótti
stundum ganga seint með nauð-
synlegar umbætur, þvi áhuginn
var ávallt brennandi.
Björg mátti aldrei neitt aumt
sjá, var hún örlát við þá sem voru
hjálpar þurfi, en flíkaði því litt þó
hún léti sitthvað af hendi rakna.
Gestkvæmt var í Vigur og oft fjöl-
menni. Var öllúm er að garði bar
veitt af mikilli rausn.
Einhverju sinni var sagt við
mig þegar Vigurhjónin bárust I
tal: „Þau keppast við að veita
hvort öðru sem mesta hamingju."
Fallegur vitnisburður og lær-
dómsríkur. Guðrún systir Bjargar
sagði líka oft er góðar fréttir bár-
ust frá Vigur: „Það er eins og
annað lánið hennar Bjargar."
Björg var mikil trúkona. Dætur
hennar segja mér að hún hafi
aldrei látið undir höfuð leggjast
að lesa Guðsorð áður en lagst var
til hvildar á kvöldin, þakkað fyrir
liðinn dag og Guðs gjafir.
Þau Vigurhjónin eignuðust sex
börn, þrjá syni og þrjár dætur.
Eins og gefur að skilja eru margir
erfiðleikar því samfara að búa úti
í eyju. Iðulega gefur ekki á sjó og
þá er ekki í annað hús að venda.
Eyjabúar verða þvi að vera for-
sjálir og fyrirhyggjan vakandi.
Ekki minnast þó börnin frá Vigur
þess, að nokkur vandi fylgdi eyja-
búskap foreldra þeirra, þar var
ávallt gnægð í búi. Þegar fram i
sótti og börnin þurftu að fara í
skóla, var ekki um annað að ræða
en kenna þeim heima. Bjarni fað-
ir þeirra kenndi þeim elstu, þegar
frá leið var fenginn barnakennari
í 5—6 vikur að vetrinum og þar á
eftir kenndu þau hvert öðru, eftir
þvi hvar þau voru á vegi stödd.
Var síðan siglt upp í ögur að
vorinu og gengið undir próf. Voru
þær ferðir mikið tilhlökkunar-
efni. Þessi fyrstu skref á mennta-
brautinni voru leikur einn.
En hugur þeirra systkina stóð
til meiri lærdóms. Hvatti Björg
mjög til þess, að dætur hennar
héldu áfram námi ekki síður en
bræðurnir. Björg var kvenrétt-
indakona af lífi og sál. Hún
mundi þá tíð er bændur riðu til
kosninga en konurnar sátu heima.
Aukin menntun kvenna hlaut að
leiða til meira jafnréttis. Henni
var einnig ljóst að ekki var hyggi-
legt fyrir kvenfólk ef annars var
kostur að treysta á hjónaband og
forsjá heimilisföður. Konur yrðu
að geta staðið á eigin fótum og
bjargað sér, ef þvi væri að skipta,
og þvi þyrftu konur að mennta sig
til að geta spjarað sig á við karl-
mennina. Framhaldsmenntun
barnanna I Vigur varð heldur
ekkert vandamál frekar en annað
á þeim bæ, þvi allir voru samtaka
og hjálpuðust að. Fimm systkinin
fóru norður i Menntaskólann á
Akureyri, þrjú tóku þaðan
stúdentspróf en tvö hættu námi
eftir að hafa lokið þar gagnfræða-
prófi. Einn bróðirinn tók próf frá
Héraðsskólanum á Laugarvatni.
En börnin eru þessi: Sigurður
sendiherra í London, kvæntur
Ólöfu Pálsdóttur myndhöggvara.
Björn bóndi I Vigur. Baldur gerð-
ist barnakennari I nokkur ár eftir
að hafa lokið gagnfræðaprófi við
M.A., en er nú bóndi í Vigur,
kvæntur Sigríði Salvarsdóttur frá
Reykjarfirði. Hófu þau búskap í
Vigur 1953 ásamt Birni bróður
Baldurs. Var gott til þess að vita
hvað bræðurnir og tengdadóttirin
bjuggu þeim Bjarna og Björgu
gott skjól i ellinni.
Þorbjörg forstöðukona Hús-
mæðraskólans Ósk á tsafirði, gift
Brynjólfi Samúelssyni sjómanni.
Þórunn Gagnfræðaskólakenn-
ari, kennir við Hagaskóla i
Reykjavík, gift Lárusi Árnasyni
málarameistara.
Sigurlaug menntaskólakennari,
nú alþingismaður, gift Þorsteini
Thorarensen rithöfundi.
Auk sinna eigin barna og allra
hinna mörgu barna og unglinga,
sem dvöldu árum saman að sumr-
inu til I Vigur, ólust þar upp til
fullorðinsára hjá Björgu og
Bjarna þau Þórey Sigurðardóttir
húsfreyja í Reykjavík, gift Pétri
Einarssyni og synir hennar tveir,
Þórarinn Þórarinsson trésmiða-
meistari í Kópavogi, kvæntur
Ólöfu Bjarnadóttur og Árni
Haraldsson húsgagnabólstrari á
Húsavfk, kvæntur færeyskri konu
Kaju Joannsen. Einnig Kjartan
Magnússon verkamaður í Reykja-
vík, kona hans er Kristín Guðjóns-
dóttir.
Þó ekki sé fleira talið er aug-
ljóst að húsfreyjan i Vigur hefur
haft í mörg horn að lita, en allt
var unnið með glöðu geði. Björg
eignaðist 13 barnabörn og fjögur
langömmubörn, sem hún bar vel
fyrir brjóti og bað Guð að varð-
veita.
Þó dvölin yrði þetta löng á fjar-
lægum slóðum þar sem hún undi
vel hag sínum hvarf Skagafjörður
aldrei úr minnni Bjargar. Hún
gladdist yfir góðum fréttum úr
Skagafirði en harmaði ef miður
fór. Ef til vill má segja að Skaga-
fjörður hafi verið hennar
draumaland, slík var tryggð henn-
ar við gamlar æskustöðvar.
Eftirtektarvert er, hvað systkin-
in í Vigur hafa látið sér öll annt
um heimili sitt. Á skólaárunum
skiptust þau á um að vera heima
og hjálpa til við bústörfin. Ekki
koma að sök þó þau hyrfu að
skólabekkjunum um tíma, það
sýndu prófin þeirra á vorin, enda
voru þau vel af Guði gefð og mik-
ið námsfólk.
Þegar ég spurði Sigurlaugu
dóttur Bjargar að þvi á dögunum,
hvað hún teldi að hefði verið
þeim systkinunum mest virði I
uppvextinum, svaraði hún: „Tví-
mælalaust fagurt fordæmi for-
eldra okkar og þrotlaus áminning
um að vera heiðarlegt fólk. Aldrei
notaði móðir okkar ljót orð við
okkur krakkana á hverju sem
gekk. Misklið á heimilinu þekkt-
ist ekki. Ef um smáágreining var
að ræða, var áður en varði allt
fallið I ljúfa Iöð.“
Enn þann dag í dag leitar hugur
þeirra systkina heim í Vigur.
Þangað eiga þau rætur að rekja.
Þaðan er einungis góðs að minn-
ast. Hvergi var grasið grænna en
á litlu eyjunni þeirra, kliður
náttúrunnar fegurri né ylurinn
hjá mömmu og pabba i gamla
bænum í Vigur notalegri.
Langar og merkrar ævi er
minnst þegar Björg i Vigur er
kvödd. Votta ég ástvinum hennar
innilega samúð mina, jafnframt
því sem ég gleðst yfir þeim dýr-
mæta arfi er þeim hlotnaðist frá
móður sinni og æskuheimilinu í
Vigur, arfi, er hvorki mölur né
ryð fær grandað.
Vona ég að Guð gefi að ham-
ingjan verði Vigurfólkinu hlið-
holl hér eftir sem hingað til.
Hulda Á Stefánsdóttir
Faðir okkar,
KJARTAN ÁSMUNDSSON,
gullsmiður,
lézt í gær, föstudag 4 febrúar
Kjartan Kjartansson,
Óskar Kjartansson,
Þórdís S. Kjartansdóttir,
Ragnar Kjartansson.
Fóstusonur minn
GUNNAR STEFÁN MAGNÚSSON,
Rauðalæk,
Holtahreppi,
er lézt 2 7 janúar. verður (arðsunginn frá Fossvogskirkju þnðjudagínn
8 febrúar kl 3
Fyrir hönd eiginkonu og dætra,
Eiríkur Isaksson.
Systir okkar
HELGA EINARSDÓTTIR
Snorrabraut 32
andaðíst hínn 25 jan s I. Útför hefír farið fram i kyrrþey. samkv. ósk
hinnar látnu Alúðar þakkir til lækna og hjúkrunarfólks við Dvalarheim-
ilíð Ás, Hveragerði, og Landspítalann, fyrir frábæra hjúkrun og
umönnun
F h systkina hinnar látnu
ÓlafurTr. Einarsson.
Móðir okkar
SÓLVEIG LARSEN KRISTJÁNSSON
verður jarðsungin frá Fossvogskirkju mánudaginn 7 febrúar kl 10 30
f.h
Karly K. Legere
Elvar Krístjónsson
Kristján S. Kristjónsson
tengdabörn og barnabörn