Morgunblaðið - 02.08.1980, Síða 14

Morgunblaðið - 02.08.1980, Síða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 2. ÁGÚST 1980 grein/ÁRNI JOHNSEN myndir/ SIGURGEIR JONASSON Við flytjum ferðamenn í kring um Vestmannaeyjar og segjum þeim frá ýmsu sem hefur skeð í sambandi við náttúruna og mannlífið í Eyjum og það er af mörgu að taka í þessum efnum, en fyrst og fremst lítum við á bátinn sem trúboð, því á ferðum okkar höfum við tækifæri til þess að vitna fyrir fólkið um það sem Drottinn hefur gert fyrir okkur og hvað á dagana hefur drifið í sambandi við útgerðina, gosið og svo margt fleira, sagði Hjálmar Guðnason skipstjóri á Bravó þegar við sigldum út Víkina í Eyjum einn góðviðrisdaginn fyrir skömmu. Þeir Hjálmar og Ólafur Gránz eru útvegs- bændur á fiski- og skemmtisiglinga- og trúboðs- bátnum Bravó og þeir hafa á lífsleiðinni, þótt ungir séu, gengið í gegn um þykkt og þunnt. Þeir búa báðir yfir sérstæðum stíl og hafa löngum séð hlutina í víðara ljósi en gengur og gerist í önn hversdagsins. Sigling í kring um Vestmannaeyjar, inn í sjávarhella, undir snarbröttum hamraveggjum eða milli úteyja, er mjög sérstæð því hvergi á jarðarkringlunni er svipaða náttúru að finna. Eins og birtan skiptir sífellt litum á þessum hamraeyjum vegna endurkastsins frá hafinu þá skiptir einnig sífellt um sjónarhorn í landslaginu þegar farið er um. Milljónir sjávarfugla byggja björg Vestmanna- eyja og einnig eru þar nokkrar tegundir mófugla, en þegar sumarbúskapurinn er í fullum gangi er ævintýri að sigla með björgum og kynnast lífinu þar. Menn geta allt að því heilsað upp á bjargfuglinn eins og granna sinn. Það var ládauður sjór, létt yfir öllu og lífsglatt fólk um borð þegar dólað var undir Heimakletti. Á Klettsvíkinni var slegið af og Hjalli fór með sjóferðabæn eins og ávallt, bað þann sem öllu ræður að halda verndarhendi sinni yfir sjóferða- mönnunum og þakkaði allt gott gjört. Sunnanmegin í innsiglingunni gnæfir hið unga klettabelti síðan í eldgosinu 1973. Áður var innsiglingin 1200 metra breið, en nú er hún liðlega 100 metrar. Broderí almættisins er fíngert og ótrúlega nákvæmt. Nóg var nú samt sem fór af grónasta og einum fegursta hluta Heimaeyjar þótt innsiglingin færi ekki einnig, dyr mannlífsins í Eyjum. „Guð hélt verndarhendi sinni yfir gosinu," sagði Hjalli," og hann gaf okkur mikla náð í því, varðveitti byggðina frá tortímingu. Það er magnað að sjá hvernig hver hrauntungan af annarri hefur stöðvast við innsiglinguna og þótt margir góðir menn hafi unnið björgunarstörf hér í eldgosinu þá segir í Biblíunni að sérhver góð gáfa komi að ofan.“ Á Klettsvíkinni sátu þúsundir lunda, svartfugl á skerjum og álka og rita í bjargi. Við stöldruðum við í Litla-Klettshelli þar sem stórt álkubæli lúrir og það er skemmtilegt að sjá þessa tegund svartfuglaættarinnar dudda við búskapinn í bjarginu með sínum fjölbreytilegu hljóðum í söng og tali. „Eitt sinn þegar við vorum komnir út á Klettsvíkina," sagði Hjalli, „var hvíslað að mér að ég ætti eftir að biðja fyrir ferðinni. Ég hneigði höfuð og bað Jesús að vera meö okkur. Síðan sigldum við áfram til þess að mynda álkubælið þar sem ég stöðva bátinn alltaf á sama stað. Þegar við komum að pzetinu flaug allur fuglinn út, aldrei þessu vant og ég hélt einnig áfram. Þegar við vorum komin bátslengd frá þeim stað sem ég stöðva venjulega á hrundi stór steinn úr berginu og það er ekki að sökum að spyrja ef varðveizlan hefði ekki verið til staðar." í Klettshelli sem opnast úr Yztakletti til suðurs var vél Bravó stöðvuð og Hjalli sem er einn af betri trompettleikurum lék nokkur sígild lög inni í hellinum sem skilaði ótrúlegum hljóm og fyllingu. Tónleikar sem óvíða er unnt að sækja. Á leiðinni fyrir Klettinn heilsuðum við upp á ritu í bjarginu og unga hennar, síðan var siglt hjá kórum og bælum í bergi og hvarvetna var nóg að sjá sem augað vildi staldra við. Úteyjarnar risu eins og steinmenn úr hafi, fulltrúar áttatíu eldgosa á Eyjasvæðinu, klæddar skikkjum gróð- urs með síbreytilegu mynstri iðandi fuglalífs. Á hverri bátslengd er hægt að segja nafn og sögu úr mannlífi eða náttúru og þannig leið ferðin þennan sumardag, en þessi siglingarleið er ein af þeim leiðum sem ekki er hægt að lýsa í orðum, þar sem sjón virkilega sögu ríkari og ný reynzla fyrir ferðalanga. Sólbrotin tipluðu á sænum og Bravó öslaði mót birtunni. Um borð var fólk á öllum aldri og þegar slegið var upp vínarbrauðsveizlu með forláta Magnúsarbakaríisbakkelsi var kátt á hjalla um borð. Bravó fer daglega í siglingu með ferðamenn kring um Vestmannaeyjar, bæði styttri og lengri ferðir og er unnt að panta ferð hjá eigendunum, Flugleiðum í Eyjum eða hjá Páli Helgasyni sem er með skoðunarferðir á landi og rekur víðtæka ferðaþjónustu með gistiaðstöðu. í Kafhelli var staldrað við, sjávarhelli í eynni Hænu sem þykir slá við hinum rómaða Bláa helli á Caprí, en í hvelfingu hellisins eru ótrúlegar litasamsetningar svo jafnvel regnboginn virkar eins og sýnishorn. Rennt var út af Ægisdyrum, inn í Kaplagjótu og þannig sporaði Bravó hafflötinn og safnaði um leið fegurð í huga feröalanganna. Þeir Hjalli og Óli áttu áður bát sem hét Blautur, en það var á þeim árum sem þeir áttu of mikla aðild að „bleytunni" eins og þeir segja sjálfir, en þegar Jesús Kristur kom inn í líf þeirra þá opnaðist þeim nýtt ljós yfir allt sem þeir voru að gera og þeir skírðu bátinn upp með nafninu Bravó. „Þetta var stórkostlegur tími," sagði Hjalli, „bænin, trúin og Guð hafa gefið lífi okkar tækifæri til þess að vaxa og springa út, fá fyllingu sem skiptir öllu máli. Ég fann jafnvel annað bragð af vatninu og litirnir í klettunum eru dýpri. Slík er náð Drottins.,, I Kafhelli í Hænu. Kafhellir er einhver fegursti sjávarhellir sem um getur með ótrúlegri litadýrð í bergi. Siglt er á bátum inn í hellinn en þarna sést til Hamarsbyggðar- innar og yfir henni tróna Helgafell til hægri og Eldfell til vinstri. Hjalli blæs í trompetinn í Klettshelli. Hjálmar Guðnason m«u kapteinshúfuna. Sjóferöabæn beðin á Klettsvíkinni

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.