Morgunblaðið - 13.01.1983, Blaðsíða 12
12
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 13. JANÚAR 1983
Á hvergi
heima nema
í sveitinni
segir Kristbjörg Guðmundsdóttir
Kristbjörg (iuömundsdóttir er 84ra ára gömul og á að baki
líf, sem margir íslendingar á hennar aldri þekkja til, en ungt
fólk nú á dögum á oft bágt með að trúa. Svo miklar breyt-
ingar hafa orðið á lífshlaupi og kjörum fólks á þessum 80
árum. Enda hefur Kristbjörg eftir konu, sem hún hitti ekki
alls fyrir löngu á læknabiðstofu, að þegar hún hafði sagt
dótturdóttur sinni l'rá lífinu í gamla daga, þá fór telpan fram
í eldhús til móður sinnar og sagði: Eg held að það sé farið að
slá út í fyrir henni ömmu, allar þessar sögur sem hún var að
segja af sér! 1‘essvegna er einmitt fróðlegt að fá að spjalla við
konu eins og hana Kristbjörgu, sem man tímana tvenna.
Kristbjörg Guðmundsdóttir tyllir sér á rúmið sitt.
Ljósm. Kristján.
Kristbjörg býr nú á Droplaug-
arstöðum, nýjasta dvalarhúsinu
fyrir aldraða í Reykavík, í nám-
unda við Heilsuverndarstöðina,
enda er þar þjónusta fyrir þá sem
ekki geta lengur verið einir í íbúð.
Það fer vel um hana í þessari litlu
íbúð. Hefur herbergi með baði og
aðstöðu til að hita kaffi. Hefur
komið sér þarna notalega fyrir
með sína persónulegu hluti í kring
um sig, kommóðu, blóm, myndir af
afkomendum, salúnofið teppi yfir
rúminu, klukku sem tifar hátt,
skilirí með „Drottinn blessi heim-
ilið“ utan um torfbæ og þurrku-
hengi, ísaumuðu með kontorsting
„Hver vill kaupa gæsir" ásamt
mynd af gæsastúlkunni. Og svo
eru þar nútímaþægindi; góðir
skápar, sími og útvarp, sem hún
hlustar mikið á, því hún sér ekki
til að lesa eða horfa á sjónvarp.
Kristbjörg er hress í tali, þegar
við byrjum viðtalið um ævi henn-
ar.
Lífshlaup hennar hófst á
Stokkseyri í nóvembermánuði
fyrir 84 árum. Hún var ekki nema
40 vikna þegar hún var svo yfir-
komin af beinkröm, að hún bar
ekki fyrir sig fæturna í kjöltunni,
eins og hún orðar það. Foreldrar
hennar áttu fjölda barna og voru
bláfátæk, enda erfitt að koma sér
áfram á Stokkseyri á þeim árum.
Faðir hennar var heilsutæpur.
Var íshúsvörður í mörg ár, því það
starf þoldi hann. Það var ekki útlit
fyrir að barnið mundi fara að
ganga með þessu móti. Þá tóku
telpuna gömul hjón á staðnum,
sem líka voru bláfátæk. En konan
var læknir af guðs náð, eins og
Kristbjörg orðar það. Hún ól hana
á grasaseiði og fleiru slíku. Það
gafst vel. Barnið fór að dafna. Hjá
þessum gömlu hjónum var hún
þar til hún var sex ára gömul. —
En þá fékk fóstri minn slag og
þessi tilvera sundraðist, segir hún.
Vantaði hlýju
Sumarið eftir var Kristbjörg
send austur í Landeyjar. Átti að
vera snúningastelpa á bænum
Vatnahjáleigu, sem nú heitir
Svanavatn. Þótti tími til kominn
að hún færi að vinna fyrir sér. Það
gekk líka ágætlega. Hún sótti
kýrnar og rak þær og komst fljótt
upp á að smala kvíánum. — Eg
var svo mikið fyrir dýrin, segir
hún. Þegar telpan kom úr sveit-
inni um haustið, tóku hana til sín
efnuð, barniaus hjón. Og hún byrj-
aði 7 ára gömul í barnaskóla hjá
Sæmundi Friðrikssyni frá Hóli.
Var strax mikið fyrir bókina.
— Ég átti víst kost á að vera
þarna áfram, segir hún. En mér
leiddist svo óskaplega, grét alla
daga. Ég hafði nóg viðurværi og
allt sem þurfti. Og maðurinn las
fyrir mig, sem ég bý að enn þann
dag í dag. Svo ég átti að geta sætt
mig við að vera hjá þeim. En mig
vantaði hlýjuna, sem ég var vön
frá gömlu hjónunum. Þessi hjón
höfðu aldrei haft barn, og slíka
hlýju áttu þau ekki til. Ég vildi
bara komast aftur í sveitina. Ég
segi ekki að ég hafi haft hlýju þar,
en ég naut þess að vera með dýr-
unum. Það var mér nóg. Ég hefi
víst verið sveitabarn frá upphafi.
Mér hefur alltaf dauðleiðst síðan
ég þurfti að fara úr sveitinni, eftir
að ég fékk ristil í augað og þurfti
að vera nálægt augnlækni. Krist-
björg var svo í Vatnahjáleigu þar
til hún var 15 ára gömul.
I Landeyjunum var farskóli.
Börnin voru hálfan mánuð á
hverjum stað. Skólavist var 2
mánuði yfir veturinn. — I Land-
eyjunum var þá nýstofnað Lestr-
arfélag, segir hún. Fólkið á næsta
bæ var í lestrarfélaginu og stelpa
þar laumaðist til að lána mér bók
og bók. Mest voru þetta sögubæk-
ur, eftir Jón Trausta og Þorgils
gjallanda. Annars las maður allt
sem maður gat náð í. En 15 ára
gömul fór ég vinnukona að Bakka
í Landeyjum, til Lofts Þórðarson-
ar og Kristínar Sigurðardóttur,
sem var systir Halldórs Sigurðs-
sonar úrsmiðs. Það var mikið
bókaheimili og ég hafði mjög gott
af verunni þar. Allan veturinn
skiptist fólk á að lesa upphátt á
kvöldin. Lesnar voru íslendinga-
sögurnar, Noregskonungasögur og
skáldsögur úr lestrarfélaginu.
Annars var mikið af bókum til á
heimilinu. Þetta var mannmargt
heimili. Hjónin, við vinnukonurn-
ar tvær, aldraður faðir bóndans og
svo urðu börnin átta talsins. Ég
man svo vel eftir því þegar Kristín
húsfreyja sagði mér að nú væri
röðin komin að mér að lesa. Ég var
svo feimin og kvaðst ekki geta það.
Hún setti mig á stólinn, fékk mér
bókina og ekki var undankomu
auðið. Þetta hefur sjálfsagt verið
stagl og vitleysa fyrst, vegna
feimninnar, en svo kom það. Ég
hafði mikið gott af þessu. Aftur á
móti var ég ekkert hrifin af að
vera látin stafa á húslestrarbók-
ina. Ég var nú svo skrýtin að mér
þótti alltaf húslasturinn leiðinleg-
ur. En á næsta bæ var lesin Jóns-
bók (Vídalíns). Og ég yar æst í að
komast þangað til að hlusta.
Jónsbók var allt annað.
Fórum sárnauðug
frá Tjörnum
— Jú, mig langaði til að læra og
verða Ijósmóðir eða hjúkrunar-
kona, en sá mér það ekki fært. Þó
komst það svo langt að ég fór til
Reykjavíkur eitt haustið. Móðir
Eyjólfs Eyfells sagði við mig að ég
skyldi bara koma. Ég mætti búa
hjá henni yfir veturinn. Við lögð-
um af stað tvær saman og ég fór
til gömlu konunnar. Hélt að nú
væri allt í lagi. En varla var liðin
vika, þegar dóttir hennar missti
manninn í sjóinn. Hún var með
lítið barn og þurfti að koma til
hennar. Ég mátti vera áfram, en
íbúðin var svo lítil að ég sá að það
gæti ég ekki þegið. Svo ég fór til
Halldórs úrsmiðs og var þar í vist
yfir veturinn. Lærði þar ótrúlega
mikið. Þar var mikið um veizlu-
höld og ég kunni ekkert í mat-
reiðslu, en Guðrún húsfreyja var
svo góð við mig og sagði mér svo
vel til, að ég efast um að ég hefði
lært meira þótt ég hefði farið í
matreiðsluskóla. Þetta kom sér
sannarlega vel, ég bjó að því alla
ævi.
— Ég gifti mig svo 1922. Einar
Jónsson var vinnumaður á Bakka
og þar kynntumst við. Við vorum
ekki lengi trúlofuð, því það losnaði
jörð þar sem hann hafði alist upp,
Tjarnir undir Eyjafjöllum. Þetta
var tvíbýiisjörð. Systir mannsins
míns hafði giftst ekkjumanni, sem
bjó á öðrum bænum. í þau 20 ár,
sem við vorum þarna í sambýli,
var þetta eins og eitt heimili. Man
ekki eftir að okkur konunum yrði
sundurorða þótt við værum með
þennan stóra barnahóp. Þau áttu
6 börn saman og bóndinn hafði átt
3 áður. Og við eignuðumst 12 börn,
það elsta fæddist 1923. Börnin
voru að vísu ekki alltaf þarna öll í
einu. Það smá bættist við. Börnin
stækkuðu og þau elstu fóru að fara
að heiman, því heima var enga at-
vinnu að hafa. Þau langaði sum til
að læra, en við höfðum ekki efni á
því. Mínar stelpur fóru um tvítugt
að heiman, fyrst sem vetrarstúlk-
ur á stór heimili og höfðu gott af
því, voru á Stórólfshvoli og Bark-
arstöðum. Einn sonur var í Stóru
Mörk hjá Sveini Guðleifssyni.
Hann hét Leifur og drukknaði
tvítugur 1948. Fór til Eyja og
hrökk út af bát.
Fleiri börn missti Kristbjörg,
enda ekki auðvelt að ná í lækni í
snatri. Ársgömul dóttir hennar
hafði dáið af brunasárum árið áð-
ur. Datt aftur fyrir sig í pott með
heitu vatni og brenndist illa. Var
farið með hana út að Stórólfs-
hvoli. Helgi læknir hafði ein-
hverja lækna þar fyrir sig þegar
hann var á þingi. Nú til dags hefði
þetta verið grætt, segir Krist-
björg. Skömmu seinna dó líka
misserisgömul dótturdóttir henn-
ar, sem var þarna heima og henni
þótti ákaflega vænt um. Hún dó úr
lungnabólgu. Og árið eftir, 1949,
drukknaði annar sonur, 17 ára
gamall. Hann ætlaði í skóla, en
vinna fyrir skólakostnaði á einni
vertíð í Vestmannaeyjum fyrst.
Haustið áður hafði Kristbjörg
misst sex ára telpu, sennilega úr
heiláhimnubólgu. Það voru erfiðir
tímar, segir Kristbjörg einfald-
lega.
En átta börn komust upp og eru
á lífi. Búið gat framfleytt þessari
fjölskyldu. — Börnin höfðu nóg að
borða. Tjarnir fóru vel með sína,
segir Kristbjörg. Við höfðum fé og
kýr. Gátum fyrst farið að selja
rjóma og svo kom mjólkursalan.
Þá var keppt að því að fjölga kún-
um. En það var ekki fyrr en við
vorum komin að Brúnum, sem er
næsti bær við Tjarnir.
— Við fórum sárnauðug frá
Tjörnum, segir Kristbjörg. Hefð-
um aldrei farið þaðan, ef ríkið
hefði ekki neytt okkur til þess,
þegar farið var að veita Þverá í
Markarfljót. Þá var talið að jörðin
færi undir vatn og sand eða mikið
af henni að minnsta kosti. En það
hefur nú ekki gerst enn, bætir hún
við með þunga. Ríkið keypti jarð-
arpartinn okkar fyrir lítið fé. Við
áttum nú ekki nema !4 af jörðinni.
Þetta var stór jörð, en ábúendur
tveir. Túnið stórt og hafði verið
handsléttað á þessum árum. Var
lítið byrjað á því, þegar við kom-
um þangað. Og mér þótti ákaflega
sárt að þurfa að fara þaðan og
yfirgefa jörðina. Sr. Sveinbjörn
Högnason, sem var formaður
Vatnafélagsins, kom sumarið
1947, eftir að Heklugosið hófst, til
okkar. Vegna öskufallsins höfðu
Merkurbændur kýr sínar á slétt-
lendinu hjá okkur. Þar var minni
aska en hjá þeim. Þá sagði
Sveinbjörn við bónda minn: Nú
skil ég ykkur vel, eftir að hafa séð
jörðina. Ég held að ég hefði aldrei,
aldrei farið frá Tjörnum! Að hann
skyldi geta sagt þetta, maðurinn
sem hafði staðið fremstur í flokki
fyrir þessum aðgerðum. Þá sárn-
aði mér. En þeir voru víst fyrst og
fremst að hugsa um að vernda
Múlakot og Fljótshlíðarbæina.
Þeir hefðu bara þurft að hlaða
líka vestanmegin árinnar, svo að
hún gæti stokkast. Fljótið flæmist
um allt. Þetta er svo mikil ham-
hleypa. Nú er víst svo komið að
hlaða verður fyrir það.
Bærinn brann
— Eftir að hafa komið okkur
fyrir á næsta bæ, Brúnum, og ver-
ið þar í sjö ár, losnaði Bakkinn,
þar sem ég hafði verið. Okkur var
boðin jörðin. Einar var auðvitað
feginn. Alltaf vofði yfir að fljótið
gæti eyðilagt svo og svo mikið af
landi. En ekki höfðum við lengi
verið á Bakka þegar bærinn brann
til kaldra kola. Og við stóðum uppi
slipp og snauð. Þarna var gamalt
timburhús með þurru veggfóðri og
fuðraði upp. Svolítið bil var milli
bæjar og hlöðu og tókst að verja
útihúsin og skepnurnar. Ég hafði
farið út að Selfossi og var á leið
heim. Þetta ferðalag hafði lagst
svo illa í mig. Ég vildi ekki fara,
en það var komið í bíl að sækja
mig, og ég drifin af stað. Kvöldið
sem ég kom heim var bullandi
óveður og ég þurfti að ganga langa
leið frá áætlunarbílnum. Fólkið á
Hóli sagði að ég færi ekki lengra
um kvöldið, svo éggisti. Um morg-
uninn lagði ég af stað í bullandi
rigningu og roki, stansaði aðeins í
Hólmahjáleigu. Þá vakti bóndinn
þar athygli á miklum reyk á
Bakka og spurði hvort verið væri
að reykja í smiðjunni. Mér leizt
ékki á þetta. Yngstu börnin okkar
tvö voru úti í fjósi að mjólka, en
Einar hafði kveikt upp í eldavél-
inni áður en hann fór að gefa
kindum í kofa skammt frá. Húsið
fuðraði upp á skömmum tíma og
ekki hægt að bjarga nokkrum
hlut. Þá reyndust sveitungar
okkar og margir fleiri okkur vel.
Allar hendur voru á lofti til að
hjálpa. Viðbygging hafði verið í
smíðum við húsið úr hlöðnum
steini. Á það var nú komið þak og
var hjálpast að við að gera það
þannig að hægt væri að vera í því
um veturinn. En í þessu vorum við
svo þar til sonur okkar, sem farinn
var að búa úti í Eyjum, tók við
jörðinni og byggði upp. Bakkinn er
stór og mikil jörð og hann hefur
ræktað þar og byggt vel upp.
— Skömmu fyrir brunann hafði
ég fyrst þurft að fara til læknis
suður vegna augnanna. Ég sá orð-
ið illa og þurfti að vera undir
hendi augnlæknis. Fór svo fyrst til
barna minna, en fékk svo leigt.
Vildi geta hugsað um mína krakka
sem ekki áttu heimili sjálf. Mað-
urinn minn var eftir heima og dó
þar nokkrum árum seinna. Tvö
yngstu börnin voru hjá mér. Son-
urinn var að vísu mest til sjós, en
dóttirin vann hjá Sláturfélaginu.
En ég hefi alltaf séð eftir sveit-
inni. Á hvergi heima nema þar.
Fyrir fjórum árum fékk Krist-
björg svo eina af íbúðum borgar-
innar fyrir aldraða í Furugerði 1.
En þegar Droplaugarstaðir
opnuðu þótti meira öryggi í því að
hún færi þangað. Þar er mun
meiri þjónusta, matur og allur
viðurgerningur, og Kristbjörg get-
ur ekki lengur séð um sig hjálpar-
laust. — í Furugerðinu eldaði ég
mikið til sjálf. Þá gátu krakkarnir
komið til mín í mat, ef þau vildu,
og þá leið mér vel, segir Krist-
björg. Barnabörnin eru um 20 og
barnabarnabörnin víst orðinn um
tugur talsins. Börnin af hinum
bænum á Tjörnum hafa líka verið
mér fjarska góð, ekki síður en mín
börn. Hér fer fjarska vel um
mann. Góður matur, en ég er svo
lítið lystug orðin, að ég var áður
mikið til hætt að hafa fyrir að
borða ein. Hér er líka fótsnyrting,
hárgreiðsla og mér er hjálpað í
bað. Ég fæ endurgreiddan símann,
svo ég get talað í síma. En sé bara
ekki til að velja númerin eða finna
þau. Svo hlusta ég á útvarp og
prjóna, en sé ekki til að prjóna
nema úr einum lit. Um jólin var
mér gefin bókin hans Kristjáns
Sveinssonar og ég dríf alla, sem
koma, til að lesa í henni fyrir mig.
Jú, það væri gott að fá upplestur
úr bókum hér í dagstofunni, eins
og gert var heima í sveitinni. Það
væri vel þegið, ef einhver læsi.
— Hvort ég er trúuð? Ég veit
ekki hvað segja skal. Ég held ég
vilji kallast vera það. Finnst það
gilda að geta beðið, þegar maður á
bágt. Ég hlusta á útvarpsmessurn-
ar. Trúi því fastlega að líf sé eftir
þetta líf. Við Eyjólfur Eyfells töl-
uðum oft um það. Hann sagðist
hafa lifað a.m.k. þrisvar sinnum.
Þekkti aftur staði, sem hann hafði
aldrei komið á áður. Ég kvíði því
síður en svo að kveðja. Það geri ég
ekki. Skil ekki gamalt fólk, sem er
hrætt við að deyja. Einkennilegt!
Þetta fer nú að styttast hjá mér.
Manni fer að finnast lífið langt,
þegar maður getur ekkert gert
lengur að gagni. Og ég er alveg
sátt við að fara.
Þannig lýkur hversdagssögu
konu 20. aldarinnar, sem er að
verða fágæt merkissaga.
- E.Pá.