Morgunblaðið - 17.06.1983, Page 17

Morgunblaðið - 17.06.1983, Page 17
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 17. JÚNÍ 1983' 17 Kristján Albertsson Hvernig íslendingar eignuðust þjóðsöng eftir Kristján Albertsson Matthías Jochumsson I. Eitt síðasta verk síðasta þings var að lögvernda þjóðsöng íslendinga, lag og ljóð, banna alla mis- þyrmingu og afskræmingu á hvoru tveggja og óvirðulegan eða ósæmilegan flutning. Þetta lögbann mátti víst tæpast síðar koma, því að það er aldrei vað vita, hverju „tónmenntamenn" nútímans taka upp á. Hvers konar fíflslegur eða jafnvel skepnu- legur flutningur tónverka þykir mörgum nú á tímum ákaflega fyndinn, og heyrt hef ég tvo fræga þjóð- söngva skrumskælda af erlendum hljómsveitum í íslenskum hljómleikasölum. Það var því aldrei að vita, hvenær röðin kæmi að íslenska þjóðsöngnum að sæta slíkri meðferð. II. íslenski þjóðsöngurinn er sem kunnugt er einn fegursti og tignarlegasti þjóðsöngur sem nokkur þjóð á — og erum við Islendingar síst einir um þá skoðun. Nýlega hafa spunnist nokkrar blaðaumræð- ur um íslenska þjóðsönginn, og hef ég haft nokkurt veður af þeim. Mönnum þykir galli á gjöf Njarðar, hve erfitt sé að syngja þennan söng. En það skiptir litlu. Þjóðsöngvar eru sjaldnast sungnir opinberlega, heldur látið nægja að leika þá á hljóðfæri við opin- ber tækifæri, enda segir sig sjálft, aðjallur almenn- ingur er sjaldan fær um hópsöng svo að vel fari. Þá hefur eitthvað verið drepið á, hvers efnis færi best á að þjóðsöngurinn væri, en slíkir söngvar voru auð- vitað aldrei gerðir eftir neinum pöntunum, neinum fyrirmælum né reglum. Þeir urðu til, þegar þjóð festi ást á lagi og ljóði, og það varð af mörgum og misjöfnum ástæðum. Þessir frægu söngvar hafa því orðið mjög misjafnir að efni, allir meira og minna háðir sínum tíma, og því lengra sem frá líður því minna er hirt um hvort slík ljóð falli betur eða verr að ákveðnum kenningum, hvort heldur trúarlegum eða öðrum. Þjóðsöngur vor tengist t.d. þúsund ára afmæli íslandsbyggðar, franski þjóðsöngurinn stjórnarbyltingunni miklu. Englendingar láta sér nægja að biðja þjóðhöfðingja sínum blessunar, en eiga þá auðvitað aðallega við, að guð megi láta þjóð þeirra og ríki farnast sem best. Á bernskuárum mínum lærðum við að syngja ýmsa þjóðsöngva á íslensku, mun Steingrímur Thorsteinsson hafa þýtt flest þeirra, og er mér í minni, að sumir þeirra voru trúarljóð. Rússneski þjóðsöngurinn byrjaði: „Heyr faðir hjartans bæn, hingað á jörðu lít þínum augum í líkn og náð.“ Pólska þjóðsöngnum hef ég aldrei getað gleymt: „Guð, þú sem skýldir ættjörð vorri áður, alvaldi guð sem vilt að hún sig reisi. Lít þú í náð til lýðsins sem er hrjáður, lagður í fjötra jafnt í höll sem hreysi. Guð, heyr vort óp er hrelldir þig við biðjum, heyr vora bæn ogfrelsa oss úr viðjum." Líklegt má þykja, að þessi söngur sé enn þjóðsöng- ur Pólverja, þó að hann sé líklega aðeins sunginn á laun og ekki mjög upphátt. III. Danir eignuðust þjóðfána sinn með þeim hætti, að hann sveif á örlagastundu af himnum ofan og féll í skaut þjóðar sinnar. Mundi ekki mega segja, að lík- legt sé að margar þjóðir hafi eignast sinn þjóðsöng með ekki ósvipuðu móti? Það vill svo til að við vitum, hvernig þjóð okkar tók á móti íslenska þjóðsöngnum í fyrsta skipti sem hann var sunginn opinberlega. Amerískur rithöf- undur, sem skrifaði stutta bók um ferð sína til ís- lands árið 1874, segir svo frá: „ ... það er ekki sízt Lofsöngur Matthíasar Joch- umssonar undir lagi Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar — fyrsta innlenda tónskáldsins, að mér er sagt — sem hafði afarsterk áhrif. í hvaða átt, sem ég horfði, sá ég augu full af tárum. Endurtekning viðlagsins: íslands þúsund ár — hljómaði um alla dómkirkjuna í tónum, sem voru hátíðlegir fremur en stórlátir, og túlkuðu fullkomlega þá trúarlegu alvörugefni, sem ríkti í hug og hjarta fólksins." (Samanb. Islandsbréf 1874 eftir Bayard Taylor, útgefandi Almenna bóka- félagið.) Þessi frásögn mætti munast sem lengst, því að hún geymir minninguna um eina fegurstu stund í liðinni þjóðarævi. Og gott er til þess að vita og einna líkast miklu fyrirheiti, að lítilsmetin og fátæk þjóð skuli hafa frá öndverðu skilið og metið þá guðsgjöf, sem henni var færð á fyrstu þjóðhátíð sinnar lands- byggðar. Kristján Albertsson er í níræðisaldri. Hann er einn af helstu mcnningarfrömudum samtímans, alkunnur rithöfundur og stjórnarerindreki um langt skeid. Morðmálið á Kleppsvegi í janúar: Akærður fyrir að hafa stungið hinn látna 4 stungum í bakið af ásetningi ÁKÆRUVALDIÐ krafðist þess, að Þórður Jóhann Eyþórsson, 25 ára gamall hifreiðastjóri, yrði dæmdur til þyngstu tímamarkaðrar refsingar samkvæmt 211. grein hegningarlaganna fyrir að hafa orðið Óskari Áma Blomsterberg, til heimilis að Selásbletti lla í Reykjavík, að bana með því að stinga hann fjórum stungum í bakið, þar af hefðu þrjár gengið á hol og ein á kaf í hægra lunga og leiddi Oskar heitinn til dauða á skammri stundu. Atburður þessi átti sér stað í íbúð á 4. hæð í fjölbýlishúsi númer 42 við Klcppsveg í Reykjavík aðfaranótt 1. janúar síðastliðinn. Bragi Steinarsson, vararíkissak- sóknari, sótti málið, en verjandi ákærða er Sveinn Snorrason, hrl. Bragi krafðist og þess, að ákærði yrði dæmdur til greiðslu sakarkostn- aðar, en gæzluvarðhald ákærða frá 1. janúar kæmi til frádráttar refsi- vist. Vararíkissaksóknari reifaði málið í munnlegum málflutningi fyrir Sakadómi Reykjavíkur í gær. Klukk- an 05.25 aðfaranótt 1. janúar var kallað á lögreglu og sjúkrabifreið að Kleppsvegi 42. Um aðkomu segir í lögregluskýrslum, að mikið hefði blætt frá vitum Óskars heitins og heyrðust kokhljóð og átti hann í erf- iðleikum með andardrátt. Ekkert lífsmark hefði verið með Óskari heitnum þegar sjúkrabifreið bar að skömmu síðar og úrskurðaði læknir, sem kallaður var til, hann látinn. Ákærði var meðal fólks í íbúðinni og viðurkenndi hann að vera valdur að dauða Óskars. Ásamt honum voru sex manns, sem í íbúðinni voru, fluttir til yfirheyrslu á lögreglustöð. Rannsóknarlögreglumenn voru þegar kallaðir á vettvang. Við leit fannst blóðugur brauðhnífur í skúffu i eldhúsi. Hann mældist 29,3 sentimetrar á lengd; hnífsblaðið 14,9 sentimetrar á lengd og 1,5 senti- metrar á breidd. Talsvert blóð var við enda sófa í stofu og var slóð þvert yfir íbúðina að símakróki, þar sem Óskar heitinn lést. Þá fundust sex hnífsstungur í borðplötu í sófa- borði og auk þess þrjú stungugöt á framanverðum frakka hins látna og eitt undir ermi. Ákærði og hinn látni voru báðir ölvaðir er atburðurinn átti sér stað. Áfengismagn í blóði hins látna mældist 2,62 prómill og 2,83 prómill hjá ákærða. I máli ákæruvaldsins kom fram, að báðir voru mennirnir staddir fyrir tilviljun í íbúðinni þar sem voðaatburðurinn átti sér stað. Ákærði kom til áramótagleðskapar í íbúðina um tvöleytið um nóttina og hinn látni um eða skömmu eftir klukkan fjögur. Þeir tóku þegar að deila og nefndi ákæruvaldið tvær meginástæður, sem hugsanlega orsök fyrir deilum þeirra. Annars vegar ber ákærði, að sem næst 10 árum fyrir voðaatburðinn hafi Óskar heitinn látið 3 til 4 menn ganga í skrokk á sér við veitingahús- ið Þórscafé. Hann hafi hlotið áverka á höfði. Atburður þessi var aldrei kærður. Ósannað er að þessi atburð- ur hafi átt sér stað. Hin orsökin, sem nefnd var, er að 3 vikum fyrir voðaatburðinn hafi ákærði komið með kjöt á vinnustað Óskars. Þar hafi orðið ýfingar þeirra í milli um pappaábreiðu undir kjöt- inu. Deilur upphófust nánast strax og Óskar heitinn kom á Kleppsveginn og féll nærvera hans ákærða lítt í geð. Ákærði beri að sér hafi gramist, að Óskar heitinn taldi sig ekki þekkja hann og taldi sér lítilsvirðing sýnd. Tvö vitni bera, að í eldhúsi hafi ákærði látið þau ummæli falla, að hann ætlaði sér að drepa Óskar. Vitnin munu ekki hafa tekið þessi ummæli alvarlega, en báðu unnustu ákærða að reyna að afstýra deilum. Það næsta, sem vitni hafi séð, var þegar ákærði hafði stungið hinn látna og kastaði hnífnum í sófaborð- ið með eftirfarandi orðum: Þennan hníf snertir enginn — kallið á lögg- una. Taldi vararíkissaksóknari full- komnar sönnur færðar á, að ákærði hefði vegið að yfirlögðu ráði. Ekki síst þegar sú staðreynd blasti við, að ákærði hefði sótt hnífinn í eldhús og falið í klæðum sér eða skóm í því skyni að nota í átökum við hinn látna. Sú skýring ákærða, að hann hafi ætlaö að berja hinn látna með hnífsskaftinu sé ekki sannfærandi. „Sú staðreynd, að ákærði sótti hnífinn fram í eldhús og faldi svo enginn varð hans var, bendir ótví- rætt til ætlan ákærða," sagði Bragi Steinarsson og bætti við: „Af þessu getum við aðeins dregið þá ályktun, að ákærði hafi vegið Óskar heitinn að yfirlögðu ráði með því að stinga hann með eldhúshnífi fjórum stung- um, sem leiddu til dauða á skammri stundu. Ásetningur myndaðist þegar ákærði tók hnífinn með leynd úr eld- húsi og faldi innan klæða eða i skóm. Þetta sýnir ásetning ákærða, enda hafði hann áður sagst ætla að drepa Óskar heitinn," sagði Bragi. Hann taldi að refsivist bæri að ákvarða 16 ár og nefndi fjóra dóma máli sínu til stuðnings. Verknaður- inn hefði verið gjörsamlega tilefnis- laus, framinn af ásetningi og átt sér nokkurn aðdraganda. Hann taldi engar refsilækkunarástæður koma til greina. Sveinn Snorrason, hrl., skipaður verjandi ákærða gerði þær dómkröf- ur að skjólstæðingur sinn yrði dæmdur samkvæmt 215. grein hegn- ingarlaganna í stað 211. greinarinn- ar; að atburðirnir þessa örlagaríku nótt yrðu virtir sem gáleysisbrot. Til vara krafðist hann þess, að skjól- stæðingur sinn yrði dæmdur til lægstu refsingar er lög leyfðu og að 4. til 9. töluliðir 74. greinar hegn- ingarlaganna og 75. grein um refsi- lækkun yrðu teknar til greina við ákvörðun refsingar. Þá fór hann fram á að gæzluvarðhaldsvist ákærða yrði dregin frá refsivist. Hann sagði að í hnotskurn væru voðaatburðirnir röð ófyrirsjáanlegra óhappa. Þeir hefðu hist að tilviljun í veislunni. Skjólstæðingur sinn hefði verið þreyttur og ölvaður eftir að hafa neytt áfengis sleitulaust í um sólarhring. Þeir hefðu deilt. Skjól- stæðingi sínum hefði þótt lítilmann- legt að Óskar heitinn hefði ekkert viljað við sig kannast. Viðstöddum hefði þótt þetta pex, enda báðir ölv- aðir. Hann vildi leggja áherzlu á eitt atriði, og harmaði, að það hefði ekki komið fram á fyrri stigum rann- sóknarinnar, en það var, að í skýrslu geðlæknis vegna geðrannsóknar, sem fram fór á ákærða, hefði komið fram að ákærði hefði talið sig sjá Óskar standa upp með flösku að vopni og hefði hann álitið Óskar heitinn ætla að berja sig. Ákærði hefði staðið upp og þeir tekist fangbrögðum og hefði ákærði ætlað að slá hinn látna með hnífsskaftinu til þess að losa sig. Hann hefði ekki áttað sig á, að hnífsoddurinn snéri öfugt við það sem hann ætlaði. Hann mótmælti því, að ákærði hefði flutt hnífinn í stofuna til að beita honum til þeirra verka sem þar urðu. Dómari í málinu er Birgir Þormar, sakadómari. Frá málflutningi við Sakadóm Reykjavíkur í gær, Bragi Steinarsson, Birgir Þormar, dómari, þá réttarritari og til hægri Sveinn Snorrason, hrl. Mynd Mbi. rax H. Halls.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.