Morgunblaðið - 08.01.1986, Blaðsíða 2
2 B
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 8. JANÚAR1986
Sigurður Pálsson, formaður Rithöfundasambands íslands:
Fombókmenntir
okkar em kraftaverk
Hæstvirtur menntamálaráð-
herra, ráðstefnustjóri, ágætu ráð-
stefnugestir!
Sögnin að yrkja er skemmtileg.
Annars vegar yrkja menn ljóð og
hins vegar yrkja þeir jörðina.
Orðið málrækt sem er umhugsun-
arefnið hér í dag sameinar þetta
tvennt, tungumálið, íslenska tungu
og íslenska jörð. Okkur er ætlað
að vera tengiliður milli lands og
tungu og mynda hina sönnu þrí-
eind; land, þjóð og tunga. Enn-
fremur er okkur íslendingum ætl-
að að vera tengiliður milli þess sem
var og þess sem verður, milli hins
glæsta menningararfs genginna
kynslóða og afkomenda okkar; sjá
um að halda gömlu túnunum í
rækt og ráðast jafnframt í nýrækt.
Það er staðreynd sem mér finnst
ekki vera bláköld heldur miklu
fremur tengd hlýju, við getum sagt
funheit staðreynd, að íslensk
menning er einhver sérstæðasta
og heilsteyptasta menningararf-
leifð álfunnar. Fornbókmenntir
okkar eru kraftaverk. Við sem
þetta mál tölum og lesum höfum
aðgang að tungumáli sem er ennþá
upprunalega ljóst og lifandi. Þetta
eru forréttindi. Aðrar þjóðir leita
í sín upprunamál, t.d. við nýyrða-
smíð, latínu, grísku o.s.frv. Við
tölum þetta upprunalega mál. Það
er ekkert meiri áreynsla að lesa
það sem skrifað var fyrir 700 árum
en blaðið sem dettur inn um lúg-
una á morgnana. Þetta eru forrétt-
indi og okkur er lögð skylda á
herðar gagnvart okkur sjálfum og
heiminum öllum í raun. Þetta er
ekki þjóðremba, þetta er stað-
reynd. Funheit staðreynd. Sterk
þjóðernisvitund er litlum þjóðum
lífsnauðsyn, þó hún geti orðið stór-
um þjóðum hættuleg.
Eitt er víst að einum helsta rit-
höfundi aldarinnar myndi ekki
finnast ég hafa kveðið fast að orði.
Hann hefur sjálfur borið miklu
meira lof á íslenskan menningar-
arf. Þeta er Jorge Luís Borges.
íslandsvinurinn aldni í Buenos
Aires. Einhvern tíma las ég eftir
honum haft að hann sjái þann
höfuðkost við það að deyja að þá
komist hann í beint samband við
Snorra Sturluson og geti fengið
hjá honum góða tilsögn í íslensku.
Fáir hafa tjáð íslensku máli eins
fölskvalausaást á þessari öld eins
og þessi argentínski skáldjöfur.
Og það er tekið eftir orðum hans
enda þótt sænska akademían taki
ekki eftir honum, en það er önnur
saga.
Framundan eru sviptingatímar.
Franski auglýsinga- og fjölmiðla-
sérfræðingurinn, Jacques Séguéla,
hefur lýst því svo að nú sé skeið
neysluþjóðfélagsins á enda runnið
og tímabil samskiptaþjóðfélags,
fjölmiðlunarþjóðfélags sé hafið.
Nú þegasr nægir að fara út á
svalir heima hjá sér og setja upp
skerm sem er svona faðmur í
þvermál og kostar skilst mér ekki
nema fimm eða sex mánaðarlaun
grunnskólakennara og sjá: send-
ingar tíu-tuttugu sjónvarpsstöðva
eru komnar á skjáinn. Bráðum
verða skermarnir lófastórir og
kosta kannski ekki meira en tveir,
þrír ópalpakkar. Hvað er til ráða?
Fyrrnefndur Séguéla talar um
að ekki taki nema eina kynslóð eða
svona þrjátíu ár, fyrir eitt þjóð-
félag að glata og gleyma rótum
sínum og hefur áhyggjur af
frönsku samfélagi.
En hvað með okkur?
Ljóst er að einangrunarstefna
er hættulegasti kosturinn. í fyrsta
lagi vegna þess að hún býður upp
á hreyfingarleysi og neikvæða
kyrrstöðu. Blómaskeið íslenskrar
menningar eins og raun allrar
menningar eru þau tímabil þar
sem samskipti eru mikil, í öðru
lagi vegna þess að einangrun er
óframkvæmanleg samanber sög-
una af manninum með skerminn
ásvölunum.
Sókn er eina vörnin. Það er sér-
stakt ánægjuefni að ráðherra
menntamála hafi frumkvæði að
málþingi eins og þessu. Á vonleys-
is- og krepputímum er arðbærasta
fjárfestingin í hugviti og sköpun,
í hugarorkulindum. Kreppan er
aðallega í höfðinu á okkur. Hugvit,
sköpun og framtak geta bjargað
okkur. Eg geri greinarmun á ein-
staklingsframtaki og einkafram-
taki. Hið fyrrgreinda þarf ekki að
vera hið síðarnefnda. Listsköpun
er dæmigert einstaklingsframtak
og ekkert getur bjargað okkur
nema við sjálf. Menning okkar er
kjarni okkar þjóðarvitundar eða
þjóðarímyndar.
Ég er viss um það, að íslenskir
rithöfundar og íslenskir listamenn
yfirleitt eru þess albúnir að vinna
að málefni því sem hér er til
umræðu. Það kom skýrt fram í
gær, á aðalfundi og ráðstefnu
Bandalags íslenskra listamanna.
Mér var falið að koma ályktun
þeirrar ráðstefnu til skila hér í dag
og leyföi mér að afhenda fundar-
stjórahana.
Varðveisla og efling tungunnar
er yfirskrift þessarar ráðstefnu. í
rauninni hafa rithöfundar og þýð-
endur málrækt að atvinnu. Það er
þjóðarhagur að búa þeim viðun-
andi skilyrði. Það verður að eyða
þeim blekkingum að rithöfundar
og listamenn séu ómagar og styrk-
þegar. Ég ætla í lokin að nefna
tvær tölur til umhugsunar. Ríkis-
sjóður fær á þessu ári lauslega
áætlað um 150 milljónir í söluskatt
af bókum. 300 milljónum er varið
til menningarmála (í raun 200 skv.
þrengri skilgreiningu). Það er tals-
vert innan við einn af hundraði
útgjalda ríkissjóðs. Hér er því verk
að vinna.
Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ:
Stofnanamál hefur lengi verið
venjulegu fólki torskilið
og leitt til þess að það brestur kjark til að leita réttar síns
Góðir samherjar.
Ég vil byrja á því að þakka ráð-
herra það skemmtilega tiltæki að
gefa áhugafólki um íslenska tungu
þetta tækifæri til að lofsyngja
móðurmálið. Hér munu margir fá
útrás fyrir innibyrgða reiði og trú-
lega tekist að vekja athygli og ýta
þannig undir almenna umræðu.
Ef marka má þætti útvarpsins
u'm íslenskt mál og reglubundin
tilskrif í blöðum á íslensk tunga í
vök að verjast. Erlend áhrif sækja
á og börnin bæði tala og skrifa
verr en áður. Svona hefur ástandið
víst verið lengi, stöðug afturför,
lengur en elstu menn muna. Eldri
kynslóðin hefur haft lengri tíma
en unga fólkið til þess að læra orð
og orðatiltæki og æfa sig í skrift-
um og mælskulist og er íhaldssöm
á þær hefðir sem hún hefur mótað.
Henni hefur því líklega alltaf þótt
unga kynslóðin sýna málinu litla
ræktarsemi.
Öll tungumál eru í stöðugri
ummyndun. íslenskt mál er engin
undantekning. Jafnt félagslegar
sem tæknilegar breytingar gera
nýjar kröfur til málsins og sköpun-
argáfa mannsins leitar sífellt að
nýjum orðfléttum og nýrri fram-
setningu. Við lifum á tímum örra
breytinga. Ný tækni, nýir hlutir,
ný samskiptaform og ný viðhorf
endurspeglast í orðfari og meðferð
málsins. I íslensku eins og öðrum
málum togast á viðleitni til að laga
sig að breyttum aðstæðum og
nauðsyn þess að halda í það sem
var, tengja kynslóðirnar saman og
sjá til þess að dýrmætur bók-
menntaarfur glatist ekki. Okkur
íslendingum hefur tekist betur en
flestum þjóöum að halda tengslum
við fortíðina, líklega fyrst og
fremst vegna þess að við höfum
leitað fanga í málinu sjálfu til að
gefa nýjum hlutum og hugtökum
nöfn. Við höfum þannig nýtt okkur
eigin arf til að sækja fram.
Við Islendingar erum fámenn
þjóð og það er því óhjákvæmilegt
að erlendra áhrifa gæti meira en
í flestum öðrum löndum. Ekki
aðeins kvikmyndir og sjónvarps-
efni heldur einnig bækur og tíma-
rit á erlendum málum, einkum
ensku, eru snar þáttur í okkar
daglega lífi. Það er því ljóst að við
þurfum fremur en flestir að vera
á verði gegn erlendum áhrifum ef
ekki á illa að fara.
Efnaleg misskiptin er ekki nýtt
fyrirbæri. Stéttaskipting hefur
lengi viðgengist á íslandi en á því
er varla vafi að efnaleg og mennt-
unarleg stéttaskipting setur æ
skýrara mark á lífshætti og menn-
ingarneyslu og hvað þá um tung-
una sem við höfum hingað til talið
sameiginlega öllum í landinu.
Stofnanamál embættis- og
stjórnmálamanna hefur lengi ver-
ið venjulegu fólki torskilið, gert
það ruglað í ríminu og leitt til
þess að það brestur kjark til að
leita réttar síns. Verulegra úrbóta
er þörf í þessu efni.
I nútímaþjóðfélagi eru sam-
skipti barna við fullorðið fólk
minni en áður. Það vantar án efa
mikið á að skólinn hafi axlað þá
ábyrgð á málþroska barnanna sem
foreldrarnir hafa varpað frá sér.
Báðir aðilar verða að taka sig á.
Foreldrar að sinna börnunum
betur og það verður að efla móður-
málskennslu grunnskólans. Þá er
einnig rétt að minna á að það njóta
ekki allir lengra náms, íslenskan
verður því að vera viðráðanleg
innan grunnskólans. Afnám set-
unnar sem var allsendis óþarfur
stafur og einfaldur stærðfræði-
leikur fyrir lengra komna var spor
í rétta átt. Ég er þeirrar skoðunar
að næsta spor eigi að vera afnám
ufsilonsins sem auðvitað er bæði
fallegt í skrift og oft lýsandi um
uppruna orða, en skiptir engu í
framburði og hefur ekkert það
gildi að ástæða sé að láta stafinn
taka tíma frá nytsömu námi.
Það skiptir miklu að allt efni
sem almenningi berst sé á skiljan-
legu og góðu máli, hvort sem um
er að ræða frumsaminn texta eða
þýddan, skrifað eða talað mál.
Rithöfundar, blaðamenn, þýðend-
ur og þeir sem koma fram I fjöl-
miðlum bera ábyrgð á verndun
málsins og þeim ber skylda til að
vanda það sem þeir láta frá sér
fara jafnvel þó oft sé unnið viö
tímaskort og mikið álag. Málið
verður aöeins verndað með vand-
aðri málnotkun, ekki ofstækis-
fullri málhreinsun. Stöku erlend
orð eða málvillur eru málinu á
engan hátt hættuleg. Það skiptir
ekki öllu máli hvort ráðherra réttir
okkur sáttahönd eða hendi. Efnið
skiptir meiru.
Góðir samherjar. Mínar þrjár
mínútur eru þrotnar og ég lýk máli
mínu og þakka áheyrnina um leið
og ég lýsi trausti mínu á aðlögun-
arhæfni íslenskrar tungu og áhuga
komandi kynslóða á að endurnýja
og viðhalda málinu.