Morgunblaðið - 08.01.1986, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 08.01.1986, Blaðsíða 8
8 B MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 8. JANtJAR 1986 Baldur Jónsson, formaður íslenskrar málnefndar: Hagur þjóðarinnar og hagur íslenskrar tungu fara saman Menntamálaráðherra! Háttvirtu áheyrendur! Ég vil hefja mál mitt á því að þakka menntamálaráðherra, Sverri Hermannssyni, fyrir að efna til þessa mannfundar. Oft hefi ég hugsað um það áður og varpa því nú fram til íhugunar, hvort ekki væri rétt að helga 1. desember framvegis því málefni, sem nú er á dagskrá, varðveislu og eflingu íslenskrar tungu, m.ö.o. íslenskri málrækt. Það spillir ekki, að fullveldisdagurinn, 1. desember, er jafnframt fæðingardagur Egg- erts Ólafssonar skálds, sem ávallt verður talinn einn af þjóðhollustu nytjamönnum þessa lands. Hagur þjóðarinnar og hagur íslenskrar tungu fara saman. Því er vel til fundið að ræða málefni tungunnar, um leið og fullveldisins er minnst. Án eigin tungu hefðum við aldrei orðið fullvalda þjóð aftur og ekki einu sinni reynt að verða það. Engar líkur eru til þess, að íbúar þessa lands — svo fáir sem þeir eru — gætu til lengdar verið sjálfstæð þjóð án sérstakrar þjóð- tungu. Ef við glötum henni og tökum upp annarra mál glötum við brátt sjálfsforræði okkar líka. Og ef við glötum því missum við m.a. af óteljandi tækifærum, sem við höfum nú til þess að hafa áhrif um alla heimsbyggðina. Þótt fáir séum, er okkur gert býsna hátt undir höfði í samskiptum manna. Það eigum við umfram allt ís- lenskri tungu að þakka. Við njót- um ýmissa mikilsverðra réttinda, vegna þess að við eigum þetta mál, sem gerir okkur að sérstakri þjóð. Blindur má sá maður vera, sem heldur, að umræða um varðveislu og eflingu íslenskrar tungu sé sprottin af tómri tilfinningasemi. Við erum að vísu að tala um til- finningamál, en ekki síður blákalt hagsmunamál. Islendingar búa um margt við óvenjulegar aðstæður. Okkur er hollt að reyna að átta okkur á því, hverjar þær eru, hver er styrk- leiki okkar og veikleiki. Hyggjum snöggvast að fáeinum þeirra at- riða, sem tengjast íslenskunni. Svo vill til, að íslenskan er ekki aðeins þjóðtunga, sem við erum einir um, heldur er hún eina tungan, sem íslenska þjóðin talar, og eina opinbera málið, sem talað er á íslandi. Þótt ótrúlegt kunni að virðast, er svo fágætt að saman fari eitt land, ein þjóð og ein tunga, að slíks eru engin önnur dæmi í allri Evrópu að minnsta kosti, ef treysta má grein, sem ég las nýlega í tímariti Norska málráðsins. 1 öðrum Evrópuríkjum eru töluð tvö eða fleiri jafngild mál eða þá eitt aðalmál og a.m.k. eitt minnihluta- mál. Eina örugga undantekningin utan íslands er sögð vera Portúgal. Þar er portúgalska einráð. En þá er þess að gæta, að portúgalska er töluð víðar. Hún er t.d. aðal- tunga Brasilíumanna, sem eru miklu fjölmennari en Portúgalar sjálfir. Það má vekja athygli á því, þótt það hafi oft verið gert áður, að Islendingar eru læsir á bækur sínar lengra aftur í tímann en nokkur önnur þjóð, sem mér er kunnugt um. Sá, sem kann ís- lensku, hefir í hendi sér lykil að öllum ritverkum, sem fyrri kyn- slóðir hafa eftir sig látið, síðan mannabyggð hófst á Islandi. Við erum líka einkennilega sett- ir að því leyti, að við erum dvergsmá þjóð, en geymum bók- menntaarf, sem er svo mikill að vöxtum, sérstæður og ágætur, að hvaða stórþjóð sem er væri stolt af. Að vissu leyti er íslensk tunga einstætt fornminja- og þjóðminja- safn. Enginn siðmenntaður maður gerir sér leik að því að granda slíkum verðmætum. En málið er miklu meira en minjar. Það er jafnframt þarfasta og m.a.s. há- þróaðasta tæki, sem við eigum. Til þess að svo megi áfram verða, þurfum við sífellt að halda því við, en endurbæta það og auðga að orðum, orðasamböndum og orða- lagi, sem samrýmist öllu eðli þess ogeinkennum. Efling íslenskunnar er líka fólg- in í því að kenna hana og kynna. Umfram allt verðum við að fræða þá, sem eiga að erfa landið. Til þess beitum við meðal annars skól- um og fjölmiðlum. En við eigum líka að kynna öðrum þjóðum okkar mál, fræða þær um það og kenna þeim. Um allar jarðir kappkosta þjóðir heims, stórar og smáar, að efla tungu sína, bæði með framtaki einstaklinga og aðgerðum stjórn- valda. Einn þáttur þessarar við- leitni er að finna hverri tungu orð, til aö unnt sé að tala og skrifa um fræðileg efni og tækninýjungar, sem nú bylja á mannfólkinu í stríð- um straumum. Áhugi á þessum málum hefir líka verið að glæðast hér á landi síðustu árin — eftir nokkurt vanræksluskeið. Hann birtist m.a. í því, að félög og stofn- anir koma á fót orða- eða málfars- nefndum, sem safna orðum hver á sínu sérsviði, þýða hugtakaheiti, mynda ný orð og gefa út orðasöfn. Stundum eru einstaklingar að verki á eigin spýtur. Á vegum stjórnvalda starfar ís- lensk málnefnd síðan 1964. Hún heyrir beint undir menntamála- ráðherra og hefir víðtækt hlut- yerk. Henni er m.a. ætlað að vera stjórnvöldum og almenningi til ráðuneytis í málfarslegum efnum, gefa út stafsetningarorðabók og vera miðstöð nýyrðastarfseminnar í landinu. Málnefndin ætti að geta verið máttugt tæki til eflingar íslenskri tungu, ef henni væri rétt beitt, en lengi vel var henni lítill gaumur gefinn. Á allra síðustu árum hefir orðið breyting á, jafn- framt því sem orðanefndum áhugamanna hefir fjölgað. í árslok 1979 voru þær 6 eða 7. Nú eru þær að verða tuttugu. Málnefndin hefir ekki átt beint frumkvæði að stofnun orðanefnda. Það hefir komið frá nefndarfólk- inu sjálfu eða félögum þess. En málnefndin hefir stuðlað að þess- ari þróun með því að leiða áhuga- menn saman, leiðbeina þeim um vinnubrögð, útvega ráðgjafa, að- stoða við undirbúning orðasafna, útgáfu þeirra o.fl. Þannig hefir á fáum árum tekist að virkja fjölda fólks til málræktarstarfa, fá það til að beina huganum að íslenskri tungu og eflingu hennar. Þannig verður að halda áfram að nýta þá miklu þekkingu, sem fólkið býr yfir, áhuga þess, hugvitssemi og listfengi. Vorið 1984 voru sett á Alþingi lög um íslenska málnefnd. Sam- kvæmt þeim hefir verið komið á fót sérstakri stofnun, íslenskri málstöð, sem málnefndin rekur í samvinnu við Háskóla íslands. Málnefndarlögin öðluðust gildi 1. janúar 1985, og málstöðin tók þá formlega til starfa. Þar er nú þegar unnið að mörg- um verkefnum, bæði stórum og smáum, þ. á m. fjórum sérfræði- legum orðasöfnum í samvinnu við orðanefndir, og unnið er að undir- búningi stafsetningarorðabókar. Vonast er til, að tvö þessara orða- safna geti komið út á næsta ári. Þótt málstöðin sé nú aðeins 11 mánaða, hefir reynslan sýnt, að þörfin fyrir hana er ótvíræð og virðist vaxa með meiri hraða en búist var við. Aldrei verð ég annars var en aðrir beri til hennar góðan hug og telji hana eiga rétt á sér. Mér kemur því á óvart, að hin opinbera fjárveiting, sem fyrir- huguð er til stöðvarinnar í frum- varpi til fjárlaga fyrir árið 1986, er lægri að verðgildi en heildar- fjárveitingin fyrir þetta ár. Ég trúi ekki öðru en hér sé um að ræða mistök, sem leiðrétt verða við afgreiðslu fjárlaga. Ef svo er ekki, verður að leita annarra leiða til að afla fjár handa þessari opin- beru málstöð. Um áhuga alls þorra landsmanna efast ég ekki andar- tak. í útvarpsþætti i fyrravetur skaut ég því fram, að ég sæi ekki betur en stofna þyrfti sérstakan málræktarsjóð. Nú ítreka ég þá hugmynd, en skal ekki hafa. um hana fleiri orð að sinni. Eflaust er flestum ábyrgum mönnum ljóst. í meginatriðum, hver eru viðfangsefni íslenskrar málræktar. En ég get ekki varist þeirri tilfinningu, að fáir átti sig á því, hve stór í sniðum og tímafrek þessi viðfangsefni eru. En því mega menn trúa, að þau eru mörg og stór og brýn. Alyktanir, samþykktar á ráðstefnu um varðveislu og eflingu íslenskrar tungu 1. Ráðstefna um varðveislu og eflingu tungunnar, haldin að til- hlutan Sverris Hermannssonar, menntamálaráðherra í Þjóðleik- húsinu 1. desember 1985 ályktar: Vegna þeirrar áhættu fyrir tunguna sem fylgir því að taka ný tæki í notkun á vinnustöðum og vegna þeirrar málblöndunar, sem þegar hefur átt sér stað, beinir ráðstefnan þeim tilmælum til forystumanna vinnumarkað- arins, einstakra vinnusvæða og almennt til starfandi fólks, að það beiti sér fyrir kosningu mál- nefnda hvert á sínu sviði, sem freisti þess að finna íslensk orð yfir tæki og verkheiti, sem eru ný af nálinni eða koma til sögu í framtíðinni og sjái til þess að hin nýju orð verði öllum kunn. Jafnframt þakkar ráðstefnan þeim, sem þegar hafa komið upp málnefndum á sínum vettvangi eða hafa þær í undirbúningi. 2. Ráðstefna um varðveislu og eflingu tungunnar, haldinn að tilhlutan Sverris Hermannsson- ar, menntamálaráðherra, í Þjóð- leikhúsinu 1. desember 1985 ályktar: Um leið og ráðstefnan vekur athygli á því, að íslensk tunga virðist á undanhaldi, einkum í töluðu máli, telur hún nauðsyn- legt að hefja kennslu í upplestri á efri skólastigum og meðferð tungunnar í mæltu máli. Með skýrum og fallegum framburði tungunnar næst fram sú undir- staða, sem gæti snúið okkur frá því undanhaldi, sem almælt er að nú ríki. Mjög mikilvægt er að gera kennarastörf eftirsóknar- verð og lífvænleg á nýjan leik. 3. Ráðstefna um varðveislu og eflingu tungunnar, haldin að til- hlutan Sverris Hermannssonar, menntamálaráðherra, í Þjóðleik- húsinu 1. desember 1985 ályktar: Vegna stóraukinnar sóknar erlendra áhrifa við gjörbyltingu í fjölmiðlum ber að bregðast við nýjum vanda með laga- eða reglugerðarsetningu um vernd tungunnar. Er þá einkum vísað til sendinga á sjónvarpsefni um gervihnetti. Nauðsynlegt er að setja í fjarskipta- eða útvarpslög grein, þar sem kveðið er á um rétt tungunnar með þeim hætti að skylt verði að þýða á íslensku allan texta, utan sönglaga, sem dreift er með sjónvarpsmyndum á almennan vettvang. Með því móti yrði þýðingarskylda á er- lendu ef ni ótvíræð.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.