Morgunblaðið - 05.07.1989, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 05.07.1989, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5’ JULI 1989 27 Mest er um vert að vera sinn eigin herra - segir Emil Magnússon sem er hættur verslunarrekstri í Grundarfirði eftir 36 ár Grundarfirði. „MEST er ura vert að vera sinn eiginn húsbóndi," segir Emil Magn- ússon sera rekið hefur verslun á Grundaríírði í 36 ár. „Það gefur baráttunni tilgang því ekki er hægt að eiga og reka verslun án þess að leggja sig allan fram. Það eru fáar stéttir sem eiga jafhlang- an og samfelldan vinnudag og kaupmenn." Svo farast Emil orð eft- ir að hafa rekið verslun á landsbyggðinni í tæp 40 ár, fyrst á Þórs- höfn í 3 ár en síðan á Grundarfirði. En nú er Emil búinn að selja Grund. Sjón hans hefiir hrakað mjög og bati ekki fyrirsjáanlegur. Auk þess er hann hættur að vera fréttaritari Morgunblaðsins af sömu ástæðu eftir að hafa starfað fyrir Morgunblaðið í rúm 40 ár. Dreymdi um að verða skipstjóri Ágústa Árnadóttir og Emil Magnússon. Emil er Reyðfirðingur að ætt og uppruna og kona hans, Ágústa Árnadóttir, er Vestmanneyingur. Hvað varð til þess að þau hjón lögðu fyrir sig verslunarrekstur, fyrst á Þórshöfn, en síðan um langt árabil á Grundarfirði? „Sem ungur drengur 16—18 ára átti ég mér draum um að verða skipstjóri. Mér eru minnisstæð áhrif kvæðis Egils Skalla-Gríms- sonar á mig: Það mælti mín móðir að mér skyldi kaupa fley og fagrar árar . . . Ég uppgötvaði hins vegar þegar ég fór til sjós að heilsan var ekki sterk og að þessi draumur gæti ekki ræst. Á þessum árum dó móð- ir mín sem hafði í för með sér ákveðið rót. Góður fjölskylduvinur bauðst til að létta undir með mér ef ég færi í verslunarskóla og það varð úr að ég fór suður til náms. Á fyrsta árinu fékk ég berkla og missti um mánuð úr náminu meðan ég dvaldi á Landspítalanum. Þenn- an fyrsta vetur var ég í fríu fæði fyrir atbeina áðumefnds vinar en næsta sumar var ekki um annað að gera en vinna fyrir áframhald- andi námi. Ég fór til Vestmanna- eyja á sjóinn en leiðir okkar Ágústu höfðu þá þegar legið saman þegar hún kom sem kaupakona austur á Vopnafjörð, segja má að síðan hafi leiðir okkar legið saman í um hálfa öld. Þetta sumar og næstu tvö var ég á dragnótabáti frá Vestmanna- eyjum, líklega er hvergi betra að vera sjómaður en í Vestmannaeyj- um. Næsta vetur las ég svo saman annan og þriðja bekk og að prófi loknu fékk ég skrifstofustarf í Eyjum og gegndi því í þijú ár. Aldrei líkaði mér eins vel og meðan ég var á sjónum. Þá varð það að kaupfélagið á Þórshöfn auglýsti eftir bókara. Það fór strax svo vel á með okkur kaup- félagsstjóranum að hann lofaði að byggja íbúðarhús fyrir okkur ef við vildum koma norður. Orð hans stóðu og í fjögur ár var ég bókari kaupfélagsins á Þórshöfn. Þegar svo skipti urðu á kaupfélagsstjóra stofnaði ég verslun Emils Magnús- sonar á Þórshöfn í gömlum verslun- arhúsum frá síðustu öld én þau voru í eigu ríkissjóðs. En þetta voru harðindaár, heyfengur léleg- ur, engin vetrarvertíð og veturinn því steindauður. Frá Þórshöfh í Grundarfjörð En gæfan var okkur hliðholl. Sigurður Ágústsson kaupmaður í Stykkishólmi og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins auglýsti eftir manni til að veita forstöðu verslun- arútibúi sínu á Grundarfirði. Auk verslunarrekstursins fylgdi starf- inu umsjón nokkurra báta sem Sig- urður átti og gerði út frá Grundar- firði. Ný og góð verslunarhús voru á staðnum og talað um að þau væru hin bestu frá Akranesi til Isafjarðar. Um þetta starf sóttu átján eða tuttugu manns og fannst mér mikið happ að fá starfið auk þess sem ég tel það eitt mesta lán lífsins að hafa fengið að kynnast Sigurði Ágústssyni svo eftirminni- legur maður sem hann var, ekki síst sem manneskja. Því dekkra sem ástandið var hjá fyrirtækinu og því sem á mann reyndi þeim mun meiri stuðningur var af að tala við Sigurð sem ávallt sá ljósu hliðamar og gerði grín að hlutun- um. Sem starfsmaður alþingismanns fór ekki hjá því að maður yrði nokk- urs konar persónugervingur flokks- ins. Til mín var leitað og þannig kynntist ég mörgu góðu fólki. En mest og best kynntist ég sjómönn- unum. Það voru mikil viðbrigði að koma hingað frá Þórshöfn. Ibúar á Grundarfirði voru þá um 450 en um 300 á Þócshöfn. Aðalvertíðin hérna var frá ára- mótum til maíloka og henni fylgdi mikil vinna. Á þessum tíma var ekki kirkja á Grundarfirðí og sat presturinn á Setbergi. Hér var heldur ekki læknir, reyndar ekki fyrr en 1986 að Grundfirðingar fengu lækni með fasta búsetu. Okkur fannst erfltt að kyngja læknaleysinu en á Þórshöfn sat héraðslæknir. Rafmagn fengum við frá dieselstöð frystihússins sem slökkt var á um miðnætti og því var rafmagnslaust á nóttinni. Kennt var í samkomuhúsinu og þar var líka stundum messað. Grund keypt Árið 1954 stofnuðu nokkrir menn auk mín Verslunarfélagið Grund. Það voru þeir Guðmundur Runólfsson, Björn Ásgeirsson og Soffanís Cesilsson. Verslunarfélag- ið keypti verslunina og verslunar- húsið Nesveg 5 af Sigurði Ágústs- syni en þetta samstarf stóð aðeins í nokkur ár. Soffanías keypti þann hluta sem tilheyrði fiskverkuninni. Sú varð þróunin að Guðmundur Runólfsson varð æ mikilvægari í atvinnulífinu og fyrstur manna til að færa hingað heim skuttogara. Við hann og hans fyrirtæki og fjöl- skyldu hef ég alla tíð haft mikil og góð samskipti. Við hjónin tókum nú ein við rekstri Grundar ásamt börnum okkar sem alls urðu fimm og hafa starfskraftar þeirra verið ómetan- legir. Á fyrstu árum Grundar voru samgöngur slæmar. Landflutning- ar yfir vetrarmánuðina nánast eng- ir' Vörur komu sjóleiðina með Baldri eða Ríkisskipum og skemmdust oft í uppskipun vegna veðurgangs. Mjólkurstöð var í bæn- um sem seldi mjólk og skyr en við vorum sláturleyfishafar og tókum okkur saman um stofnun slátur- húss í Stykkishólmi ásamt verslun- inni Hólmkjöri og Kaupfélagi Grundarfjarðar sem stofnað var nokkru á eftir Grund. Áður hafði verið hér útibú frá kaupfélaginu í Stykkishólmi. Nú síðustu tvö árin hefur verslunin Grund rekið slátur- húsið ásamt Hólmkjöri. Batnandi samgöngur urðu til þess að ferðamannastraumur jókst í gegnum bæinn, ekki síst eftir að vegurinn kom fyrir Búlandshöfða. Sá vegur liggur gegnum bæinn miðjan en verslunarhús Grundar á Nesvegi 5 var niðri við höfnina. Bærinn sjálfur var líka smám sam- an að teygja sig upp frá höfninni og út með sjónum. Við réðumst því í að byggja nýtt verslunarhúsnæði við Grundargötu bæði til að ná betur að þjóna bæjarbúum og líka til að ná ferðamönnum sem leið eiga gegnum bæinn. Grund flutti í þetta nýja húsnæði 1970.“ 40 ár fyrir Morgunblaðið — Þú hefur um langt árabil starfað fyrir Morgunblaðið. Og ver- ið virkur stuðningsmaður Sjálf- stæðisflokksins. Hafa landsmálin breyst mikið um þína daga? „Reyðarfjörður er í S-Múlasýslu sem er einlitt framsóknarumdæmi, stundum sá maður ekki önnur blöð en blöð Framsóknarflokksins svo árum skipti. Mér fannst að það hlyti að vera til annað og betra. Svo reyndist líka vera og strax á Þórshöfn varð ég umboðsmaður og fréttaritari Morgunblaðsins. Þetta tók ég að mér fyrir tilstilli Valtýs Stefánssonar sem þá var ritstjóri blaðsins. Valtýr er einn af minnis- stæðustu mönnum sem ég hef kynnst um dagana. Þegar við svo fluttumst til Grundarfjarðar hélt ég þessu starfi áfram þar sem eng- inn var fyrir og þá aftur fyrir at- beina Valtýs. Samskipti mín og Morgunblaðsins eru því bæði löng og góð. Stjórnmál voru skemmtilegri fyrir 1959 en þau eru nú. Ungir menn voru miklu pólitískari þá og tengsl trúnaðarmanna flokksins um landið og forystumanna hans eru minni og lausari en þá var. í einmenningskjördæmunum voru frambjóðendur í meiri tengslum við fólkið, þeir ferðuðust mikið um sín kjördæmi og hittu menn að máli þrátt fyrir erfiðar samgöngur. Maður lagði mikið á sig til að kom- ast á landsfund Sjálfstæðisflokks- ins og eitt sinn er óvenjumikill snjór var þá þurftum við að fá litla trillu úr Stykkishólmi til að koma út á Eyrarodda í Kolgrafarfirði til þess að flytja okkur í Stykkishólm. Það- an var svo farið suður með há- fyallabíl sem Sigurður Ágústsson þingmaður hafði yfir að ráða. Það var mér mikil ánægja að Árni sonur minn hafði strax sem unglingur mikinn og virkan áhuga á stjórnmálum enda ungur þegar hann fór að ferðast með mér um héraðið á hina ýmsu pólitísku fundi. Á þessum árum voru margir minn- isstæðir menn frammámenn flokk- anna. Sá ungur maður sem bar gæfu til að kynnast Gunnari Thoroddsen á hátindi ferils hans sem stjóm- málamanns hlaut að hrífast af hon- um, svo óvenjugáfaður og fjöl- hæfur stjórnmálamaður sem hann var og ekki síður vegna einstakra persónutöfra sem hann hafði til að bera. Sem frambjóðandi Alþýðu- bandalagsins er Guðmundur J. Guðmundsson hugstæður. Á fram- boðsfundum rifumst við eins og hundur og köttur en þess á milli vomm við góðir vinir. Um þessar mundir einkennist pólitísk umræða af endalausu stagli. Fólkið í landinu er orðið þreytt á þessu stagli, upptuggu ár eftir ár um mál sem engu virðast skila. Sífellt fleiri fræðingar eru kallaðir til án þess að nokkur árangur sjáist.“ Landsbyggðarverslun — Hvernig metur þú stöðu verslunar á landsbyggðinni eftir að hafa starfað sem kaupmaður í 40 ár? „Landsbyggðarverslunin stend- ur höllum fæti, styst er að vitna í ummæli Guðjóns B. Ólafssonar for- stjóra SÍS sem rekur um 220 versl- anir í dreifbýli en hann telur hag- kvæmast að sameina þær í 30-40 verslanir eftir tap síðustu ára. Það er mikið sameiningarskraf í þjóð- félaginu um þessar mundir og virð- ist eins konar lausnarorð. Góðu heilli hafa samgöngur og bílar batnað. Lítið mál er að keyra suður þangað sem vöruval er meira og magnafsláttur. Eina leiðin til að sporna við fótum er að byggðar- lögin njóti þeirra verðmæta sem þar verða til.“ Emil og Ágústa búa í bæði óvenjulegu og fallegu húsi alveg niðri í fjöru. Ut um stofugluggana blasir hafið við, síbreytilegt. Kirkjufellið, sem orðið er eins kon- ar tákn Grundarfjarðar, er á vinstri hönd, Eyrarfjall, sem sveitin dregur nafn sitt af, er á hægri hönd og ef skyggni er gott blasa fjöllin á Barðaströndinni við handan fjarð- arins. En hvað ber hæst þegar hugsað er til baka eftir tæplega 40 ára starf í Grundarfirði? „Margs er að minnast eftir langt og samfellt starf í litlu samfélagi. Það sem upp úr stendur eru hin nánu samskipti við fólkið í byggð- arlaginu, vitund manns um að hafa orðið til þess í einhveijum hlutum að létta fólki lífsbaráttuna.. Því skal heldur ekki gleymt að ég hef á öllum þessum árafjölda verið ákaflega heppinn með starfsfólk, sumt lengur, annað skemur eins og gengur en allt þetta fólk hefur verið því markinu brennt að vinna fyrirtækinu vel og milli mín og þess myndaðist vinátta sem ég vona að standi sem lengst," sagði Emil Magnússon. - Ragnheiður Sæból 26, hús Emils og Ágústu. Morgunblaðið/Bæring Cecilsson Emil og Árni sonur hans fyrir utan verslunarhúsið við Grundargötu þegar þeir fluttu verslunina þangað árið 1970.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.