Lögberg - 14.06.1945, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMTUDAGINN. 14. JÚNl, 1945
Þessi fríða sveitastúlka var nú yfirkomin af
harmi og kvíða. Hún hafði skrifað honum, en
ekki fengið neitt svar. Hann sem hafði skrifað
henni áður, svo mörg og ástúðleg bréf, hann
sem hafði engan frið né ró, fyr en hún lofaði
til að giftast honum, hann hafði nú verið í
burtu sex vikur, og ekki skrifað henni nema
eitt einasta bréf. Síðasta bréfið, sem hún fékk
frá honum var ekki þannig, sem elskendur
skrifa. Það var fullt af mikilmensku og hroka,
mest frásagnir um hve mikið væri haft við sig
í London, svo sem: hann ætti að borða með
lávarði og öðru stórmenni, og útmálaði hve
margar fríðar stúlkur hann hefði séð, meðal
hinna tignu meyja í London.
“Kannske hann sé búinn að fá eitthvað af
þessum mikla auð, sem hann var altaf að
tala um, og að hann sé farinn að hafa um-
gengni með svo hátt settum mönnum, að hann
gleymir mér”, hugsaði hún, — “en hann skal
ekki komast hjá því að vita, að eg er til. Eg
giftist honum af því, að mér þykir vænna um
hann en nokkurn annan, heldur til þess að
hann fái ekki að njóta neinnrar annarar. Hann
skal ekki leika með mig á þann hátt.” Sár
beiskja brann í hinu friða andliti hennar og
heiftarglampi í augum hennar, rétt í þessu
gekk faðir hennar framhjá og sá hana sitja á
mjalta stólnum. Hann leit fyrst á mjólkurföt-
una, sem stóð þar.
“Það má ekki láta mjólkina vera þarna, hún
skemmist, við höfum ekki svo mikið af góðri
mjólk, að við megum láta hana skemmast á
þennan hátt.”
“Lofaðu mér að vera í friði faðir minn”,
sagði hún önug.
“Eg veit hvað þú ert að hugsa um Kata.
Mér hefði aldrei dottið í hug að nokkur mundi
lítilsvirða þig; en það er þó tilfellið, Kata, ef
það er satt sem mér hefur verið sagt í þorp-
inu.”
“Hvað segja þ$ir þar?” spurði Kata.
“Að Robert Elster sé búinn að vera heima í
þrjá daga, án þess að koma hér til að sjá þig.”
Hún fölnaði í andliti, og hendurnar skulfu.
“Því trúi eg ekki,” sagði hún, “eg mundi
ekki trúa því þó allir í Croston sverðu að það
væri satt.”
“Þú getur gert sem þér sýnist um það,” sagði
faðir hennar. “Eg veit bara að John Merridew
mætti mér og sagðist hafa talað við hann, en
aldrei séð slíkan oflátung. Hann var svo rík-
mannlega búinn, að hann hlýtur að vera orðinn
stórríkur.”
“John Merridew er slúðurberi,” sagði hún;
“eg býst við að sannleikurinn sé sá, að Robert
sé alveg nýkominn. Eg veit að hann mundi
aldrei svíkja mig.”
“Auðvitað er þetta alt saman þitt málefni,
en ef að það skyldi vera einhver sannleikur
í því, að hann vilji nú ganga framhjá þér,
Kata, þá sýndu honum að þú ert stúlka fyrir
þig; láttu hann ekki þurfa að ímynda sér, að
þú getir ekki verið án hans.”
“Eg skal sjá um mig. Það skal engum líðast
að táldraga mig; þú þarft ekki að leggja mér
nein ráð.”
Það var eitthvað í útliti hennar, sem faðir
hennar óttaðist og mynti hann á, að það rynni
Tatar-blóð í æðum hennar. Hann lagði hendina
á herðar henni.
“Kata, gleymdu þér ekki. Móðir þín var þannig
að það var hættulegt að móðga hana, eða gjöra
henni rangt til.”
“Þannig eru allar konur af mínum kyn-
flokk,” svaraði hún. “Robert Elster gerír betur,
að hugsa sig tvisvar um, áður en hann hygst að
gera mig að fífli.”
Það var satt að Robert var kominn til Cros-
ton. Lávarður Dysart þurfti að fara það bráð-
asta heim til sín, til Hatton Court, og Damer
lávarður, sem hélt að það væri af veru þeirra
í London, að Miss Hope leið illa, mundi kannske
stafa af saggasömu loftslagi, ákvað að fara strax
til Avonwold.
Lafði Damer var því samþykk, og Rose langaði
til að komast nær kærasta sínum. Miss Hope
hafði rétt tíma til að ganga frá peningunum,
sem Robert Elster átti að fá. Hún lét færa á-
kveðna upphæð af inneignar peningum sínum
undir hans nafn, sem svaraði til þess sem um
var samið. Hún fór til lögmanns, sem þekti
hana ekki, sem bjó út samning, eftir því sem
hún sagði honum fyrir, án þess að leggja neinar
spurningar fyrir hana.
“Nú er það búið,” hugsaði hún. “Guð má
vita hvort eg er að gera rétt eða rangt — en
það er nú búið.”
Robert, með sín þúsund pund, vissi hvorki
upp eða niður; hann varð bara stoltari og stór-
bokkalegri, en nokkur miljóna mæringur. Jlann
gekk á götunum eins og hann ætti þær, og leit
með fyrirlitningu á alla, sem ekki voru eins
ríkir og hann. Hann hugsaði nú ekki neitt um
Kötu Repton, en ef það vildi til, skammaðist
hann sín fyrir það.
“Eg verð að láta hana vita að það er allt
búið á milli okkar; eg er of góður til að kasta
mér í faðminn á fátækri bóndadóttur. Eg hef
haft lukkuna með mér, og eg skal ekki hætta
fyr en eg er orðinn tengdasonur Damers lá-
varðar. Eg væri asni, sem sjálfur stæði í vegi
fyrir hamingju minni. ef eg færi að gipta mig
Kötu Repton.” v
Hann hugsaði ekkert um það, að hann hefði
gefið henni trúskapar loforð sitt — að hann
hafði gert allt sem hann gat til þess að vmna
hana. Það var engin vottur ærlegheita til í hon-
um, og hann hugsaði ekki vitund um það, hversu
mikið hann mundi skaprauna henni með því að
segja henni upp, eins stórlátri stúlku og hún
var. Hann hugsaði bara um sig sjálfan.
Hann vissi bara að hún mundi reiðast sér, —
en hvað gerði það til, hún mátti verða eins
reið og hún vildi, en hann yrði þá kominn langt
frá henni. Yfirleitt, leit hann nú niður á hana
og hæddist að henni, honum fanst nú engin
stúlka samboðin sér, nema Rose Damer, sem
hann ætlaði sér að eignast.
Hann hafði mætt Miss Hope hjá lögmannin-
um, og er hann hafði fengið samninginn í hend-
ur sér, sem trygði honum peningana, vék hann
sér að henni og kallaði til hennar, eins og þau
væru gamlir kunningjar, en hún vék honum
frá sér með fullri einurð:
“Þú verður að muna það Mr. Robert Elster,”
sagði hún með ísköldu stolti, að þó að þér á
lymskufullan og sviksamlegan hátt, hafi heppn-
ast að neyða út úr mér peninga, getur þú ekki
keypt þér vægð né fyrirgefningu.”
Það var sem eldur brynni úr augum hennar,
er hún sagði þetta, og hann fór frá henni eins
og sneyptur hundur.
Síðar kom Verner til að sjá hann og segja
honum að hann væri að fara frá London.
“Fer Damer fjölskyldan héðan líka?” spurði
hann, með meiri ákefð en hann vildi láta bera
á.
“Eg held það, þó veit eg það ekki fyrir víst.”
“Nú jæpa, kanske eg taki mér ferð á hendur
til Hatton Court, til að heimsækja þig, Verner.”
Verner mynti hann á það, eins háðslega og
hægt var, að honum þyrfti fyrst að vera boðið
þangað, áður en hann gæti komið þangað.
“Þegar eg kem, kem eg sem herramaður,”
sagði Robert. “Eg hefi unnið mér mikla peninga,
með vitsmunum mínum, en spurðu mig ekki
um hvernig, því eg segi engum frá því. Þú ert
ekki sá eini heppni í heiminum. Hér eftir þarf
eg aldrei að vinna, meðan eg lifi.”
Verner horfði alveg stein hissa á hann.
“Hvað gat hann meint með þessu?”
“Þú segist hafa fengið nóga peninga til að
lifa af, Robert?” endurtók hann, “er það mögu-
legt?”
“Já, það er satt — og ekki einungis til að
lifa af, heldur til að geta lifað herramannslífi.
Eg get kannske hjálpað þér; en láttu mig vita í
kvöld, hvort Damer fara núna frá London.”
Verner hélt að þetta væri bara eitt af heila-
brotum Roberts, og hugsaði svo ekki meira um
það. Um kvöldið, er hann heyrði lafði Dysart
segja að Damers fjölskyldan færi strax til
Avonwold, mundi hann að Robert hafði beðið
sig að láta sig vita það, svo hann sendi honum
fáeinar línur til að láta hann vita um það.
Nú vissi Robert að hann hafði ekki meira
að gera í London; hann mátti ekki eyða meira
af sínum kostmæra tíma, né peningum, sem
hann hafði nú í vösum sínum. Hann ákvað
að fara heim til sín um stund og þar í næði
yfirvega hvernig hann ætti að ná tangarhaldi
á Rose Damer.
En fyrst varð hann að jafna reikningana
við Kötu — segja henni blátt áfram, ef það
væri nauðsynlegt, að hann væri alráðinn í að
hætta við að giftast henni, og svo væri hún
laus allra mála við sig, og gæti gert hvað henni
gott þætti.
Með þetta áform í huga fór hann nú heim
til Croston. Hann varð að gera hreint fyrir
sínum dyrum við Kötu Repton.
49. KAFLI
Eins og allir skrumarar eru, var Robert
hin mesta lydda. Áður en hann fór frá London
hafði hann farið til bezta klæðskerans í borg-
inni, og keypt hjá honum úrval af hinum fín-
asta og dýrasta fatnaði. Hann ætlaði nú að
sýna sig í þessum fína fatnaði, fólkinu í Cros-
ton, og hann gekk hægt eftir götunum, til
að gefa fólkinu sem best tækifæri til að sjá
sig.
Alt í einu stóð hann auglitis til auglitis við
Mr. Repton, og í tilliti hans var eitthvað, sem
skaut Robert strax skelk í bringu. Hann var
bæði stór og sterkur, en hann hefði ekki haft
mikið að gera í hendurnar á Mr. Repton, sem
hélt kreptum hnefanum alveg upp að nösum
hans.
“Ef þú hefir nokkuð af þínum svikum og
undanbrögðum í frammi gagnvart dóttur minni
þá sver eg það, að eg skal mola hvert bein í
þínum synduga skrokk.”
“Vertu ekki svona æstur,” skrækti Robert
út úr sér, og skalf af hræðslu, en Repton fór
sína leið bölvandi honum, og biðjandi allra
óbæna.
Robert stóð hreifingarlaus nokkur augna-
blik, en er hann áttaði sig, kom honum í hug,
að það mundi vera best fyrir sig að fara út á
búgarð Reptons og ljúka við þessi mál. Það
mátti ekki koma fyrir, að hann, sem nú var
herramaður, fengi blátt auga og brotið nef í
viðskiptum sínum við Repton, hann varð að
milda málin á einhvern hátt.
“Kannske það sé bezt að láta á engu bera,
við Kötu, og halda öllu leyndu fyrir henni,
þangað til eg er viss um að fá Rose Damer,”
hugsaði hann, “þá get eg losast við hana, eg
læt hana einu sinni ekki vita hvar eg er.”
Eitt kvöldið, þegar hann vissi að Mr. Repton
var í kaupstaðnum, fór hann út á búgarðinn.
Kata var ein að tína jarðaber; hún var blóð-
rauð um hendurnar af safa úr berjunum. Hún
leit vel út, en Robert veitti bara eftirtekt henn-
ar einfalda búningi, sem hann bar saman í
huga sínum, við hinn skrautlega og gimstein-
um prýdda búning Rose.
Kata leit upp, eins og um ekkert væri að
vera, þegar hún heyrði fótatak hans. Þó hjarta
hennar slæi hart af ást og reiði, til hans, lét
hún ekkert á því bera. Hún hélt áfram að tína
berin, ofan í körfu sem hún hélt á.
“Kata, býðurðu mig ekki velkominn?” spurði
hann með uppgerðar glaðværð.
“Svo þú hefur loksins haft tíma til að koma
hingað, þú hefur ekki verið að flýta þér að
því; það eru fjórir dagar síðan þú komst heim.”
“Já, eg hef haft í svo mörgu að snúast, eg
hefi orðið að nota allan tímann til sýslana.”
“Já, að því undanteknu að sýna þig í allri
dýrð þinni.” Hún stóð upp frá berja tínslunni,
og stóð nú teinrétt fyrir framan hann. Á and-
liti hennar mátti sjá hina dýpstu fyrirlitningu
fyrir honum.
“Svo eg býst við að þér hafi heppnast að
verða ríkur í þessari ferð.”
Nú dauðsá hann eftir að hafa nokkurntíma
sagt henni um það, bölvaði nú sjálfum sér og
heimsku sinni fyrir það.
“Nei, ekki ennþá, Kata,” svaraði hann.
“Því trúi eg ekki, þú værir ekki svona vel
búinn, og bærist ekki svona mikið á, ef þú
hefðir ekki náð þér í býsna mikla peninga. Eg
skil menn eins og þig, Robert Elster. Heldurðu
að það sem faðir minn getur gefið mér af pen-
ingum, mundi hafa aðra þýðingu fyrir þig?”
Heldurðu það? Eg hefi alveg gleymt því,
Kata. Það var víst þú, sem eg vildi fá.”
Það var háðsglott á vörum hans, sem gjörði
hana sárreiða.
“Eg hefi gaman af að spyrja þig um auðinn
þinn,” sagði hún. “Hefurðu komist yfir þenn-
an auð á heiðarlegan hátt? Þú varst einu sinni
að gorta af því, að þú vissir um leyndarmál.
Varaðu þig á því, að eg verði ekki fyrri en þú
að komast að því. Þegar þú fórst, spurðirðu
mig að, hversu fljótt eg vildi giftast þér. Nú
skaltu fá mitt svar upp á þá spurningu, og
það er: nú strax.”
“Það er ekki þægilegt fyrir mig, nú undir
eins,” sagði Robert, með gletnisbrosi, sem æsti
hana svo, að hana langaði til að slá hann.
“Auk þess er það óvanalegt, Kata, að stúlkur
séu svo bráðlátar með það.”
“Þú þarft ekki að kasta mér því í nasir; eg
vil bara sjá hvort þú ert viljugur til að halda
loforð þitt — það er það, sem eg meina.”
“Mér þykir sárt að geta ekki orðið við bón
þinni, en eg get ekki uppfylt loforð mitt, rétt
sem stendur. Eg hefi ekki enn komið mínum
málum í það horf sem eg ætla mér, en þegar
eg er búinn að því —”
“Hvað þá?”
“Þá get eg sagt þér meira um það. Þessi
ber eru svo falleg; viltu gefa mér fáein af
þeim, Kata?”
“Nei, ekki eitt einasta, þó þú værir að drep-
ast úr hungri,” svaraði hún í ofsa reiði. “Þú
heldur að þú getir haldið mér í skugganum,
og dregið dár að mér, Robert Elster, þú ert að
leika þér að hættunni. Þú heldur kannske að
eg muni sýna þér ástaratlot, meðan þú ert að
búa þig undir að giftast annari stúlku. En eg
krefst að fá helminginn af peningunum þín-
um. Þú lofaðir mér fínum og dýrum fatnaði,
og þjóna, til að þjóna mér. Eg krefst alls þessa,
sem þú lofaðir mér.”
“Eg hefi í því sambandi ekkert að afsaka,
því eg hefi ekki getað veitt sjálfum mér það
ennþá,” svaraði hann.
“Þú getur hafa daðrað við hundrað stúlkur,
og sloppið frá þeim, en Guð náði þann mann
sem táldregur mig, sem hefi gamalt Taterblóð
í æðum mínum.”
“Það er nokkuð sem eg mundi aldrei stæra
mig af,” svaraði hann storkandi.
Hún varð náföl í andliti við að heyra þetta.
“Ef þú ert hygginn maður, þá forðastu að
verða á vegi mínum hér eftir.”
“En Kata, það er óþarfi að við séum að þræta
um þetta,” sagði Robert, sem umfram allt vildi
eyða þessu tali, því það var ekki laust við að
hann væri hræddur við hana. “Eg hélt að
þér mundi þykja vænt um að sjá mig aftur,
eftir svo langa burtveru.”
“Eg vil opinberlega og einlæglega aðvara
þig,” sagði hún stillilega. “Eg skal fylgja þér
eftir, spor fyrir spor, og þegar þú ert á hátindi
þess sem þú heldur hamingju þína, skal hefnd
mín hitta þig. Þú getur ekki blekkt mig. Fyrir
tveimur mánuðum elskaðir þú mig, og vildir
giftast mér. Nú er ekki hinn minsti vottur
ástar í augum þínum, og það kemur ekki eitt
einasta ástarorð yfir varir þér. Þú ert einungis
kominn hér til að reyna að halda uppi vin-
áttu við mig, þar til þú hefir klófest þá, sem
þú hefir nú augastað á, og svo hlærð þú af
ánægju yfir því hve auðvelt þér hafi verið
að gabba mig. Eg er ekki eins heimsk og þú
heldur, Robert Elster, og sver það, að mín
hefnd skal hitta þig.”
Robert líkaði ekki að hún snerist svona við
þessu, og reyndi að taka í hendina á Kötu.
“Elsku Kata, vertu ekki svona reið við mig.”
“Það er í þínu valdi, að gera mig góða við þig
aftur,” svaraði hún, “og það er aðeins einn
vegur til þess: efndu loforð þitt um, að giftast
mér nú strax.”
Nei, það vildi hann ekki gera. Ef hann færi
hyggilega að, þá yrði Rose Damer konan hans,
og hann kæmist í háa stöðu. Hann reyndi að
gera allt sem hann gat til að gera Kötu rólega,
en að giftast henni, nei — aldrei! Hann reyndi
að tala eins ástúðlega við hana og hann gat,
og láta eins vel að henni sem áður; það hafði
mildað skap hennar svo oft áður; og Kata, lét
sem hún gerði sig ánægða með það, og öll mis-
klíð þeirra væri gleymd.
“Við skulum gleyma þessum misskilningi;
kystu mig, og við skulum vera góðir vinir,
aftur,” sagði hann smjaðurslega.
Hún lofaði honum að kyssa sig á munninn.
“Einhverntíma skal eg sýna þér, hvernig Tat-
erstúlka kyssir sinn falska Elster.”
“Eg er ekki falskur, kæra Kata.”
“Því betra; það er gott fyrir þig, samt sem
áður, að heyra það. Ferðu aftur í burtu frá
Croston, Robert?”
“Eg fer ekki fyrst um sinn, svaraði hann,
ákveðið, en hann var þó ákveðinn í að fara
strax.
Þau skildust, eins og þau væru góðir vinir;
en í raun og veru reyndu’ þau, hvort í sínu
lagi, að villa hinu sjónir.
“Robert Elster kom hingað,” sagði Kata við
föður sinn, er hann kom heim um kvöldið.
“Það var gott fyrir hann; eg sagði honum í
morgun að eg skyldi mylja hvert bein í skrokkn-
um á honum, ef hann ætlaði sér að draga þig
á tálar.”
Kata gekk til föður síns, lagði hendurnar á
axlir honum, og horfði alvarlega í augu hans.
“Eg skal ekki segja meira; en eg þoli enga
bið. Allir nágrannarnir vita, að hann hefur
beðið þig um að giftast sér, og þú skalt ekki
þurfa að bera kinnroða fyrir þeim.”
“Eg skal sjá um það sjálf,” svaraði hún.
Mr. Repton sat lengi í herbergi sínu, eftir
að hún var farin út, og reykti pípu sína, og
hugsaði um hið einkennilega útlit á andliti dótt-
ur sinnar.
“Eg er hræddur um að þetta endi með skelf-
ingu,” hugsaði hann.
Robert hraðaði sér heim, eftir að hann skildi
við Kötu, alráðinn í því að fara strax til Avon-
wold. Hann hafði lengi ekki hugsað neitt um
Kötu, og ekki dottið í húg að hún kæmi til
greina við áform hans. Hann áleit það auð-
velt að losa sig við hana, en nú sá hann, að
það mundi ekki verða svo auðvelt, og þess
vegna þurfti hann að fara undir eins til að ná
haldi á lafði Damer, og ógna henni.
Hann áleit að sér yrði auðvelt að komast
burt frá Croston, svo enginn veitti því eftir-
tekt, og þegar hann væri kominn til Avonwold,
ætlaði hann að koma sér svo fyrir, að hann
kæmi aldrei framar þangað sem Kata væri
Hann var ekki í neinum vafa um, að sér mundi
ganga vel bónorðið við Rose Damer. Hann fór
því strax daginn eftir, glaður í hug, í járnbrautar
stöðina og keypti sér farbréf til Reedsdale, sem
var viðkomustaður, ekki langt frá Avonwold.
Hann vissi ekkert um að einhver hafði fylgt
honum, hljóðlega eftir, og heyrt nafnið á staðn-
um, sem hann ætlaði til, og þessi manneskja, sem
fór svo hljóðlega, og gætilega, keypti líka far-
bréf til sama staðar og hann, og var á leiðinni
í næst.a vagn við þann, sem hann var í.
I