Lögberg - 29.01.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 29.01.1953, Blaðsíða 6
D LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 29. JANÚAR, 1953 Jón flutti hana ofan eftir aftur. Þóra í Hvammi var að sækja kýrnar ofan að ánni um kvöldið, þegar hann kom þeysandi neðan að aftur. „Sæl nú, Þóra!“ kallaði hann til hennar. „Þú kemur ekki oft að finna mig síðan þú sást kaupmanns- dótturina. Þykir þér svona gaman að læðast með henni eftir veg- inum á hálfsofandi hestunum?“ spurði hún afundin. „Það verður ekki langt þangað til hún getur riðið hart,“ svaraði hann. „Hvenær svo sem skyldi hún geta riðið hart, sá bjálfi.“ Jón heyrði, að það lá illa á Þóru. Henni fannst vera gengið fram hjá sér. „Vertu ekki úrill, Þóra mín. Ég skal koma með hest handa þér á sunnudagsmorguninn. Þá á að smala stóði. Við getum orðið með. Ég skal lána þér Gáska. Þá getum við þó farið á fullri ferð. Ertu þá ekki ánægð?“ Það hýrnaði heldur yfir henni. „Jú, auðvitað verð ég ánægð. Allan sunnudaginn voru þau á ferðinni fram um alla afrétt; komu ekki heim fyrr en eftir háttatíma, rykug og glorsvöng. „Ósköp eruð þið víst orðin þreytt, blessuð börnin!“ sagði Borghildur. Hún vakti ævinlega eftir Jóni, hvað seint sem hann var á ferð. „O, það er ekki svo mikið,“ svaraði Jón. „Hún þolir nú að hristast, hún Þóra. Svo er hún líka svo dugleg í áflogum, að ég má gæta mín, að hún felli mig ekki.“ „Getur Anna nokkuð flogizt á?“ spurði Þóra. „Hún er svo ung,‘ svaraði Jón. „Hún er víst líka óttalegur ræfill,“ sagði Þóra með munninn fullan af mat. „Björg gamla í kofanum sagði, að hún skældi af öllu. Krakkarnir mættu tæplega líta á hana, svo að hún væri ekki farin að væla.“ „Hún lítur veiklulega út, blessuð litla stúlkan,1 sagði Borg' hildur. „Hún er líka fallegasta stúlka, sem hér hefur komið,“ sagði Jón hlægjandi. „Það er nú bara af því, að hún er í svo fínum fötum og hefur silkiborða í hárinu. Svo er hún líka kaupmannsbarn.* Jón fylgdi Þóru heim undir túngarðinn, þegar hún var búin að borða sig pakksadda. Borghildur var ennþá á fótum, þegar hann var búinn að flytja hestana., Hann settist á kassa í eldhúsinu og fór að fara úr fótaplöggunum. „Anna verður .konan mín, þegar við erum orðin stór,“ sagði hann. „Þú hefur nú alltaf sagt, að Þóra ætti að verða það,“ sagði Borghildur brosandi. „Það var áður en ég sá Önnu. Hún hefur svo fallegt hár og yndisleg augu. En náttúrlega verð ég að vera góður við Þóru, svo að hún verði ánægð.“ „Það er nokkuð snemmt fyrir þig að hugsa um giftingu,“ sagði Borghildur. „Hver heldurðu að sé bezta konuefnið handa mér, Borga mín?“ spurði hann hlæjandi. „Lilja er langbezt,“ sagði hún. „Hún er svo geðgóð og stillt.“ „Það er Anna litla líka,“ sagði hann sannfærandi. „Hún er svo fín og falleg, alveg eins og konungsdæturnar í sögunum, sem þú hefur verið að segja stundum.“ Nú var Jón kominn hátt á tólfta árið. Það var hámarksaldur þeirra barna, sem voru of skynsöm til að ná háum aldri. Ef hann lifði þetta ár, þá var ekki ólíklegt, að hann yrði tvítugur. Og dreng- urinn var ekki þesslegur, að hann væri á grafarbarminum. Hann blés út og réði sér ekki fyrir ærslum og fjöri. Svo var það einn sunnudag seint um sumarið. Það hafði verið messað á Nautaflötum og margir verið við kirkju. Allir strákar, sem við kirkjuna voru, söfnuðust saman á hlaðinu í áflogum. Jón var duglegastur þeirra allra. Þá var það Erlendur litli frá Hóli, skapmikill hnokki með þungan svip. Hann bregður fæti fyrir Jón, honum að óvörum, svo að hann féll. „Ha, ha! Þar datt kappinn!" hrópuðu strákarnir glaðir. Jón spratt á fætur. „Þetta var ekkert að marka. Þú sveikst að mér. Ég skal sýna þér, hvort þú skalt ekki liggja.“ Hann slengdi Erlendi svo harkalega niður, að hann verkjaði í höfuðið. Erlendur stóð upp, sótrauður, og sló með krepptum hnef- anum framan á nasir Jóns, svo að blóðið fossaði fram úr nefinu. Hverjum hefði getað dottið í hug, að nokkur maður leyfði sér annað eins? Nú kom það ólíklegasta fyrir. Drengurinn, sem allir álitu að ekki gæti reiðzt, trylltist algerlega og barði á báðar hliðar. Dreng- irnir reyndu að fara margir á móti honum, en það var það sama. Þeir hörfuðu undan ofsa hans. Þá skárust vinnumennirnir af heim- ilinu í leikinn og ætluðu að reyna að stilla til friðar, en hann barði þá líka. Hann var orðinn brjálaður, hélt messufólkið. Faðir hans hafði setið inni í stofunni og horft á leikinn; nú hraðaði hann sér út og greip son sinn höndum. „Þú berð þó líklega ekki hann föður þinn, drengur minn,“ sagði hann nokkuð fastmæltur. Þá kastaði Jón sér niður og grét. „Illa þolir ótaminn okið,“ sagði Jakob um leið og hann tók drenginn í fang sér og bar hann inn í rúm. Þar sátu þær yfir honum, móðir hans og Borghildur, þangað til hann sefaðist. „Það er víst heppilegra, að hann hafi ekki mótbyr í lífinu, barnið þetta,“ sagði Björn í Hvammi, þegar hann sá hreppstjórann bera son sinn inn. Faðir Erlendar var eyðilagður og bað hjónin auðmjúklega fyrirgefningar á því, að slíkt hefði komið fyrir. Jakob tók því vel, en Lísibet var þungorð yfir slíku uppeldi, sem væri á Erlendi. Bóndi lofaði að hirta drenginn rækilega, þegar heim kæmi. Lísibet bjóst við, að drengurinn myndi veikjast af geðshrær- ingunni, en hann vaknaði vel hress morguninn eftir. Hann kom með dagblað til mömmu sinnar og bað hana að gefa sér í brauð og sykur og hafa það nokkuð mikið. „Hvað ætlarðu að gera með það, góði minn?“ spurði hún. „Gefa honum Ella litla á Hóli það.“ „Fyrir það, að hann barði þig?“ „Það var ekkert. Ég lét eins og asni, mamma. Hann hefur langað til að vera sterkur líka. Svo hefur hann sjálfsagt verið barinn, þegar hann kom heim.“ „Blessaður drengurinn; þú sýnir það, að þú ert skyldur honum afa þínum, eins og fyrri. Svona var hann; ef hann gerði á hluta einhvers, þá var að bæta fyrir það undir eins og hann komst ti' sjálfs sín. Því það kom aldrei fyrir, nema þegar hann var kenndur,“ sagði Lísibet, meðan hún var að útbúa orlofsböggulinn handa syni sínum. Sigurði gamla á Hóli varð ekki vel við, þegar hann sá hver það var, sem reið í hlaðið. Hann vildi fela son sinn og segja, að hann væri ekki heima. Ekki vildi Erlendur það. Hann sagðist bara vona, að faðir sinn léti hann ekki gera alveg út af við sig. Svo gekk hann til dyranna með kreppta hnefa og hafði talsverðan glímuskjálfta. Jón heilsaði honum glaðlega og bað hann að finna sig ofan á tún. „Ætlarðu að drepa mig alveg?“ spurði Erlendur hikandi. „Nei, nei. Ég er kominn til að sættast.“ Þeir gengu ofan túnið og settust hlið við hlið neðst á túninu „Varstu barinn í gærkveldi?“ spurði Jón. „Dálítið. Ég er ekki óvanur við,“ svaraði hinn. Jón tók upp orlofið. Erlendur horfði undrandi á þvílík ósköp af jólabrauði með gómsætum rúsínurn í, kleinum og vöfflum. Þar voru líka sveskjur og sykur. „Hvar fékkstu þetta?“ var það eina, sem hann gat sagt. „Mamma gaf mér það handa þér.“ „Hún hafði þó verið reið.“ „Hún er góð við börnin,“ sagði Jón og laumaði í lófa hans þremur tveggja króna silfurpeningum. „Þú verður eitthvað að hafa fyrir,“ sagði hann í hálfum hljóðum. Erlendur var svimandi yfir öllum þessum auðæfum. Þó var það dýrmætasta eftir. „Þú ættir að koma fram á eyrarnar á sunnudögum. Þá leikum við okkur. Þar er oft gaman. Þú ættir að verða leikbróðir okkar Heldurðu, að þú getir ekki fengið að koma?“ sagði Jón. Gæði hans voru ótakmörkuð. „Ég veft ekki, hvort ég fæ að koma. Hann vill alltaf láta mig þræla, karlinn. En gaman væri það,“ var svarið. „Karlinn, hver er það?“ „Það er hann faðir minn.“ 9 „Kallarðu hann þessu nafni. Það gerum við ekki fram frá.“ „Hann er ekki alltaf góður við mig,“ sagði Elli litli lágmæltur. „Ber hann þig með hrísi?“ „Nei; ég reyni oftast nær að brenna vöndinn fljótlega. Hann notar hnefana.“ Jón hristi höfuðið. „Hefurðu aldrei reynt að strjúka? Þú ættir að koma til okkar.“ „Ég fer, þegar ég er orðinn fermdur, og kem aldrei aftur.“ „En mamma þín?“ „Hún er skárri; hún rífst bara.“ Jón gat ekki um annað hugsað alla næstu viku, en hvað Erlendur litli á Hóli ætti bágt. Næsta sunnudag kom svo Elli fram á eyrarnar. Foreldrum hans hafði þótt svo mikið varið í, að syni þeirra var boðið að leika sér með hreppstjórasyninum, að þau gátu ekki neitað honum um það, þó að nóg væri náttúrlega til að gera. „Nú erum við orðin fimm,“ sagði Jón einu sinni, „og nú set ég lög, sem við eigum öll að hlýða, og þau eru svona: Við eigum ævinlega að vera eins góðir vinir og við erum núna, óvað gömul sem við verðum. Við eigum öll að búa í dalnum hérna, öll að eiga jarðirnar sjálf, vegna þess að það er svo leiðinlegt að borga landskuld. Við skulum öll eiga marga hesta og ríða út á hverjum sunnudegi, margar kindur og eitthvað dálítið af kúm og marga krakka.“ „Þá verðum við fátæk, ef við eigum marga krakka,“ sagði Lilja. „Ég vil ekki nema eina stúlku.“ Nú urðu þau ekki samdóma. Enginn vildi eiga mörg börn nema Jón; hann var stórhuga í öllu. Nú var farið að svipast um eftir jörðunum. Jón og Þóra voru ekki í vandræðum. Þau voru einbirni sjálfseignarbænda. En Elli átti ekki nema fjórða part úr Hóli, því systkini hans voru þrjú. Það var lítið, að búa á því horni. En Jón sá ráð við því. „Ég skal lána þér fáeinar krónur, Elli minn. Þú getur látið hina krakkana íafa það fyrir það, sem þau eiga í jörðinni.“ Þá voru þau vandræði útkljáð. Þá var nú Þórður og Lilja. Hvar áttu þau að fá sér jörð? Þórður átti að kaupa Selið, byggja þar nýjan bæ og stinga í burtu núfurnar úr túninu, eins og Jakob hreppstjóri lét vinnumennina sína gera. Þá yrði fallegt í Selinu, þegar túnið væri orðið slétt. Lilja gæti búið með honum og átt jörðina líka. „Nei, það dugar ekki. Öll verðum við að giftast. Þú verður að giftast, Þórður, og fá þér fallega konu, og Lilja verður að eiga ein- hvern strákinn hérna í dalnum, sem á jörð. Þá á hún hana líka,“ sagði Jón. „Hún getur átt Ella,“ sagði Þóra. En Lilja hristi dálítið höfuðið. „Ég er fyrir löngu búin að á- kveða, hver á að verða maðurinn minn. Ef hann giftist einhverri, þá fer ég úr dalnum.“ „Enginn má brjóta lögin, hvað sem kemur fyrir,“ sagði Jón í valdsmannslegum rómi. Og lögin voru samþykkt með lófaklappi og dynjandi hlátra- sköllum. Sumarið leið og veturinn kom. Jón lifði þann þýðingarmikla dag að verða tólf ára. Þennan vetur var tekinn kennari að Nauta- flötum til þess að kenna honum skrift og reikning og margt fleira, sem fólkið kunni ekki að nefna. Öll leiksystkini hans fengu að læra með honum og fleiri börn úr dalnum. Sigurði gamla á Hóli þótti það óþarfi, að Erlendur lærði að skrifa, þangað til Lísibet var búin að tala við hann. Eftir það vissi hann, að það var bráðnauð- synlegt fyrir hvern karlmann að kunna það og gat verið þægilegt fyrir konur líka. Og Elli litli fékk að læra með hinum og systir hans líka. Þegar Friðrik kaupmaður hafði verzlað í tvö ár á Ósnum, fóru ýmsar sögur að koma á gang um hann í sveitinni. Vinnukonan þóttist heyra til hans á rangli um húsið á nóttunni og sjómennirnir sáu hann líka, þegar þeir voru að fara á sjóinn, löngu fyrir fóta- ferðartíma, á gangi niðri í flæðarmáli eða meðfram ánni. Ef hann varð þeirra var, flúði hann í burtu. Það var því almennt álitið, að kaupmaðurinn væri að verða geðbilaður eða þá að verzlunin væri að fara um koll hjá honum. Það þótti öllum fjarska líklegt. Það sama vor gekk illkynjuð kvefsótt um sveitina. Úr henni dó konan hans. Þegar það fréttist fram að Nautaflötum, að frúin væri dáin, sagði Jón við móður sína: „Þú verður að koma með mér ofan á Ós, mamma. Ég fer að sækja önnu. Hún verður hér, fyrst mamma hennar er dáin. Kannske þú viljir vera mamma hennar. Þú átt enga stúlku.“ Lísibet lét söðla hest sinn og reið af stað með syni sínum. Anna kom út, rauðeygð af gráti, þegar hún sá að Jón var kcgninn. Hún hjúfraði sig grátandi upp að Lísibetu og sagði: „Ég vil alltaf vera hjá þér. Nú er mamma farin í burtu og getur ekki talað við mig lengur.“ „Heyrðu Anna mín!“ sagði Jón. „Ég skal gefa þér mömmu mína. Við getum átt hana bæði. Svo ætla ég að biðja pabba að gefa þér hest. Viltu þá ekki verða alltaf hjá okkur?“ „Ef að pabbi vill það. Hann vill ekki tala við mig. Hann er víst sofandi.“ Lísibet reyndi að ná tali af kaupmanninum. Hann hafði lokað sig inni, en kom þó fram, þégar hann heyrði hver kominn var. Jóni varð starsýnt á hann. Svona gat hann ekki ímyndað sér að nokkur lifandi maður liti út. Andlitið var bláfölt og augun voru einhvers staðar langt inni í höfðinu; tóftirnar virtust honum fullar aí myrkri. Lísibet bar upp erindið. Hann svaraði því einu, að hvergi vildi hann hana heldur hafa en þar. — Jón þorði ekki að heilsa honum. Anna litla kvaddi föður sinn kjökrandi. Svo var lagt af stað. Brúðurnar voru með í förinni. Litla stúlkan kunni vel við sig, enda reyndu allir að leika við hana og fá hana til að gleyma hörmum sínum. Hinir krakkarnir komu ekki að leika sér næsta sunnudag á eftir. Lísibet þóttist skilja þau. Þeim fannst þau ekki kunna að leika við fína kaup- staðarbarnið. Daginn, sem átti að jarðsyngja frúna, móður Önnu litlu, gerði Lísibet boð eftir Þóru í Hvammi. Anna vissi ekkert um, hvað átti fram að fara þennan dag. „Hvað svo sem hefur hún að gera með að sjá kistuna, blessað barnið, annað en að verða brjáluð af gráti,“ sagði Lísibet við son sinn, þegar hann spurði, hvort Anna ætti að fara ofan eftir með þeim. Þóra kom, þegar Lísibet var ferðbúin. Hún kallaði á Þóru inn í stofu. „Veiztu hvert ég ætla, Þóra mín?“ spurði hún. Þóra játti því. „Manstu nokkuð eftir þegar þú misstir þína mömmu?“ „Já, ég man það. Pabbi hefur sagt mér, að Borghildur hafi farið með mig fram að Seli, þegar hún var jörðuð, svo að ég sæi ekki kistuna.“ „Já, og það sama eigið þið Jón að gera í dag. Þið eigið að fara með Önnu litlu fram að Seli. Þú ert svo skynsöm stúlka, Þóra, þess vegna ætla ég að biðja þig að hugsa um hana, eins og hún væri systir þín. Hún á svo bágt. Þú skalt aldrei minnast á það, að mamma hennar sé dáin, þegar hún heyrir til, eða neitt af ykkur. Svo er hún líka svo þreklaus, að hún þolir ekki að leika sér með ykkur, sem eruð svo hraust og mikið eldri. Þetta áttu að muna alltaf, á meðan hún er hérna. Ég veit náttúrlega ekki hvað það verður lengi. En sjálfsagt fer hún ekki strax.“ Þóra fann dálítið til sín yfir því, að henni var trúað fyrir svo vandasömu verki, að vera systir móðurlausu, fallegu stúlkunnar. Þegar Anna litla kom fram í stofuna, vogaði Þóra sér að kyssa hana tvo kossa. „Þetta er hún Þóra litla í Hvammi. Hún er góð og dugleg stúlka. Hún ætlar að verða systir þín, Anna mín. Svo farið þið fram að Seli í dag og finnið Lilju og Þórð og leikið ykkur við þau. Borghildur býr ykkur út með nesti.“ „Hvert ætlar þú, mamma?" spurði Anna. „Ég er að fara í kaupstaðinn, góða mín. Þú biður náttúrlega að heilsa pabba þínum.“ „Já; segðu honum, að mig langi svo mikið til, að hann komi og verði hér líka hjá mér.“ Nokkru seinna riðu þau öll af stað fram að Seli. Jón reiddi mjólkurdunk, en Þóra stóran böggul af brauði og súkkulaði. „Nú getum við ekki farið nema skokk, Þóra mín. Anna litla er svo ónýt að ríða,“ sagði Jón, þegar þau riðu úr hlaði. „Bráðum verður hún eins dugleg og við, ef hún verður hér lengi,“ sagði Þóra. „Veiztu það, að pabbi er búinn að gefa henni Litla-Grána, en hann er of viljugur handa henni ennþá. Pabba þykir fjarska vænt um Önnu og kallar hana engilbrúðuna litlu,“ sagði Jón. Þá hló Anna litla. En hvað hún var falleg þegar hún hló. Jón hafði nóg að gera að segja önnu frá öllum örnefnum, sem urðu á leið þeirra. Reyndar skildi hún lítið af því, sem hann sagði, en það var alveg sama. „Hér eltumst við Þórður mest við hann Grána þinn, Anna iitla. Þá var nærri farinn í sundur hryggurinn á Þórði þegar folinn castaði honum þarna á stóra steininn.“ „Hvað heldurðu að hún hafi gaman af að heyra, hvernig þið fljúgist á við stóðið?“ sagði Þóra hálf önug. „Hvað er það, sem heitir»stóð?“ spurði Anna. Þá hristi Jón löfuðið. Þetta skilningsleysi var þreytandi, jafnvel þó það væri :'allegt engilbarn, sem ætti þetta þekkingarlitla höfuð. En Þóra fór nærri um það, hvað systur bæri að gera. Hún leit dálítið kuldalegu hornauga til Jóns. „Hvað heldurðu að hún viti, hvað stóð er? Heldurðu, að kaup- staðarkrakkarnir hangi alltaf utan í stóðhrossum eins og þú? Kannske þú haldir, að allir eigi eins mörg hross eins og hann faðir þinn. Veiztu ekki, að Friðrik kaupmaður á enga skepnu nema eina kú og fáein hænsni?“ rausaði hún upp úr sér. „Hver hefur sagt þér það?“ spurði Jón. „Hún Björg gamla í kofanum. En svo á hann líka allt þetta J'ína í búðinni. Það er nú mikið,“ sagði Þóra. Ekki mátti láta Önnu litlu heyra, að faðir hennar væri fátækur. Það þykir öllum börn- um leiðinlegt. — „Og orgelið og allt, sem er innan um húsið,“ sagði Jón. „Á hann orgel?“ spurði Þóra. Þá brosti Anna litla aftur. „Já, hann á fallegt orgel og ætlar að kenna mér að spila á það, þegar ég er orðin dálítið stærri, — íannske, tólf ára. Ég vildi, að pabbi væri kominn hingað og vildi tala við mig.“ Það var kjökurhljóð í seinustu orðunum. „Sko, Anna! Nú erum við nærri komin heim að Selinu,“ flýtti >óra sér að segja, til þess að Anna talaði ekki meira um föður sinn.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.