Lögberg - 21.05.1953, Side 6
6
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 21. MAI, 1953
Brúðkaupsdagurinn rann upp heiðskír og fagur. Morgunsólin
hellti geislaflóði yfir háreista tarfbæinn og gráu timburkirkjuna
frammi í dalbotninum. Hún var að leggja blessun sína yfir ungu
eftirlætisbörnin, sem í dag ætluðu að stíga þýðingarmesta sporið
í lífinu.
„Bærilega spáir nú veðrið fyrir blessuðum börnunum,“ sagði
Lísibet húsfreyja, þegar hún hafði boðið manni sínum góðan
daginn. „Alveg eins og þegar við giftum okkur. Manstu hvað
veðrið var gott?“
„Já, auðvitað man ég það, og ég vildi óska, að þau ættu fyrir
höndum annað eins hjónaband. Þau eru bara svo mikil börn
ennþá. Hún aðeins átján ára.“
Upp úr hádeginu fór að þykkna í lofti.
„Skýin gátu nú gjarnan látið vera að byrgja sólina svo strax,“
■sagði Lísibet. Hún hafði sterka trú á giftingardeginum.
„Góða mamma, vertu nú ekki hjátrúarfull,“ sagði Jón. „Þó
að það yrði grenjandi hríð, yrðum við alltaf jafn sæl og
hamingjusöm.“
„Ég er nú af eldri flokknum og hef dálitla trú á þessu,“ sagði
Lísibet og hló honum til samlætis.
Veizlugestirnir fóru að koma í stórum og smáum hópum.
Seinast komu sjómennirnir.
Þóra minntist ekkert á að fara, þó að hana langaði. Hún nældi
hvítt slifsi við peysu Möggu gömlu og gerði hana prýðilega úr
garði.
„Þetta eru nú allt of mikil fínheit“, sagði Magga gamla og:
_ skoðaði sig uppyngda í speglinum.
„Þú mátt nú ekki vera skammarlega til fara í veizlunni,“
sagði Þóra.
Magga gamla var nýkomin inn í bæjardyrnar, þegar Lísibet
kom og spurði hana, hvort Þóra kæmi ekki.
„Ó-nei, en það var ekki þar fyrir, að ég bauð þeim hvað eftir
annað að vera heima, svo Þóra gæti farið,“ blaðraði Magga gamla.
„Ég get ekki hugsað til þess, að Þóra sé fjarverandi í kvöld;
svo oft hefur hún leikið sér með brúðhjónunum. Er Björn gamli
mikið lasinn núna?“
„Nei, langt frá. Þetta er bara einhver fyrirtekt. Hann er stífur,
það sem hann tekur í sig. Hún reyndi heldur ekkert til þess að fá
hann fram eftir, eða ekki svo að ég heyrði. Þau hafa kannske talað
um það einhverntíma, þegar ég var ekki við. Ég veit það auðvitað
ekki.“
Lísibet hvarf inn í gestaþvöguna, sem beið éftir 'að gengið yrði
í kirkjuna.
Brúðurin sat í brúðarskartinu; presturinn og spilarinn voru
komnir. Samt var ekki gengið út í kirkjuna. Eftir hverju var
eiginlega beðið? Því gat enginn svarað.
Þóra og faðir hennar spiluðu „Marías“, en hún hafði ekki
hugann við spilin; hann var annars staðar. Þá var allt 1 einu
gengið um bæinn og Tommi á Nautaflötum kom inn í sparifötunum
með stífað hálslín. Hann kastaði kveðju á þau brosandi.
„Hvað er nú þetta,“ spurði Björn. „Var nú enginn kjötbitinn
til handa þér, Tommi minn!“
„Það er ekki farið að skammta ennþá. En hérna er bréf til
þín.“ Hann rétti honum sendibréf.
„Kemur þú neðan úr kaupstað?“
„Nei, ég kem beina leið heiman að, og meira að segja með
hnakkhest handa þér.“
„Handa mér?“ spurði hann hissa. „Hver sendi hann?“
„Húsmóðirin. Lestu bréfið. Það er frá henni.“
Björn leitaði að gleraugunum og fór að lesa bréfið. Það var
frá Lísibetu.
„Við höfum alltaf verið góðir nágrannar, Björn minn. Þú varst
eini maðurinn, sem ég þekkti, þegar ég kom hingað í sveitina, og
eini maðurinn, sem bauð mig velkomna, og þú reiðst alla leið vestur
að Felli tíl að sitja brúðkaupið mitt. Þess vegna vona ég, að þú
reynir að korrta fram eftir og samgleðjast mér á þessum mikla
hamingjudegi mínum — kannske í síðasta sinn, því nú nálgast
kveldskuggarnir óðum. Guð má vita, hvar við höldum næstu jól.
Ég skal sjá um að þér líði vel. Við vonumst eftir ykkur.“
Hann las bréfið tvisvar, svo ræskti hann sig, eins og hann
hefði einhver ónot í hálsinum, og rétti Þóru bréfið.
„Það er frá henni,“ sagði hann skjálfraddaður. „Hún er einstök
kona. Hún er dóttir hans föður síns.“
Þóra las bréfið, lagði það þegjandi frá sér, sótti þvottavatn,
sápu og handklæði; hún þóttist vita, að bréfið hefði þítt klakann
úr sál föður síns.
„Þið verðið að hraða ykkur,“ sagði Tommi. „Það er beðið eftir
ykkur.“
Björn horfði á þvottavatnið efandi. „Finnst þér, að ég eigi að
fara?“ spurði hann Þóru. „Hvað ætti ég svo sem að gera þar?
Éta og sofa?“
„Auðvitað farið þið,“ sagði Tommi ákafur. „Það verða nóg
spil og vín, svo þú getur skemmt þér vel.“
Þau hröðuðu sér að klæða sig í sparifötin. Þóra fór í upp-
hlutinn. Svo var lagt af stað.
Veðrið hafði kólnað talsvert. Himininn, sem hafði verið heiður
og fagur um morguninn ,var nú hulinn þéttum, hvítum, kulda-
legum skýjum.
„0-jæja,“ sagði gamli maðurinn. „Hann er þá orðinn svona
svalur og kastar líklega úr sér éli bráðlega. Einhverntíma hefði
það ekki þótt góðs viti.“
Lísibet húsfreyja og sonur hennar komu á móti þeim út í
tröðina. Jón heilsaði'Birni vingjarnlega og hjálpaði h.onum af baki.
„Þykir þér ekki svalur giftingardagurinn minn?“ spurði hann
brosandi.
„Hvað er að marka það. Slík hjátrú tilheyrði okkur, þessum
gömlu, sem giftum okkur fyrir þrjátíu til fjörutíu árum, en ekki
ykkur, unga fólkinu.“
Lísibet heilsaði þeim og bauð þau velkomin. Svo sagði hún
við Þóru:
„Þú varst að hugsa um að sitja heima? Það var einmitt þú,
sem þurftir að koma og taka eftir hjónavígslunni, því nú kemur
röðin næst að þér; og sjáðu nú til, hvort mér er ekki gefin dálítil
spádómsgáfa.“
Jón rétti Þóru höndina og bauð hana velkomna, svo bætti
hann við, svo lágt að Björn heyrði ekki: „Þakka þér fyrir síðast!“
Hún roðnaði upp í hársrætur.
„Það er víst lítið að þakka,“ stamaði hún.
„Ég fer að halda, að ég sé farinn að skulda þér,“ bætti hann við.
„Nei, langt frá,“ reyndi hún að segja glaðlega. Reyndar fannst
henni þetta vera óþarfi, að bæta þessu við slíkar alúðarviðtökur.
Nú var ekki beðið með að ganga í kirkjuna. Svo það hafði þá
verið Björn gamli í Hvammi, sem beðið var eftir. Skárra var það!
hugsuðu gestirnir.
Nú gengu allir í kirkjuna nema brúðurin og svaramaður
hennar. Þau lofuðu kirkjuklukkunum að kalla á sig dálitla stund,
eftir siðvenju þeirra tíma. Gestirnir horfðu út um gluggana. Ungur
prestssonur úr næstu sveit hafði verið beðinn að „gefa fram“ hina
munaðarlausu bruði.
Þarna komu þau. Brúðargangurinn var sæmilega hægur, en
fína slæðan blakti fyrir köldum froststormi, og kyrtillinn lagðist
þétt að grannvöxnum líkama brúðarinnar. Jakob leiddi- son sinn
sjálfur að altarinu.
Gömul kona, sem var búin að vera við margar giftingar þar
í kirkjunni, hvíslaði að þeirri, sem næst henni sat:
„Svona falleg brúðhjón hef ég aldrei séð gefin saman hérna í
kirkjunni. Ósköp er stúlkan indæl og sakleysisleg.“
„Þetta er nú líka manneskja, sem aldrei þarf að drepa hendi
sinni í kalt vatn og allir leika við eins og smábarn. Það eru færri,
sem lenda á svona heimilum, þegar þeir standa uppi munaðar-
lausir í heiminum,“ svaraði hin.
Presturinn, séra Benedikt, sem hafði flutt vorið áður að
Kárastöðum, var gáfaður mælskumaður, og fólkið hlakkaði til að
heyra ræðuna; því þetta voru fyrstu hjónin, sem hann gaf saman.
En Lísibet horfði kvíðandi á hríðarélið, sem leið fram eftir
dalnum og buldi á gluggunum meðan presturinn lagði hendur
brúðhjónanna saman. Það gat þó tæplega skeð, að framtíð barn-
anna hennar yrði neitt í líkingu við þetta veður. Nei, þetta var
auðvitað hjátrú, sem nýji tíminn útrýmdi, alveg eins og trúnni á
álfa og huldufólk.
Hjónavígslan var afstaðin, og allir dáðust að ræðunni. Það
var dálítill munur eða hjá honum Sigurði. Hann hefði aldrei
getað samið slíka ræðu, sagði unga fólkið, en það eldra hélt taum
hans. Hann var búinn að vera svo lengi prestur þar, þó margt
mætti nú auðvitað að honum finna og ræðunum hans.
Hamingjuóskirnar ætluðu aldrei að taka enda. Anna var farin
að skjálfa og þráði þá stund, sem hún gæti komizt inn í ofnhitann.
„Æ, þessi blessuð hamingja er nærri búin að gera mig inn-
kulsa,“ sagði hún við Þóru, þegar þær voru setztar inn í húsið,
fast við ofninn.
„Ég hélt, að þér hitnaði heldur af henni en kólnaði," sagði
Þóra.
„Tek ég mig ekki sæmilega út, Þóra? Er ekki kyrtillinn minn
fallegur?“ spurði Anna og horfði ánægjulega á spegilmynd sína.
„Þú ert guðdómleg!“ sagði Þóra.
Anna kyssti hana fyrir hólið, sæl og hégómleg.
„Ég skal lána þér kyrtilinn, þegar þú giftir þig. Þú verður að
gera það sem fyrst. Það er svo gaman að vera trúlofuð og gift.“
Þóra hló bara og hristi höfuðið.
Nú voru sett upp borð og borinn fram ljúffengur matur, en
unga fólkið var óþolinmótt og hugsaði með kvíða til þess að bíða
eftir, að allur þessi skari æti sig saddan og geta ekki farið að
dansa.
Loksins var þó máltíðin búin og borðin tekin upp. Spilarinn
kom sér þægilega fyrir í einu stofuhorninu. Helga á Hóli leit hann
ekkert hýru auga; hún var hálfmóðguð yfir, að maður hennar þótti
ekki nógu fær til að spila í veizlunni.
Svo byrjaði dansinn. Brúðhjónin fóru fyrst út á gólfið. Prest-
urinn og Lísibet húsfreyja voru næst. Jakob hreppstjóri dansaði
ekki. Svo komst öll stofan á fleygiferð. En inni í baðstofunni var
setið við spil. Allir skemmtu sér svo vel sem hægt var að hugsa sér.
Klukkan var orðin fjögur um nóttina, þegar Anna kom til
fóstru sinnar og sagðist ætla að fara að hátta og sofa.
„Guð komi til, barn. Hvað er að þér?“
„Ég er svo þreytt í fótunum, og svo er það svo leiðinlegt, að
halda höfðinu í þessum vissu stellingum. Ég kann svo illa við
skautið.“
„Nú gengur fram af mér,“ sagði Lísibet. ,Þú skalt setja þig
inn í hús dálitla stund og hvíla þig, en hátta máttu ekki; þú sérð
það sjálf, að þú verður að dansa og skemmta gestunum.“
Sigga gamla sat þar skammt frá; hún hló og sagði: „Þú verður
að dansa, Anna litla, þó að fæturnir dyttu af þér. að verður margur
að dansa nauðugur. Svona verðurðu nú þreytt á hjónabandinu.“
„Við skulum nú sleppa allri hjátrú, Sigríður mín,“ sagði
Lísibet og var auðséð, að henni þótti fyrir.
Anna bað Þóru að koma með sér inn í hjónahúsið. Þar settust
þær og Anna tók af sér skóna og lagði fæturna upp í annan stólinn,
en sat á hinum.
„Að hugsa sér hjátrúna. Heyrðir þú hvað Sigga sagði? Svona
eru þær líka, mamma og Borghildur. Þær eru svo daufar yfir
hríðarélinu, sem gerði í dag, og svo held ég, að þær hafi lofað
guð, þegar hlýnaði í gærkveldi. Þær halda að allt hjónabandið
fari eftir þessum eina degi. En því skyldi hún ekki hafa viljað
lofa mér að hátta? Ætli einhver hjátrúin hafi valdið því?“
„Já, heyrt hef ég það,“ svaraði Þóra, og það var ekki laust við
að hún fyndi til beiskrar ánægju yfir að geta sagt vinkonu sinni,
hvað það boðaði. „Ég hef heyrt, að ef annað hjónanna háttaði og
sofnaði á undan hinu, dæi það líka löngu á undan. Lísibetu langar
sjálfsagt ekki til, að Jón verði strax ekkjumaður."
„Herra trúr, að hugsa um dauðann á slíkum degi! Eftir þessu á
eg að deyja löngu á undan honum,“ sagði Anna raunalega.
„En þú háttaðir aldrei,“ flýtti Þóra sér að segja.
„En mig ætti þá bara að langa til að deyja frá honum. Það
væri voðalegt. Ef það kæmi fyrir, skyldi ég biðja drottinn að lofa
mér að vera nálægt honum, þó að bann sæi mig ekki. Nei; ég mun
ekki hugsa til þess. Það er of hryggilegt.“
„Góða Anna! Vertu ekki að grufla út í þessa vitleysu. Þú
hlýtur að eiga langa ævi fyrir höndum, svona ung og ham-
ingjusöm.“
,Það vona ég. Þetta er auðvitað ekkert annað en heimska,“
sagði Anna. „En nú skal ég sýna þér eitthvað af því, sem ég er
búin að sauma og hekla í búið.“
Hún fór að sýna Þóru ýmislegt, sem hún hafði saumað. Hún
hafði nú reyndar séð það flest áður.
„Það verður fínt hjá þér, Anna mín. Er þetta nú brúðar-
sængin?“ spurði Þóra og benti á tvö nýsmíðuð rúm, sem stóðu
hvort við hliðina á öðru með drifhvítu teppi yfir.
„Já, er það kannske ekki myndarlegt. Þetta teppi pantaði
mamma alla leið frá Reykjavík. Er það kannske ekki fínt. Og svo
ætlar hún að láta prestinn tauta einhver ósköp yfir rúminu.
Hefurðu nokkurn tíma heyrt annað eins? Mig langar til að hlæja
að því, en ég má ekki hlæja að neinu, sem mamma gerir; hún
hefir verið mér svo góð.“
Þegar þær höfðu setið dálitla stund inni, kom Lísibet með
prestinn við hönd sér og alla boðsgestina í eftirdragi. Presturinn
nélt langa og hjartnæma ræðu yfir hjónasænginni. Anna sat hjá
Þóru og smáhristist af hlátri; en Þóra var þögul og alvarleg og
óskaði þess bara, að hún væri komin heim. Þegar ræðan var úti,
fór hún að leita að föður sínum. Hann sat við spil í frambaðstof-
unni, vel ánægður.
„Eigum við ekki að fara að hafa okkur heim, pabbi? Er þig
ekki farið að langa til að hvíla þig,“ spurði hún.
„Það fer nú ekki sérlega illa um mig. Ég græði á tá og fingri,
og svo þessi blessaður brjóstylur öðru hverju. Ég held, að ég bíði
eftir birtunni,“ sagði gamli maðurinn.
Fyrst hann er ánægður, ætti ég að vera róleg, hugsaði Þóra.
Hvað þýðir líka annað. Það var orðið svo langt síðan, að hún sá
stjörnuna sína hrapa. Hún fór fram í stofuna, þar sem æskan lék
dátt, og dansaði þar til kinnarnar voru orðnar rósrauðar og augun
blikandi. •
Þá voru borðin sett upp aftur og drukkið súkkulaði og kaffi,
og ekki vantaði vínið til hressingar. Eftir það var stiginn dans
fram á dagmál. Þá fóru gestirnir að tínast í burtu.
„Ég hefði farið mikils á mis, ef ég hefði setið heima,“ sagði
Björn gamli, þegar hann kvaddi Lísibetu.
„Það er mér mikil ánægja, að þið komuð og að þú hefur
skemmt þér vel,“ sagði hún.
„Ég kem nú ekki aftur að Nautaflötum, fyrr en ég verð fluttur
í garðinn.“
„Það er nú ekki gott að vita, Björn minn. Við erum nú
skammsýn, og það er okkur líka fyrir beztu.“
Jón og Þóra leiddu hann á milli sín út í tröðina, þar sem Fúsi
beið með hestinn. Jón var mátulega glaður. Brúðguminn varð
alltaf að gæta allrar varúðar. Björn faðmaði hann að sér með
föðurlegri blíðu og óskaði honum alls góðs. Svo var honum komið
fyrir í hnakknum. En brúðguminn gerði sér hægt um hönd og
tók Þóru í faðm sér og kyssti hana, án þess að taka tillit til gest-
anna, sem fylltu hlaðið og bæjardyrnar.
„Gleymdu því ekki, Jón minn, að þú varst að gifta þig í gær,“
sagði Björn gamli.
„Helzt hefði ég viljað hafa Þóru þína við hina hliðina, Björn
minn,“ svaraði Jón brosandi. „Mér finnst syndlaust að ýta hnapp-
heldunni ofan fyrir hófskeggið svona öðru hverju.“
„Sjálfsagt fannst nú afa þínum það.“
„Það var nú skynsami maðurinn.“
„Enginn neitar því. Hann var gáfu- og gæðamaður.“
Fúsi teymdi hestinn, en Þóra gekk við hlið hestsins. Þau
þögðu öll, þangað til Björn sagði: „Áreiðanlega hefur þetta allt
verið eintómur uppspuni, þessi svívirðilega saga, sem gekk hér
um sveitina í vor.“
Þóra skildi hvað hann meinti. „Já, auðvitað. Hvað skyldi hún
svo sem hafa verið annað?“
|
VINIR í RAUNUM
Veturinn var kaldur og snjóasamur. Allir urðu fegnir, þegar
hann fór að telja af sér.
Björn í Hvammi hafði legið rúmíastur allan seinnihluta vetr-
arins. Þóra vissi, að hann færi ekki á fætur aftur. Hún reyndi ekki
að biðja himnaföðurinn um bata. Það var föður hennar fyrir beztu
að fá hvíld frá þjáningunum; en henni fannst tíminn lengi að líða.
Lísibet kom oft út eftir og tafði hjá honum. Hann var ævinlega
mikið hressari, þegar hún fór, en hann hafði verið áður.
Það var á annan í páskum, að hún heimsótti hann í síðasta
sinn. Nú er skammt að bíða leiksloka, hugsaði hún. Hún sat hjá
honum lengi. Þegar hún ætlaði að fara að kveðja, sagði hann:
„Við sjáumst nú sjálfsagt ekki framar í þessu lífi, Lísibet mín.
Ég verð feginn hvíldinni. Það er bara Þóra mín, sem ég ber
áhyggjur út af. Hún er einstæðingur, þegar ég er horfinn.“
„Það er ólíklegt, að önnur eins stúlka verði lengi einstæðingur.
Ef hún verður í nágrenninu, skal ég líta eftir með henni, ef hún
getur þegið það.“
Hann þakkaði henni fyrir það og allt gott, bað að heilsa
manni hennar og börnum.
Daginn eftir kom vinnukona frá Nautaflötum að Hvammi.
Hún átti að vaka yfir sjúklingnum með Þóru, meðan þess
þyrfti við.
Þóru þótti vænt um, því að hún var að gefast upp af þreytu og
vökum. Hún hafði eins og áður breytzt talsvert þennan langa
reynslutíma. Skapsmunirnir voru orðnir hlýrri og stilltari. Möggu
fannst, að hún þyrfti helzt alltaf að hafa föður sinn til að annast
hann veikan, ef hægt ætti að vera að lynda við hana.
Það dró meira og meira af sjúklingnum með degi hverjum.
Eina nóttina, þegar Þóra vakti yfir honum og hélt að hann svæfi,
fór hann að tala við hana:
„Hvað heldurðu nú að þú gerir, Þóra mín, þegar ég er ekki
lengur hjá þér? Líklega geturðu ekki verið hér við hliðina á
manninum, sem ég veit að þú elskar ennþá. Þú ferð sjálfsagt til
Ameríku. En hvað skyldi þá verða um jörðina?"
„Ég fer aldrei til Ameríku, pabbi,“ svaraði hún. „Hvergi gæti
ég fest yndi nema hérna í Hvammi. Mér leggst eitthvað til með
mann, vona ég. Mér þykir „yænt um að hafa hann í nágrenninu;
ég fæ þá að sjá hann öðru hverju og litlu börnin hans, sem ég veit,
að mér þykir eins vænt um og þó ég væri móðir þeirra.“
Það féllu nokkrar gagnsæjaf tárperlur ofan á hendur hennar,
sem enginn sá, nema augun, sem höfðu gefið þeim tilveruna og
hálfsyfjaða ljóstýran á lampanum. En sjúklingurinn talaði með
aftur augun:
„Það þykir mér vænt um, að þú vilt búa á jörðinni áfram.
Hún hefur svo lengi tilheyrt móðurættinni þinni. Þú ert góð og
dugleg stúlka, og ég veit, að þú lætur ekki Möggu frá þér.“
Svo talaði hann ekki meira.