Lögberg - 20.05.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 20.05.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 20. MAÍ 1954 S' . - V GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF ^---------- —r NÁGRANNAKONUR Strax í næstu viku byrjuðu réttarhöld og vitnaleiðsla. Erlendur var ákafur í lund og vildi láta þetta ganga fljótt. Páll bar sig eins og aumingi, hélt sér aðeins dauðahaldi í ritningargreinarnar og vonaði, að það mundi bæta sinn málstað svolítið. Bað himna- föðurinn að fyrirgefa meðbræðrum sínum, því þeir vissu ekki hvað þeir væru að gera. Um þennan hrútshaus, sem Erlendur væri að staglast á, sagðist hann ekkert vita annað en það, að Erlendur hefði vakið þau hjón af værum blundi eina nóttina með því að ríða húsum, eins og vitlaus maður, með hrútshaus í hend- inni, og talað eintóma vitleysu, sem hvorki hann eða kona hans hefðu botnað minnstu vitund í. En fjárhúsið hefði hann verið búinn að brjóta upp. Þegar hann var spurður, hvers vegna hann hefði læst fjárhúsinu, sem ekki væri vanalegt í sveitinni, svaraði hann því, að heimagangurinn hefði sótt inn í húsið og rifið heyið úr tóftardyrunum fram í garðann og legið í því. Hann sagðist búast við því, að Erlendur hefði verið svínfullur og gripið þennán haus með sér, til að koma sér í bölvun. Ketilríður var óviðráðanleg inni í réttarsalnum, sagði hann og lygi þessu öllu upp, og hefði engin vitni að því hvar hann hefði fundið þennan haus, því að allt hyskið á heimilinu væri svo skylt honum, að það gæti ekki borið vitni honum í vil. Páll var kjarkbetri, þegar hann vissi af konu sinni nærri sér. „Ef ég hefði kjarkinn hennar og orðgnóttina, þá þyrfti ég ekki að kvíða því að þeir træðu mig niður“, sagði hann hreykinn. Hún spurði Erlend, hvernig hefði staðið á því, að honum skyldi detta í hug að fara að heimsækja þau þessa nótt, hvort það hefði verið vani hans, að snuðra í fjárhúsunum á sumrin. Þá veik Erlendur dálítið frá sannleikanum og sagði, að sig hefði dreymt kynlegan draum um fjárhúsin á Jarðbrú, og að konu sinni hefði fundizt sláturlykt af reyknum kvöldið áður, þegar hún hefði verið að sækja kýrnar, og þess vegna hefði hann farið að leita þennan morgun, sem hefði borið góðan árangur. Hann vildi ekki segja, að drengurinn hefði gefið sér óviljandi bendingu með lausmælgi sinni, vegna þess að hann bjóst við, að Ketilríður berði hann til óbóta. Ketilríður var ekki kölluð aftur, en Páll var hafður í haldi nokkra daga meðan verið var að prófa í málinu. Ketilríður vann eins og berserkur við heyskapinn heima með krökkunum. Ef kýr nágrannanna komu í landareignina, setti hún hundinn á þær, svo að þær komu hálfþurrar heim, og sömu við- tökum sættu ærnar, þær komu heim bitnar eftir hundinn, sem var grimmur, og Ketilríður sparaði ekki að hvetja hann. Skap hennar sauð og ólgaði. Hún þráði það mest, að gefa því útrás, en gat ekki svalað sér á neinu nema skepnunum og krökkunum. um og krakkarnir voru sofnaðir. Það var örstutt milli bæjanna, að sér væri meinlítið við. Þau höfðu verið henni góðir nágrannar. Þangað hljóp hún á hverju kvöldi, þegar hún hafði lokið búverkun- um og krakarnir voru sofnaðir. Það var örstutt milli bæjanna, aðeins áin og eyrarnar sín hvorum megin hennar. Ána taldi Ketil- ríður engan farartálma, það var hressandi að vaða hana berfætt. Sigþrúður hellti alltaf á könnuna, þegar hún sá til grannkonu sinnar. Henni veiti ekki af hressingunni, vesalingnum. Og Ketil- ríður var fegin bæði kaffinu og hvíldinni á búrkistunni. „Það er góður þerririnn á degi hverjum“, byrjaði Sigþrúður vanalega samræðurnar. „Þú sætir líka alltaf, Ketilríður. Ég held það sé ekki breyskþurrt hjá þér“. „O, ég er þá ekkert að prútta um það, þó að hitni í því, það er ekki víst hver gefur heyin á Jarðbrú í vetur“, sagði Ketilríður. „Það má enginn vera að því að þurrka nema ég og þið hérna á Hjalla. Þeir eru ekki að hugsa um töðuþurrkinn núna, blessaðir Dalbændurnir. Þeir hafa öðru að sinna. Eins og það sé ekki til- vinnandi þó að töðurnar hrekist, ef hægt er að gera einn af smælingjunum ærulausan, hræða hann og þvæla, þangað til hann segir einhverja vitleysu, sem þeir geta hengt hattana sína á. Þeir hafa lengi steininn klappað hérna í dalnum með það að ljúga upp á okkur og reyna að koma okkur í burtu. Þeim tekst það líklega á endanum. Og Páll, þessi ræfilsdula, sem hver og einn getur vafið um fingur sér. Þeir eru alveg* hættir að kalla mig á kontórinn, hefur líklega fundizt ég heldur tannhvöss, ekki alveg eins auðmjúk og hann. Þeir vilja ekkert við mig eiga, déskotans ragmennin“. „Notaðu brauðið, Ketilríður“, sagði Sigþrúður. „Þér veitir ekki af því að hressa þig, eins og þú mátt vinna ein með börnin“. „Það er nú ekki nýtt, þótt ég taki til höndunum á mínu heimili, eins og þú hefur kannske séð þessi ár, sem við höfum verið hérna hvor á móti annarri“. „Jú, jú, það er vel líklegt“, skaut Sigþrúður inn í. „Maður verður að þræla, þegar mótparturinn er þessi dauðans puðari. En þó er aldrei autt þar, sem hnoðri húkir, og munur er þó að hafa hann heima en ekki neitt. En sárgrætilegast er þó að- geta ekki náð sér niðri á þessum kvikindum, sem setja mann í þetta öngþveiti. Ég gat nú látið kýrnar hennar Helgu nágranna- konu brokka suður mýrarnar í gærkvöldi. Ég vona, að það hafi ekki runnið út úr fötunum hjá þeim mjólkin úr þeim“. „Það var ljótt að sjá það, Ketilríður mín“, sagði Sigþrúður, „blessaðar kýrnar eiga svo bágt með að hlaupa“. Ketilríður hló ánægjulega. „Ég horfði líka á það með mikilli gleði. Lakast hvað hund- skömmin var latur. Ég hefði viljað, að hann færi með þær heim í túnið“. „Ekki hefði ég viljað, að farið væri svoleiðis með kýrnar mínar. Ekki hafa þó blessaðar skepnurnar gert þér neitt, Ketilríður“. „Þær verða að gjalda eigandans, þessa kvikindis, sem er að reyna að troða okkur ofan í skítinn, hvort sem honum tekst það eða ekki. Ég vildi að hann Páll hefði skapgerðina mína, þá ynnu þeir tæplega málið þetta“. „Vertu róleg, Ketilríður mín. Sannleikurinn ber alltaf sigur af hólmi“, sagði Sigþrúður sannfærandi. „Ekki aldeilis. Höfum við ekki dæmin deginum ljósari úr ritningunni um það, að dæmt er eftir Ijúgvitnum, þar sem blessaður lausnarinn var píndur til dauða alsaklaus“. Þetta fannst Sigþrúði stórkostlega talað. „Blessuð vertu, það er, nú svo langt síðan það gerðist. Það var öðruvísi dæmt þar en hér. Það var svo langt í burtu frá okkar landi. Það er ómögulegt að taka það til samanburðar. Það var líka hans vilji, að verða dæmdur og líða dauða fyrir okkur, synduga vesalinga. Slíkt kemur ekki fyrir hér í okkar tíð“, sagði Sigþrúður í talsverðum prédikunartón. „Ja, nú dámar mér“, sagði Ketilríður. „Hafa kannske ekki verið framkvæmdar galdrabrennur, hýðingar og hengingar á al- saklausum manneskjum. Svo 'ekki hefur mikið verið skárra hér en þar“. „Blessuð, láttu ekki kaffið verða kalt, og reyndu að vera róleg. Það veiztu þó, að aldrei verður Páll hýddur eða píndur á annan hátt til að játa, að hann sé sekur, ef hann er það ekki. Honum dettur aldrei í hug að segja, að hann hafi slátrað hrútnum, ef hann hefur aldrei gert það, og hvað er þá að óttast?“ „Eins og þú þekkir ekki bölvaða vesalmennskuna í honum Páli, sem lúffar fyrir hverjum sem er og flaðrar upp við hann. Það eina, sem hann reynir að borga fyrir sig með, er að naga í bakið á þeim, sem honum líkar ekki við, það er allt og sumt. Jæja, ég held mér væri nær að reyna að komast heim og hvíla mig eitthvað undir næsta dag“. Svo kyssti hún Sigþrúði svo fast, að hana verkjaði í andlitið, og var þotin af stað með það sama. Sigþrúður andvarpaði af fegin- leik yfir að vera laus við hana heilan sólarhring. Næsta kvöld kvöld mætti hún eiga von á nýrri heimsókn og nýjum fyrirlestri. Samt hellti hún á könnuna handa henni. Henni var unun að hressa þessa vesalings ógæfusömu konu, sem henni var heldur hlýtt til, þó að hún kynni ekki vel við málæði hennar og sleggjudóma um nágrannana. En þetta kvöld kom ekki Ketilríður. Hún hafði víst orðið sein fyrir með mjaltirnar, eða hún var lasin, þó að það væri ólíklegt, því að hún hafði aldrei orðið lasin, síðan hún kom í ná- grennið, nema þegar hún ól börnin sín. Sjaldan var hún þó frá verkum lengur en fjóra daga í lengsta lagi. Enda sá Sigþrúður það strax morguninn eftir, að hún gekk rösklega að slætti. Hún er ekki lasin sem betur fer, hugsaði Sigþrúður. Hvað yrði þá um krakkana, þó að þeir væru ekki skemmtilegir, voru þeir þó brjóstumkennanlegir að eiga slíka foreldra. Um kvöldið, þegar Sigþrúður sat með strokkinn milli hnjánna inn í búri, heyrðist henni eins og eitthvert annað hljóð bærist til sín framan úr bænum. Hún hætti að strokka og hlustaði. Það var grjáthljóð. Hvað gat þetta verið? Skyldi annar hvor drengjanna hafa skaðað sig á ljánum? Hún lagði strokkinn varlega upp að búrkistunni og leit fram í bæjardyrnar. Þar sat Páll Þórðarson og hágrét eins og krakki. „Guð komi til, Páll! Hvað gengur að þér, maður? Ertu veikur?“ spurði hún alveg hissa. Páll hikstaði upp sundurlausum setningum: „Það er allt búið. Þeir eru búnir að gera mig að sauðaþjófi, ærulausum manni — sauðaþjófi". „O, taktu þetta ekki svona nærri þér, Páll“, sagði hún „Sann- leikurinn er þó alltaf sagna beztur“. „Guð sé oss næstur“, veinaði Páll. „Þér dettur þó ekki í hug, að ég sé sekur? Það datt mér aldrei í hug, að þú tryðir því, Sig- þrúður, og þinn maður, þó að allir aðrir séu svo auðtrúa og illa innrættir, að gleðjast yfir ógæfu minni og vesaldómi“. „Já, en hvers vegna meðgekkstu þá, ef þú ert ekki sekur?“ spurði hún. „Hvað gerir maður ekki, þegar margir veitast að manni, spyrja mann og þvæla aftur á bak og áfram. Drotinn minn! Þær spurningar. Og svo sögðu þeir, að ég yrði að vera í haldi í allt sumar, já, víst alla ævina, ef ég meðgengi ekki. Heldurðu að þetta sé ekki hræðilegt, og heimilisástæðurnar eins og þær eru. Það verður líklega ekki mikið heyjað á Jarðbrú í sumar, en hvað gerir það til. Ég býst við að þeir hreki mig burtu frá jörðinni, og ég þarf heldur ekki að sjá eftir því að fara héðan úr sveitinni“. „Mikil ósköp“, greip Sigþrúður fram í. „Ketilríður vinnur eins og víkingur. Það svei mér gengur hjá henni þessa dagana“. „Ekki spyr ég að“, kjökraði Páll. „Ég get nú svona hugsað mér, að það sé dálítil skerpa í henni núna til geðs og gerðar, og Hún gerir út af við mig fyrir það að ég lét undan þeim. Hún var búin að margsegja, að hún gerði það, ef ég játaði að hafa tekið hrútskrattann“. „Komdu inn í búrið, Páll minn, og hvíldu þig stundarkorn, og það get ég sagt þér, Sigþrúður mín, að ég þori ekki heim til hennar. reyndu að verða rólegur. Ég skal biðja Þórarinn að fara með þér heim. Þá verður hún vonandi ekki mjög vond við þig“. Páll settist á búrkistuna. Sigþrúður bar fyrir hann skyr og mjólk og reyndi að tala í hann kjark. Svo fór hún að tala um, hvað tíðin væri góð og nýtingin á heyjunum eftir því æskileg, og reyndi með því að eyða vesalmennsku hans, ef unnt væri- „Það lætur öllum vel lífið nema mér þessa stundina, en það ber ekki allt upp á sama daginn, og vel gæti ég ímyndað mér það, að þeir miklu vinir, Erlendur á Hóli og Jón hreppstjóri og fleiri, ættu eftir að taka út launin fyrir það, hvernig með mig hefur verið farið þessa daga. Ég hef verið hrakinn og hrjáður; hvert orð, sem ég hef sagt, hefur verið hártogað og snúið út úr og hlegið að því, og svo segja þeir, að ég hafi orðið tvísaga og þrísaga. Þú getur ekki ímyndað þér, hvernig það er að standa frammi fyrir þessum mönnum; maður verður eins og aumingi og veit varla sitt rjúkandi ráð. Og seinast var ég búinn að játa þetta á mig, eiginlega áður en ég vissi af. En þá er eftir það, sem þyngst er, og það er að koma heim“. Það kom ný gráthviða að Páli. Þegar hún var afstaðin, sagði Sigþrúður: „Ketilríður er svo skynsöm kona, að hún hlýtur að sjá, að það er þýðingarlaust að vera að vonzkast við þig. Það er komið sem komið er. Er hún þér ekki góð kona? Ég spyr nú svona, því þó að við höfum nú búið hér í nágrenni þessi ár, er mér ókunnugt um, hvernig sambúð ykkar er“. Páll þurrkaði sér um augun áður en hann svaraði: „Nei, hún er mér ekki góð kona, og hefur aldrei verið það. Það er nú eitt- hvað annað. Ég býst við að þér ofbyði, ef þú heyrðir til hennar, eins og þú ávarpar þinn mann. Alltaf þessi lítilsvirðing og útskit hvað sem er. Hún stjakar við mér og hrindir, þegar við erum í samverki. Þá finnst henni ég vera fyrir sér, þegar mesti kraftur- inn er á henni. Og svo nöfnin, sem hún velur mér. Ég hvorki get né vil hafa þau eftir“. Páll tók upp silfurbúna tóbakspontu, tók tappann úr henni og fékk sér í nefið. „Já, þetta er rétt, hresstu þig á tóbakinu, Páll minn. En hvað þetta er falleg ponta, sem þú átt þarna; það er ég viss um, að Ketilríður hefur gefið þér hana, þegar þið voruð í tilhugalífinu“, spaugaði Sigþrúður. „Ónei, það gerði hún nú reyndar ekki, en samt var mér sama sem gefin hún, eða að minnsta kosti þurfti ég ekki að telja út fyrir hana. Hún má nú sjálfsagt muna sína daga fegurri, greyið. Hann var nú víst einn af heldra dótinu, maðurinn sem átti hana á undan mér. En hann gat látið sig í það, að borga mér ekki það, sem ég átti hjá honum, áður en hann gaf sig upp eða spilaði sig á hausinn. Þess vegna hirti ég pontuna hans við tækifæri. Það má svo kalla það þjófnað, ef það þykir það, en máltækið segir, að það sé jafnan óvandaður eftirleikurinn. Hvað segirðu um það, Sigþrúður mín?“ „Já, það er ég ekki manneskja til að dæma um“, svaraði hún og vildi helzt ekki tala meira um þetta. Páll sneri pontunni milli handanna, eins og hann væri að dást að því, hvað hún væri skrautleg. „Ójá, það er bezt að dæma ekki, svo við verðum ekki dæmdir. En það má hann þó eiga, mann- greyið hann Jón á Nautaflötum, sem allir eru nú farnir að kalla hreppstjóra, en ég man aldrei eftir því að kalla hann því nafni, því mér finnst hann alltaf yera sami ófyrirleitni strákurinn og hann hefur verið, að hann sá um, að ég hefði alltaf nóg á pontunni allan þennan hörmungartíma, og bita gaf hann mér að skilnaði. Kannske hefur honum fundizt hann þurfa að friða samvizkuna með því, mannskræfan kannske verið eitthvað óvær“. „Jón hefur alltaf verið gæðapiltur, og ég efast ekki um, að hann verði það, þó að hann sé orðinn hreppstjórk Hann hefur ekki gert annað en það, sem var skylda hans í þessu máli“, sagði Sigþrúður alvarleg. „Við skulum ætla, að það hafi verið skylda hans að rífa mig í sig eins og hrafnar hrossskrokk“. Hraustlegt fótatak gerði endi á samræðurnar. Það færðist inn göngin, og svo var kallað, hvort nokkur maður væri inni í búrinu. Það var Ketilríður. „Hana, þar byrjar orustan", tautaði Páll, og kjarkurinn, sem hafði aukizt dálítið yfir matnum og tóbakinu, féll niður fyrir núll með það sama. „Þetta lítur dálítið kynduglega út“, sagði Sigþrúður og opnaði búrhurðina brosandi. „Hér sit ég með manni þínum og halla aftur búrinu, og svo kemur þú að öllu saman. Ég vona, að þú verði ekki afbrýðissöm, Ketilríður mín“. „Afbrýðisöm? Hvernig heldurðu að nokkur manneskja sé hrædd um svona skepnu?“ gusaði Ketilríður úr sér um leið og hún tróðst inn úr dyrunum. „Og þarna húkir þú eins og, ég veit ekki hvað ég á til að taka“, byrjaði hún og kom tæplega upp orði fyrir geðofsa. „Blessuð, seztu þarna hjá honum“, bauð Sigþrúður. „Ég skal hella á könnuna á svipstundu“. „Þú veizt sem er, að ég hef nóg vinnufólkið heima, og get látið það eftir mér að sitja og masa frá flötum flekkjunum“, sagði Ketilríður, en var þó talsvert mýkri í máli en áður. „Ekki held ég að þig vanti nú vinnufólkið. Ég veit, hvað mínir drengir eru farnir að hjálpa okkur, og eru þeir þó ekki nema tveir, en þú, sem átt fimm, þó þáu yngstu séu ekki til mikils ennþá, þá er þó þetta áframhaldandi vinnufólksröð hjá þér“. Sigþrúður bjóst við, að þetta væri þó umtalsefni, sem hlyti að þýða skapsmuni þessarar stórfenglegu konu eins og flestra annarra mæðra. En það leit út fyrir að það hefði gagnstæð áhrif á Ketilríði. „Jú, jú. Við höfum ekki lifað eftir landsvenjunum hérna í dalnum, hvorki með það né annað, hrúgað niður krökkunum af tómri vanþekkingu og fyrirhyggjuleysi. Flestir, bæði þú og aðrir, láta sér nægja eitt og tvö. Allt í sparsemisáttina og skírlífisins. Svo það eru engin undur, þó að við höfum verið litin hornauga, og líklega batnar ekki álitið við þessa „reisu“, enda býst ég við, að það verði reynt að gera alvöru úr því að ýta okkur í burtu. Það hefur lengi verið unnið að því í kyrrþey. Þótt hann þætti nú eðallyndur gamli hreppstjórinn, og færi heldur hægar en sonur hans, djöfullinn sá . . .“ „I guðsbænum, blótaðu ekki, Ketilríður“, greip Páll fram í. „ . . . þá gat hann þó gert svo lítið úr sér og sínum miklu mannkostum að reyna að plokka undan okkur kotið. En þótt hann færi varlega, komst ég þó að því. Hún er ekki alltaf betri sú músin sem læðist, en sú sem stekkur“. Sigþrúður hafði verið að bogra yfir strokknum meðan ná- grannakonan lét dæluna ganga við búrdyrnar. Nú rétti hún úr sér og sneri sér að gestinum. „Jakob var dyggðamaður. Það ber honum víst enginn annað“, sagði hún einbeitt. „Hver efast um það?“ sagði Ketilríður. „Það er víst ekki blettur á neinum, þótt hann reki olnbogann, svona í laumi, í þá, sem allir aðrir hnippa í og heita réttu nafni olnbogabörn“, anzaði Ketilríður, en var nú ekki eins hávær og hún hafði verið áður. Hún færði sig inn fyrir Sigþrúði, alveg inn að borðinu, þar sem maður hennar sat. Páll minnkaði allur og seig saman, þegar hún nálgaðist hann, því hann sá, að hún var í sínum versta ham. „Hvað ert þú eiginlega að hengslast hér inni 1 búri, og hefur verið að sleikja í þig mat? Gaztu ekki haft þig heim eins og hver annar almennilegur maður? Hélztu kannske að ég sæi ekki til þín hérna utan að, eða þekkti þig ekki!“ þrumaði hún. „Ég býst ekki við, að það sé til fagnaðar að flasa að koma heim‘, vældi hann skjálfraddaður. „Þú veizt hvað þú hefur aðhafzt. Ég þóttist skilja það á kveðj- unni, sem Erlendur nágranni sendi mér, að þú hafir látið það eftir þeim að játa, að þú hafir étið gula hrútinn“. „Þú mátt ekki vera svona vond við hann, Ketilríður“, tók Sigþrúður til máls. „Hann er alveg niðurbrotinn maður. Þú verður að láta skynsemina ráða og vera góð við hann. Páll tók á því litla, sem hann átti til af þreki, reis á fætur og skjögraði fram á gólfið. „Það/er ekki um það að tala, ég kæfi mig heldur í ánni en að fara heim með þér. Fyrst þú lætur svona á ókunnugum bæjum, þá veit ég, hvað bíður mín heima“. „O, sei, sei, það er þá ekki í fyrsta sinn, sem þú þykist ætla að kæfa þig og hengja, ómennið þitt“, sagði Ketilríður og hló hrottalega. Svo sneri hún sér að Sigþrúði og sagði: „Þarna sérðu nú hvaða drusla þessi manngarmur er. Heldurðu að það sé ekki skemmtilegt, að vera gift svona peyja?“ „Þú ert búin að gera hann að þessum aumingja með fjarskan- um og vonzkunni“, sagði Sigþrúður einarðlega. „Ég skal hýsa hann í nótt, svo hann geti þó sofnað rólega Þú ættir að hugleiða, hvað honum hefur liðið illa undanfarið, og taka ekki svona á móti honum“. „Ég get ekki sagt að ég hafi sofið nokkurn væran dúr allan þennan tíma“, vældi Páll, „og tek mér það til þakkar, að þú lofir mér að vera í nótt, Sigþrúður mín“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.