Lögberg - 19.08.1954, Síða 6

Lögberg - 19.08.1954, Síða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 19. ÁGÚST, 1954 s—------— ^ GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF r „En sú skreytni í kerlingunni, að segja að hann hafi gist í Haga um nóttina“, sagði Anna við Ketilríði, þegar þær voru setztar inn aftur. „Já, svona er þvættingurinn“, sagði Ketilríður með vandlæt- ingarsvip, „og %svo verður manni það á að hafa þetta eftir skraf- skjóðum. En eitthvað hefur nú samt verið hæft í þessu, það þykist ég vita. Ekki vissi hún neitt um þessa prjónavél, sem hingað var væntanleg. Svo skulum við ekki hugsa meirá um það, góða mín. Ef ég hefði verið skynsöm, hefði ég ekki átt að minnast á þetta við þig. Hann á annað skilið af mér, blessaður húsbóndinn, en það, að ég sé að flytja um hann sögur. Það gera það nógu margir samt. Seztu svo hérna hjá mér. Ég hef sjálfsagt einhverja sögu handa þér; varla eru þær allar týndar". Anna sat hjá henni allan daginn, þangað til vinnufólkið kom og farið var að kveikja. Ketilríður sagði henni hverja söguna af annarri. Hún kunni ógrynni af kónga- og drottningasögum, huldu- fólkssögum og jafnvel draugasögum, en þær vildi Anna ekki heyra. Krakkarnir voru farnir að hlusta líka, þegar svo dimmt var orðið, að þau sáu ekki til að leika sér úti. En hún lagði ekki nokkurri manneskju illt til, Önnu til mikillar ánægju. Hún var áreiðanlega búin að setja sér það, að verða ný og betri manneskja. Því hafði hún líka lofað henni, ef hún skyti skjólshúsi yfir sig. Henni var nú algerlega bötnuð gigtin, og það þakkaði hún Borg- hildi og andarnefjulýsinu. Morguninn eftir, þegar hún var að drekka kaffið við eldhús- borðið með Önnu. sem hafði farið óvenju snemma á fætur, kom Þórður inn með nýrökuð sauðskinn, sem hann breiddi á gólfið, hellti í þau blásteinsvatni, vafði svo hvert skinn vandlega saman og lagði það til hliðar. „Mikið búmannsefni ert þú, Þórður minn“, sagði hún brosleit. „Konan þín þarf ekki að hugsa um að lita skinnin, þegar þar að kemur“. En Þórður, sem ennþá var í þungu skapi, svaraði því einu, að sér fyndist svona lagað tilheyra húsbóndanum, en ekki konunni. Svo fór hann út með skinnbögglana. „Ójá“, sagði Ketilríður og horfði með dómarasvip á eftir honum. „Óvíða sér maður nú svipljótari mann en Þórð greyið. Ég heyrði líka dálítið eftir honum um daginn, sem flestir almennilegir menn hefðu sjálfsagt hikað við að láta út úr sér“. „Hvað var nú það?“ spurði Anna forvitin. „Það var nú ekkert annað en það, að ég átti að spilla þér svo við alla, einkanlega þó við húsbóndann, að heimilið væri ekki orðið þekkjanlegt fyrir sama heimili og það var, áður en ég kom hingað. Þú værir svo mikill einfeldningur, að þú tryðir öllu“. „Að ég væri einfeldningur!“ sagði Anna og brá litum. „Engin húsmóðir getur tekið því vel, að hjúin nefni hana svo lítilfjörlegu nafni“. Þá kom Borghildur fram úr búrinu; hún hafði verið að sýsla þar eitthvað í myrkrinu. Hún gegndi fram í samtalið og var óþarflega hátöluð, eins og alltaf, ef henni rann í skap: „Það er alveg óþarfi að vera að koma með svona þvætting hingað. Við Anna erum svo kunnugar Þórði, að við vitum, að hann hefur aldrei talað þetta. Ég hef verið honum samtíða, að heita má síðan hann fæddist, svo að ég þarf ekki að láta lýsa honum fyrir mér“. „Nú, jæja, góða mín. Ég hefði ekki farið að fleipra með þetta, ef mér hefði dottið í hug, að þú tækir þér það svona nærri“, sagði Ketilríður og brosti sínu lævíslega brosi. „En ég trúi þessu vel“, hélt hún áfram. „Hann hefur eitthvað undir brúninni, hún er ekki svo létt. Og það lítur út fyrir, að honum sé ekki vel við mína afturkomu hingað á heimilið“. Ketilríður gekk til baðstofu, en hafði þó yfir hálfa vísu á leiðinni: „Vinur fær er margur mér, meðan hlær í eyra“. „Ég vona, að þér detti þó ekki í hug að trúa þessu, Anna“, sagði Borghildur. „Ég á bágt með að trúa því“. „Varaðu þig á henni, svo að hún komi ekki óánægju inn á heimilið aftur“. „Ég hélt, að hún væri orðin miklu betri en hún var, enda lofaði hún því“, sagði Anna. „Þá eru nú sokkagarmarnir búnir“, sagði Ketilríður, þegar Anna kom inn. „Þér er líklega bezt að fara að koma með ullarhár; eitthvað þarf að hugsa fyrir vefnaðinum, ef ég á að vera ein við spunann með Sigurlínu litlu“. „Ég tek spunakonu, því að Borghildur fer víst í burtu ein- hvern tíma, ef prjónavélin kemur. Þetta er nú meiri dugnaðurinn í þér, að vera búin með sokkana strax“, sagði Anna og fór fram aftur til að ná í eitthvað handa henni að vinna. Rétt á eftir kom Lína inn með stóran poka, fullan af hvítri vorull, og setti hann við rúmið hjá Ketilríði. „Þarna færðu eitthvað að dunda við“, sagði Lína. „Hvenær ætlar þú að koma á skákina til mín?“ sagði Ketil- ríður. „Það er eftir að svíða ögn af fótum ennþá“, sagði Lína og fór fram að dyrunum. „Hvað heyri ég?“ sagði Ketilríður. „Eruð þið ennþá í slátrun- um? Það hefur vantað Kötlu gömlu núna“. „Já, nú vantaði Kötlu“, sagði Lína hlæjandi, en þó hissa á því, að Ketilríður skyldi kalla sjálfa sig þessu nafni, sem á sínum tíma hafði gert hana hamslausa af reiði. „Lína litla er alltaf sama fiðrildið“, sagði Ketilríður við Önnu, sem var setzt fyrir framan hjá henni. „En anzi sýnist mér hún vera orðin grá og framúrleg, skinnið. Ætli hún sé farin að sofa hjá Þórði?“ Anna leit á hana, alveg hissa. „Sofa hjá honum Þórði, innan um allt fólkið í baðstofunni? Ósköp er að heyra til þín. Ég er alveg hissa á að þér skuli detta þetta í hug, Ketilríður“. Ketilríður hló dillandi hlátri. „Okkur dettur margt í hug, þessum kerlingum, sem búnar erum að flækjast víða og sjá margt. Og áreiðanlega er þó eitthvað á milli þeirra, það er ég búin að sjá fyrir löngu. Og þá langar fólkið til að fara að lúra saman“. „Svoleiðis hefur aldrei komið fyrir á þessu heimili, hvorki fyrr né síðar, enda veit ég svo sem ekki hvað hún mamma sáluga hefði sagt yfir slíku háttalagi. Eða þá hún Borghildur?“ sagði Anna með vandlætingarsvip. / „Jú, það kann nú að vera“, sagði Ketilríður og hló ennþá þess- um dillandi hlátri. „Þær voru báðar siðavandar. Hún er nú líka gömul sagan um bjálkann og flísina, eða kannske það sé spak- mæli?“ bætti hún við. „Aldrei höfum við Borghildur getað séð það, að nokkuð væri á milli þeirra Þórðar og Línu. Hún er svona kát við alla“. „Og hann sami þurrdrumburinn við alla“, greip Ketilríður fram í. „Þið eruð nú víst ekki mjög glöggar á það. Að minnsta kosti hafið þið ekki augun mín. Við sjáum nú hvað setur. Kannske verður trúlofunargildi á jólunum, Anna mín“. „Það yrði gaman“, sagði Anna. „Þá skyldi ég svei mér dansa“. „Heldurðu það yrði veizla? Það er kannske ekki ómögulegt, að húsbóndinn gæfi manni út í, þegar blessaður vinurinn hans setti upp hringinn“. Ketilríður var svo kát, að Anna var alveg hissa. Hún gerði sér allt til gamans. Hún sagðist bara vera hissa á því, 'að Borg- hildur skyldi geta liðið Sigga það, að ganga étandi úr búrskápun- um. Hann væri nú orðinn helzt til þess. Anna var ekki neitt að hugsa um búskapinn. Hann var utan við hennar umhugsunarefni. Það var Borghildur, sem hugsaði um, að eitthvað væri til að bíta og brenna. Siggi mátti víst éta eins og hann vildi, en hún bjóst við að hann gerði það ekki. Hún bað Ketilríði blessaða að segja sér heldur sögu, og það gerði hún náttúrlega undir eins. En því miður komst Anna að því, að hún var ósköp lík því, sem hún var áður. Hún sá nýjar flísar í augum heimilisfólksins á hverjum degi, en hún fór sér hægara en húr? hafði gert áður. Talaði aðeins um það við hana, en lét aldrei falla ónotaorð til þess, svo að það heyrði sjálft. Haustið hafði verið hlýtt og gott. En úr veturnóttum skipti um og gerði hríðar og kulda. Jón var á ferðalögum bæði ofan í kaupstað og fór ýmsar aðrar ferðir, sem tilheyrðu hreppstjóra- starfinu. Oft var hann hreifur af víni, þegar hann kom heim. Það var svo hressandi í kuldanum, að hafa eitthvað á vasapelanum. Ketilríður talaði oft um það, hvað drykkjuskapurinn væri ó- skemmtilegur, þessi hávaði og glumrugangur, áflog og óhemju- skapur. Það væri ekki von, að nokkur kona gæti tekið hlýlega á móti manni sínum, þegar hann kæmi heim þannig á sig kominn. Enda gerði það ’enginn maður, sem þætti vænt um konuna sína, ef hann vissi, að henni væri það á móti skapi. Ekki sagðist hún vita, hvað sínum manni hefði verið fjær skapi en að koma kenndur heim, og hefði honum þó þótt gott vín. En það hefði nú verið maður, sem hefði farið eftir því, sem konunni var þóknanlegt, en ekki anað áfram bara eftir eigin geðþótta, eins og sumir menn gerðu. „Það hefði nú held ég ekki farið honum Páli vel að drekka“, sleppti Anna fram úr sér, áður en hún vissi af. Ketilríður roðnaði við lítilsvirðinguna, sem lá í orðum hús- freyjunnar. „Hann hefði víst ekki hegðað sér verr en þeir, sem borgin- mannlegri þykjast vera og meira er látið með. Varla hefði hann farið að þvælast utan um kvenfólk með óviðkunnanlegu orðbragði, eins og maður heyrir um þá suma“, sagði Ketilríður. „Þær hefðu víst ekki margar viljað hlusta á hann“, hugsaði Anna, en sagði það ekki upphátt. „Það var hún maddama Helga í Hraundölum, sem fljótlega vandi manninn sinn af drykkjuskapnum. Hún sagði, eins og satt er, að það væri ósköp leiðinlegt að hugsa til þess, að myndarmenn gerðu sig að umtalsefni allrar sveitarinnar fyrir þessa ólyfjan, og gætu verið að þvælast með stelpum, sem þeim dytti ekki í hug að heilsa, þegar þeir væru með réttu ráði. Já, það var nú kona, sem vissi hvernig hún átti að hafa það“. „Hvernig gat hún vanið hann af því að drekka?“ spurði Anna. „Hún var bara nógu köld og ákveðin við hann, þegar hann kom heim“. „Það er nú alveg öfugt við það, sem mamma sagði“. „Hún átti nú ekki drykkjumann, konan sú“, sagði Ketilríður. Og svo talaði hún margt og mikið um þá miklu konu, hana Helgu í Hraundölum og hennar siði, og sá sér til mikillar ánægju, að orð hennar voru ekki látin eins og vindur um eyrun þjóta. Anna fór að verða kaldari í viðmóti við mann sinn, þegar Ketilríður var búin að halda nógu margar ræðurnar yfir henni. Jón átti dálítið hjá henni síðan um sumarið, að töðugjöldin voru drukkin. Hún gat ekki borgað það í neinu, sem honum kæmi verr en kaldlyndi konunnar. Hann var einn af þeim fáu eiginmönnum, sem var jafn blíðlyndur við konuna eftir ellefu ára sambúð og meðan þau voru trúlofuð. Það var komið fram að jólaföstu. Halldór læknir hafði átt afmæli daginn áður. Jón var boðinn ofan eftir og kom ekki heim um kvöldið, sem varla var von. En þennan dag var hann heldur ekki sjáanlegur, þótt komið væri fram undir háttatíma. Ketilríður hafði þann sið, að sitja inni í hjónahúsinu og segja Önnu og krökkunum sögur, þegar Jón var ekki heima. En þegar hann kom inn, flýtti hún sér fram fyrir. Það var engu líkara en að þau gætu ekki verið undir sama þaki til lengdar. Jakob sat við rúmið hjá móður sinni, sem var háttuð. Hann hafði verið að lesa í smásögum fyrir hana, þegar Ketilríður tók sér málhvíld og leitaði að nýrri sögu í sínum ótæmandi fræðum. Þá heyrðist gengið um frammi. „Nú er pabbi að koma“, sagði Jakob glaður. „Það er mikið, að hann skuli nokkuð vera að hafa fyrir því“, sagði Ketilríður háðslega. „Hverslags myrkur er hér?“ sagði Jón frammi í baðstofunni. Jakob opnaði húshurðina, svo að birtan félli fram í ljóslausa baðstofuna. „Sæll, vinur minn“, sagði Jón. Drengurinn hljóp á móti honum og kyssti hann. Dísa gerði það sama. Hún tók allt eftir Jakobi. „Sælar verið þið“, sagði Jón og kom inn í húsdyrnar. „Ertu háttuð, góða mín?“ sagði hann. „Kannske eitthvað lasin?“ „Hún er alveg frá af höfuðverk11, gegndi Ketilríður. „Hún hefur verið að hlusta á sögurnar, sem ég hef verið að lesa“, sagði Jakob og hljóp inn að rúminu til móður sinnar. „Þú ert þó líklega ekki sofnuð, mamma. Pabbi er kominn heim“. „En að þú skulir láta svona, barn“, sagði Ketilríður í um- vöndunartón. „Hún hefur verið að sofna“. „Hún var vakandi núna rétt áðan“, sagði Jakob. „Hvað viltu, góði minn?“ spurði hún og leit upp syfjuleg á svip- „Sjáðu, pabbi er kominn“, endurtók Jakob. „Þú hefðir ekki átt að vera að vekja hana“, sagði Ketilríður, „hún er alltaf síhrædd um þig á þessum folaglanna“, bætti hún við og sneri máli sínu til Jóns. „Það er alveg óþarfi að gera sér grillur út af okkur Fálka litla. Hann er farinn að spekjast. Allra sízt lætur hann mikið í svona færð“. Jón fór inn að rúminu og heilsaði konu sinni með kossi. „Hvers konar óskaplegur kuldi er á þér, maður?“ sagði hún, „þú kemur bara svona inn að rúmi utan úr frostinu“. „Oho, það er nú ekki svo, að þú sért sængurkona, svo myndar- legt er það ekki“, sagði hann frekar kuldalega. „Og svo sporarðu gólfið“, sagði Anna og horfði með van- þóknun á sporin á hvítskúruðu gólfinu. „Skárri er það sörlinn þú ert, maður“. „Ég lít út eins og þegar ég kom í hlaðið“, svaraði hann. „Ég sé hvergi ljós eða manneskju nema hér. Hvar er eiginlega allt fólkið?“ Ketilríður varð fyrir svörum: „Stúlkurnar eru víst að sjóða slátur frammi í eldhúsi. Ætli að karlmennirnir húki þar ekki yfir þeim? Þeir kunna líklega bezt við sig þar, sem matarlyktin er“. „Ég er bæði kaldur og svangur. Ég hef meira gengið en setið á hestinum. Færðin er afleit. Það hefur hlaðið niður í nótt“, sagði hann. „Þá hefði verið betra að hafa sig heim í gærkvöldi“, sagði Anna ásakandi. „Það var ekki hægt. Við vöktum í alla nótt“. „Það borgar sig þá fyrir þig, pabbi“, sagði Jakob, „að setjast hérna við ofninn. Þar er svo hlýtt“. , „Jæja, elskan, er heitt við ofninn. Ég er nú ekki svo vesæll, að ég þurfi að baka mig við ofninn“, sagði hann hlýlega og kyssti drenginn. „Þú ert alltaf svo góður. Vakir eftir pabba þínum og villt láta honum líða vel. Farðu nú að hátta. Ég ætla að vita, hvort ég get ekki haft upp á Borghildi, og hvort hún hefur ekki eitthvað handa mér að borða. Svo kem ég til þín“. Svo fór hann fram. Anna bað Ketilríði blessaða að reyna að finna einhverja dulu til að þurrka bleytuna af gólfinu, og horfði á, hvort hún gerði það nógu vel. Svo hlúði hún vel að sér sænginni og bað Jakob að fara að hátta. „Það er pabbi, sem þyrfti að fara að hátta“, sagði Jakob, „hann sagðist var kaldur“. „Hann gerir það sjálfsagt, þegar hann er búinn að fá sér mat“, sagði Anna. Drengnum fannst, að hana langaði til að segja: „að hún hlakkaði ekki til að fá hann í sænginaö þetta sinn“. „Mamma, heldurðu að hann sé drukkinn?“ spurði hann lágt. „Vertu ekkert að hugsa um það, góði minn. Við skulum bara reyna að sofna“. „Ég held, að það hafi verið lítið, mamma. En þú hefðir ekki átt að tala um það, að hann sporaði gólfið. Honum leiddist það“. „Svona, elskan mín. Farðu að lesa bænirnar þínar og sofna“. „Já. Góða nótt, mamma“. „Góða nótt, elskan mín. Má ég ekki biðja Ketilríði að slökkva ljósið?“ „Nei, ég vil láta það loga, þegar pabbi kemur inn“. Jón fann stólinn sinn frammi í eldhúsinu, þó að dimmt væri, og settist. Hér var myrkur, en notalega heitt. Óneitanlega var þetta daufleg heimkoma. Öðruvísi hafði faðir hans komið að heimilinu. Þá hafði kona hans alltaf vakað eftir honum, haft til heitan mat handa honum og fært hann úr ferðafötunum, þegar hann var slæptur og kaldur. Hann hafði náttúrle^a alltaf komið heim ódrukkinn, en slíkt hefði kona hans varla sett fyrir sig. Öðru máli var að gegna með hann sjálfan. Hann var vanur því að koma seint heim, bæði fyrr og síðar. Þegar hann var barn og unglingur, vakti Borghildur alltaf eftir honum. En eftir að aldurinn og þreytan fór að gera hana meira þurfandi fyrir hvíldina, lét hún það nægja, að láta kaldan mat bíða hans á eldhúsborðinu. Ef hún væri ekki, hvað þá? Hvernig skyldi heimilið líta út, ef sú kona væri þar ekki? Það var ekki svo gott að svara þeirri spurningu. Hann hafði alltaf vonazt eftir framförum hjá konu sinni, þegar hún eltist. En sú von hafði brugðizt. Líklega hafði sorgin og ást- vinamissirinn gert hana ennþá ólíklegri til þess að geta uppfyllt þær óskir og látið þær vonir rætast. Nú var hún orðin þrítug kona, en alltaf sama værukæra og framtakslausa heimasætan, sem let allar búsáhyggjurnar hvíla á Borghildi. Samt var eins og enginn væri hissa á því, þvert á móti fannst víst öllum það sjálfsagt. Hún var góð kona og elskaði allt, sem hann elskaði, eins og hann hafði óskað í fyrstu, Nautaflatir, dalinn, minningu foreldra hans og hann sjálfan. Og hún var ástrík móðir þessa eina barns, sem þau áttu. En hann bjóst þó við, að hún elskaði sjálfa sig og rólegt líf mest. En hann hafði kosið, að hún væri talsvert öðruvísi, hugsaði um fénaðinn og hestana með honum, horfði með aðdáun á eftir honum, þegar hann riði úr hlaði á óstýrilátum ungviðum, riði við hlið hans eftir dalnum á harðaspretti. Það hafði hún gert fyrstu árin, og hann hafði verið hrifinn af því, hvað hún var falleg, með mikla, bjarta hárið og bláu, sakleysislegu augun. En nú var það sjaldan, sem hún vildi koma á hestbak. Hún hafði víst engan áhuga eða ánægju af því. Hann var búinn að sjá það fyrir löngu, að það var ekki nema ein kona, sem gat setið á hesti við hlið hans, án þess að hann þyrfti að halda aftur af Fálka. Og það var kona, sem hægt að vera hreykin af. Þó að hárið væri ekki eins fagurlega litt, þá var það mikið, og svo kunni hún að láta hestinn bera sig svo vel og brúnu augun tindruðu, þegar hestarnir höfðu tekið skarpan sprett. Hún hefði ekki talið það eftir sér, að vaka eftir honum. Hún sýndi það, að hún þurfti ekki að sofa hálfan sólar- hringinn. Hún hefði dregið af honum vosklæðin og haft til handa honum heitan mat. Og varla hefði hún farið að setja upp vand- lætingarsvip eða snúið sér frá honum í sænginni, þótt hann hefði Verið svolítið kenndur. Nei, ást hennar var heit og sterk eins og hún sjálf. Hún hefði ekki kólnað, þó að einhver rógtunga hefði setzt nálægt henni og farið að segja henni sögur af einhverju maddömuskassi í Hraundölum, sem yfirgekk svo eiginmann sinn, að hann þorði ekki að bragða vín, þó að hann dauðlangaði til þess. Hún var mikil vesalmennskan. Hún hefði líklega beðið sögu* kvendið að halda sér saman eða hlegið að söguþvættingnum. Him hafði einurð á að segja meiningu sína, konan sú.

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.