Lögberg - 09.12.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 09.12.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 9. DESEMBER 1954 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Þarna stendur þá stelpuræksnið! Ég held að ég verði að heilsa upp á hana, fyrst ég er á ferðinni“. Svo mýkti hann róminn, þegar hann kom heim á hlaðið: „Sæl og blessuð, heillin! Það er aldrei, að þú ert orðin bústin og blómleg. Guð blessi þér heimsóknina“. Lína skellihló að eftirhermuleik hans, en sagði svo í um- vöndunarróm: „Að þú skulir geta fengið af þér að herma eftir kerlingarhrotunni. Þú kemur líklega í bæinn?“ „Nei, ég hef brýnni erindum að gegna úti á bæjum“, sagði Siggi. Svo bætti hann við um leið og hann hljóp áfram: „Það má nú segja, að Ketilríði hefur þótt vænt um þig. Hún er hreint alltaf á ferðinni milli bæjanna síðan þú komst hingað; en það eru reyndar fleiri, sem ekki eru þó vanir að vera á bæjarrölti. En hvað er að tala um það, þegar ástin er annars vegar“. Svo veifaði hann í kveðjuskyni og var með það sama horfinn út í hríðarélið, en Lína horfði kafrjóð og brosandi á eftir honum. Hún vissi það, að hann hafði lengi haft grun um, að það væri gott á milli hennar og Þórðar. Morguninn eftir, þegar verið var að borða morgunverðinn, kom Friðrik litli inn og sagði þær fréttir, að nú væri Ketilríður enn á ferðinni. „Hún er farin að koma æði oft nú í seinni tíð“, sagði Sig- urður bóndi. „Ég held það sé gott að hún kemur með smjör handa okkur meðan hún Bauga ber ekki“, sagði Kristín litla. Lína sat með Boga litla og var að Hjálpa honum til að borða, og gat því ekki forðað sér, áður en gesturinn kom. Björn fór til dyranna og kom með Ketilríði inn aftur. Hiin heilsaði fólkinu, og bað Guð að blessa því matinn og heimsóknina. Svo gekk hún til Línu og smellti kossi á kafrjóða kinn hennar. „Sæl og blessuð, góin“, sagði hún brosandi. „Það er nú meiri ráðskonulyktin af þér. Ellegar hvað þú ert mömmuleg yfir blessuð- um drengnum. Ójá, ég býst við að það fari að líða að því fyrir þér eins og flestum öðrum“. Hún fékk sér sæti, áður en henni var boðið það, við hliðina á Þóru, en hélt þó áfram að tala við Línu: „Það er gleðilegt að heyra, hvað hún mamma þín er orðin hress aftur. Það var hreint eins og hún þyrfti ekki annað en að sjá hana dóttur sína, til þess að komast aftur á fætur. Eða var hún ekki í rúminu? Mig minnir, að hún Borghildur segði mér það“. „Jú, jú“, sagði Lína og flýtti sér að koma matnum ofan í strákangann, svo að hún gæti komizt sem fyrst fram. En Ketilríður lét ekki verða hlé á ræðunni: „Þú kemur þó vonandi fram eftir, áður en þú ferð út eftir aftur. Mér heyrðist þeir eitthvað vera að minnast á það í gær, húsbóndinn og hann Þórður, að þú myndir þó líklega láta sjá þig. Þeim þykir Manga greyið ekki neitt „skjön“ hjá þér“. Lína var nú búin að hrúga saman diskunum og flýtti sér fram. Hvert einasta orð, sem Ketilríður sagði, verkaði eins og nál- stunga á hana, enda vissi hún, að til þess var ætlazt. Hún heyrði að Ketilríður sagði, þegar hún var að bisast við að opna baðstofu- hurðina með fætinum: „Það eru þó svei mér ekki vandræði að rata hérna á milli bæjanna. Þvílíkt slóðatraðk hérna framhjá hleðslunni. Ég er alveg hissa á því hvað börnin leika sér langt frá bænum“. Ketilríður horfði á eftir Línu fram úr dyrunum og glotti napurt. Sigurður og drengirnir fóru út þegar þeir höfðu matazt. Ketilríður byrjar nú á því að skila kveðju frá blessaðri hús- móðurinni, eins og vant var, og svo afhenti hún smjörsköku og svo- litla ullarprjónaklukku handa hvítvoðungnum. „Þetta sendir hún þeim litla. Hún var nú heldur hýr ofan í þetta í gærkvöld, þegar hún var að sauma hana saman og hekla í hálsmálið“. „Aumingja konan“, sagði Þóra. „Það er sorglegt, að hún skuli ekki eiga neitt sjálf til að dútla við sér til ánægju“. „Þykir þér það svo sem nokkuð einkennilegt“, sagði Ketil- ríður dapurleg. „Drykkjumennirnir eru sjaldan góðir til undan- eldis. Það var víst lítil von til þess að þau yrðu langlífari börnin hennar en þau urðu, og lítil von er til þess, að þau verði fleiri“. „En sú fjarstæða“, sagði Þóra. „Ætli það séu ekki fleiri en hann Jón, sem smakka vín, og það meira en hann gerir, og eiga þá börn og buru“. „Hvað viltu hafa það meira? Hann er áreiðanlega svínfullur í hvert einasta sinn, sem hann fer út af heimilinu. Þó að hann sé að reyna að vefja gærunni utan um sig, þegar hann kemur heim, þá sé ég ósköp vel, hvað honum líður. Enda heyrir maður sögurnar, sem af honum fara“, hnussaði í Ketilríði. „Það er nú lítið að marka sögurnar11, sagði Þóra. „Hann þarf ekki nema rétt að bragða vín til þess að hann sé orðinn kátari og skemmtilegri. Reyndar er hann aldrei öðruvísi en skemmtilegur11, bætti hún við, þegar hún sá illkvittnina skína út úr Ketilríði. „Já, það er nú meiri skemmtunin. Ætli að þér þætti það ekki lítil skemmtun, ef maðurinn þinn kæmi heim og flygist á við vinnumennina og vinnukonurnar líka, svo að allt léki á reiðiskjálfi, mölvaði leirtau og stóla, og ég get nú bara ekki lýst þeim aðförum. Sigurður og hann rústuðu nú bara fjóra diska í fyrradag. Ég er ekki frá því, að eitthvað hefði sungið í tálknunum á henni Borg- hildi, ef það hefði verið ég, sem þar var að verki. En þegar það eru þessi blessuð eftirlætisgoð hennar, þá segir hún ekki mikið“. „Hann hefur víst haft einhver ráð með að fá sér í skarðið“, sagði Þóra hlæjandi. „Ég ætla ekkert að tala um áflogin á Nauta- flötum. Ég hef sjálf verið svo oft við þau riðin, að það situr illa á mér, að fara að lá fólki slíka dægradvöl. Mér þótti það reglulega gaman“. „Það er nú kannske annað, hvað krakkar og unglingar gera, eða rígfullorðið fólk. Þú gætir líklega varla hugsað til þess að fljúgast á nú orðið“, sagði Ketilríður. „Það er ekki gott að segja. Það gerði mig kannske nokkrum árum yngri, að minnsta kosti minnti það mig á æskuna. En það var ómögulegt að koma Önnu nokkurn tíma til að fljúgast á“, sagði Þóra. Henni fannst eins og Ketilríður byggi yfir einhverju, sem hún þyrfti að tefja fyrir að brytist út. „Nei, það hefur nú líklega ekki verið eftir hennar upplagi, að láta svoleiðis. Ja, því segi ég það, að svona ólíkar manneskjur skuli geta valizt saman; það er blöskranlegt. Hún'er brjóstumkennanleg þessi fíngerða, saklausa kona, að eiga þennan déskofans nautnavarg“. Nú var Þóru nóg boðið. „Þá eru nú flestar konur orðnar brjóstumkennanlegar, ef Anna Friðriksdóttir er það. Hvaða kona skyldi nú hafa aðra eins stöðu og hún: Sofa fram á dag, hreyfa sig ekki úr rúminu fyrr en búið er að hita húsið og færa henni kaffið í rúmið, sitja inni í hlýj- unni allan daginn við hannyrðir og bókalestur, strjúka þessu eina barni, og dútla svo við að rækta gluggablóm, sem engri annari sveitakonu dettur í hug. Ekki einu sinni, að hún þurfi að hugsa um, hvað á að hafa í matinn; það þurfa þó frúrnar í kaupstöðunum að gera. Ætli það vildi ekki mörg konan skipta á kjörum við hana, en færri kenna í brjósti um hana?“ Þóra var orðin nokkuð fljót- mælt í endi ræðunnar. „Jú, jú, þegar á það er litið, býst ég við, að margar vildu skipta við hana. Hún var ekki svo lítið öfunduð af honum, og er það kannske ennþá. En það eru nú fleiri en ein hlið á' öllum málum, Þóra mín. Mér finnst það dálítið einkennilegt með öllu þessu dekri og dálæti, sem hann hefur á þessari manneskju, að hann skuli ekki geta gert það að hennar vilja, að hætta að sulla í sig þessu víni jafnt og þétt, eins og hún þolir það illa, blessuð manneskjan, að sjá hann slompaðan“. „Hann var nú ekki alinn upp við það, að þurfa að láta eitt né annað á móti sér“, svaraði Þóra. „Ég get ímyndað mér, að móður hans þætti fósturdóttir sín fara fram á nokkuð'mikið, ef hún færi að reyna að knésetja hann svo, að hann þyrði ekki að fá sér í staupinu". „Ég er ósköp hrædd um, að henni hafi algerlega mistekizt uppeldið á þessu eina barni sínu, þeirri góðu og skynsömu konu, en það var hún nú víst almennt álitin“, sagði Ketilríður með spekingssvip, sem gaf til kynna, að henni hefði sjálfri tekizt tals- vert betur. En Þóra var fljót til svars: „Þeirri konu mistókst ekkert, hvorki barnauppeldi né annað. Hún var hvorki „álitin“ vera góð og skynsöm kona, hún „var“ það. Hennar sæti verður seint fyllt“. „Já, ekki vantaði það, að hún hefði ekki lýðhyllina eins og sonur hennar. Hann hefur margt gott í fari sínu. En hafi hún samt sem áður verið annar eins gallagripur og hann er, þá hefur henni sjálfsagt getað yfirsézt“, sagði Ketilríður. Þóra stóð fasmikil upp og gekk fram að eldavélinni, áður en hún svaraði, en rödd hennar var þyngri þegar hún sagði: „Ég líð engri konu að kasta skugga á minningu þeirrar konu, sem var mér eins og bezta móðir. Enda er óþarfi fyrir þig að lýsa þeim Nautaflatamæðginum fyrir mér. Ég er áreiðanlega kunnugri þeim en svo, og einnig þeirra miklu og ágætu mannkostum“. „Það er aldrei að það fær á hana, blessaða, að tarna“, hugsaði Ketilríður. Hún var nú stór í stykkjunum, konan þessi. Það dugði ekki að ganga beint framan að henni, það varð að reyna að fara krókaleiðir. Það hefði hún átt að sjá fyrir. „Já, það var bæði sögn og sannindi, að hún var einstök gæða- manneskja við börn og unglinga, og það er Jón líka. Hann hefur verið góður við Dísu mína, enda virði ég það við hann. Þess vegna finnst nú líka fólkinu hérna í sveitinni, að ég taki ekki nógu líflega undir, þegar það er að þvæla með slúðursögurnar um hann“, sagði hún og glotti ákaflega hlýlega. — Svo fór hún að tala um börnin í Hvammi, hvað öllum þætti þau myndarleg og hraustleg, og að ekki yrði hann síztur sá litli. Það væri nú meira, hvað barnið væri stórmyndarlegt, svona ungt. Það væri nú eitt af því, sem mörgum gleymdist, að þakka góðum Guði fyrir hraust börn til sálar og líkama. Sjálf hefði hún aldrei lagzt svo til hvíldar, að hún gleymdi að lofa hann fyrir börnin sín, þessi góðu og efnilegu börn. En Þóra sá fyrir í huganum krakkana hennar Ketilríðar, eins og þau voru, þegar hún átti heima á Jarðbrú; og hún gat ekki annað en hugsað sem svo, að það hefði sjálfsagt ekki verið mikið þakklætið, sem hún hefði þá borið í brjósti sér, því að almennt var hún ekki álitin svo þakklát kona, að hún ysi því út á hverju kvöldi til gjafarans allra góðra hluta. Eiginlega fannst henni, að krakka- skinnin hefðu varla verið þess virði, að þakka þau svo oft. Hún sagði því bara: „Já, já, það má nú segja“, við þessum lestri, en svipur herinar léttist óðum. Ketilríður vissi vel, hvað mæðrunum kom bezt að heyra. Loks tók hún úr barmi sér hvíta, dúnmjúka sokka handa yngsta synin- um. Hún hafði prjónað þá sjálf, kvöldið áður, eftir að allir voru háttaðir. Þeir líktust meir kútmaga en nokkurri spjör. Þóra þakkaði henni fyrir. „Þið eruð þá í þumlinum við hann, blessaðan piltinn minn“, sagði hún, og var nú orðin algerlega þykkjulaus. • Þá hallaði Ketilríður sér að henni og sagði í hálfum hljóðum: „Hún bað að heilsa þér, blessuð húsmóðirin, og biður þig að vera sér éinlæg og hjálpleg, eins og þú hefur alltaf verið, og hafa gætur á því, hvort stelpuræksnið fer nokkuð út annað kvöld. Jón ætlar út í kaupstað í fyrramálið. Það kom nefnilega dálítið fyrir á himilinu í vetur, og þess vegna fór hún í burtu, gálan sú arna“. Þóra var stundarkorn að átta sig á því, hvað hún væri eigin- lega a ðtala um. En svo rankaði hún við sér. Var það þá þetta, sem lá bak við gjafirnar og gæðin? Var það þetta, sem Lína hafði meint, þegar hún spáði því, að hún yrði beðin um greiða seinna? Kannske var hún ekki með öllu grunlaus um, hver sá greiði mundi verða. Hún spurði því heldur þurrlega: „Er hún þetta litla hrædd um hann núna?“ „Ó, talaðu ekki svona kæruleysislega um þetta og annað eins. Það er alltof mikið tilfinningamál. Mér þykir ótrúlegt, að það sé ástæðulaus grunur. Þú ættir að sjá déskotans traðkið hérna fram hjá hleðslunni. Ég þekki alveg sporin hennar. Ég veit, að þú hlýtur að geta komizt að þessu, því að þú ert skynsöm kona. Hún treystir þér líka til þess, blessunin, og segir, að þú hafir alltaf verið sín bezta vinkona. Hún hefur ekki verið róleg þann tíma, sem stelpan er búin að vera hérna, þó að hún hafi lítið látið á því bera eða minnzt á það við nokkurn nema mig. Til hvers skyldi það líka svo sem hafa verið? Það reynir líklega heldur að hylja það, sem ábótavant er í fari hans. Þú getur ekki trúað því, hvað hún er einmana, konan sú“. Þóra sat hugsandi og ráðalaus. Henni fannst hún ekkert geta gert eða talað, án þess að gremjan, sem brauzt um í huga hennar, brytist út. En hverjum hún átti að reiðast, vissi hún varla, Önnu eða Ketilríði? Hún tók því bezta ráðið, og stillti sig um að tala nokkuð. Hún kallaði fram til Línu og bað hana að skjóta inn kaffikvörninni. Lína kom inn og spurði, hvort hún vildi, að hun malaði fyrir hana. Því neitaði Þóra. Hún var nú líklega orðin svo hress, að hún gæti malað á könnuna sjálf, enda sýndist henni, að Lína vildi helzt komast sem fyrst fram aftur. Hún hellti á könnuna og bar kaffið inn á borðið, án þess að minnast á það, sem síðast var talað um. En þegar hún hafði drukkið ofan í hálfan bollann, tók hún loks til máls, og Ketilríður heyrði, að henni var mikið niðri fyrir: „Heldur Anna Friðriksdóttir, að ég sé svo góð vinkona hennar — eða hitt þó heldur, — að ég láni þeim mín hús til ástafunda?“ „Nei, mikil lifandi ósköp, nei. Það máttu ekki láta þér detta í hug. Hún heldur, og það er líklega það rétta, að þau hittist einhvers staðar úti. Hann fer alltaf í burtu annað og þriðja hvert kvöld, þegar við sofnum í rökkrinu, og kemur ekki fyrr en undir hátta- tíma, -og segist vera yfir á Ásólfsstöðum að spila. Og svo allar Ós- ferðirnar þar fyrir utan. Drengirnir þínir voru að tala um það einn daginn, að Lína færi oft fram á grundir að leita að þvotti, sem fyki hjá henni. Mér hefur nú ekki fundizt vera mikil skakviðri þann tíma, sem hún hefur verið hérna; ef það hefur golað, þa hefur það verið á sunnan. En ég hef aldrei kynnzt því, að þvottur fyki á móti golunni“. Þóra varð að játa það fyrir sjálfri sér, að Ketilríður væri bara hyggin kona, og væri búin að rekja þetta allt út í yztu æsar. Nú, þegar búið var að vekja tortryggnina hjá henni með svona lík- legum sögnym, þóttist hún sjá, að Lína hefði ekki þurft að vera svona mikið frammi á kvöldin. Hún sat enn þegjandi nokkra stund, en svo rankaði hún við sér og sagði: „Ég get ímyndað mér, að það sé annar maður, sem Lína se að finna á kvöldin, ef hún finnur þá nokkurn“. „Já, ég veit vel, hvern þú meinar. Hann er nú bara eins og hver önnur „varaskeifa“, greyið, og hann hefur heldur ekki verið a neinu rökkurrölti nema aðeins einu sinni. Ég kenni nú bara i brjósti um hann, greyið, þó að hann sé ekki allskostar. Honum þykir óefað vænt um stelpuskömmina“, sagði Ketilríður og fór að búast til ferðar. „Skilaðu kveðju minni til Önnu og því með, að ég skuli reyna að komast fyrir sannleikann, og ég voni, að hann verði þannig, að hún verði ánægð. Þú getur líka sagt henni, að Lína sé a förum héðan“. Þetta voru síðustu orðin, sem Þóra sagði við Ketilríði. Lína sat á kassa framan við hlóðirnar og fístj undir flatköku, sem lá á glóðinni, þegar Ketilríður kom fram í göngin. „Mig langar til* að kveðja þig, heillin“, sagði hún ákaflega blíðmál í eldhúsdyrunum. Lína stóð upp, gekk til hennar og meðtók kveðjukossinn. „Vertu ævinlega blessuð“, sagði hún um leið og hún kyssti hana rembingskoss. Svo hvíslaði hún í einlægum málrómi: „Þú kemur nú fram eftir áður en þú ferð. Það er allt orðið ágætt fyrir löngu, þetta, sem við vitum báðar um. Hann var nú kannske ekki lengi að kippa því í liðinn, blessaður11. Lína hentist frá henni, eins og hún hefði verið bitin, og greip hálfbrennda kökuna af glóðinni. Hún heyrði niðurbælda hlátur- suðu frá Ketilríði, meðan hún var að komast út úr bæjardyrunum. Það var svo sem auðvitað, að hún gerði eitthvað illt af sér, fyrst hún hafði látið hana sjá sig. Við hliðina á þessari manneskju gat hún ekki hugsað til að eiga heima; hún mundi gera allt, sem hún gæti til þess að kvelja hana. Lína sat inni og kepptist við að tvinna band í peysur handa drengjunum. Hún ætlaði að reyna að vera búin með það áður en hún færi. Hún var óvenjulega dauf og fátöluð. Það var Þóra líka. Einu sinni talaði Þóra til hennar: „Áttu mikið eftir að tvinna, Lína mín?“ „Já, ég á svo mikið eftir, að ég lýk ekki við það á morgun. En ég fer samt ekki fyrr en ég er búin með það, hvað sem hver segir“, sagði Lína. Þóru fannst svarið dálítið svipað því, að hana grunaði, að búið væri að ákveða að hún færi bráðlega. Kannske var það bara þessi vanalega um hyggja, sem hún bar fyrir öllu, sem þurfti að gera á heimilinu. Það yrði líklega lítið úr vistarráðunum, sem hún hafði þráð svo mikið, að gætu gengið fyrir sig, ef þetta var satt, sem Ketilríður var að segja. Ekki dytti henni í hug að hafa hana á sínu heimili undir slíkum kringumstæðum. Það var morgundagur- inn, sem átti að leiða hana í allan sannleika í þessu máli. Og hann rann upp, bjartur og fagur sólskinsdagur. „Nú megið þið ekki vera mikið úti í dag, drengir“, sagði Þóra, „því að nú*er hætt við snjóbirtu“. Upp úr hádeginu sá Þóra hvar Jón hreppstjóri reið út með ánni. Hún stóð í bæjardyrunum og horfði á hann eins og svo oft áður. Lína kom inn með fullt eldiviðartrog í fanginu utan úr skemmu. „Þekkirðu manninn, Lína?“ spurði hún brosandi. Lína brosti líka og kafroðnaði, en leit samt ekki í þá átt, sem reiðmaðurinn var. „Þekki ég manninn?“ tók hún upp eftir henni. „Ætli við þekkjum hann ekki báðar jafnt. Ég býst við, að það þekki hann flestir hérna í dalnum“. „Hann er fallegur þessi nýi hestur hans. Ég hef gaman af því að sjá hann“, sagði Þóra. „En þykir þér ekki dálítið gáman að því, að sjá reiðmanninn líka?“ sagði Lína. Það var ekki laust við kaldhæðni í rómnum. „Við megum nú ekki láta slíkt heyrast, þegar við erum tru- lofaðar eða giftar“, sagði Þóra. „Annars gengur allt af göflunum“. „Það er nú víst ekki svo fjarri sanni“, sagði Lína og hvarf með trogið inn í eldhúsið. Þóra bað Björn að segja sér, ef hann sæi Jón fara framhjá. En hún gætti þess ekki, að segja honum, að láta það vera leyndar- mál, sem aðeins þau tvö fengju að heyra. En dagurinn leið, án þess að nokkuð sæist til hreppstjórans. Björn fór í fjósið, ásamt Friðriki bróður sínum, til að gefa kúnum. Þegar hann kom aftur, kallaði hann í baðstofudyrunum: „Nú er Jón að fara hérna rétt fyrir neðan túnið, mamma. Hann fer yfir mýrarnar núna, en ekki niður við ána, eins og hann er vanur“. „Heldurðu að hann ætli að koma heim?“ sagði Þóra. „Ég átti hálfpartinn von á, að fá bréf með honum neðan af Ósi“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.