Lögberg - 13.01.1955, Síða 6

Lögberg - 13.01.1955, Síða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 13. JANÚAR 1955 .... .... ..^ GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF % -------r Morguninn eftir, þegar Þóra vaknaði, hugsaði hún til þess með hálfgerðum kvíða, að nú væri þessi þægilegi tími á enda, að láta færa sér morgunkaffið í rúmið, og sitja áhyggjulaus inni á rúmi sínu meðan dugleg vinnukona hugsaði um öll niðri-verkin. Þvílíkt eftirlæti var nýtt nú í seinni, síðan Magga gamla hafði verið á færum fótum. Hún hafði alltaf hitað á morgunkatlinum, nema síðasta hálfan mánuðinn. Aumingja Magga. Bara að hún hefði verið dálítið hlýrri við hana en hún var, meðan hún var krakki og unglingur, þá hefðu endurminningarnar verið þægilegri um þessa burtsofnuðu samferðakonu. En það varð ekki aftur tekið, frekar en margt annað frá þeim árum. Líklega var nú Lína steinsofandi eftir drykkjuvímuna. Að hugsa sér, hvað hún var langt leidd, vesalingurinn, svona dugleg og almennileg stúlka. En þægilegur ylur frá eldavélinni gaf til kynna, að Lína myndi vera komin á fætur, enda kom hún inn rétt á eftir og bauð góðan dag. „Ég hélt nú -bara að þú svæfir ennþá“, sagði Þóra hálf hæðnislega. „Nei, ég ætlaði að láta þig fá kaffið í rúmið síðasta morguninn, og hér sýður líka á katlinum“, sagði Lína, og það var ekki hægt að heyra, að hún hefði tekið eftir kaldhæðninni í ávarpi Þóru. Hún er ekki mjög klökk, hugsaði Þóra. En þegar Lína kom með kaffið inn að rúminu, sá hún, að hvarmar hennar voru rauðir og augun tárvot. Þá fannst Þóru eitthvað þrengja að hálsi sér. Hún reyndi að tala glaðlega til Línu meðan hún var að taka saman dótið sitt og klæða sig í ferðafötin. Náttúrlega kæmi hún einhvern tíma í vor fram eftir, til að sjá hvað sá litli stækkaði. Lína jánkaði því. Þóra rétti henni tvo seðla fyrir þennan tíma, sem var þó tæpur mánuður. En Lína vildi ekki taka við þeim. „Ef þér hefur fundizt ég vinna þér vel, skaltu borga það með því að vera þagmælsk. Annað vil ég ekki“, sagði hún. „Ég veit ekkert, hvað ég geri“, sagði Þóra, „en þú átt kaupið, hvort sem ég þegi eða tala“. Lína varð að taka við seðlunum. Litlu bræðurnir fylgdu henni út fyrir Hjalla. Þeir ljómuðu af gleði, þegar þeir komu heim aftur með sinn seðilinn hvor í lófa sínum. Það var kaupið, sem móðir þeirra hafði greitt Línu. ÓRÁÐSHJAL Ketilríði leið hörmulega. Hún bylti sér í hitamóki dag og nótt. Ævi hennar hafði verið eintómt strit og erfiðleikar. Og nú lifði hún það upp í óráðsrugli sínu. Hún baslaði í búskapnum á Jarðbrú. Hún risti torf og batt hey, því að alltaf hafði hún þurft að vinna erfiðustu verkin, meðan þau Páll og hún voru saman. Hún talaði líka óblíðlega til hans fyrir lítilmennskuna. Siggi, sem var mesti glanni, hafði það til að tala við hana gegnum óráðið, þegar Borghildur var ekki inni. Stundum var eldiviðurinn slæmur, og hún hafði þó verið búin að hugsa sér að sjóða slátrið í dag. „Var það ekki hrútsslátur?“ spurði þá Siggi. Hún játaði því stundum, en stundum svaraði hún engu. En ef Borghildur kom inn, var Siggi fljótur að færa sig burtu frá rúminu. Hún var nú siðavandari kona en svo, að hún liði svona fíflaskap. Svo yfirgaf Ketilríður alveg Jarðbrú, og var nú alflutt að Nautaflötum. Ekki fór hún á mis við erfiðleikana þar. Alltaf sífellt amstur og eltingarleikur við húsbóndann og stelpuræksnið. „Af hverju ertu alltaf að eltast við þau?“ spurði Siggi einu sinni, þegar Borghildur var ekki inni. En þá var það Þórður, sem var siðavandur. „Hvaða ósköp læturðu kjánalega, drengur“, sagði hann. „Hvað heldurðu að sé að marka það sem manneskjan segir í þessu bullandi óráði. Láttu engan heyra, að þú sért að tala við hana“. Hann hafði aldrei fyrr bannað Sigga að tala við hana, heldur hafði hann stundum brosað að þessu gráa gamni hans. Anna húsfreyja hafði staðið í húsdyrunum og hlustað á það, sem Ketilríður sagði. Hún neri saman höndunum af skelfingu. „Drottinn minn góður hjálpi mér!“ sagði hún. „Hverslags voða- legt óráðsrugl er þetta í manneskjunni?“ Hún ýtti Sigga frá rúminu og sagði honum að biðja Borghildi að koma inn og telja handa henni dropa, ef henni kynni að batna eitthvað. „Ég er á því, að Þóra viti meira en hún segir“, ruglaði Ketilríður. „Góði Guð, láttu þessa hættulegu tungu þagna“, bað Anna í hálfum hljóðum, meðan Borghildur taldi dropa í skeið, og þær hjálpuðust að því að koma þeim ofan í sjúklinginn. Ketilríður féll í svefnmók eftir inntökuna. En þegar heimilisfólkið settist við eld- húsborðið til að snæða miðdegismatinn, tók Anna til máls, óvenju- lega skrafhreifin, og leiddi fólkinu það fyrir sjónir, hversu mikil fjarstæða það væri, sem fólk talaði í óráði. Það mætti heldur engin hafa það eftir, og eiginlega ekki hlusta á það. Borghildur vissi það líka, og Þórður sagði, að það væri ekkert að marka það frekar en það, sem brjálaðar manneskjur segðu. En Siggi var á annari skoðun. „Það er nú alveg áreiðanlegt, að fólk sér oft í óráði það, sem er ókomið fram“, sagði hann. „Ég man nú líklega eftir því, sem hann Finnur var að segja. Hvernig skyldi hann hafa átt að vita það, að mennirnir ættu að drukkna af Ósnum? Hann meira að segja nefndi annan þeirra með nafni. Manstu ekki eftir því, Borghildur?“ „Jú, ég man það vel“, sagði hún. „Þeir drukknuðu viku eftir að hann var jarðsunginn. Og hann sagði líka, að Þórður í Seli svæfi í rúminu hans, og að hann yrði hérna lengi“. „Já, þetta sagði hann allt, og margt fleira“, sagði Siggi. „Hann talaði alveg eins og hann væri með fullri rænu“. Jón hafði setið þegjandi og lofað konu sinni að hafa orðið. Það var ekki svo oft, sem hún hélt uppi samræðum við borðið. En nú greip hann fram í: „Það er nú kannske dálítið annað, hann Finnur heitinn, þessi skýrleiks- og gæðamaður, sem aldrei talaði ósatt orð eða lagði slæmt til nokkurrar manneskju, eða þessi vesalings manneskja, sem hefur yndi af að lasta fólk og hlaupa með sögur um það“. Samræðurnar snerust nú allar um Finn gamla og hans miklu dyggðir. Allir minntust einshvers góðs í fari hans, nema Manga, því að hún hafði aldrei fyrr heyrt hann nefndan. Manga stóð við rúmið hjá Ketilríði, þegar Siggi og Þórður komu inn í baðstofuna. „Hún er alltaf að staglast á einhverri glerskál", sagði Manga vandræðaleg. „Hvað á að gera við hana?“ spurði Siggi og færði sig nær rúminu, eins og hann þyrfti að túlka fyrir sjúklinginn. „Hún segir, að hún sé brotin“, sagði Manga. „Anna hafi átt hana“. „Spurðu hana, hvort ég hafi brotið hana?“ sagði Siggi. „Heldurðu að ég láti eins og þú, kjáninn þinn?“ sagði Manga. „Var það ég, sem braut skálina?" spurði Siggi. „Ketilríður horfði á hana sljóvum augum. „Það var barnið hennar Línu, sem gerði það“, sagði hún óskýrum málrómi, „dána barnið hennar Línu. Þórður ætlar að taka gröfina að því“. Þá snerist Þórður í hring á gólfinu, greip húfuna og fór út. Hann tautaði eitthvað um þetta voðalega óráð, sem manneskjan hefði alltaf. Um kvöldið fékk Ketilríður rænu. Hún óskaði eftir að fá að tala við Önnu. Anna kom til hennar. „En hvað það er gott, að þú ert að hressast, góða mín“, sagði Anna. „O, þetta eru bara éljaskil“, sagði sjúklingurinn veikri, skjálfandi röddu. Nú var henni brugðið, þessari tannhvössu, illkvittnu konu. Þarna lá bljúg og iðrandi manneskja, sem skalf af kvíða fyrir myrkrinu og óvissunni, sem framundan var. „Ég þarf að tala við þig, helzt svo enginn heyri“. Fóíkið fór allt fram. Þær urðu einar eftir. „Ég þarf svo margt að tala við þig, áður en ég fer alfarin héðan, sem ég býst við að verði bráðlega. Mig langar til að biðja þig að lofa Dísu minni að vera hérna á heimilinu til fermingar- innar. Henni brygði við, ef hún þyrfti að flækjast á sveitina, eins og systkini hennar hafa orðið að gera, eftir það eftirlæti, sem hún hefur notið hjá ykkur hjónunum og Borghildi“. „Já, náttúrlega fer hún ekki héðan“, sagði Anna. „Ég veit það vel, að ég á það ekki skilið af manni þínum, að hann lofi henni að vera hér, en af því að hann er nú einu sinni þessi mikli gæðamaður, býst ég við, að hann láti hana ekki hrekjast í burtu, þegar hún er orðin móðurlaus. Svo ætla ég að játa það fyrir þér, Anna mín, að það var aðeins af óguðlegum óvildarhug, sem ég hef alltaf borið til hans, að ég var að segja þetta um Línu og hann. Þau eru sjálfsagt saklaus. Ég hef alltaf verið svo heiftrækin. Mér fannst hann vera orsök í því, að heimilið mitt sundraðist, nú sé ég að það hefur verið rangt af mér, að hugsa svona. Við áttum þetta skilið fyrir okkar óguðlega athæfi“. Þetta voru síðustu orð Ketilríðar, sem töluð voru með réttu ráði. Morguninn eftir var rúmið hennar autt, en stórskorið konulík lá á börunum frammi í stofu. Allir á heimilinu urðu fegnir dauða hennar, meira að segja Dísa sagði, að það væri gott að hún væri hætt að rugla þessa vitleysu. Borghildur hafði látið hana sofa hjá sér síðan móðir hennar veiktist. Dísa spurði hana hvort hún mætti alltaf sofa hjá henni. „Já, þú mátt vera hjá mér þangað til þú ert orðin svo stór, að við komumst ekki báðar fyrir í rúminu“, sagði Borghildur. Dísa var þá átta ára. Heimilisfólkið varð talsvert hlýrra við hana, þegar móðir hennar var horfin með alla sína margskiptni og ónot. Siggi var eins og hann gengi á glóðum eftir bæjardyrunum. Honum fannst Ketilríður alltaf vera á hælunum á sér. Manga var nú orðin svo kunnug og skrafhreifin, að hún gat borgað Sigga allar ertingarnar, sem hann hafði sýnt henni fyrstu dagana, sem hún var á þessu heimili. Hún stríddi honum óspart á því, hvað hann væri mikill bjálfi, að vera hræddur við dauða manneskju. „Þér hefði verið betra, að vera ekki alltaf að tala við hana í óráðinu. Hún ætlar líklega að borga þér það núna“. „Mér sýnist hún sitja uppi í rúminu sínu á morgnana, þegar ég lít fyrst upp“, sagði Siggi. „Það má til með að fara að láta einhvern sofa þar. Ég vildi óska, að krossmessan væri komin, svo að ég gæti farið héðan“. Og svo bætti hann við: „Það er eins og dagarnir ætli aldrei að líða þangað til hún kemst í kistuna, þá verður hún þó vonandi borin úr bænum“. En dagarnir liðu nú samt, og jarðarfarardagurinn rann upp, kaldur og sólarlaus frostdagur. Samt voru nokkrir úr nágrenninu, sem fylgdu henni til grafar. „Mér er forvitni á því að heyra hvernig klerkur talar yfir þeirri gömlu“, sagði Erlendur á Hóli við Jón hreppstjóra, þegar þeir höfðu heilsazt. „Mér hefur líka dottið það í hug. Það hlýtur að vera talsvert erfitt, að tala yfir sumu fólki“, svaraði Jón. En séra Benedikt sýndi það sem fyrr, að hann var starfi sínu vaxinn. Hann hélt aldrei svo ræðu, að söfnuðurinn dáðist ekki að henni, þegar henni var lokið. Ekki heldur í þetta sinn. Hann lýsti því, hvernig þessi stórlynda kona hefði í uppvextinum orðið að hrekjast milli manna; alls staðar hefði hún mætt kulda og kæru- leysi, þar til hið góða frækorn, sem sáð væri í hverja barnssál, hefði kulnað að mestu, og hún orðin óblíð og tortryggin í viðbúð. Þá minntist hann á hið mikla vinnuþrek, sem hinni framliðnu hefði verið gefið, og hversu trútt og ósérhlífið hjú hún hefði verið húsbændum sínum. Að lokum hét hann henni trúrra þjóna verðlaunum. Allir viðurkenndu, að ræðan væri alveg framúrskarandi, eins og allt, sem séra Benedikt segði. Engum datt þó í hug að fella tár undir ræðunni, nema Önnu Friðriksdóttur. Ekki var það þó af því, að hún saknaði Ketilríðar, því að hún var fyrir löngu orðin þreytt á allri þeirri óánægju og glundroða, sem hún kom af stað á hennar friðsama heimili, og orðin kvíðandi yfir því, að hún kæmi henni aldrei burtu aftur. Hún tárfelldi aðeins yfir einstæðings- skap og gæfuleysi þessarar vesalings konu, sem ræða prestsins lýsti svo átakanlega. Þegar kistan var borin úr kirkjunni, dreif yfir dimmt haglél, sem buldi á kistunni eins og smásteinar og særði líkfylgdina í andlitin. Þegar lokið var að moka ofan í gröfina, skein sólin í fyrsta sinn á þessum kaldranalega degi. Konurnar flýttu sér heim í eldhúsið, því að þar var þó alltaf hlýjan. „Herra minn góður ,enn sá kuldi“, sagði Anna húsfreyja hálf- skjálfandi. „Það hefði ekki veitt af að hafa skýlu“. „Það þurfti nú svo sem enginn að búast við því betra, þegar hún Ketilríður yrði borin til grafarinnar“, sagði Ragnheiður gamla á Hóli. „Hún sagði mér það, hún móðir mín sæl, að það væri áreiðanlegt, að jarðarfarardagurinn væri spegilmynd af lífi þess, sem liðinn væri. Og það var aldrei neitt hlýtt í kringum þessa konu. Hún hafði lag á því, að vera í andstöðu við flesta, sem hún kynntist. Ojæja, mér hefur sýnzt það ganga eftir, þetta með veðrið. Það vissi nú svo margt gamla fólkið, sem nú verður að hverfa fyrir háleitari og dýrkeyptari speki. Ekki er hægt að sjá það á þessum krökkum hennar, að þau séu mjög hrygg. Þetta verða náttúrlega einhverjir járnkarlar, eins og hún var sjálf“. „Mér finnst ég sjá Ketilríði heitina í allt öðru ljósi, eftir að hafa hlustað á ræðuna hjá blessuðum prestinum“, sagði Sigþrúður á Hjalla viðkvæmnislega. „Já, hún var ekki mjög dónaleg hjá honum“, sagði Ragnheiður. „Það er lengi hægt að fegra manneskjuna. Erlendur sonur minn hefði ekki átt að hlakka eins mikið yfir því, að klerkurinn myndi ekki geta flutt sæmilega ræðu yfir henni“. „Þetta var allt saman sannleikur, sem hann sagði. Ekkert annað en sannleikur“, sagði Sigþrúður. „Já, ég býst við því, að það verði ekki gott að hrekja neitt af því, sem hann sagði. Enda veit ég vel, hvernig hennar uppeldi var. Það var hreint ekki gott, en þetta var líka ógerðar upplag í henni; ég held mér sé það ekki ókunnugt. Hún var eitt ár hjá okkur, tetrið að tarna“, sagði Ragnheiður gamla. „Ekki býst ég við því, að hann hafi verið neitt sérlega hlý- legur við hana, karlanginn hann Sigurður þinn“, vogaði Sigþrúður að segja. „Hlýlegur!“ tók Ragnheiður gamla upp eftir henni. „Við hvern skyldi hann hafa verið hlýlegur, járnkarlinn sá? Hann fékk samt nógu myndarlega ræðu hjá honum séra Benedikt“. „En sneiddi þó ekki hjá öllum göllunum frekar en núna“, sagði Sigþrúður. „Það segirðu alveg satt. Hann gerði það ekki. Ég má eiga von á sæmilegri ræðu, þegar að mér kemur“, sagði Ragnheiður gamla kímin. VINKONURN AR HITTAST Manga hafði oft talað um það við Borghildi, hvenær ætti að fara að setja vefstólinn upp. Henni fannst það eitthvað svo skrítið, að sjá hann alltaf frammi í skála. Faðir hennar sat í vef- stólnum allan veturinn og óf fyrir hálfa sveitina. Hún kunni líka sjálf að vefa. Borghildur sagði henni, að hann fengi að hvíla sig síðan Finnur gamli hefði fallið frá, nema seinustu vikurnar af vetrin- um, þá væri hann settur upp og ofið það sem til væri fyrir heimilið. Áður var tekið dálítið af öðrum bæjum. Karlanginn vildi alltaf vera að dunda við að vefa. Önnu væri ósköp lítið um hann gefið, henni leiddist svo hávaðinn, sem fylgdi honum. Hún elskaði næðið og kyrrðina. Svo kepptust karlmennirnir við að vefa þennan eina mánuð, því að úr baðstofunni varð vefstóllinn að vera farinn á sumardaginn fyrsta. Það var gamall og nýr siður. Þetta sagði Borghildur henni, þegar þær voru að þvo frammi í hlóða-eldhúsinu. Talað er margt þar, sem tveir vinna saman, segir víst mál- tækið, enda fannst Möngu, að Borghildur helzt hafa tíma til að tala, þegar þær voru við þvottinn. Alla aðra tíma var hún í sífelldum snúningum. Svo var vefstóllinn settur upp daginn eftir að Ketilríður var jörðuð. Manga varð kát, þegar hún sá þennan gamla kunningja sinn kominn inn í baðstofuna. Skyldi hún nokkurn tíma fá að setjast í þennan vefstól, hugsaði hún. Hana langaði mikið til þess. „Þú ert ósköp lítilfjörlegur kjáni, Manga, að láta þér þykja vænt um vefstólsskrattann“, sagði Siggi. „Hann er heldur skemmtilegri en þú“, flýtti Manga sér að svara. „Mikið hlakka ég til, þegar þú ferð í vor“. Þá hló Borghildur. „Finnur heitinn sagði alltaf, ef einhver af vinnuhjúunum voru að svona hnippingum, að þau yrðu hjón á endanum. Mér finnst sjálfsagt að segja ykkur það, svo að þið vitið, á hverju þið eigið von“, sagði hún. „Ha, ha!“ sagði Manga. „Nei, það verður aldrei“. „Hvert þó í logandi!“ sagði Siggi og hljóp á dyr. Nú var tekið til við vefnaðinn. Manga gerði lítið annað en spóla. Það þótti henni líka gaman. Það var f'engin stúlka utan úr dal. Hún ætlaði að vera þessar vikur, sem eftir voru til kross- messunnar. Húsbóndinn sat í vefstólnum myrkranna á milli að kalla mátti. Nú var aldrei farið út að Ásólfsstöðum eða út í kaupstað. Anna iðraðist hræðilega tortryggni sinnar, sem hún hafði látið leiða sig í þær gönur, að láta Ketilríði vera á sífelldu rjátli milli bæjanna, sem hafði svo hörmulegan endi. Henni fannst hún hálf- vegis vera orsök í dauða Ketilríðar. Til að bæta fyrir það, vildi hún láta smíða rúm handa Dísu litlu og láta hana sofa inni í hjónahúsinu. Það aftók maður hennar með öllu. „Hún verður aldrei annað en óskemmtilegt tökubarn, anginn litli“, sagði hann. „Það fer vel um hana hjá Borghildi. Mamma lét tökubörnin aldrei sofa inni í hjónahúsinu“. „Alltaf þó mig“, sagði hún. „Þú varst aldrei tökubarn, góða mín“, sagði hann ástúðlega. „Ég gaf þér mömmu og pabba, svo að þú varðst dóttir á heimilinu“.

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.