Lögberg - 05.12.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 05.12.1957, Blaðsíða 6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 5. DESEMBER 1957 OUÐRÚN FRA LUNDI: DALALIF Jón var sýnilega í mikilli geðshræringu. „Hér eru ástvinirnir, sem hafa verið hrifnir frá okkur, pabbi, mamma og litlu börnin okkar. Hing- að finnst mér róandi að koma, þegar eitthvað amar að. Mér finnst ég heyra pabba gefa mér sín góðu ráð, þegar ég horfi á nafnið hans, og ég finn nálægð mömmu minnar. Engin móðir getur verið eins elskuleg og hún. Og svo voru þau tekin frá okkur löngu fyrr en þörf var aldursins vegna. Sambúðin okkar hefði orðið öðruvísi, ef þau hefðu verið lengur hjá okkur". „Þetta er lögmál lífsins, maður", skaut hún inn í. „Hvers vegna ertu að tala um það? Drottinn gaf og Drottinn tók", sagði pabbi ,að maður ætti að segja"- Hann hélt áfram, án þess að gefa því gaum, sem hún sagði: „Þau hefðu getað lifað hjá okkur ennþá. Ellegar börnin okkar — blessuð litlu börnin okkar, sem dóu áður en þau gátu þekkt okkur. Hvað höfum við eiginlega gert af okkur, svo að okkar börn megi ekki lifa hjá okkur, eins og hjá öðrum foreldrum?" „Hefur þér aldrei dottið það í hug, að við værum orsök í dauða þeirra?" stundi hún upp með erfiðismunum. „Guð gefi, að við getum ekki kennt okkur um ólán okkar". „Ég þykist vita, að þú hugsir til þess, að ég er drykkjumaður, en börn drykkjumanna lifa eins og önnur börn. Helgi afi minn var meiri drykkju- maður en ég og átti þó tólf börn í hjónabandi, sem öll komust til fullorðins aldurs, og eitthvað þar fyrir utan, svo að þú sérð, að það getur ekki staðið í vegi fyrir gæfu okkar, þó að ég fái mér í staupinu öðru hvoru. — Ef Jakob verður svo tekinn frá okkur líka — hvað þá? Geturðu þá sagt: Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri Drottins heilaga nafn?" „Ég yrði að reyna að segja það, þó að mér finndist sá bikar beiskur", kjökraði hún. „En þá myndi ég algerlega neita því, að til væri réttlátur og gæzkuríkur Guð. Ég myndi al- drei — — —". Hann endaði ekki setninguna. Kona hans þreif svo hastarlega í handlegg hans, að hann leit á hana undrandi. „I guðsbænum talaðu ekki svona, maður. Sorgin er send okkur til að leiða okkur nær góðum Guði", sagði hún hræðslulega. „Sorgin hefur alltaf gagnstæð áhrif á mig. Þegar ég hugsa til þess, sem mér var gefið og hrifið frá mér jafnharðan, eins og börnin, fyllist ég hatri til forsjónarinnar, sem mér finnst ég helzt geta slökkt með því að drekka vín og hamast við vinnu. Ég hef aldrei getað tekið því með þessari ró og undirgefni eins og þú", sagði hann óstyrkum rómi. „Ég held það hafi ekki róandi áhrif á þig núna að koma að leiðinu hans pabba sáluga. Manstu hvað hann var rólegur, þegar hún Lísibet okkar dó?" „Hann talaði af skynsemi, en ekki reynslu. Hann átti engin börn til að fylgja þeim til grafar- innar. Það er líka það bezta. Enginn finnur eins sárt til fátæktarinnar og sá, sem mikið hefur átt og misst það allt. Nú hefðu þau verið orðin stór og falleg, þessi börn, hefðu þau fengið að lifa hjá okkur"- „Við skulum koma heim og vita, hvernig Jakob hefur það", sagði hún í hálfum hljóðum. Hún hræddist þennan ofsa. Var hann kannske undir áhrifum víns? Því var hann að fara hingað, þar sem allt minnti hann á barnamissirinn? Hún hræddist enn meir það, sem hún sá næst. Hann fetaði sig meðfram litlu barnsleiðunum og taldi fetin — eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm og sex. „Hér á gröfin mín að vera. Styttri má hún ekki vera. Ég hef aldrei þolað þrengsli. Hver skyldi eiga að vera við hina hliðina á mér? Lík- lega væri það réttast, að það yrði Þórður. Hann hefur staðið við hlið mína allt lífið. Ég hef getað reitt mig á hann á hverju sem hefur gengið. Hann hefur glaðzt með mér glöðum og hryggzt með mér hryggum. 1 fáum orðum sagt verið eini maðurinn, sem hefur skilið mig, síðan blessunin hún mamma mín lokaði augunum". Anna studdi sig við grindurnar og horfði á mann sinn. Hún hafði óttazt, að hann væri að mæla út grafarstæði handa Jakobi. Henni létti, þegar hún heyrði, að svo var ekki. Drottinn minn, hugsaði hún, ég hefði ekki þurft að hafa orð á því, að hann væri breyttur. Það var sama óstýriláta skapgerðin og áður á dögum sorgarinnar. Hann hélt áfram: „Grafirnar verða að vera jafnlangar, þó að hann sé lægri maður gerir það ekkert til, en er mikið fallegra------------". „En á ég hvergi stað í garðinum nærri pabba og mömmu? Þeim þótti áreiðanlega vænt um mig, þó að ég væri ekki barnið þeirra", sagði hún hægt og hikandi. „Jú, náttúrlega er öllum velkomið að hvílast í garðinum. Þú hefðir kannske helzt viljað vera þarna hjá honum pabba sáluga? Honum þótti alltaf vænna um þig en mig, enda varstu honum ólíkt betur að skapi, svona prúð og viljug að lesa biblíuna — yfir höfuð mesta eftirlætisbarn. En Finni bað um að vera nærri honum, og þá datt mér ekki annað í hug en að þú ætlaðir að fylgja mér gegnum lífið og sofa hjá mér í garðinum". „Ég hef alltaf hugsað mér að gröfin mín yrði þarna, sem þú ert að mæla út grafarstæðið handa þér sjálfum. Þú getur þá hvílt þar, sem þú ætlaðir Þórði rúm. Reyndar finnst mér hann ekkert koma Nautaflatagrafreitnum við, þó að hann hafi verið okkar bezti vinur í lífinu. Hann getur þá verið við hliðina á þér". „Mér datt nú ekki í hug, að þú vildir lúra hérna hjá mér, fyrst þú ert staðráðin í að fara frá mér, þegar Jakob er búinn að læra, og skilja mig eftir einan". „Það er víst ekki nema hugmynd, sem kann- ske rætist aldrei. Það fer margt öðru vísi en ætlað er. Kannske þú vildir heldur að hann flytti út í garðinn en að hann yfirgæfi dalinn?" Seinustu orðin köfnuðu í ekka. „Nei, nei, svo eigingjarn er ég ekki, góða mín". „Ég sendi eftir þér til að fá styrk og huggun hjá þér, en mér finnst þú ekki gera annað en að særa mig og hrella", stundi hún upp með and- þrengslum. „Fyrirgefðu mér, góða mín", sagði hann og tók hana í faðm sinn og kyssti hana ákaft á kinn- ina — ekki munninn. Hún mátti ekki verða þess vör, að hann hafði hresst sig óþarflega mikið á innihaldi flöskunnar í stofuskápnum, áður en hann fór á stekkinn. Það hafði hann iðulega gert þennan tíma, sem einkasonur hans hafði legið á sjúkrabeðinum. Það deyfði kvíðann og eirðarleys- ið, en gaf vonunum vængi, sem hurfu jafnskjótt og áhrif þess ruku burt. En hún fann það samt og hafði líka verið búin að sjá, að hann væri hreifur af víni. En hún var of þjökuð til að álasa honum, þó að henni ofbyði að svona skyldi vera ástatt fyrir honum núna, einmitt á þessum degi„þegar hún óttaðist nálægð dauðans. Hún hallaði sér að öxl hans og grét. Hann bað um fyfirgefningu á vanstillingu sinni og kaldranaskap. „Guð minn góður, hvað ég er búin að vera lengi burtu frá honum", sagði hún, þegar hún var orðin rólegri. „Við verðum að fara heim. Ef hann væri nú liðinn, þegar við sæjum hann næst-------"• Borghildur mætti þeim í bæjardyrunum. Hún var svo ánægjuleg á svipinn, að ekki þurfti að efast um að hún hefði góð tíðindi að segja: „Jakob er vaknaður svo f jarska r hress, að ég held að hann hljóti að vera hitalaus. Ég er farin að sjóða handa honum egg. Þið borðið með honum. Anna hefur víst ekki borðað mikið í dag, býst ég við". Borghildur var kysst fyrir fréttina. Svo flýttu þau sér inn í hjónahúsið. Jakob brosti, þegar hann sá foreldrana, og rétti fram hendurnar. „Elsku mamma og pabbi", sagði hann eins og barn, sem kemur heim eftir langa burtveru, „nú er mér áreiðanlega að batna". Þau tóku sitt í hvora hönd hans. Þær voru magrar og máttlitlar. „Elsku drengurinn minn", sögðu þau samróma, „þér er áreiðanlega að batna". „Ég var einmitt að segja mömmu þinni, að batinn væri að koma. Hún er orðin svo yfir sig • þreytt, blessunin, að vaka og biðja", sagði faðir hans. „Og þarna er glasið, sem gerði þig svo hug- sjúka, góða mín", bætti hann við og benti á nátt- borðið. Borghildur hefur fundið það einhvers staðar. Hún er lífseig, hjátrúin, hjá ykkur kven- fólkinu". Anna hvarf fram í stofu. Þar kraup hún á kné og flutti Drottni þakkir fyrir að hann hafði heyrt bænir hennar. Jafnframt bað hún um fyrir- gefningu handa manni sínum fyrir hans ókristi- lega hugarfar og ástríðu til áfengisins núna á þessum degi. Jón sat á stól við höfðalag sjúklingsins, þegar kona hans kom inn aftur- „Sjáðu nú bara, hvað pabbi hefur gert, mamma", sagði Jakob. „Hann er búinn að greiða mér alveg eins og þegar ég var smádrengur. Er það ekki ágætt?" „En hvað hann hefur fallegt hár, svona líka þykkt og gyllt, alveg eins og þú, góða mín", sagði Jón brosandi. „En það er ósköp að sjá, hvað hann er orðinn magur. Þú verður að vera duglegur að borða. Og nú skulum við byrja á eggjunum, sem Borghildur kom með. Hún er búin að sjóða heil- mikið af eggjum og ætlar víst með þau ofan á stekk handa rúningsfólkinu. Allt er það gert vegna þess, að eftirlætisgoðið okkar er að hressast". „Nú get ég farið með þér í næstu smala- mennsku, vona ég, og svo allar smalamennskurnar hér eftir, pabbi, því að ég hét því í morgun að hugsa aldrei til þess að fara frá Nautaflötum", sagði Jakob. „Það eru mér mikil gleðitíðindi, en líklega verður hún mamma þín ekki eins ánægð, býst ég við", sagði faðir hans og leit til konu sinnar. „Ég er of glöð til þess að hafa á móti því. Líklega hefði pabbi sálugi ekki kosið annað frekar en að hann yrði hér, eins og forfeður hans hafa verið. En mér hefur bara fundizt hann of líkur mér til þess að hann yrði sveitabóndi, blessaður drengurinn minn. Hann hefur ekki heilsuna þína, Jón. Aldrei getur hann flogizt á við stóð eins og þú eða staðið við slátt allan daginn. Hann er of veikbyggður til þess". „Þú þarft nú ekki að búast við, að ég verði hálfur maður á við pabba", sagði Jakob brosandi, „en ég verð bóndi samt". „Ekki var nú pabbi sálugi stærri en hann og gat hann þó talizt duglegur maður. Svo verðurðu að athuga það, að í sumar kemur sláttuvél að Nautaflötum". „Jú, jú, þetta átti víst að verða eitthvert sér- stak framfaraár, eftir því sem mig minnir", sagði Anna með góðlegri glettni. „Það átti víst líka að rísa hér upp nýtt steinhús á þessu heimili". „Það verður víst ekki hægt að byrja á því á þessu vori, vorverkin ganga svo seint vegna harð- indanna — og svo þessi veikindi, því að eitthvað hefði þessi drengur hjálpað til, þó að hann að þínu áliti sg ekki fær um að standa við slátt", sagði Jón- „Þá verður byrjað á því næsta vor", sagði nýja bóndaefnið. Dísa gægðist inn um húsgluggann, án þess að þau yrðu hennar vör. Hún hafði orðið óróleg og kvíðandi, þegar hún sá að húsbóndinn var sóttur, og búist við, að nú væri Jakob veikari en hann hafði verið daginn áður. Kannske átti að sækja lækni enn einu sinni? En svo leið tíminn og engin hreyfing sást heima við bæinn. Þá fór hún heim og stóð undir glugganum og hlustaði á glaðlegar samræður innan úr húsinu. Henni létti um andardráttinn. Loksins áræddi hún að líta inn um gluggann til að fullvissa sig um, að Jakob væri að hressast. Hún snéri frá glugganum og fór inn í eldhús til Borghildar.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.