Lögberg-Heimskringla - 29.09.1960, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 29.09.1960, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 29. SEPTEMBER 1960 é GUÐRÚN FRA LUNDI: Römm er sú txiug Framhald skáldsögunnar Þar sem brimaldan broinar „Mikið er gaman að fara í bíó, mamma. Ég vildi að það1 væri bíó á hverjum degi. Fríða' á svo gott að kunna ensku. Hún skilur þess vegna mynd- irnar svo vel.“ „Næsta vetur lærir þú ensku, góða mín. Bróðir þinn á sjálfsagt ekki bágt með að segja þér til, þegar hann verð- ur í sama húsi og við.“ „Hann ætti líka að bjóða okkur á bíó, svona við og við, og fara með okkur í bíl. Það gerði hann auðvitað fyrsta sunnudaginn, sem við vorum hérna. En síðan hefir hann að- eins farið með okkur á eina leiðindamynd,“ sagði Dadda gremjulega. „Það gerir þessi lasleiki í Stellu. Hann kann ekki við annað en sitja hjá henni allt kvöldið, þó að hann kysi sjálfsagt heldur að vera hjá mér, blessaður drengurinn," ( sagði Maríanna og stundi þreytulega. Hún forðaðist að láta dætur sínar verða þess áskynja, hversu henni fannst allt á annan veg en hún hafði búizt við, ekki hvað sízt sonur hennar. Hann, sem allir fram-1 tíðardraumar hennar höfðu snúizt um, vap orðinn eins og f jarskyldur kunningi, sem hún sá aldrei nema hjá Stellu ein- staka sinnum. Þá talaði hann vanalega um framtíðarheimili sitt við Stellu, og hvernig þau ætluðu að búa, en hún sjálf móðirin var aðeins áheyrandi, | sem lítið tillit var tekið til. Oftar var þó, sem hann þurfti að finna einhverja skólabræð- j ur sína og hafði engan tíma til að skrafa við þær. En heim til hennar og systra sinna kom hann aldrei. Málfríður kom hlaupandi upp stigann. „En hávaðinn í þér, stelpa,“ sagði Dadda. „Þú vekur karl- inn hann afa. „Þarna ertu þá komin aft- ur. En hvað þú varst fljót,“ sagði mamma hennar. „Fann hann strax húsið?“ „Já, auðvitað fann hann það. Helga mundi götunafnið og númerið á húsinu,“ sagði Málfríður. „Hún er víst góð kona, þessi systir Helgu. Hún tók svo vel á móti henni. Aum- . ingja Helga, hún fór að gráta í bílnum.“ Málfríður horfði ásakandi á móður sína. „Já, vesalingurúm. Hún var svo sárlasin," sagði Maríanna. „Það var ekki af því, heldur vegna þess að hún gat hvorki fengið mjólk né kaffi hér í þessu andstyggðar húsi. Ekki ^ heldur rúm. Hvergi er eins vont að vera eins og hér.“ „Blessuð láttu engan heyra til þín,“ hvíslaði Maríanna. „Ég fer norður að Látravík aftur með næstu ferð,“ sagði telpan ákveðin. „Sifa hefði lík- lega lánað þér rúm handa henni.“ „Svona, svona, góða mín. Þetta er allt öðruvísi í sveit- inni. Helga verður orðin glöð og frísk næst, þegar hún kem- ur. Farðu svo að hátta, vinan. Það er Látravíkurskap í þér núna,“ sagði móðir hennar og hallaði höfði hennar að barmi sér og klappaði henni á kinn- ina. „Þetta lagast allt, þegar við getum flutt í okkar eigið hús,“ bætti hún við með kjök- urhljóði og þung vonbtrigða- tár runnu niður sællegar kinn- ar hennar. Allan næsta dag vonaðist Maríanna eftir Helgu. Hún fór ekki í heimsókn til Stellu, heldur var heima og las í bók. Þá kom systir hennar allt í einu og fór að tala um að hún gæti ráðið Döddu í góða vist þar skammt frá. „Það væri víst heldur skynsamlegra en láta hana ganga um iðjulausa allan daginn. Fólkið væri far- ið að tala um það.“ En Dadda var fljót til svars: „Mér dettur ekki í hug að fara að þræla hjá kerlingar- vargi, sem ég þekki engin deili á. Það kemur engum við, hvað ég geri. Mér sýnist fleiri ganga iðjulausir hér um en ég.“ „Mér finnst þú hreint ekk- ert sérlega vönduð í tali, stúlka mín. Þú ættir að reyna að vanda tal þitt betur, þó að fólkið þarna norður frá hafi lítinn skilning á slíku,“ sagði frúin ströng á svip. Dadda var hálf skömmustu- leg og fór niður. Þá sneri frú- in máli til systur sinnar. „Mér þykir þú ætla að lifa flott hér í Reykjavík, ef þú ætlar að láta dóttur þína ganga iðjulausa í allt sumar. Hún hefði þó áreiðanlega gott af að vinna svolítið, stúlkan.“ „Þetta er ekki nema ný- fermdur unglingur," sagði Maríanna. „Hvað ætlarðu að láta dóttur' þína gera, þegar hún er laus við skólann?“ Það kom hik á frúna. „Hún verður víst að rej/na að fá sér eitthvað að gera, ef ég á að vera ánægð með hana. Henni gengur nú sjálfsagt heldur betur að fá eitthvert starf, lærðri stúlkunni. En þessir unglingar, sem hvorki hafa hlotið uppeldi né menntun, verða að fara í vistir. Þar komast allir að.“ „Ég kom með Döddu mína hingað til þess að losa hana við þrældóminn í sveitinni, en ekki til þes að láta hana í vinnukonustöðu hér,“ sagði Maríanna ákveðin. „Jæja, þú þykist víst hafa nóg til að bíta og brenna, syst- ir góð,“ sagði frúin. „En þú skalt nú samt taka það með í reikninginn, að það er tals- vert dýrara að lifa hér í Reykjavík en úti á landi. En náttúrlega kemur mér þetta lítið við.“ Svo var hún þotin niður stigann. Náttúrlega er hún fokreið, hugsaði Maríanna. ÓGEÐFELLDAR FRÉTTIR AÐ NORÐAN Næsta dag lagði Maríanna af stað með báðar dætur sínar niður á Torg. Þar tók hún leigubíl og Málfríður nefndi nafn götunnar og hússins, þar sem Helga hélt til. Maríanna varð að finna Helgu að máli. Og fyrst hún kom ekki til hennar, varð hún að fara og heimsækja hana, þó það kost- aði töluverð peningaútlát. Hún borgaði bílstjóranum á á- fangastaðnum og gaf dætrum sínum nokkrar krónur, sem þær máttu ráðstafa að eigin geðþótta. En Helgu ætlaði hún að finna ein. Dæturnar gætu farið aftur með bílnum niður á Torgið; þær voru orðnar svo kunnugar, að þær rötuðu ein- ar heim. Hún drap á dyrnar og hringdi dyrabjöllunni hvað eftir annað, en enginn svar- aði. Nú var hún hálf illa stödd. Bíllinn farinn og hér stóð hún ein og ókunnug við læstar dyr. En þá kom gömul kona út úr kjallaradyrunum, rétt undir tröppunum, sem hún stóð á. Maríanna bauð henni góðan daginn og spurði eftir Guð- björgu Jónsdóttur, hvort þetta væri ekki húsið hennar. „Jú, en hún er ekki heima,“ anzaði gamla konan. „En ég get sjálfsagt fengið að vita, hvar hún er.“ „Ja, það var nú eiginlega systir hennar, sem ég ætlaði að finna. Ég bjóst við að hún væri hér,“ sagði Maríanna. Gamla konan v e i f a ð i krakkahóp, sem þar var skammt frá, og ljóshærð telpa á að gizka 10 ára tók sig út úr hópnum og kom hlaupandi til’ þeirra. „Þessi kona er að spyrja eftir mömmu þinni,“ sagði gamla konan. „Veiztu hvar hún er?“ „Hún er að þvo þarna í rauða húsinu hjá frúnni, sem býr á neðri hæðinni," svaraði telpan. Maríanna virti telpuna fyr- ir sér. Hún var nógu vel til fara, þó að hún væri afabarn Jóns gamla í Miðhúsum. Ein- kennilegt hvað allir gátu litið ríkmannlega út hér í höfuð- staðnum. „Ég ætlaði nú eiginlega að finna systur hennar, sem ég hélt að væri hérna,“ sagði Maríanna blíðmálg og bros- andi. Hún sá, að gamla konan dáðist að henni. „Er hún kann- ske farin út?“ bætti hún'Við. „Ég skal vita hvort hún er inni?“ sagði krakkinn og hvarf bak við húsið. Maríanna þakkaði gömlu konunni fyrir hjálpina, þegar dyrnar voru opnaðar að inn- an og telpan bauð henni að gjöra svo vel. Hún fylgdi henni upp stiga og þar inn í svefnherbergi. Þar lá Helga í sjálfu hjónarúminu undir milliverka sængurveri. Það voru aldrei fínheit hjá Boggu frá Miðhúsum, hugsaði Marí- anna og heilsaði Helgu með kossi. „Ertu bara í rúminu, Helga mín?“ bætti hún við kveðj- una. „Systir mín vill láta mig vera í rúminu í dag. Ég er allt- af með hitaslæðing. Henni leizt hreint ekki vel á mig, þegar ég kom til hennar í fyrrakvöld," sagði Helga hálf kuldalega. s,„Það er alveg rétt af þér að hafa það rólegt fyrst þú getur,“ ságði Maríanna og settist á stól við rúmstokkinn og litaðist um í herberginu. Svefnherbergishúsgögnin voru samstæð og ljósblá að lit. Varla gæti hún látið líta svona vel út hjá sér, þegar hún færi að koma sér fyrir í íbúðinni tilvonandi. „Segðu mér nú eitthvað að norðan. Ég veit, að það læt- ur ótrúlega í eyrunum á þér, en satt að segja er ég farin að iðrast þess, að ég fór svona snemma og hef ég oft óskað þess að vera komin norður aftur í mína gömlu og góðu Látravík. Reýkjavík hefir komið mér öðruvísi fyrir sjón- ir en þegar við vorum að syngja og tralla saman í vet- ur,“ sagði Maríanna og stundi mæðulega. „En þetta verður nú allt öðruvísi, þegar ég er komin á mitt eigið heimili og þú komin til mín. Ég hlakka sannarlega til þess dags.“ Það hnusaði í Hélgu. „Það er víst óþarfi fyrir þig að hlakka til þess að ég komi til þín,“ sagði hún með sama kuldanum í röddinni og áður. „Hallur sagði mér það, þegar hann borgaði mér kaupið mitt, að ég þyrfti ekki að búast við að hann borgaði mér kaup, ef ég hefði það í huga að setjast að hjá þér í höfuðstaðnum. Þú hefðir víst ekki annað að gera en hugsa um heimilið með stelpunum. Svo ég fer varla að vinna hjá þér kauplaust. Það er víst vandalaust að fá vinnu hérna, eftir því sem systir mín hefir að gera.“ „Jæja, það er þá svona hljóðið í þér, Helga mín. Ég var búin að hugsa mér að þú yrðir hjá okkur Tómasi í fé- lagi. Unnustan hans er svo heilsulítil, og liggur mestallan daginn í rúminu, svo að það lítur “hreint ekki þesslega út að hún geti hugsað um heim- ilið,“ sagði Maríanna. „Ég skipti mér ekkert af því,“ sagði Helga. „Þau geta sjálfsagt fengið sér einhverja hjálp. Hvað svo sem gengur að henni þessari manneskju?“ „Það tollir ekkert niðri í henni, skinninu. Hún er ófrísk. Auðvitað lagast það allt á sín- um tíma,“ sagði Maríanna. „Eru þau gift?“ spurði Helga. Maríanna varð að segja eins og var, að þau væru ógift enn þá. Þá hló Helga. „Það er þá komið svona fyr- ir syni þínum. Þú hefðir átt að fjasa minna, þegar Pálína og Grímur áttu krakkana saman ógift.“ Maríanna roðnaði og tók upp annað umtalsefni. „Mér þykir vera fínt í kring- um systur þína. Hvað gerir maðurinn hennar?“ • „Hann er alltaf á sjónum og þess vegna sef ég nú í rúm- inu hans. Og það fer dásam- lega um mig.“ „Svona falleg húsgögn hljóta að kosta mikið,“ sagði Maríanna. „Hann kaupir þetta allt ut- anlands. Það er svo miklu ó- dýrara þar.“ „Hvað er annars langt síð- an þú fórst frá Látravík?“ spurði Maríanna hálfhikandi. Helga ^ar eitthvað svo und- arleg núna og vís til alls. „Það er rúm vika síðan. Ég fór viku eftir uppboðið. Þá ætluðu þeir Vogabændur sjó- leiðis inn í kaupstað, en morg- uninn eftir var komin norðan svelja, og þó var hætt við ferðina. Svo beið ég þar í viku eftir að lygndi. En ég vann áreiðanlega fyrir fæð- inu mínu og fargjaldinu inn eftir,“ sagði Helga. „Það hefir nú víst aldrei verið tekið fyrir það, þó að fólk sæti í bát utan af Nes- inu og inn á Sandinn,“ sagði Maríanna stuttlega. „Það mætti víst alveg eins selja það eins og að borga far- gjald frá Akranesi og hingað, sem er margfalt styttri leið,“ sagði Helga. „Það þarf nú að borga allt hér sunnan lands,“ sagði Marí- anna. „Mér er sem ég heyri til mannsins míns, þegar hann verður að borga allt í pening- um út í hönd.“ „Kveddu ekkí svona hátt, vinkona, þú kveður svo vel,“ sagði Helga illkvittin. „Hann er ekki kominn enn þá. Þú ættir að heyra hvað fólkið segir um ráðslagið í ykkur, enda ekki nema eðlilegt, að talað sé um þetta bölvað íra- fár í ykkur.“ „Hvað getur pakkið verið að þvæla um okkur. Ekki vantaði það ógerðarháttinn og illmælgina í minn garð,“ sagði Maríanna. „Blessuð leystu nú frá fréttaskjóðunni. Ég heyri að hún er troðfull hjá þér. Þú hefir kannske hitt húsmóður- ina á Hvanná áður en þú fórst úr nágrenninu?" „Ónei, ekki sá ég hana. Ég býst ekki við að hún tali verr um þig en aðrir,“ sagði Helga. „En það var haldinn kven- félagsfundur. Það átti víst að verða eins konar kveðjusam- sæti þín vegna, en þú varst þá öll á bak og burt.“

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.