Dagur - Tíminn - 14.09.1996, Blaðsíða 10

Dagur - Tíminn - 14.09.1996, Blaðsíða 10
22 - Laugardagur 14. september 1996 JDagur-'SImttrat Tvíburabróðir Sambandsins Björn Þóröarson, 94 ára gamall, er fœddur sama dag og Samband íslenskra samvinnufélaga, 20. febrúar 1902. Hann hefur verið samvinnuhugsjóninni trúr, starfaði 50 ár hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og leið eins og hann hefði misst tvíburabróður sinn þegar Sambandið hrundi. Björn býr í sérlega vistlegri íbúð á Oddagötu 5. Þar hefur hann dvalið frá árinu 1931 og heldur einsamall heimili með reisn, en „er með stelpu til að líta inn á hálfs mánaðar fresti sem ryksugar og þurrkar af‘. Hann hefur alla tíð keypt tvö dagblöð, Dag og Tím- ann. En það munaði litlu að vinskapur Björns og blað- anna tveggja sem nú eru orðin eitt, færi út um þúfur á fyrstu dögum þessa blaðs. „Túninn var mitt uppáhaldsblað og ekki síst vegna krossgátunnar sem er sérlega góð. Svo í fyrsta helgarblaði Dags-Tímans þá var þetta orðið eitthvað svo ræfilslegt að ég hringdi og sagði starfsmanninum að ef ég fengi ekki almennilega krossgátu þá væri ekki alveg víst að við ætt- um samleið áfram,“ segir Björn og horflr sposkur á blaðamann. Varð dauðillt Þegar Björn er spurður hvort aldrei hafi komið til greina að kaupa Morgunblaðið eða Þjóð- viljann hristir hann bara haus- inn án þess að virða spurning- una svars. „Maður fékk sam- vinnuhugsjónina nánast með móðurmjólkinni og ég hef alltaf verið Framsóknarflokknum trúr. Annars fékk ég minna af móðurmjólkinni en margur annar, móðir mín lést þegar ég var 4 ára og eftir það ólst ég upp hjá vandalausum. Mér varð dauðillt þegar Sambandið hrundi," heldur Björn áfram. „Það fékk svo mikið á mig að þú trúir því ekki. Að hugsa sér að Sam- bandið skyldi deyja á undan mér. Þetta var eins og að missa tvíburabróður sinn. Þeir eru reyndar að segja að það sé ekki alveg dautt, en mér finnst nú svo vera.“ Ekki vill Björn kenna neinu sérstöku um afdrif sís en þó segir hann íhugull: „Ég býst nú við að einhverjir hafi e.t.v. farið svolítið óvarlega að ráði sínu. Ég ætla þó ekki að fara að sverta minningu ákveðinna manna. En samvinnuhugsjónin er góð hugsjón. Við Sambandið erum órofa tengd og ég hef var- ið lífshlaupinu í samræmi við það.“ Fljótari með stækkunarglerið En hefur Björn orðið var við miklar breytingar á efnistökum og efnisvali blaðanna í tímans rás. „Nei. Ég hef verið sérlega hriíinn af því sem tengist þjóð- málum, íslendingaþættirnir voru þó í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Annars hef ég verið al- æta á þetta og les gjarnan hvert einasta ritað orð og jafnvel aug- lýsingar líka. Það fer því drjúg- ur tími í blöð, mestallur dagur- inn, og ég verð að viðurkenna að mér fmnst ég eyða heldur miklum tíma í blaðalesturinn. Mér finnst nefnilega heldur skemmtilegra að lesa bækur. En svona er þetta samt.“ Björn les blaðið sitt gjarnan með stækkunargleri en að- spurður neitar hann að vera sjóndapur. „Ég er bara fljótari að lesa svona í gegnum glerið." Björn er sérlega ern og seg- ist hafa verið heppinn með heilsufar, hjúskap og afkom- endur. „Ég segi stundum að það sé allt í mínu lífi bundið við töl- una þrjá. Við hjónin áttum 3 dætur, 3 tengdasyni, 3 dóttur- syni, 3 dótturdætur og svo eru þær komnar með 2x3 ömmu- stráka." Eiginkona Björns hét Sigríð- ur Guðmundsdóttir, ættuð úr Bolungarvík. Þau kynntust á Vífilsstöðum árið 1929 og áttu meira en hálfrar aldar hjúskap- arafmæli þegar Sigríður lést. Dætur Björns og Sigríðar heita Guðrún, Erla og Birna. Ötull félagsmálamaður Ekki hefur Björn látið félagslífið sitja á hakanum á langri ævi. Á veggjum má sjá á viðurkenn- ingum að hann er heíðursfélagi bæði hjá Leikfélagi Akureyrar og Ferðafélagi Akureyrar og sat í stjórnum beggja félaga til margra ára. „Ég held að ég hafi verið í stjórn Ferðafélagsins í 25 ár og á því tímabili sat ég nánast í öllum embættum innan stjómarinnar." Hvað LA varðar upplýsir Björn að hann hafi þar verið formaður um tíma. Einnig starfaði hann um tíma sem hvíslari. „Ég hef svolítið tekið þátt í störfum innan bæjarfé- lagsins svona utan vinnu, en ekki neitt sem heitir." Samfara þessum félagsstörf- um þjónaði Björn í 25 ár sem meðhjálpari í Akureyrarkirkju. Hann er að mestu hættur að fara til messu nú orðið en segist ná að fylgjast með nánast öllu sem fram fer utan við kirkjuna. Akureyrarkirkja blasir tignar- lega við úr suðurglugga stof- unnar hjá Birni. „Hún lokaði svolítið fyrir útsýnið yfir Garðs- árdalinn, en það er lítill skaði miðað við þessa fallegu kirkju.“ Karlaklúbburinn Einn er sá félagsskapur sem Björn stundar enn og það er svokallaður Karlaklúbbur sem þeir karlar einir hafa þátttöku- rétt sem eru komnir á eftir- launaaldur. „Við komum saman yfir vetrartímann, fyrsta þriðju- dag á Hótel Kea og þar eru flutt erindi og ýmis skemmtiatriði. Þetta er ljómandi skemmtilegur félagsskapur og svo förum við í skemmtiferðir. Við erum einmitt nýkomin úr einni í Skagafjörð- inn þar sem m.a. var kíkt á hinn merkilega Sölvabar." Félagar eru um 40 talsins og er Björn í hópi eldri manna en á þó tvo jafnaldra, þá Steindór Steindórsson frá Hlöðum, fyrr- um skólameistara MA, og Ágúst Jónsson athafnamann og upp- finningamann, eins og Björn orðar það. Þegar blaðamaður spyr Björn út í karlrembu í klúbbnum, hlær hann við og segir klúbbinn eiga gott sam- starf við konurnar. „Við bjóðum þeim á einn fund árlega, jóla- fund, og þar koma makar allra. Svo fara þær með í ferðalögin." Eini óreglumaðurinn í lokin berst talið að reglusemi og neysluháttum. „Ég er mjög reglusamur en ég hef reykt svo- lítið. Ég lærði þetta í kaupa- mennsku á Hólum og stundum sendu menn eftir sígarettum til Sauðárkróks. Nú orðið reyki ég um það bil einn smávindil á dag og gríp einstaka sinnum í píp- una. En það er svo merkilegt að ég er eini óreglumaðurinn í ætt- inni að þessu leyti. En ég hef alltaf látið áfengið eiga sig.“ Björn býður blaðamanni góðgerðir á leiðinni út en hann nýtur vináttu góðvinar síns úr Eyjafirði, Helga Sigurjónssonar, sem fer með hann á hverjum föstudegi upp í Hríslalund. Þar kaupir Björn vistir til vikunnar og síðan tekur við fataþvottur, blaðalestur og annað er þarf til að halda gott heimili. Á 94 ár- um hefur Björn lifað ótrúlegar breytingar í lífinu og þegar hann er spurður hvað honum þyki minnisstæðast segir hann einfaldlega: „Það er allt jafn minnisstætt. Við höfum gengið til góðs í nánast einu og öllu. Lífið sem ég bý við núna, allt sem er hér í kringum mig er ekki sambærilegt við líf fólks á mínum aldri fyrir 100 árum. Ég er óskaplega ánægður með ís- land í dag, framfarirnar hafa verið geysilega miklar og góð- ar.“ BÞ Ég er sérlega ánægður með ísland í dag segir Björn Þórðarson, 94 ára gamall, sem er fæddur sama dag og Samband íslenskra samvinnufélaga. Mynd: Jón Hrói.

x

Dagur - Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur - Tíminn
https://timarit.is/publication/254

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.