Dagblaðið Vísir - DV - 07.01.1986, Page 12

Dagblaðið Vísir - DV - 07.01.1986, Page 12
12 DV. ÞRIÐJUDAGUR 7. JANÚAR1986. Frjáist.óháð dagblað Otgáfufélag: FRJÁLS FJÖLMIÐLUN HF. Stjórnarformaður og útgáfustjóri: SVEINN R. EYJÓLFSSON Framkvæmdastjóri og útgáfustjóri: HÖRÐUR EINARSSON Ritstjórar: JÓNAS KRISTJÁNSSON og ELLERT B. SCHRAM Aðstoðarritstjórar: HAUKUR HELGASON og ELlAS SNÆLAND JÖNSSON Fréttastjórar: JÓNAS HARALDSSON og ÖSKAR MAGNÚSSON Auglýsingastjórar: PÁLLSTEFÁNSSON og INGÓLFUR P. STEINSSON Ritstjórn, skrifstofur, auglýsingar, smáauglýsingar, blaðaafgreiðsla, áskrift, ÞVERHOLT111, SlMI 27022 Setning, umbrot, mynda- og plötugerð: HILMIR HF„ ÞVERHOLT111 Prentun: ÁRVAKURHF. - Áskriftarverð á mánuði 450 kr. Verð í lausasölu virka daga 45 kr. - Helgarblað 50 kr. Valdsh yggju - fordæmi Fáheyrt er, ef ekki einsdæmi, á síðustu áratugum, að ráðherra reki banka- eða sjóðstjóra fyrirvaralítið úr starfi. Með brottrekstri framkvæmdastjóra Lánasjóðs námsmanna hefur menntamálaráðherra skapað hættu- legt fordæmi öðrum valdshyggjumönnum, sem síðar koma. Eðlilegt hefði verið, að ráðherrann beindi til stjórnar sjóðsins kröfum sínum um lagfæringar. Eftir að slíkar tilraunir hefðu reynzt árangurslausar, gæti ráðherra að því gefna tilefni skipt um meirihluta stjórnar. Hinn nýi stjórnarmeirihluti gæti þá rekið sjóðstjóra, sem reynzt hefði ófær um að verða við kröfum ráð- herrans og stjórnarinnar. Þá væri líka búið að reisa mál með ýmsum sönnunargögnum, sem nú eru ekki til. Auðvelt ætti að vera að afla gagna um, að Lánasjóður námsmanna sé illa rekinn banki. Réttast væri að segja, að hann sé rekinn á flókinn hátt og búi til óþarflega mikið umstang. Reksturinn ætti samt að vera einfaldur, af því að lánveitingar eru næstum sjálfvirkar. Sumpart eru vinnubrögð í sjóðnum einkar fornaldar- leg. Að öðrum þætti hafa þau verið tölvuvædd á þann hátt, að útskriftir, sem viðskiptamönnum eru sendar, eru öllum gersamlega óskiljanlegar. Af því skapast gífurlegt álag á símakerfi og afgreiðsluborð sjóðsins. Þetta kallar á óhæfilega mikið starfslið og óhæfilega mikla yfirvinnu þess. Þetta gerir Lánasjóð námsmanna of dýran í rekstri og bakar viðskiptamönnum hans of mikla fyrirhöfn. Þett.a þarf að laga skjótlega, jafnvel þótt ekki sé farið eins að því og ráðherrann gerði. Slæmur rekstur sjóðsins hefur hins vegar sáralítil áhrif á slæma afkomu hans. Veltan er orðin svo hrika- leg, að laun og yfirvinna skipta þar sáralitlu máli. Ekki er hægt að kenna sjóðstjóranum um, að námsmönnum hefur fjölgað meira en peningum hins opinbera. Samt er rétt hjá Sverri ráðherra, að forkastanlegt er, ef sjóðstjóri hefur ekki í tæka tíð nokkuð góða hugmynd um, hvert stefni í þessu efni. Vitað er, hversu margir útskrifast úr menntaskólum og öðrum hliðstæðum skólum. Þær upplýsingar má nota jafnóðum. Ófært er, ef ráðherra fær því sem næst mánaðarlega nýjar hryllingsfréttir af aukinni fjárþörf. Enn sem komið er lifir sjóðurinn að mestu leyti á ríkissjóði, sem á að fara eftir fjárlögum hvers árs. Það setur allan ríkisbúskapinn úr skorðum, ef veita þarf fé aukalega. Sökin á þessu liggur þó að mestum hluta hjá ríkis- stjórninni sjálfri og stjórnarflokkunum. Þessir aðilar ganga árlega frá fjárlögum, þar sem varið er mun minna fé til Lánasjóðs námsmanna en þarf samkvæmt gildandi lögum. Þeir, sem reyna að búa til hallalaus fjárlög á þennan hátt, þurfa ekki að verða hissa á bakreikningum. Nú getur vel verið, að tiltölulega hægar endurgreiðslur í sjóðinn og mikil fjölgun námsmanna leiði til þess, að ríkið hafi ekki efni á að fara eftir gildandi lögum. Ef svo er, þá er rétta leiðin að breyta lögum um sjóðinn. Við slíkt samræmi mundu námsmenn og aðstandendur þeirra vita, að hverju þeir ganga og það langt fram í tímann. Þessir aðilar þurfa nú að bíða milli vonar og ótta nokkrum sinnum á ári, af því að ríkisvaldið getur ekki komið á samræmi milli laga og fjármagns. Skynsamlegra hefði verið hjá ráðherra að einbeita sér að slíkri samræmingu, samhliða skynvæðingu í rekstri sjóðsins, í stað þess að haga sér eins og valdshyggjumað- ur, öðrum slíkum til illrar eftirbreytni í náinni framtíð. Jónas Kristjánsson 1986 - allra kosninga ár? „Talsverðar líkur eru á að það verði meira kosningaár en ráð er fyrir gert og Alþingiskosning- ar verði ekki all-fjarri sveitar- stjórnarkosningunum.“ Um þessi áramót hafa, ef að lík- um lætur, flokksforingjar og aðal- stjórnmálahöfundar blaðanna skrifað sína áramótapistla. I þeim hafa þeir sjálfsagt eins og jafnan áður lagt megináherzlu á, að ein- mitt núna standi þjóðin á „Örlaga- ríkum Tímamótum" - hvort tveggja með stórum staf. Nú ann- aðhvort eigi (stjórnarsinnar) eða verði (stjórnarandstæðingar) að brjóta blað í stjórnmálasögunni, ef ekki eigi allt að keyrast um koll. Þetta sama hafa menn verið að segja í áramótagreinunum allt frá því ég fyrst man eftir þeim. Þrátt fyrir að umrætt blað hafi eiginlega aldrei verið brotið þrátt fyrir þá brýnu nauðsyn, sem marka hefur mátt í samanlögðum áramóta- greinum þessara samanlögðu ára- móta, þá hefur þjóðarsagan engu að síður haldið áfram að gerast. Þetta hefur einhvern veginn slampast. Ætli það haldi ekki áfram að slampast sí svona eitthvað leng- ur. í sjálfheldunni Staðreyndin er nefnilega sú, að um all-langa hríð hafa stjórnmál á íslandi verið í eins konar sjálf- heldu, sem háttvirta kjósendur hefur einfaldlega skort kjark til þess að brjótast út úr. Hver er þessi sjálfhelda? Hún skapast af því, að enga ríkisstjórn hefur verið hægt að mynda á Islandi nema með aðild annars hvors eða beggja þeirra stjórnmálaflokka, sem nú fara saman með stjórn landsins. Annar hvor þeirra hefur jafnan verið þungamiðja sérhverrar ríkisstjórn- ar, sem reynt hefur verið að mynda. Alla aðra möguleika hafa kjósend- ur útilokað á kjördegi. Með slíkar skorður reistar milli þess sem er mögulegt og hins sem er hugsanlegt og jafnvel æskilegt hefur olnbogarými stjórnmála- mannanna stöðugt orðið þrengra eftir því sem tímar hafa liðið og fleiri stjórnarmynstur hafa verið reynd. Sérhvert nýtt stjórnar- mynstur býður upp á möguleike. til aðgerða og athafna, sem önnur stjómarmynstur útiloka. Gallinn er bara sá, að innan þess ramma, sem kjósendur hafa smíðað með atkvæðum sínum á kjördegi, er búið að reyna öll þessi mynstur og þau eru öll búin að skila þeim úrlausnum og árangri, sem af þeim má vænta. Síðasta „nýjabrumið" Kjallarinn SIGHVATUR BJÖRGVINSSON FYRRVERANDI ALÞINGISMAÐUR var viðreisnarstjómin svokallaða, sem lokaði hring þess mögulega í samstarfsmynstri þess flokkakerfis, sem kjósendurnir hafa skapað. Síðan þá hafa menn einfaldlega verið að lifa sömu stjórnarmynstrin upp aftur og aftur. Umtalsverðar nýjungar eða stefnubreytingar af því tagi, sem skrifað er um í ára- mótagreinunum, hafa menn hins vegar ekki orðið varir við af þeirri einföldu ástæðu, að menn eru farn- ir að ganga í hringi og feta troðna slóð. Þjóðin hefur þegar uppskorið þá ávexti, sem sprottið geta upp af þeim græðlingum og sambreysk- ingum, sem óbreytt flokkakerfi gefur færi á. Vilji menn uppskera eitthvað annað og meira verða háttvirtir kjósendur að breyta sjálfum ræktunarskilyrðunum. Ný öfl til ábyrgðar? Einhver hluti þjóðarinnar er sjálfsagt reiðubúinn til þess að gera slíka tilraun - það marka ég m.a. af því, að nýjum andlitum, hvort heldur sem þau eru kynnt af nýjum framboðum ellegar gömlu flokkun- um, er yfirleitt vel tekið af kjósend- um og stöðugt fleiri kjósendur virð- ast vilja reyna eitthvað nýtt bara vegna þess að það er nýtt og er það síður en svo neinn ókostur. Megin- þorrinn vill hins vegar ekki breyta til - vill heldur halda í það, sem hann þekkir, þótt hann sé óánægð- ur með það, en að taka áhættuna af því að breyta til. Þess vegna talar allur þorri manna um öxl sér og ræðir um „vinstri stjórn", „við- reisn“ eða „nýsköpunarstjórn" sem óskastjórnina sína. Allar þessar stjórnir voru pólitísk áhætta, nýja- brum og dirfska, þegar þær urðu til. Þær hefðu aldrei getað orðið til, ef menn hefðu talað um öxl sér eins og þeir gera nú. Voru kjósend- ur svona miklu djarfari á fyrra helmingi þessarar aldar en þeir ætla að verða á þeim síðari? Kosningaár Árið 1986 verður kosningaár, því þá verða sveitarstjórnarkosningar. Talsverðar líkur eru á, að það verði meira kosningaár en ráð er fyrir gert og Alþingiskosningar verði ekki all-fjarri sveitarstjórnarkosn- ingunum. Hníga ýmis rök að því, að æskilegra geti þótt að hafa kosningar til Alþingis eigi síðar en á komandi hausti fremur en snemma vorið 1987, en kjörtímabil- inu lýkur í apríl 1987. Sveitarstjórnarkosningarnar á komandi vori gætu því orðið eins konar allsherjarprófkosningar fyr- ir landsmálin. Án efa ræðst fram- haldið hvað landsmálakosningar varðar ákaflega mikið af úrslitum sveitarstjórnarkosninganna. Gefi þær vísbendingu um, að kjósendur séu loksins reiðubúnir til þess að brjótast út úr þeirri sjálfheldu, sem ég hef hér rætt um, með hvaða hætti sem það kann svo að vera, þá held ég að ekki fari hjá því, að til tíðinda dragi á hinum pólitíska himni og Alþingiskosningar séu þá skammt undan. Gefi kjósendur hins vegar enga slíka vísbendingu í sveitarstjórnarkosningunum, þá er hætt við, að menn haldi áfram að aka sér í gamla farinu og þess sé þá helst að vænta, að ríkisstjórn- in leggi fram sitt hefðbundna fjár- lagafrumvarp á hefðbundnum tíma á hefðbundnu hausti. Sighvatur Björgvinsson ^ „Þjóðin hefur þegar uppskorið þá ^ ávexti, sem sprottið geta upp af þeim græðlingum og sambreyskingum, sem óbreytt flokkakerfi gefur færi á.“

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.